Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. mars 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Frumkvöðlasetur á Norðurlandi

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á fundi með norðlenskum fyrirtækjum
um frumkvöðlasetur á Norðurlandi
fimmtudaginn 21. mars 2002.


Um þessar mundir er rúmlega eitt ár liðið síðan við gengum formlega frá samkomulagi um Frumkvöðlasetur Norðurlands. Það er tilraunaverkefni, sem aðstandendur hafa skuldbundið sig til að reka í fimm ár. Fyrirmyndin er sótt til annarra Evrópulanda, en þar hefur verið lögð sérstök rækt við að hlúa að nýsköpunar-hugmyndum sem líklegar hafa þótt til að geta orðið að söluhæfum afurðum, vörum eða þjónustu.

Finnar eru meðal þeirra sem hvað mestum árangri hafa náð í rekstri frumkvöðlasetra og byggja þeir nú miklar vonir við sérhæfð frumkvöðlasetur á sérstökum fagsviðum, einkum er tengjast upplýsinga- og fjarskiptatækni.

Frumkvöðlasetur hefur verið rekið hjá Iðntæknistofnun í um þrjú ár með mjög góðum árangri. Það er hluti af IMPRU, sem er þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki. Þar er mögulegt að vista allt að níu sprotafyrirtæki og er almennt reiknað með að þau verði þar ekki meira en þrjú ár - þótt miðað sé við fimm ára hámarkstíma. Reynslan af rekstri frumkvöðlasetursins á IMPRU er mjög góð og hefur eftirspurn eftir vistun þar yfirleitt verið umfram framboð. Iðntæknistofnun hefur haft á prjónunum áform um að setja á fót sérhæft frumkvöðlasetur fyrir sprotafyrirtæki í líftækni, en síðustu tvö árin hafa ekki verið slíkri þróun hagstæð. Það hefur þó ekki breytt neinu um það, að þessar ráðagerðir um frumkvöðlasetur í líftækni eru óbreyttar.

Stór sérhæfð hátæknifyrirtæki hafa einnig séð sér leik á borði að reka frumkvöðlasetur og fóstra hugmyndir frumkvöðla í skjóli sínu - og veita þeim aðgang að nýjasta og besta tæknibúnaði og þekkingu. Einnig hafa þau í samstarfi við áhættufjárfesta opnað þessum sprotafyrirtækjum aðgang að áhættufé sem oft hefur reynst erfiðasti hjallinn í vegferð ungra fyrirtækja út á lífsins ólgusjó.

Fyrirtækið Klak er dæmi um þetta en það rekur frumkvöðlasetur er byggir á því að nýta þá reynslu og aðstöðu sem Nýherji býr yfir - til að efla uppbyggingu sprotafyrirtækja á sviði upplýsingatækni. Einstaklingar og/eða smærri fyrirtæki sem hafa góðar viðskiptahugmyndir, t.d. á sviði hugbúnaðargerðar, geta leitað til Klaks um aðstoð við framþróun og markaðssetningu þeirra.

Þróunin í heiminum var til skamms tíma sú að einkareknum frumkvöðlasetrum fór fjölgandi, en rekstur þeirra byggist á þeirri meginhugmynd að frumkvöðlasetrið fái hlutdeild í sprotafyrirtækinu sem endurgjald fyrir fóstrið.

Vegna samdráttar í efnahagslífinu víða um heim hefur frumkvöðlasetrum aftur á móti vegnað misvel síðustu misserin, einkum þeim sem byggja á nýsköpun með hátæknilausnir. Þetta hefur þó gefið öðrum svigrúm og t.d. hafa stjórnvöld lagt aukna áherslu á að greiða aðgang breiðari hóps fyrirtækja að þeim frumkvöðlasetrum sem þau standa að.

Þegar við ákváðum að ráðast í þetta verkefni, Frumkvöðlasetur Norðurlands, var orðið ljóst að frumkvöðlasetrið á Impru gekk mjög vel. Fólk úr öllum landshlutum kom að máli við mig og óskaði eftir að sambærilegum rekstri yrði komið á fót í þeirra heimahéraði. Niðurstaðan varð sú að við ákváðum að setja starfsemina fyrst af stað hér á Norðurlandi og sjá hvernig til tækist, áður en lengra yrði haldið.

Þrátt fyrir að eftirspurnin hafi orðið minni en reiknað var með í upphafi, tel ég að á því séu eðlilegar skýringar vegna ytri aðstæðna sem erfitt er að ráða við. Þar ber hæst að frá því um mitt ár 2000 hafa flestir haldið að sér höndum með ný verkefni og fjárfestingar í sprotafyrirtækjum hafa nánast alveg legið niðri. Samdráttur á hlutabréfamörkuðum gaf sömuleiðis ekki fyrirheit um að réttur tími væri fyrir ný sprotafyrirtæki þótt arðvænlegar hugmyndir lægju á borðinu.

Nú virðist aftur á móti heldur vera að rofa til og þótt full ástæða sé til að fara varlega í stórar, áhættumiklar fjárfestingar, munu hjól efnahagslífsins ekki stöðvast og nýsköpun atvinnulífsins heldur áfram. Tilgangur Frumkvöðlaseturs Norðurlands er að hlúa að nýsköpun og stendur það framsæknum frumkvöðlum opið. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að það er einmitt í starfandi fyrirtækjum sem búast má við hvað kröftugastri nýsköpun. Þar er að vænta þess að nýjar hugmyndir verði til og að þeim sé hrint í framkvæmd.

Það er von mín að fyrirtæki á Norðurlandi skoði vel þá möguleika sem felast í aðstoð Frumkvöðlaseturs Norðurlands og því tengslaneti sem að baki því stendur. Öll viljum við stuðla að efnahagslegum framförum í landinu og ekki fer á milli mála að markmið Frumkvöðlasetur Norðurlands er að aðstoða við að gera það mögulegt.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum