Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. október 2002 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Bættar almenningssamgöngur

Grein samgönguráðherra í Morgunblaðinu 1. október s.l. um bættar almenningssamgöngur.



Stefna ber að bættum almenningssamgöngum.
Miklar umræður hafa verið um almenningssamgöngur og þá sérstaklega á lands-byggðinni. Mikið og gott verk hefur verið unnið síðustu misseri við endurskipu-lagningu allra almenningssamgangna á landsbyggðinni. Það starf hefur miðað að því að tryggja til langframa samfellt grunnkerfi almenningssamgangna á Íslandi, hvort heldur með ferjum, flugi eða sérleyfisbifreiðum. Hér á eftir kem ég stuttlega að þeim þremur meginbreytingum og árangri sem náðst hefur á kjörtímabilinu.


Ferjusiglingar boðnar út.
Árið1999 var ákveðið að bjóða út rekstur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs svo og Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Rekstur Hríseyjarferjunnar Sævars var boðinn út síðar. Þessi ákvörðun var í samræmi við útboðsstefnu ríkisins og reglur á hinu Evrópska efnahagssvæði sem Ísland er aðili að, en áður höfðu félög í eigu heimamanna rekið ferjurnar. Verulegt hagræði náðist í Herjólfsútboðinu, sem nýtt var til hagsbóta, fyrir Eyjamenn, með fjölgun ferða Herjólfs. Ferjurnar gegna lykilhlutverki fyrir viðkomandi byggðir auk þess að vera mikilvægur þáttur í þjónustu við erlenda og innlenda ferðamenn, sem nýta sér þær. Í kjölfar útboðsins fjölgaði ferðum Herjólfs frá 1999 til og með 2002 um 24% og gert er ráð fyrir 12% aukningu á næsta ári. Farþegum, sem ferðast með ferjunni, hefur einnig fjölgað jafnt og þétt. Mikilvægt er að huga að úrbótum á þeirri þjónustu sem ferjunum er ætlað að sinna. Í ljósi þess skipaði ég, fyrr á þessu ári, tvær nefndir sem vinna nú að því að skoða framtíðarhlutverk ferjanna Herjólfs og Baldurs. Er þess að vænta að tillögur liggi fyrir innan tíðar svo leggja megi á ráðin um rekstur þeirra í framtíðinni.


Nýtt skipulag sérleyfa áætlunarbíla-útboð undirbúið.
Með gildistöku laga um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi síðasta vetur, var mótuð ný og breytt stefna í almenningssamgöngum á landi. Meginbreyting laganna snýr að fólksflutningunum og er nú er skýlaus heimild veitt fyrir því að gera svokallaða þjónustusamninga við sérleyfishafa. Gert er ráð fyrir að endurbætt sérleyfisfyrirkomulag haldist að mestu óbreytt fram til 1.ágúst 2005 en eftir þann tíma er áætlað að öll sérleyfi verði boðin út. Á þessum tímapunkti má segja að breytingarnar hafi orðið mun umfangsmeiri en nokkurn grunaði:
1. Tekist hefur að koma í veg fyrir hrun greinarinnar með auknum framlögum og
endurskipulagningu. Samþykkt hefur verið nýtt sérleyfaskipulag sem gildir til ársins 2005.
2. Eftir hinu nýja skipulagi er Sérleyfishöfum fækkað og hafa fyrirtæki sameinast til
þess að ná fram hagkvæmni sem er forsenda þess að bæta þjónustuna.
3. Mögulegt er nú að setja fram skyldur og kröfur á sérleyfishafanna í
þjónustusamningum með mun öflugri hætti en áður var. Eftir að sérleyfin eru boðin út munu þessar kröfur, sem snúa að mörgum þáttum t.d. gæði farartækja, umhverfismálum, ferðatíðni ofl., verða hertar þannig að þessi þjónusta geti farið að bera sig saman við það sem gerist annarsstaðar.
4. Gert er ráð fyrir því að tímann fram til 2005 muni sérleyfishafarnir nota til þess að endurskipuleggja starfsemina enn frekar þannig að þegar að útboðum kemur, þá verði það kraftmikil grein sem takist á við nýja tíma, en ekki atvinnugrein á undanhaldi eins og þróunin var. Ef vel verður á haldið af sérleyfishöfum ættu þeir að geta bætt þjónustuna í góðum bílum og lækkað verð. Einungis við þær aðstæður mun farþegum fjölga.


Flug til jaðarbyggða boðið út með ríkisstyrk
Miklar breytingar hafa orðið á flugsamgöngum síðasta áratug. Farþegum í flugi hefur fækkað sem og áfangastöðum í áætlunarflugi. Opnun markaða árið 1997, ásamt stórbættum vegsamgöngum, átti ríkan þátt í þeirri þróun. Eins og eðlilegt er þá taka flugrekendur í dag viðskiptalegar ákvarðanir í rekstri sínum þegar ákveðið er hvaða leiðum eigi að halda úti. Til þess að tryggja samgöngur til jaðarbyggða, sem ekki njóta viðunandi samgangna á landi, var tekin ákvörðun um að bjóða út flugleiðir til þessara jaðarbyggða. Að frumkvæði samgönguráðuneytisins var jafnframt efnt til sameiginlegs útboðs á áætlunar- og sjúkraflugi. Þær flugleiðir, sem njóta beinna ríkissstyrkja eftir útboð, eru flugleiðirnar Reykjavík-Gjögur, Ísafjörður-Vesturbyggð, þegar heiðarnar eru ófærar, Reykjavík– Bíldudalur, Reykjavík-Hornafjörður, Akureyri-Grímsey, Akureyri-Þórshöfn og Akureyri-Vopnafjörður. Þessar mikilvægu aðgerðir tryggja samgöngur og leiða jafnframt til eðlilegra aðstæðna fyrir flugfélögin. Allt bendir til þess að innanlandsflugið sé nú að styrkjast í kjölfar þessara breytinga. Eru það ánægjuleg tíðindi á sama tíma og endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar er að ljúka. Mun það bæði auka öryggi í innanlandsfluginu og bæta alla aðstöðu þeirra sem nýta sér flugsamgöngurnar.


Samræmi í almenningssamgöngum.
Samfara framangreindum breytingum hefur stjórnsýsla almenningssamgangna verið endurskipulögð. Var ákveðið að almenningssamgöngur, sem heyra undir samgöngu-ráðuneytið, skyldu vera á ábyrgð einnar stofnunar þ.e. Vegagerðarinnar. Vegagerðin fer nú með framkvæmd sérleyfiskerfisins, flugútboða, ferja og flóabáta í umboði ráðuneytisins. Þannig er tryggt að ákvarðanir um þessa þjónustu eru teknar á samræmdan hátt. Jafnframt er að því stefnt að allir rekstrarstyrkir verði veittir á grundvelli útboða og bendir allt til þess að því markmiði verði náð þegar árið 2005. Einnig má nefna hugmynd um að tengja saman sérleyfin og skólaakstur vegna framhaldsskólanna. Í tengslum við það hafa átt sér stað viðræður milli ráðuneytis, Vegagerðar og sveitarfélaga á Vesturlandi. Það er von mín að þær viðræður geti leitt til enn frekari úrbóta á þjónustu á vegum sérleyfishafa á svæðinu.

Það er mat mitt að nú sé búið að tryggja til langframa samfellt grunnkerfi almennings-samgangna á Íslandi, hvort sem er með ferjum, flugi eða sérleyfisbifreiðum. Á þennan grunn er hægt að byggja og treysta mikilvæga þjónustu við íbúa hinna dreifðu byggða og ekki síður þjónustu við þá fjölmörgu ferðamenn sem koma til landsins og skapa vaxandi gjaldeyrisstekjur. Það er von mín að áfram verði hægt að þróa og bæta almenningssamgöngur í landinu til hagsbóta fyrir þá sem kjósa eða verða að velja þann ferðamáta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum