Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. mars 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársfundur Orkustofnunar

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra



Ávarp á ársfundi Orkustofnunar
20. mars 2002

Ágætu ársfundargestir,

Á síðasta ársfundi Orkustofnunar fyrir réttu ári síðan, kom fram í máli mínu að umbrotatímar væru framundan í orkumálum. Bæði væri unnið að mörgum verkefnum á sviði orkumála svo og hitt að líkur væru á að allt umhverfi á orkusviði kynni að breytast hér á landi eins og gerst hefur víðast hvar erlendis á undanförnum árum og áratugum. Við Íslendingar höfum þarna nokkra sérstöðu eins og á mörgum öðrum sviðum, ekki aðeins vegna fámennisins heldur öllu frekar fátæktarinnar á fyrri öldum sem hefur valdið því að samfélag okkar hefur aðeins á örfáum áratugum byggst upp sem nútímaþjóðfélag í stað eðlilegrar þróunar. Aðrar nágrannaþjóðir þróuðust hægt og bítandi til þeirrar velferðar er þær búa við í dag með eðlilegri þéttbýlismyndun, varanlegri mannvirkjagerð og borgarbyggð, iðnaðar-uppbyggingu og grunngerð samfélagsins eins og samgöngum og rafvæðingu byggða.

Eitt áhugaverðasta tímabil sögu síðustu aldar var áratugurinn frá 1904 til 1914, en á þeim áratug kom þjóðin sjávarútvegi sínum fyrst á legg og tengdist öðrum þjóðum með tilkomu símans. Uppbygging sjávarútvegsins á þessum árum gerðist að meira eða minna leyti með erlendum fjárfestingum, með tilkomu Íslandsbanka árið 1904 og fjárfestingu í sjávarútvegi næstu 15-20 árin og byggðist að verulegu leyti á aðild þessarar erlendu fjárfestingar. Við lá að hið sama gerðist við nýtingu orkuauðlinda landsins og uppbyggingu stóriðnaðar eins og áburðarframleiðslu á þessum árum. En fullvíst má telja að fyrri heimsstyrjöldin og afleiðingar hennar hafi ýtt þeim áformum út af borðinu og síðar neikvæðum viðhorfum þáverandi stjórnvalda til þessara framkvæmda.
Í kjölfar síðari heimsstyrjaldar hefst að marki rafvæðing landsins með bjartsýni þjóðarinnar á betri framtíð og hugsanlega kemur þar við sögu erlent fjármagn stríðsgróðans. Hann eyddist hins vegar upp fyrr en varði og uppbygging raforkukerfisins varð á sjötta áratug háð Marshall-aðstoðinni svokölluðu.

Hvers vegna rifja ég þetta upp hér í dag?
Það geri ég til að minna á mikilvægi erlendrar fjárfestingar hér á landi fyrir framþróun og hagsæld íslensks samfélags. Aðeins með erlendri fjárfestingu og fjármagni á einn eða annan hátt höfum við getað lyft Grettistaki á örfáum áratugum við uppbyggingu stóriðju og tilheyrandi virkjana. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þessi uppbygging hér á landi á síðustu 35 árum hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á velferð almennings, bæði hvað varðar aukin og fjölbreyttari atvinnutækifæri og ekki síst auknar þjóðartekjur. Þá má minna á að þau stóru skref við uppbyggingu raforkukerfisins sem stigin hafa verið eru forsenda fyrir öryggi og gæðum raforkukerfisins sem allir atvinnuvegir landsmanna búa við í dag. Allar líkur benda til þess að almennir raforkunotendur muni njóta þessarar uppbyggingar með lækkandi raunverði raforku á næstu árum.

Á árunum 1967-72 var unnið að byggingu Búrfellsvirkjunar og álversins í Straumsvík. Það varð happ þjóðarinnar að í þetta stórvirki var ráðist með tiltölulega skömmum undirbúningi í ljósi þess að hér er um svipaða fjárfestingu að ræða miðað við þjóðartekjur og áform um Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði eru í dag. Um sama leyti varð verðfall á þorskafurðum okkar erlendis og sumarsíldin hvarf. Ef ekki hefði verið ráðist í þessar framkvæmdir hefði farið illa fyrir íslensku efnahagslífi, en í þess stað rétti það úr kútnum.

Þegar tekin var ákvörðun um stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík árið 1995 og síðan byggingu álvers Norðuráls, urðu þær framkvæmdir til þess að íslenskt efnahagslíf reis upp úr öldudal, sem við búum enn að. Þá hófst árið 1999 framleiðsla í þriðja ofni járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og á síðasta ári lauk framkvæmdum við stækkun Norðuráls upp í 90.000 tonn. Allar þessar framkvæmdir hafa örvað og eflt íslenskt atvinnulíf og eytt atvinnuleysi. Öll þessi umsvif hafa haft í för með sér mikla aukningu í raforkuvinnslu, enda hefur notkun stóriðju aukist um 95% síðustu fimm ár. Þessi aukning er mun meiri en öll raforkuvinnsla var fyrir almenna notkun árið 1997, sem segir okkur margt um hinn öra vöxt í raforkuframleiðslunni. Við eigum orðið heimsmetið í raforkuframleiðslu á íbúa meðal þjóða heims og fórum þar fram úr Norðmönnum á síðasta ári.

Og áfram verðum við að stefna að frekari nýtingu náttúruauðlinda okkar. Umræðan í þjóðfélaginu um virkjanir á undanförnum misserum hefur verið mikil. Að mínu mati hefur umræðan í kjölfar úrskurðar umhverfisráðherra um Kárahnjúkavirkjun sýnt það að aukin sátt er að verða meðal þjóðarinnar um það verkefni ásamt uppbyggingu álvers í Reyðarfirði. Umhverfislegar ástæður eru ekki lengur veigamikil rök í andstöðu gegn NORAL-verkefninu heldur hagkvæmni verkefnisins. En eins og flestum er ljóst styðjast stjórnvöld þar við álit færustu erlendu aðila í mati sínu á hagkvæmni verkefnisins. Eins og kunnugt er hefur ýmislegt komið fram um það að samstarfsaðilar okkar hjá Norsk Hydro vilji fresta ákvörðun um tímasetningu NORAL-verkefnisins sökum annarra fjárfestinga fyrirtækisins. Ekkert bendir þó til annars en að af þessu verkefni verði, þó svo að óvissa um tímasetningu hafi komið upp á yfirborðið. Í mínum huga og allra þeirra er næst þessu verkefni standa er ljóst að það mun verða að veruleika.

Í umræðunni um Kárahnjúkavirkjun hefur oft borið á góma vinnu Rammaáætlunar um virkjanir, sem þið öll þekkið. Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni, náttúruverðmæta svo og annarra hagsmunaaðila. Á árinu 2000 var tekin sú ákvörðun að hraða vinnu við hluta fyrsta áfanga verkefnisins þannig að nú í ársbyrjun 2002 gætu legið fyrir fyrstu drög að flokkun nokkurra virkjunarkosta. Hins vegar á fyrsta hluta verkefnisins að ljúka í ársbyrjun 2003. Um þessar mundir eru faghópar, sem fjalla um einstök sérsvið, að skila áliti sínu til verkefnisstjórnar, sem síðan mun flokka þessa kosti og vega saman. Hér er ekki um að ræða endanlegt mat verkefnisstjórnar heldur eins konar bráðabirgða- eða tilraunamat sem ætlað var að hafa til hliðsjónar áður en ráðist yrði í byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Allt bendir til þess að unnt verði að kynna þær niðurstöður fyrir ríkisstjórn og Alþingi fyrir miðjan apríl n.k. en leggja ber áherslu á að hér er ekki um að ræða endanlegar niðurstöður Ramma-áætlunar.

Framtakssemi og atorka Íslendinga í orkumálum á undanförnum áratugum hefur víða vakið athygli á alþjóðavettvangi. Á vettvangi Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, hefur staða Íslands vakið verulega athygli. Samningurinn er vissulega einn af meginþáttum í orkustefnu allra iðnríkja, en þar eru Íslendingar í annarri stöðu en flest önnur iðnríki þar eð allt að 70% af heildarorkunotkun landsins kemur frá endurnýjanlegum orkulindum og enn höfum við aðeins nýtt hluta þeirra. Á 7. samningafundi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í Marrakesh í nóvember s.l. náðist samkomulag aðildarríkjanna um hið svokallaða íslenska ákvæði er varðaði nýtingu endurnýjanlegra og hreinna orkulinda til iðnaðarframleiðslu. Með þessu ákvæði verður okkur unnt að nota um 1.600.000 tonn á ári af koltvíoxíði á árabilinu 2008-2013 umfram þær heimildir er þjóðin fékk með Kyoto-bókuninni. Þessi áfangi hefur náðst með mikilli vinnu íslenskra stjórnvalda og þá ekki síst kynningu á aðstæðum okkar samanborið við aðrar þjóðir. Hluti af viðurkenningu annarra þjóða felst meðal annars í því hve íslenskt samfélag er lítið og hve lítinn hluta orkulinda landsins við höfum nýtt okkur. Allt bendir því til þess að bjart sé framundan næsta áratuginn varðandi aukna möguleika á nýtingu orkulinda okkar og losunarheimildir vegna aukinnar stóriðju.

Við Íslendingar lifum góðu heilli við síaukna uppbyggingu hitaveitna um land allt til að mæta hinu háa olíuverði sem hefur verið til langs tíma. Hin mikla uppbygging flutningslína, orkuvera og hitaveitna hefur leitt til þess að hlutur olíu í húshitun landsmanna á síðustu áratugum hefur nánast horfið. Á árinu 1970 bjó um helmingur þjóðarinnar við húshitun frá jarðvarma. Í dag njóta um 89% landsmanna hitunar frá jarðvarma, um 10% frá rafhitun en aðeins innan við 1% nota olíuhitun. Stjórnvöld telja að enn megi gera betur við nýtingu jarðhitans hér á landi með aukinni og bættri tækni. Frá árinu 1998 hefur markvisst verið unnið að jarðhitaleit á svokölluðum köldum svæðum. Þetta átak hefur þegar leitt til þess að ný byggðarlög hafa tengst hitaveitum þar sem áður var talið að ekki væri heitt vatn að finna. Þessar tölur sýna að með því að nýta okkur í auknum mæli hina hreinu auðlegð landsins höfum við Íslendingar verið á undan flestum í þeirri viðleitni þjóða heims á síðustu áratugum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þá hafa stjórnvöld lengi örvað landsmenn til aukinnar notkunar á rafhitun fremur en olíuhitun og greitt niður húshitunarraforku. Nýtt frumvarp til laga um niðurgreiðslur á raforku, og olíu til húshitunar, þar sem ekki er um aðra kosti að ræða, og loks um styrki til nýrra hitaveitna hefur nýlega verið lagt fram á Alþingi. Þetta frumvarp festir aðeins í sessi þær reglur sem gilt hafa á undanförnum árum, en fjallar einnig um notkun varmadælna sem valkost á köldum svæðum, sem er mjög áhugavert fyrir þau byggðarlög sem ekki eiga kost á hitaveitu.

Eins og ég gat um á síðasta ársfundi Orkustofnunar var unnið að lokadrögum frumvarps til raforkulaga og var það lagt fram til kynningar á Alþingi á vorþingi 2001 og var til umfjöllunar í iðnaðarnefnd Alþingis á milli þinga. Frumvarpið hefur nú verið lagt aftur fram í endurskoðaðri gerð. Í vetur hafa margvíslegar athugasemdir er fram komu við kynningu frumvarpsins verið skoðaðar og ýmis ákvæði þess útfærð frekar, þannig að meiri sátt náist um meginmarkmið þess.

Frumvarpið byggir eðlilega að miklu leyti á tilskipun ESB um innri markað raforku og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, en þar er lagður grunnur að markaðsfyrirkomulagi í raforkugeiranum. Þar er gert ráð fyrir að tryggðar verði forsendur samkeppni í vinnslu og sölu raforku en að náttúruleg einokun ríki í flutningi og dreifingu. Jafnframt þarf að tryggja hag notenda, bæði hvað varðar frjálsræði og samkeppni í kaupum á raforku og aukið eftirlit með gæðum framleiðslunnar og verðlagningu í flutningi og dreifingu. Þar er um veruleg nýmæli að ræða. En við verðum einnig að hafa það í huga að íslenska raforkukerfið fyrir almennan markað er lítið en sérstakt, sem torveldar samkeppni og henni verður ekki komið á í einni svipan.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að opinbert eftirlit með því að leyfishafar uppfylli sett skilyrði og að flutningsfyrirtækið og dreifiveitur ræki skyldur sínar og gæti jafnræðis sé nauðsynlegt til að markmið frumvarpsins náist. Meðal nýlegra breytinga sem fram hafa komið af hálfu ESB eru kröfur um að hvert ríki setji á fót sjálfstæða eftirlitsstofnun, en í orðinu "sjálfstæði" felst að stofnunin verður að vera óháð raforkuiðnaðinum í eftirliti sínu og ákvörðunum.

Orkustofnun er í frumvarpinu falið þetta víðtæka eftirlitsvald sem er langtum víðtækara stjórnsýsluhlutverk en hún hefur áður sinnt. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að lagt sé til að meginþungi eftirlitsins verði hjá Orkustofnun þar sem stofnunin annist nú þegar ákveðið eftirlits- og stjórnsýsluhlutverk á orkusviði og nauðsynlegt þyki að styrkja frekar stjórnsýsluhlutverk stofnunarinnar. Þá er í frumvarpinu einnig gert ráð fyrir að færa valdsvið ráðuneytis varðandi leyfisveitingar rannsókna til stofnunarinnar, eins og almennt gerist hjá nágrannaþjóðum okkar. Loks er ákvæði um að ráðherra geti framselt til stofnunarinnar vald sitt til að veita leyfi til vinnslu, veita sérleyfi til dreifingar og reisa flutningsvirki auk veigamikils hlutverks við samþykktir á gjaldskrám flutnings- og dreifiveitufyrirtækja.


Á síðasta ársfundi minntist ég á að hugsanlegt væri að til breytinga þyrfti að koma á starfsemi Orkustofnunar, þar eð auknar kröfur væru um nauðsyn á sjálfstæðum eftirlitsaðila í raforkukerfi landsins og með öðrum veigamiklum verkefnum sem í raforkufrumvarpinu felast. Frá þeim tíma hefur væntanlegt hlutverk Orkustofnunar enn aukist bæði með breytingum er hafa orðið á raforkulagafrumvarpinu svo og vegna nýrra verkefna á öðrum sviðum. Þar á ég við eftirlitshlutverk í nýjum lögum um niðurgreiðslur á raforku til húshitunar og styrkveitingar til nýrra hitaveitna. Auk þess fær stofnunin nýtt mikilvægt hlutverk í samræmi við frumvarp um jöfnun kostnaðar í flutnings- og dreifikerfi landsins, en það frumvarp er lagt fyrir Alþingi á sama tíma og frumvarp til raforkulaga.

Það hefur því flestum verið ljóst að endurskoða þyrfti skipulag Orkustofnunar eins og rekstrarform stofnunarinnar er í dag og þá sérstaklega hver skil þyrftu að vera á milli aukinnar stjórnsýslu annars vegar og rannsóknarhluta hins vegar. Því skipaði ég sérstaka nefnd til þess að yfirfara skipulag Orkustofnunar með hliðsjón af því aukna stjórnsýslu-hlutverki sem stofnuninni hefur verið falið með nýlegum lögum svo og fyrirsjáanlegu hlutverki hennar samkvæmt frumvarpi til raforkulaga. Í nefndinni sátu forstjóri og stjórnarformaður Orkustofnunar og tveir starfsmenn iðnaðarráðuneytisins auk Páls Hreinssonar prófessors er skipaður var formaður hennar. Var nefndinni falið að koma með tillögur um framtíðarskipulag stofnunarinnar í samræmi við þær lagabreytingar er orðið hefðu á hlutverki stofnunarinnar og fyrirsjáanlegar væru. Sérstaklega var nefndinni falið að athuga hvort nauðsynlegt væri að aðskilja orkumálahluta stofnunarinnar frá orkurannsóknarhluta hennar að hluta eða öllu leyti.

Í drögum að áliti nefndarinnar, sem mér hafa verið kynnt, kemur fram að óhjákvæmilegt er annað en að aðskilja núverandi starfsemi með því að núverandi orkumálahluti verði sjálfstæð stjórnsýslustofnun en orkurannsóknarhlutinn verði sjálfstætt fyrirtæki í eigu ríkisins, að minnsta kosti í upphafi. Nefndin hefur enn ekki formlega lokið störfum meðal annars vegna þeirra frumvarpa er hafa verið í smíðum og fjalla um eftirlitshlutverk Orkustofnunar eins og ég gat um að framan. Niðurstöður nefndarinnar verða fljótlega kynntar starfsmönnum Orkustofnunar og haft verður samráð og samstarf við þá um framkvæmd fyrirsjáanlegra breytinga.

Af framansögðu er ljóst að unnið er að afar víðtækum breytingum á lögum um orkumál um þessar mundir. Þó er ekki allt enn talið. Unnið er að breytingum á orkulögum frá 1967, sem í raun felast í því að þau falla úr gildi, en í stað einstakra lagakafla þeirra um Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins og hitaveitur koma sérlög. Frumvarp um RARIK hefur verið lagt fram og hafin er vinna við gerð frumvarps um hitaveitur. Samkvæmt því sem ég hef sagt hér að framan hafa efnisatriði frumvarps um Orkustofnun verið að fæðast að undanförnu, en vinna við frumvarpið sjálft gæti hafist fljótlega. Þá liggja fyrir í drögum tillögur að breytingum á vatnalögum, sem unnið hefur verið að í vetur og síðast en ekki síst er nauðsynlegt að endurskoða lögin um rannsóknir á auðlindum í jörðu á þessu ári, meðal annars vegna nýju raforkulaganna. Þar mun reynsla starfsmanna Orkustofnunar koma að góðu gagni.

Þegar skoðuð er saga rafvæðingar og orkurannsókna á Íslandi, frá því að þjóðin má kallast bjargálna eftir miðja síðustu öld, vekur það undrun og aðdáun hve vel að verki hefur verið staðið og vel til tekist við öflun nauðsynlegra grunngagna um náttúrufar landsins. Kortlagning miðhálendis landsins á árunum 1950-1970 var mikið afrek og aðrar grunnrannsóknir, eins og vatnamælingar, hafa verið unnar af fagmennsku og í samræmi við kröfur tímans hverju sinni sem við munum búa lengi að. Fyrstu tvo áratugina frá 1947-1967 var þessi vinna unnin af Raforkumálaskrifstofunni en með tilkomu Orkustofnunar og orkulaga árið 1967 verða þáttarskil þar sem sérstakri stofnun er falið að annast nánast allar orkurannsóknir ríkisins.

Vitaskuld hefur starf stofnunarinnar tekið miklum breytingum í tímans rás en alla tíð hefur hún að mínu mati sinnt af kostgæfni þeim mikilvægu málum er henni hafa verið falin. Stofnunin hefur verið mörgum öðrum opinberum stofnunum til fyrirmyndar á ýmsum sviðum, þar má nefna öguð vinnubrögð í starfi, hún hefur sinnt vísindalegum grunnrannsóknum og ekki síður hagnýtum rannsóknum á jarðhitasviði sem telja má á heimsmælikvarða. Rannsóknir Orkustofnunar hafa valdið straumhvörfum í jarðhitaleit fyrir hitaveitur hér á landi og hafa um hálfrar aldar skeið lagt grunn að áætlanagerð og rannsóknum á vatnsafli landsins Þá hefur starfsemi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna innan Orkustofnunar skilað lofsverðum árangri þannig að eftir er tekið víðast hvar erlendis. Loks ber að nefna að forsvarsmenn stofnunarinnar hafa ávallt sýnt mikla ráðdeild í rekstri og brugðist við breyttum aðstæðum í samfélaginu hvað varðar fjárútlát ríkisins af trúmennsku og festu, sem ekki hefur alltaf verið auðvelt verk.

Í ljósi þess sem ég hef hér sagt, og tel þar hvergi ofmælt, hef ég lagt til við fjármálaráðherra að Orkustofnun verði tilnefnd sem fyrirmyndarstofnun ríkisins fyrir árið 2002. Það er mér heiður og ánægja að geta tilkynnt þetta á þessum fundi. Bæði má túlka þessa ósk mína sem viðurkenningu á stórmerku starfi stofnunarinnar, og raunar forvera hennar einnig, alla tíð, en ekki síður viðurkenningu til starfsmanna fyrir framúrskarandi störf að því göfuga markmiði okkar allra að efla og treysta hagsæld þjóðarinnar til framtíðar með aukinni nýtingu allra orkuauðlinda landsins.

Ég þakka áheyrnina.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum