Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. nóvember 2002 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda 2002

Uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda var haldin 12. nóvember 2002 og við það tilefni flutti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ávarp.


Fundarstjóri, góðir gestir!

Það er mér sönn ánægja að fá að koma hingað og ávarpa uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda. Ég heyri að dagskráin í gær og í morgun hafi verið vel heppnuð enda hlýtur að vera bæði uppbyggilegt og skemmtilegt að vera í svo öflugum samtökum sem Ferðaþjónustu bænda er. – Á þessum vettvangi hafa gæðamál lengi verið til umræðu og sýnist mér sú umræða vera að taka á sig sífellt skýrari og metnaðarfyllri mynd. Ég óska ykkur góðs gengis á þeirri leið sem þið eruð að marka hér á þessari uppskeruhátíð enda eru það fyrst og fremst gæðin sem ákvarða hvaða viðkomustað ferðamaðurinn velur sér.

Það segir sig sjálft að ferðaþjónustan öll horfir mjög til þess sem gerist á vettvangi Ferðaþjónustu bænda því að þegar litið er á samtökin sem eitt sameinað afl þá eru fáir í aðstöðu til að móta með jafn skýrum hætti ásýnd heillar atvinnugreinar.

Um allan heim hafa vinsælir ferðamannastaðir og fyrirtæki í ferðaþjónustu þurft að gera ráðstafanir til að vernda þá náttúru og menningu sem ferðamennirnir sækast eftir að sjá. Þannig er reynt að koma í veg fyrir að gengið sé á mikilvægustu auðlindir ferðaþjónustunnar. Hér á landi er þessu eins farið og hafa nokkur fyriræki þegar aflað sér alþjóðlegrar umhverfisviðurkenningar. – Það var mér því mikið fagnaðarefni þegar fulltrúar ykkar í Ferðaþjónustu bænda komu á minn fund og gerðu mér grein fyrir því mikla undirbúningsstarfi sem átt hefur sér stað varðandi Green Globe 21 umhverfisvottun ferðaþjónustufyrirtæjanna innan vébanda Ferðaþjónustu bænda. Hér er á ferðinni stórmerkilegt verkefni sem mjög verður horft til hvernig tekst.

Allur undirbúningur hafði greinilega verið unninn af kostgæfni enda eru svo stór áform dæmd til að mistakast ef jarðvegurinn er ekki frjósamur og móttækilegur eða öllu heldur: fólkið reiðubúið til að láta hendur standa fram úr ermum. - Þegar ljóst var að Hólaskóli yrði úttektaraðili og tengiliður Ferðaþjónustu bænda og Green Globe 21 þá vissi ég að vel átti að vanda til alls málsins og ekki hætta á hagsmunatengsl eða annað sem varpað gæti rýrð á verkefnið. Samgönguráðueytinu var því heiður að því að styrkja þennan hluta vottunarferilsins – úttektina sjálfa - en ráðuneytið á þegar samstarf við Hólaskóla á sviði fjarkennslu í ferðamálafræðum.

Mig langar til að óska Ferðaþjónustu bænda velfarnaðar á þeirri leið sem er að hefjast. Öll eruð þið sérfræðingar í umhverfismálum og fróðlegt að sjá hvernig gengur að ná enn frekari árangri. Það ætti að sparast mikið þegar markvissar verður tekið á þeim þáttum sem snúa að því að hlífa náttúrunni. Einnig á að verða til markaðstæki sem þarf að beita af öllu afli í þeirri miklu samkeppni sem ríkir um ferðamenn í heiminum í dag.

Að lokum óska ég ykkur góðs gengis á fundinum hér í dag og vona að allir haldi heim með þá einlægu ósk að vinna íslenskri náttúru, menningu og efnahagslífi sem mest gagn í framtíðinni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum