Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. september 2002 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Ræða samgönguráðherra á 120 ára afmælis- og útskriftarhátíð Hólaskóla 7. september 2002

Í ræðu sinni á afmælis- og útskriftarhátíð Hólaskóla lagði samgönguráðherra sérstaka áherslu á samstarf samgönguráðuneytis og Hólaskóla um nám í ferðamálafræðum.

7. september 2002


Skólameistari, góðir gestir, ágætu heimamenn!

Það er mér heiður að ávarpa ykkur við þetta tækifæri. Ég hef alltaf virt mikils það starf sem fer fram hér á Hólum og finnst það hljóta að teljast forréttindi að fá að koma hingað til að afla sér menntunar. Þeir eru tæpast margir staðirnir sem geta boðið upp á slíka umgjörð náttúru og sögu fyrir nám og starf. Hólar hafa notið þess ríkulega síðustu árin að stjórnvöld ekki síður en héraðsbúar hafa sterkar tilfinningar til uppbyggingar og reisnar staðarins sem Biskupsseturs, skóla og merks sögustaðar.

Augu ráðherra ferðamála beinast eðlilega að þeirri áherslu sem Hólaskóli hefur lagt á ferðaþjónustu undanfarin ár. Og í þeirri skýrslu sem hér hefur verið kynnt er greinilega hvergi hvikað af þeirri braut sem mörkuð hefur verið af stjórnendum skólans. Ferðamannastraumurinn til Íslands vex hratt, svo hratt að þróun og skipulag ferðaþjónustunnar helst vart í hendur við hann.

Og nú er svo komið að ferðaþjónustan er í 2. til 3. sæti sem einn af stærstu atvinnuvegum þjóðarinnar þegar það er mælt á mælikvarða gjaldeyristekna. Ferðaþjónustan er því stöðugt mikilvægari þáttur atvinnulífsins ekki síst á landsbyggðinni.

Áherslan á rannsóknir í framtíðarstarfi ferðamálanámsins í Hólaskóla er mér mjög að skapi og vona ég að þar bætist við nýtt samstarfsverkefni samgönguráðuneytis og skólans en ég hef verið mjög ánægður með þá samvinnu sem tókst um fjarnám í ferðamálum. – Samgönguráðuneytið kemur reyndar víðar að málum þar sem landbúnaður og ferðaþjónusta skarast, og þar að auki hér í Skagafirði, en ráðueytið á aðild að fulltrúaráði Hestamiðstöðvar Íslands.

Ég tek heilshugar undir það sem fram kemur í skýrslunni að menntun til hinna fjölbreyttu starfa sem felast í ferðaþjónustu er lykillinn að auknum gæðum hennar og þar með árangri í markaðssetningu til framtíðar.

Ég fagna því að Hólaskóli hyggist áfram leggja áherslu á að mennta þá sem eru í beinum samskiptum við ferðamanninn og þá sem verða í hringiðu þeirrar uppbyggingar sem greinin þarfnast til að ná settu marki. Því ferðaþjónustan, eins og aðrar atvinnugreinar, þarfnast frumkvöðla og fólks með kjark og sköpunargáfu til að byggja upp þessa mikilvægu atvinnugrein.

Til innviða ferðaþjónustunnar teljast samgöngur, gistihúsa og veitingarekstur svo auðvitað afþreying eða upplifun hverskonar sem ferðamenn sækjast í . Stöðugt er unnið að því að bæta samgöngukerfi landsins og ný samgönguáætlun tekur mið af því að samræma samgöngur á lofti, láði og legi öllum lansmönnum til hagsbóta. Í hinum nýju lögum um samönguáætlun er kveðið sérstaklega á um að tekið sé tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur.

Þó að stjórnvöld taki að mestu að sér uppbyggingu samgöngukerisins og styðji landkynningu á ferðaþjónustan mest undir framtaki einstaklinga.

Að mínu mati er því nauðsynlegt að ferðaþjónustan, ekki síður en aðrar atvinnugreinar, hafi eðlilegan aðgang að "þolinmóðu" fjármagni lánastofnana ekki síst fyrirtækin á landsbyggðinni. Ég tel því nauðsynlegt að Byggðasjóður taki, enn frekar en nú er, að sér það hlutverk að veita ferðaþjónustunni lánafyrirgreiðslu til fjárfestinga og gera henni kleift að nálgast fjármagn á betri kjörum en hingað til hefur verið mögulegt. Ég tel því eðlilegt að Byggðastofnun taki við hlutverki Ferðamálasjóðs í framtíðinni.

Samgönguráðuneytið hefur sterka aðkomu gagnvart atvinnulífi á landsbyggðinni. Samgöngumálin, fjarsskiptin og ferðamálin munu, eiga mikla hlutdeild í þeirri sókn sem ég sé fyrir mér á landsbyggðinni m.a. í kjölfar bættra samgangna . En þó að þessir svokölluðu innviðir séu góðir og öruggir á eftir að ná til ferðafólksins eða eins og markaðsmennirnir orða það: "að selja vöruna"! – Í starfi mínu sem ráherra ferðamála hef ég lagt mikla áherslu á markaðsmálin.

Iceland Naturally er viðamikið markaðsátak í Norður –Ameríku sem sett var á laggirnar til að byggja ofan á það mikla starf sem unnið var í tengslum við árið 2000. Hér er á ferðinni samstarfsverkefni samgönguráðuneytis annars vegar og atvinnufyrirtækja hins vegar. Aðild að átakinu eiga, Flugleiðir, íslensku fisksölufyrirtækin vestanhafs, nokkur önnur útflutningsfyrirtæki og Bændasamtökin. Ég bind vonir við að þetta átak fjölgi bandarískum ferðamönnum hingað til lands og vinni gegn afleiðingum hryðjuverkanna fyrir réttu ári síðan. – Í markaðsmálum ferðaþjónustunnar dugar samt ekki að horfa aðeins í eina átt. Það er einnig horft til þýðingarmikilla markaða í Evrópu og hefur stórauknu fé verið veitt í markaðssetningu þar í kjölfar atburðanna 11. september. Innanlandsmarkaðurinn er ekki síður mikilvægur. Íslendingar ferðast mikið. Í okkar eigin fólki eigum við verðmæta ferðamenn sem við þurfum að virkja enn frekar til að ferðast um landið okkar, sumar sem vetur. Það verður spennandi að fá niðurstöður úr gistináttatalningu sumarsisn og sjá hvort átakaið Ísland sækjum það heim hafi skilað sér í auknum ferðalögum íslendinga um eigið land.

Umhverfismál eru eðlilega ofarlega baugi í heiminum í dag. Og ekki síst innan ferðaþjónustunnar. Mörg stór og smá skref hafa verið stigin og nú nýlega hafa tveir staðir fengið alþjóðlega umhverfisvottun á ferðaþjónustu sinni. Þetta eru Hótel Eldhestar í Ölfusi og Brekkubær á Hellnum í Snæfellsbæ. Í kjölfarið hefur Ferðaþjónusta bænda ákveðið að innleiða Green Globe- umhverfisvottunarkerfið á þremur árum, en innan vébanda þeirra samtaka eru á annað hundrað fyrirtæki. Ég fagna sérstaklega því samstarfi sem tekist hefur á milli Hólaskóla og Ferðaþjónustu bænda um að skólinn verði úttektaraðili fyrir Green Globe hér á landi. Mér finnst það lýsa þeirri virðingu sem skólinn nýtur innan ferðaþjónustunnar allrar. Ég sé fyrir mér að þegar svo sterkir aðilar taka höndum saman muni nást árangur sem eftir verður tekið. Þá munum við í öllu okkar markaðsstarfi stolt geta bent á að hér sé fyrir hendi raunverulegur skilningur og samband við þá auðlind sem ferðaþjónustan byggir á, náttúru landsins.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að lýsa vilja mínum til þess að veita Hólaskóla styrk frá Samgönguráðuneytinu til að vinna að vottunarkerfi Green Glob. Sú aðgerð er afar mikilvæg fyrir ferðaþjónustu bænda og getur fært þeim í framtíðnni auknar tekjur og meiri hagnað.

Að lokum vil ég óska útskriftarnemum, nýnemum og öllu starfsfólki Hólaskóla til hamingju með þessi tímamót í sögu skólans. Ég vænti þess að íslensk ferðaþjónusta fái notið krafta ykkar allra sem lengst – þjóðinni allri til heilla.





Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum