Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. maí 2002 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Málþing Íslandsdeildar flugöryggissamtakanna

Ávarp samgönguráðherra á málþingi Íslandsdeildar flugöryggissamtakanna 21. maí 2002.

Góðir gestir, ég fagna því að efnt skuli til málþings Íslandsdeildar flugöryggissamtakanna hér í dag.

Í veröldinni allri gegnir flugið stöðugt mikilvægara hlutverki í opnum heimi gagnkvæmra og vaxandi viðskipta sem eru án landamæra. Og flugið er meðal mikilvægustu þátta í íslensku atvinnulífi því ferðaþjónusta sem byggir á flugi til og frá landinu er næst stærsta atvinnugrein okkar mælt á mælikvarða gjaldeyristekna.

Fyrir okkur íslendinga er flugið mjög svo mikilvægur þáttur í samgöngukerfi landsins. Ekki einungis vegna flugsamgangna til og frá landinu heldur einnig vegna innanlandsflugsins, sem vissulega er mikilvægur hlekkur í flutningakerfi landsins.

Í því samhengi öllu eru flugöryggismálin þýðingarmikil og vaxandi áhersla lögð á þau af hálfu stjórnvalda og í starfi allra, sem að fluginu koma. En auðvitað má alltaf betur gera og hvergi má slaka á ítrustu og eðlilegum öryggiskröfum. Mikilvægt er að vinna stöðugt að þróun löggjafar, reglugerða og öryggiskerfa og bættum vinnubrögðum hjá flugrekendum, flugliðum, Flugmálastjórn, Rannsóknarnefnd flugslysa og ráðuneyti.

Hafa ber í huga að þó lög og reglur séu sett með það að leiðarljósi að ítrustu öryggiskrafna sé gætt er það svo að aldrei verður hjá því komist að upp komi mál sem ekki verða fyrirséð og fellur það þá í hlut ráðuneytisins að leysa þar úr. Flugmenn, starfsmenn flugfélaga og flugumferðarstjórnar eru hinsvegar í lykilhlutverki og því skiptir miklu máli að unnið sé stöðugt að endurbótum á sviði flugöryggismála á þeim vettvangi.

Á síðustu misserum hafa komið upp erfið mál er varða flugrekstur og flugöryggi. Þar má bæði nefna eftirmála flugslyssins í Skerjafirði og deilur um heilbrigðisvottorð flugmanns, sem mjög hefur verið blásið upp í fjölmiðlum. Spjótum hefur verið beint ótæpilega að Flugmálastjórn, Rannsóknarnefnd flugslysa og ekki síst ráðherra sem hefur mátt sæta óforsvaranlegum árásum vegna beggja þessara mála. Af því tilefni er rétt að minna á að ráðuneytið hefur á þessu kjörtímabili staðið fyrir miklum umbótum á löggjöf og framkvæmd flugöryggismála og leitað samstarfs við aðila sem að flugmálum koma.

Við Íslendingar eigum mikið undir samstarfi við aðrar þjóðir og samtök í flugheiminum.

Samstarf okkar innan ICAO hefur verið einstaklega farsælt og við njótum þess að hafa styrk af því samstarfi sem hefur verið byggt upp. Og ég hef orðið þess rækilega áskynja að embættismenn okkar njóta virðingar fyrir störf sín á vettvangi alþjóðasamtaka.

Rannsóknarnefnd flugslysa hefur átt náið og gott samstaf við systurstofnanir í nágrannalöndum. Til þess að auka styrk RNF enn frekar hef ég beint því til formanns RNF að leitað verði eftir formlegu samstarfi við erlendar stofnanir á sviði flugslysarannsókna. Er þess að vænta að RNF undirriti samninga innan tíðar um samstarf og ráðgjöf.

Ágætu gestir ég vona að umræður hér á eftir verði gagnlegar og málefnalegar og greininni til framdráttar. Ég óska ykkur velfarnaðar í mikilvægu starfi .

Ég lýsi málþing Íslandsdeildar flugöryggissamtakanna sett.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum