Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. júní 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Sjómannadagur á Akureyri

    Valgerður Sverrisdóttir,
    iðnaðar- og viðskiptaráðherra


    Ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra á sjómannadegi á Akureyri
    2. júní 2002.


    Ágætu sjómenn og aðrir hátíðargestir.

    Þegar íslensk sjómannastétt heldur hátíð einn dag á ári er eðlilegt að staldra við og leiða hugann að því hvert er og hefur löngum verið hlutverk hennar og hlutskipti og hve velgengni sjómanna og sjávarútvegs og velferð þjóðarinnar allrar eru samofnar.

    Það sést best þótt ekki sé tekið annað dæmi en daglegar fréttir fjölmiðla. Ætli flestir kannist ekki við deilur um ástand fiskistofna, kvótamál og fyrirkomulag fiskveiða, kaup og kjör sjómanna, fréttir um breytta eignaraðild og kaup og sölu sjávarútvegsfyrirtækja, fiskeldisáform og markaðssókn erlendis, sveiflur í veiðum og verðlagi, nýja tækni í sjávarútvegi o.s.frv.

    Frá því í síðustu viku, svo ekki sé nú lengra seilst, minnist ég frétta um hvalveiðar, um horfur og möguleika í fiskeldi og hlutabréfakaup sem athygli vöktu, auk þess sem sagt var frá spánýrri tækni við karfarannsóknir sem þegar hefur skilað athyglisverðum niðurstöðum. Síðast en ekki síst bárust fréttir af því að mokveiði hefði verið úr norsk-íslenska síldarstofninum, sem sjómenn töldu vita á gott. Þótt margt sé nú breytt vekja slík tíðindi minningar um frásagnir fólks sem fékk stjörnur í augun við að rifja upp þá sælu, en erfiðu daga og björtu sumarnætur á fyrrihluta síðustu aldar þegar síldin gaf sig á Grímseyjarsundi og gekk inn á fjörð, brætt var og saltað allan sólarhringinn og tunnustæðurnar hlóðust upp allt inn á Höepfners-bryggju.

    Allt er þetta sem ég hef nefnt til marks um þá miklu þýðingu sem sjómennska og sjávarútvegur hefur fyrir líf þjóðarinnar í landinu og þann sess sem þessir grundvallarþættir atvinnulífsins skipa í sögu hennar og vitund. "Föðurland vort hálft er hafið", var einu sinni sagt. Enn á það við og svo verður væntanlega lengi. Lega landsins hefur ekki breyst og hafið í kringum það er sú auðlind sem við verðum í senn að nýta og gæta og höfum löngum ausið úr. Á síðari árum hefur tekist að skjóta æ fleiri nýjum og nútímalegum stoðum undir atvinnulíf okkar og að því verður að vinna áfram. Vonandi er þó flestum enn ljóst hvern auð íslenskir sjómenn draga úr sjó og draga í bú og hve sjávarútvegurinn stendur undir drjúgum hluta af útflutningstekjum okkar. En fólk verður líka að gera sér grein fyrir hve samþættingin við aðrar greinar atvinnulífsins er mikil og hve fiskveiðarnar og starf sjómannsins hafa mikil áhrif á þær og grípa þar víða inn í. Þess vegna er engin furða þótt stundum sé komist svo að orði að fiskiðnaður sé eina stóriðja Íslendinga sem nafn sé gefandi og sölu- og markaðsmálin sá þáttur sem aldrei sé of vel sinnt og leggja þurfi sífellt meiri áherslu á í heimi vaxandi viðskipta og harðnandi samkeppni ef þjóðarbúið á að njóta góðs af útgerð og sjómennsku. Þannig eru mál sjávarútvegs og sjómanna í raun iðnaðar- og viðskiptamál um leið.

    Þjóð sem byggir jafn mikið á sjósókn og fiskveiðum og við gerum verður að leggja kapp á rannsóknir á lífríki hafsins. Í því sambandi hafa Íslendingar notið þeirrar gæfu að eiga virta og vel menntaða vísindamenn sem notið hafa virðingar langt út fyrir landsteinana, eins og oft hefur sannast, og notið beins og óbeins stuðnings til rannsókna sinna m.a. úr sjóðum Evrópusambandsins, svo dæmi sé tekið. Það er eðlilegt þegar þess er gætt að sameiginlegar rannsóknir, m.a. á vistkerfi Íslandsmiða, eru þáttur í því vísindastarfi sem kemur öllum til góða, eins og alþjóðasamfélagið veit.

    En hversu mjög sem þekkingin eykst og hversu vel sem vísindamenn okkar standa að verki á sínum forsendum eru óvissuþættirnir margir. Sveiflurnar í ríki náttúrunnar eru einatt óvæntar og torskýrðar og margt sem haft getur áhrif. Þannig er sá grunnur sem vísindamennirnir standa á sífellt að breytast. Vel er líka fylgst með því sem þeir segja og gera. Hjá eyþjóðinni Íslendingum eru þeir margir sem hafa áhuga á sjávarútvegsmálum og rannsóknum sem þeim tengjast, eins og best sést af mótmælum síðustu daga við því að leggja niður útvarpsþáttinn "Auðlind" næstu fjóra mánuði. Ýmsir þeirra sem ég nefndi búa yfir mikilli reynslu og eiga hagsmuna að gæta eins og þjóðin öll og eru óhræddir við að láta skoðanir sínar í ljós. Sú reynsla hefur oft verið kölluð "fiskifræði sjómannsins". Hana er ekki alltaf einfalt eða auðvelt að tengja sjónarmiðum fiskifræðinga, enda gengur það ekki átakalaust frekar en margt annað á þessu sviði. Eigi að síður er hún einn af þeim þáttum sem komið geta við sögu þegar kemur til kasta stjórnmálamanna og teknar eru tímabundnar ákvarðanir um stjórn fiskveiða.

    Hlutverk þeirra sem bera hina pólitísku ábyrgð á lagarammanum og stefnunni í sjávarútvegsmálum er að skapa atvinnugreininni þau skilyrði sem best duga og helst næst sátt um hverju sinni með sjálfbæra nýtingu fiskistofnanna við landið, hagkvæmni veiða og vinnslu og hagsmuni sjómanna, útgerðar og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Hvarvetna þar sem fiskveiðar eru stundaðar er það svo að umræður snúast að miklu leyti um það hvernig skipta eigi verkum milli stjórnmálamanna, vísindamanna og hagsmunaaðila. Um það er varla ágreiningur að það sé meginhlutverk vísindamannanna að meta náttúruleg skilyrði og ástand stofna og gera grein fyrir forsendum sínum og niðurstöðum. Það hlýtur svo alltaf að verða pólitísk ákvörðun eftir samráð við þá og hagsmunaaðila innan greinarinnar, þar sem við bætast hagfræðileg rök og mörg önnur, hvernig unnt er að útfæra niðurstöðuna í fiskveiðistjórnuninni þannig að náttúrulegra skilyrða sé gætt, stofnum við haldið og þeir byggðir upp og hámarksafrakstur auðlindarinnar tryggður.

    Þetta er ekki auðvelt verk og erfitt að gera svo öllum líki, enda skiljanlegt þegar miklir hagsmunir eru í húfi. Rétt er þó að leggja áherslu á að mikið samráð er jafnan haft við þá sem sjávarútveginn stunda um nær alla þætti sem hann varða. Þótt um margt sé deilt telja flestir sem til þekkja beint samband milli samstöðu hagsmunaaðilanna um stjórnkerfi fiskveiða og efnahagslegs árangurs. Samráð og samstarf gerir fleiri sjónarmiðum en ella kleift a njóta sín, auðveldar að sníða agnúa af kerfi sem aldrei verður fullkomið í framkvæmd og veldur því að enginn sem að kemur getur skotið sér undan ábyrgð. Í þessum efnum eru sjómenn í sama báti og aðrir í bókstaflegri merkingu og hafa lagt sitt af mörkum, en á sjómannadaginn hljótum við að minnast þess að þeir búa við þær aðstæður að ákvarðanir stjórnvalda hafa meiri áhrif á atvinnumöguleika þeirra en flestra annarra stétta. Það brennur fyrst á þeim og fjölskyldum þeirra þegar draga þarf úr veiðum, en á móti kemur að þeir njóta þess að sama skapi fyrr en aðrir þegar betur gengur. Í baráttu þeirra fyrir eigin hag og bættum kjörum hefur nafn Sjómannafélags Eyjafjarðar iðulega borið hátt í umræðunni á liðnum misserum sem sýnir að forustumenn þeirra eru vakandi yfir velferð umbjóðenda sinna. Einn þáttur þeirrar velferðar eru öryggismál sjómanna. Þótt fréttir berist af nýjungum og umbótum í þeim efnum og myndin sé önnur en áður var má gera enn betur. Fylgjast verður vel með því sem horfir til heilla og kosta nokkru til, því að aldrei má gleymast að sjómennska og siglingar eru áhættustarf og hættur hafsins samar við sig.

    Á undanförnum árum hafa umræður um sjávarútvegsmál einkum snúist um vísindalega ráðgjöf og hvernig eigi að veiða þann heildarafla sem leyft er að veiða hverju sinni. Umræðan hefur því í raun snúist mest um störf fiskifræðinga og kvótakerfið. Allir geta verið sammála um mikilvægi öflugra hafrannsókna þótt menn greini á um nákvæmni í vísindalegum niðurstöðum, eins og ég hef vikið að. Deilurnar um kvótakerfið hafa hins vegar verið af öðrum toga. Þær hafa að mestu staðið um veiðiréttinn og með hvaða hætti þjóðin eigi að fá endurgjald frá þeim sem nýta fiskistofnana. Í þeim efnum sætir tíðindum sú breyting á lögunum um stjórn fiskveiða sem Alþingi samþykkti í vor, að leggja skuli afkomutengt veiðigjald á handhafa veiðiheimildanna. Gjaldið bindur ekki í einu vetfangi enda á deilur um fiskveiðistjórnunarkerfið, en þótt deila megi um aðferðir og fjárhæðir og mikið hafi verið rætt um réttmæti þess táknar gjaldið ákveðin kaflaskil í þeirri erfiðu list að nýta einhverja dýrmætustu sameign þjóðarinnar í sem mestri sátt við hana sjálfa og þá sem mestra hagsmuna eiga að gæta.

    Ég ætla ekki að gera lítið úr þessum málum öllum sem hafa verið höfuðviðfangsefni sjávarútvegsumræðunnar á undanförnum árum að ógleymdri umræðunni um fiskverð og kaup og kjör sjómanna, sem í sjálfu sér er eilífðarmál. Hinsvegar tel ég að við þurfum í vaxandi mæli að beina umræðunni inn á þá braut, hvernig við getum stækkað þá köku sem er til skiptanna. Til þess eru margar leiðir færar og inn á sumar þeirra hefur þegar verið lagt af dugnaði og bjartsýni og með góðum árangri sem þegar hefur sýnt sig á sumum sviðum. Fiskeldi býður upp á mikla möguleika sem fyrst koma í hugann og hér við Eyjafjörð sjáum við að stóru sjávarútvegsfyrirtækin eru komin af stað. Samherji er með mikil áform um fiskeldi fyrir austan og áframhaldandi þorskeldi er hafið þótt við getum ekki búist við að það verði stundað af miklum karfti fyrr en okkur tekst að byggja upp seiðaeldi. En að því verður unnið og þannig mætti áfram telja.

    Stefna stjórnvalda stendur til þess að efla byggð og blómlegt atvinnu- og menningarlíf á Akureyri og við Eyjafjörð. Allar aðstæður í landinu nú, mannfjöldi og lega bæjarins gagnvart sveit og sjó og samgöngum á landsvísu veldur því að þetta er sjálfsagður hlutur. Á síðari árum hefur Akureyri orðið æ meiri útgerðarbær þótt hann eigi sér langa sögu á því sviði og í flestum öðrum greinum atvinnulífsins, ekki síst í verslun.

    Ég vék fyrr í ræðu minni á samþættingu sjávarútvegs og verslunar. Frá fornu fari hefur sú samþætting verið lifandi veruleiki á þessum slóðum. Héðan voru um aldir fluttar út afurðir lands og sjávar og hingað flutu skip "með fríðasta lið, færandi varninginn heim", eins og skáldið úr Öxnadalnum komst að orði. Alkunna er að á miðöldum vorum við Íslendingar fræg siglingaþjóð, en öðrum háð um ýmsa aðdrætti, og því gerðu landsmenn siglinguna að skilyrði í samningum sínum við Noregskonung á 13. öld. Í þessu sambandi er vert að drepa á það að í vitund okkar flestra hefur orðið "sjómaður" ekki aðeins merkinguna fiskimaður, heldur er það samheiti sem líka nær til farmanna sem til forna voru einatt kaupmenn um leið.

    Héðan þurfum við ekki langt að leita til að komast í snertingu við samþættingu siglinga og verslunar og sögu sem jörðin geymir. Í lok þjóðveldisaldar og allt fram á 14. öld voru Gásar við mynni Hörgár ein af þremur mestu verslunarstöðum á Íslandi. Hinir voru Eyrar eða Eyrarbakki og Hvítárvellir í Borgarfirði.

    Að Gásum hafa innanhéraðsviðskipti sjálfsagt verið stunduð frá fornu fari, en mikilvægi sitt átti staðurinn því að þakka að þangað sóttu erlendir kaupmenn þegar svo var komið að Íslendingar áttu ekki lengur nein skip í förum. Það voru helst norskir kaupmenn frá Niðarósi og Björgvin, Orkneyingar, Hjaltlendingar og jafnvel norrænir menn frá Norður-Skotlandi. Gásar voru í þá daga langmikilvægasta höfnin á Norðurlandi, en næstar henni komu Kolkuós og Borðeyri þótt þær hafnir kæmust ekki í hálfkvisti við Gása. Bæði millilanda- og innanlandsverslun á sér því langa hefð við Eyjafjörð.

    Gaman er að rifja þetta upp á þessum degi þegar við sjáum, hvers við erum megnug, hvernig íslenskt hugvit og atorka sem lætur sífellt til sín taka á flestum sviðum atvinnulífsins, m.a. í útgerð og siglingum, hratt af stað og gegnir sínu stóra hlutverki í jafn glæsilegum atvinnurekstri og íslensk verslun er nú.

    En mér er það líka heiður og ánægja að mega standa hér í dag og ávarpa sjómenn á Akureyri og við Eyjafjörð af því að af æskuslóðum mínum hinum megin við fjörðinn og af Látraströnd, Fjörðum, úr Flatey og af Flateyjardal var sjór sóttur af harðfengi öldum saman. Ýmsir forfeður mínir og formæður komu við þá sögu. Þar var á gjöful mið að sækja, þaðan var m.a. lagt í hákarlalegur og þaðan var Theódór Friðriksson, höfundur einnar merkustu ævisögu sem íslenskur alþýðumaður skráði á 20. öld og kallaði Í verum. Nafnið eitt segir meira en mörg orð um meginefni bókarinnar sem er persónuleg reynslusaga sveitamanns, sjómanns og verkamanns af lífi og kjörum þessara starfsstétta frá síðustu áratugum nítjándu aldar og fyrstu þremur eða fjórum áratugum þeirrar tuttugustu. Það er fróðleg og skemmtileg lesning nú í aldarbyrjun fyrir þá sem kynnast vilja högum áa sinna og öðlast skyggni á þjóðarsöguna.

    Sjómannadagurinn minnir á sérstöðu sjómannsstarfsins og mikilvægi þess fyrir eyþjóð nyrst á Ránarslóðum. Hann er sameiningartákn þeirrar starfsstéttar sem sótt hefur í greipar Ægis þann auð sem efnahagur lands og þjóðar hvílir á. Hann á að efla samkennd og samstöðu stéttar og þjóðar um starf og atvinnuveg. Og vitaskuld má svo síst gleymast að í raun er hann fjölskyldudagur þeirra sjálfra.

    Gleðilega hátíð!


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum