Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. maí 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársfundur Rarik á Akureyri.

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp
á ársfundi RARIK
á Akureyri 29. maí 2002

Ágætu ársfundargestir.

Ég vil í upphafi bjóða ykkur velkomin til þessa ársfundar Rafmagnsveitna ríkisins í minni heimabyggð. Hér á þessu svæði, eins og raunar á flestum dreifbýlissvæðum landsins, bera íbúar hlýjan hug til þessa fyrirtækis. Eins og öllum er kunnugt hefur hlutverk fyrirtækisins verið að annast flutning og dreifingu raforku á nánast öllum landsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins og óhætt mun að fullyrða að það hafi gert það með miklum sóma á hartnær hálfrar aldar tímabili sem liðið er frá því að rafvæðing landsins hófst.

Ekki hefur farið fram hjá mörgum að breytingar eru í uppsiglingu á sviði orkumála hér á landi eins og víðast hvar annars staðar í heiminum á síðustu árum. Um leið hefur verið unnið að uppbyggingu raforkukerfisins á síðustu árum, orkuframleiðsla okkar hefur aukist og er orðin hin mesta í heiminum miðað við fólksfjölda. Það er vitaskuld ekkert markmið í sjálfu sér en meginmáli skiptir að við þurfum og verðum að nýta allar auðlindir landsins til að auka hagvöxt og velferð þjóðarinnar til lengri framtíðar og standast samkeppni við aðrar þjóðir í aukinni hagsæld. Áform okkar um nýtingu auðlindanna ganga ekki alltaf eftir eins og alkunna er. Það er athyglisvert hve snemma rannsóknir vegna virkjana hófust hér á landi og stór hluti náttúrufarsrannsókna þjóðarinnar fram yfir miðja síðustu öld beindist nánast eingöngu að hugsanlegum virkjunarsvæðum, í fyrstu að vatnsaflinu og á fjórða og fimmta áratug aldarinnar einnig að jarðhitanum. Um miðjan síðasta áratug var óskin um aðgengi að rafmagni orðin brýnust allra í huga þjóðarinnar. Hún þráði framfarir á sem flestum sviðum og sá að með hagnýtingu orkulinda landsins fyrir heimilin og iðjuver væri mikill auður fólginn. Í upphafi rafvæðingar landsins óskuðu flestir þess að virkjunarmannvirki, virkjanir og línur yrðu reist í sinni heimabyggð og töldu þau réttilega myndu leiða til framfara og aukinna möguleika á bættum atvinnuháttum. Rafmagnsveitur ríkisins önnuðust meginþunga þess erfiða en þakkláta starfs sem rafvæðing landsins vissulega var á sínum tíma og hefur í hálfa öld borið ábyrgð á flutningi og dreifingu raforku um nánast allt land.

Nú hafa hins vegar skipast veður í lofti varðandi ný virkjunarmannvirki frá því sem var á árdögum rafvæðingarinnar og jafnvel þeir aðilar sem einna mest fá í sinn hlut og best hafa notið nálægðar virkjana vilja ekki lengur stuðla að uppbyggingu orkuiðnaðarins í sinni heimabyggð. Hér kemur eflaust flestum í hug hin mikla umræða um umhverfismál virkjana, sem áberandi hefur verið á undanförnum misserum. Eins og kunnugt er verða nýjar virkjanir í dag ekki reistar nema að undangengnu mati á umhverfisáhrifum. Kröfur sem gerðar eru til rannsókna vegna matsvinnunnar hafa stóraukist og þessi rannsóknarkostnaður er orðinn verulega íþyngjandi fyrir framkvæmdaraðila þar eð sú óvissa er alltaf fyrir hendi að ekki verði fallist á viðkomandi framkvæmd í úrskurði stjórnvalda um niðurstöður matsins. Breyta verður lögum og reglum þannig að orkufyrirtæki þurfi ekki að eyða tugum eða hundruðum milljóna króna í mismunandi gagnlegar rannsóknir vegna mats á umhverfisrannsóknum sem hugsanlega skipta engu máli um það hvort ráðist verður í framkvæmd eða ekki. Í raun eru þessar rannsóknir komnar langt umfram eðlilegar kröfur sem gera verður til að komast að raun um hvort viðkomandi mannvirki hafi óásættanleg áhrif á umhverfi sitt. Við endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum er nauðsynlegt að setja einhverjar skorður á kröfugerð um rannsóknir og ekki síður þarf að setja skýrari reglur um inntak leyfisveitinga vegna virkjunarmannvirkja.

Mikilvægt er því að hafa heildarsýn yfir helstu umhverfisþætti einstakra virkjunarkosta eins snemma og unnt er til að draga úr þeirri áhættu að þurfa að kosta veigamiklar rannsóknir. Vinna við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, sem hófst árið 1999, er mikilvæg í þessu skyni ef rétt verður á málum haldið. Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti til raforkuframleiðslu meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra aðila. Á vegum Rammaáætlunar hefur verið ráðist í viðamiklar grunnrannsóknir á hugsanlegum virkjunarsvæðum og ljóst er að verkefnið mun bæði auka þekkingu okkar og skilning á náttúrufari landsins og jafnframt auðvelda mönnum val nýrra virkjunarkosta. Þess er því vænst að Rammaáætlun muni leiða til þess að aukin sátt náist um skynsamlega nýtingu orkulinda okkar í framtíðinni án þess að ganga óhóflega á náttúrulegt umhverfi eða aðra landnýtingu.

Hingað til hefur okkur tekist vel til með uppbyggingu raforkuvera og raflína um landið. Raforkufyrirtæki hafa sýnt einstaka snyrtimennsku við allan frágang og umhverfi mannvirkja sinna þannig að athygli hefur víða vakið. Hið sama á raunar við um uppbyggingu hitaveitna. Á því sviði höfum við lyft grettistaki á undanförnum áratugum sem hefur góðu heilli leitt til þess að hlutur olíu í húshitun landsmanna á síðustu áratugum hefur nánast horfið. Í dag njóta um 88% landsmanna hitunar frá jarðvarma, um 11% frá rafhitun en aðeins innan við 1% nota olíuhitun. Aukin nýting jarðhitans hefur haft mikil áhrif á lífskjör okkar Íslendinga auk margháttaðra þæginda sem erfitt er að meta til efnislegs hagnaðar eða ábata.

Eins og ég gat um á síðasta ársfundi RARIK höfðu drög að frumvarpi til raforkulaga verið lögð fram til kynningar á Alþingi á vorþingi 2001 og var það til umfjöllunar í iðnaðarnefnd Alþingis síðastliðið haust. Frumvarpið var að nýju lagt fram á nýafstöðnu þingi í endurskoðaðri gerð þar sem tekið var tillit til margvíslegra athugasemda er fram komu við kynningu frumvarpsins og í meðförum iðnaðarnefndar, þannig að meiri sátt virðist nú ríkja um meginmarkmið þess en við upphaflega gerð þess. Horfið hefur verið frá því að hafa fullan aðskilnað milli einokunarþátta og samkeppnisþátta í rekstri raforkufyrirtækja en bókhaldslegur aðskilnaður þeirra látinn nægja með sérstöku lagaákvæði um framkvæmd hans. Ég mælti fyrir frumvarpinu stuttu fyrir þinglok, en ekki gafst tími til afgreiðslu þess meðal annars vegna þess hve mörg ný og brýn þingmál höfðu þar forgang. Stefnt er að því að leggja frumvarpið fram að nýju næsta haust og afgreiða það fyrir áramót. Einnig hefur verið lagt fram frumvarp um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði sem óhjákvæmilegt er að breyta vegna hinna nýju raforkulaga.

Þá hefur þurft að taka til endurskoðunar orkulögin frá 1967, sem í raun felst í því að þau falla úr gildi en í stað einstakra lagakafla þeirra um Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins og hitaveitur koma sérlög þar um. Eins og flestum er kunnugt var á síðasta þingi lagt fram frumvarp um Rafmagnsveitur ríkisins hf. en það hlaut ekki afgreiðslu á því þingi. Með frumvarpinu verður gerð sú formbreyting að fyrirtækið verður sjálfstætt hlutafélag, og er í meginatriðum svipað og gildir almennt um lagaumhverfi hlutafélaga á raforkusviði og er það samið í samráði við stjórnendur fyrirtækisins. Einnig er hafin vinna við gerð frumvarps um hitaveitur og við gerð þess er haft samráð við sérfræðihóp á vegum Samorku. Sérstakt frumvarp um Orkustofnun hefur verið að fæðast að undanförnu í samræmi við vaxandi hlutverk stofnunarinnar við stjórnsýslu orkumála. Sérstök nefnd á vegum iðnaðarráðuneytisins hefur að undanförnu unnið að endurskoðun á hlutverki stofnunarinnar í samræmi við ákvæði nýrra raforkulaga og er frumvarpið unnið í samræmi við tillögur nefndarinnar. Þá liggja fyrir í ráðuneytinu drög að breytingum á vatnalögum, sem unnið hefur verið að í vetur og verður lagt fram á næsta þingi. Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að endurskoða lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörð en þau lög fjalla almennt um rannsóknir á jarðhita og vatnsorku landsins. Ætlunin er að þau lög nái einnig til virkjunarrannsókna og undirbúnings nýrra virkjana, bæði vatnsaflsvirkjana og jarðhitavirkjana.

Á nýliðnu þingi varð að lögum frumvarp um niðurgreiðslur á raforku til húshitunar og um styrkveitingar til nýrra hitaveitna, en reglur þar um höfðu um áratuga skeið verið í gildi í iðnaðarráðuneytinu án þess að lög segðu til um það á hvern hátt hagað skyldi framkvæmd þeirra. Þá var í lögum þessum að nýju ákvæði um að þeir fáu einstaklingar er hita hús sín með olíu vegna einangrunar frá raforkukerfinu skuli njóta niðurgreiðslna frá ríkinu vegna húshitunarkostnaðar. Með þessari lagasetningu var stigið veigamikið skref fyrir landsbyggðina um viðureknningu á því að búa við hliðstæð kjör og aðrir landsmenn hvað varðar húshitun hýbýla sinna.

Síðast en ekki síst tel ég mikilvægt að minnast á frumvarp um niðurgreiðslu á kostnaði við óarðbærar rekstrareiningar í raforkudreifingu. Eins og kunnugt er var verðjöfnunargjald á raforku aflagt árið 1985 og skuldbatt ríkið sig þá til að sjá til þess að rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja er gjaldsins nutu og önnuðust óhagkvæma dreifingu raforku, myndu fá tekjumissi af verðjöfnunargjaldi bættan á annan hátt. Í samræmi við það yfirtók ríkið skuldir RARIK og Orkubús Vestfjarða hf. á níunda áratugnum, en það hefur varla dugað til þannig að nokkur viðvarandi rekstrarhalli er enn fyrir hendi. Jafnframt hafa viðskiptavinir RARIK og Orkubúsins í þéttbýli orðið að bera hluta þessa kostnaðar með hærra orkuverði en ella væri þar eð sama verðskrá hefur gilt fyrir raforku í þéttbýli og dreifbýli. Sérstakri nefnd á vegum iðnaðarráðuneytis var falið á síðasta ári að gera tillögur um á hvern hátt dreifiveitum yrði bættur rekstur óarðbærra rekstrareininga sem þær væru lagalega skuldbundnar til að reka. Í ársbyrjun var samið frumvarp til laga um þetta efni og lagt fram á Alþingi, en frumvarpið verður að nýju lagt fram á haustþingi og afgreitt á sama tíma og raforkulagafrumvarpið. Hér er um gífurlega mikilvægt mál að ræða fyrir RARIK og landsbyggðina alla, sá klafi sem viðvarandi hallarekstur hefur árum saman haft á starfsemi fyrirtækisins hefur hamlað eðlilegri endurnýjun dreifikerfisins og jafnvel komið niður á viðhaldi og endurnýjun þess. Því mun rekstrarumhverfi raforkudreifingar á erfiðustu svæðum landsins breytast mjög með samþykkt þessa frumvarps.

Með nýju raforkuumhverfi verður hlutur RARIK við raforkudreifingu og flutning í heildina óbreyttur og jafn mikilvægur og áður hefur verið. Í raun hefur hlutur fyrirtækisins góðu heilli vaxið á undanförum árum með kaupum á rafveitum þéttbýlla svæða eins og í Borgarnesi, Hveragerði og á Sauðárkróki. Því tel ég einsýnt að með þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum og með samþykkt frumvarps um óarðbærar rekstrareiningar fyrirtækisins muni rekstrarforsendur fyrirtækisins styrkjast mjög til framtíðar.

Á undanförnum árum hefur komið til vaxandi þörf á endurnýjun dreifikerfis landsins meðal annars vegna aldurs þeirra en einnig vegna staðbundinnar aukningar á raforkuþörf og kröfugerðar um gæði raforkunnar. Við sem teljum að raforkan sé ein meginforsenda fyrir betri lífsskilyrðum þjóðarinnar í framtíðinni verðum að tryggja aðgengi allra landsmanna að þeirri auðlind okkar. Nýlega lagði ég fyrir Alþingi skýrslu um aukna þrífösun raforkukerfisins, sem unnin var af nefnd er ég skipaði í samræmi við þingsályktun Alþingis 1999. Þar voru gerðar tillögur um aðgerðir til að mæta auknum óskum fjölmargra aðila á landsbyggðinni um aðgengi að þriggja fasa rafmagni. Í stuttu máli sagt var haft samband við allar sveitarstjórnir landsins og þær beðnar um að veita upplýsingar um það hvar helst væri þörf á þriggja fasa rafmagni til þess að auðvelda nefndinni það hlutverk sitt að leggja mat á þörf þrífösunar almennt og einnig kostnaði við að mæta þeim þörfum. Svör bárust frá flestum sveitarstjórnum og á þeim grunni var unnt að meta það svo að kostnaður við að mæta brýnum þörfum fyrir þrífösun næmi á bilinu 1-1,2 milljörðum króna, en heildarkostnaður við að þrífasa allt raforkudreifikerfið næmi um 9 milljörðum. Þá kom einnig fram að vanda þeirra er hefðu brýnustu þarfirnar mætti hugsanlega leysa með tíðnibreytum og svokölluðum rafhrútum, sem væru í flestum tilvikum langtum hagkvæmari lausn en veruleg flýting framkvæmda. Ég kynnti skýrslu nefndarinnar í ríkisstjórn í mars s.l. og þar var iðnaðar- og fjármálaráðherra falið að koma með tillögur um það á hvern hátt væri æskilegt að leysa þennan vanda. Vinnuhópur á vegum þessara ráðuneyta hefur unnið að tillögugerð um þetta efni að undanförnu og er þess að vænta að niðurstöður liggi fyrir innan skamms tíma.

Með nýjum lögum um orkumál og breytingum á umhverfi orkumála þarf jafnframt að skoða hlutverk ríkisins í orkurannsóknum almennt. Óumdeilanlegt er að ríkið þarf að annast helstu grunnrannsóknir á orkulindum landsins, en hversu langt þær ná kann að vera álitaefni. Því þarf að huga að því hvernig þessum mikilvæga þætti orkumála verður best fyrir komið til framtíðar. Þá þarf að endurskoða hlutverk ríkisins í orkuframleiðslu almennt, en þar mun ríkja samkeppni í framtíðinni í samræmi við frumvarp til raforkulaga og tilskipun Evrópusambandsins sem við þurfum að framfylgja. Álitaefni eru þar mörg, meðal annars þau hvort hlutverk ríkisins í náinni framtíð verði ekki aðeins einokunarþættir raforkugeirans, flutningur og dreifing, en ríkið dragi sig út úr samkeppnisþáttum með sölu á framleiðslueiningum.

Eins og ég gat um hér að framan bendir til þess að í nýju skipulagi orkumála verði staða RARIK sterkari en hún hefur verið fram til þessa. Um leið tel ég að staða landsbyggðarinnar verði sterkari með þeim fyrirhuguðu aðgerðum, sem ég hef hér að framan rakið, hagsmunir landsbyggðarinnar og RARIK fara saman, öflugt atvinnulíf á landsbyggðinni eflir starfsemi fyrirtækisins og forsenda fyrir slíkri þróun er hagkvæmt og öruggt dreifikerfi um landið. RARIK er í dag langstærsti dreifingaraðili raforku hér á landi utan höfuðborgarsvæðisins og styrkur þess liggur í raforkuflutningi og dreifingu, en nauðsynlegt er að stefna að aukinni raforkuframleiðslu fyrirtækisins á næstu árum. Að mínu mati þarf að efla þann þátt í starfseminni á næstu árum til að fákeppni verði ekki algjör á markaðnum við framleiðslu raforku.

Eins og flestum er kunnugt var á árinu 2000 unnin hagkvæmniathugun á sameiningu RARIK og Norðurorku á Akureyri. Þessi athugun var unnin á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar um að ganga til samstarfs við Akureyrarbæ um slíka athugun. Niðurstaða hennar leiddi í ljós að sameining myndi verða hagkvæm og ríkisstjórnin samþykkti að bjóða Akureyrarbæ til viðræðna um hugsanlega sameiningu RARIK og Norðurorku. Í framhaldinu hafa aðilar skipað viðræðunefnd til að kanna ítarlegar hagkvæmni sameiningar og er þá miðað við að sameinað fyrirtæki tæki til starfa í nýju raforkuumhverfi. Sú vinna hefur gengið hægar en upphaflega var ætlað af ýmsum ástæðum, nýlega var ákveðið að setja sér tímamörk og skoða þetta mál af fullri alvöru. Frá því að upphafleg ákvörðun var tekin um könnun á sameiningu RARIK og Norðurorku hefur ríkið keypt öll hlutabréf Orkubús Vestfjarða hf., sem voru í eigu sveitarfélaga á Vestfjörðum, og fyrirhugað er að sameina starfsemi RARIK og Orkubúsins í náinni framtíð. Hér er því um að ræða nokkru stærra fyrirtæki en áður var miðað við.
Ég tel að það muni efla og styrkja landsbyggðina ef tækist að mynda sterkt orkufyrirtæki með sameiningu þessara fyrirtækja. Enginn veit enn hvort af þessum áformum verður eða ekki. Hitt er ljóst að umhverfi raforkufyrirtækja mun vafalaust breytast hér á landi á næstu árum eins og gerst hefur erlendis en víðast hvar hafa þau stækkað til að standast samkeppni og auka hagræðingu í rekstri. Ég vil ítreka að stefna ráðuneytisins er að efla og styrkja starfsemi fyrirtækisins í framtíðinni og hefur verið unnið að því marki á undanförnum tveimur árum. Umræða um þessi mikilvægu mál hefur einskorðast nokkuð við það sjónarmið að eðlilegt væri að höfuðstöðvar sameinaðs fyrirtækis yrðu staðsettar á Akureyri í samræmi við það að meginverkefni hins nýja fyrirtækis yrði að þjóna landsbyggðinni rétt eins og RARIK hefur með sóma sinnt um áratuga skeið. Ég geri mér grein fyrir þeim mannauð, reynslu og þekkingu sem er að finna í starfsmönnum fyrirtækisins. Þetta þarf að hafa í huga þegar og ef breytingar eru gerðar á starfsemi eða starfsmannaumhverfi. Ég hvet menn til að trúa á framtíð fyrirtækisins, einu sér eða sameinað öðrum, í ljósi þess sem ég hef hér að framan sagt.

Góðir ársfundargestir.
Ég hef í ávarpi þessu farið víða yfir og fjallað um flest það sem er efst á baugi í orkumálum og snertir starfsemi RARIK. Eins og fram hefur komið eru verulegar breytingar framundan á skipan orkumála á næstu árum. Mikilvægast er að við reynum að aðlaga þær breytingar að samfélagi okkar þannig að raforkukerfið eflist og verði enn öruggara. Þá verðum við að tryggja að við getum haldið áfram að nýta orkulindir þjóðarinnar um langa framtíð til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Um þessi markmið getum við öll sem hér erum stödd verið sammála. Með þeim orðum árna ég ársfundargestum heilla í störfum sínum.

Ég þakka áheyrnina.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum