Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. mars 2003 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Setningarávarp á Búnaðarþingi 2003

Síðastliðin ár hafa verið mjög viðburðarrík í íslenskum landbúnaði, rétt eins og í öðru atvinnulífi landsmanna. Það er samkeppni um hylli neytenda, afurðastöðvar keppa sín á milli á markaði og breyttar neysluvenjur krefjast þess að stöðugt séu nýjungar á markaði.

Bændur landsins eru kraftmikið fólk, þeir bregðast við aðstæðum á hverjum tíma, hagræða, stækka, draga saman í einu en auka annað. Í landbúnaði eru tækifæri og íslenskir bændur hafa alltaf verið reiðubúnir til að nýta þau.

Íslenskur landbúnaður rær allur á sama báti. Það verður að gæta að ákveðnu jafnvægi og rugga ekki bátnum svo flæði yfir borðstokkinn. Baráttan á kjötmarkaðnum hefur verið mjög hörð undanfarið, ekki síst vegna þess að aðilar utan landbúnaðarins hafa lagt fjármagn í tvær kjötgreinar og skapað slagsíðu. Jákvæðu fréttirnar eru að kjötmarkaður stækkar en þær neikvæðu að verðlagning tekur ekki mið af framleiðslukostnaði og eðlilegri framlegð. Hér er nauðsynlegt að staldra við og fara rækilega yfir þessi mál áður en allt er komið í óefni.

Í nautgriparæktinni er margt ánægjulegt að gerast. Kynbætur og betri búskaparhættir hafa aukið meðalnyt mikið og á skömmum tíma hafa meðalafurðir farið úr tæpum fjögur þúsund lítrum yfir fimm þúsund lítra. Á sama tíma verður mjólkin próteinríkari en áður. Auðvitað á mjólkurframleiðslan í mikilli baráttu á markaði og margar vörur sem veita henni samkeppni. En mjólkin er manninum lífsnauðsynleg til að byggja upp hraustan og sterkan líkama. Þess vegna eru mín skilaboð til æsku þessa lands: "Meiri mjólk, minna gos".

Samningur við kúabændur um framleiðsluskilyrði í mjólkurframleiðslu gildir til ársins 2005. Sá samningur hefur reynst vel. Bændur hafa endurnýjað hús og framleiðslutæki og ungt fólk er viljugt að koma til starfa.

Á síðasta ári var skipuð nefnd til að vinna að nýjum samningi um mjólkurframleiðslu. Guðmundur B. Helgason ráðuneytisstjóri leiðir þá nefnd og til að tryggja sátt um nýjan samning höfum við leitað til aðila vinnumarkaðarins til að vinna að þessari samningsgerð með bændum og ríki. Þeir hafa samþykkt að taka þátt í þessu starfi og vil ég nota þetta tækifæri til að fagna því.

Í væntanlegum samningum er að mörgu að hyggja. Það verður að gera samning sem tryggir starfsskilyrði til ákveðins tíma og að jákvæð þróun greinarinnar haldi áfram.

Þá þarf samningurinn einnig að taka mið af þeim breytingum sem óhjákvæmilega munu verða í reglum um alþjóðaviðskipti með landbúnaðarvörur.

Þær viðræður, sem nú eru hafnar, um breytt umhverfi í alþjóðaviðskiptum með landbúnaðarvörur munu hafa áhrif á íslenskan landbúnað. Fyrstu tillögur þjóða og þjóðabandalaga eru mjög breytt mynd frá því sem nú er. Ísland hefur nú þegar hafnað þessum tillögum með formlegum hætti og talið þær óásættanlegar. Þar vegur þyngst að við metum það svo að ekki gefist nægur tími til aðlögunar að breyttu kerfi og að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til sérstöðu þjóða eins og Íslands.

Það má hafa mörg orð um sérstöðu Íslands í verslun með landbúnaðarvörur. Trúlega viðgengst hér opnasti markaður fyrir landbúnaðarvörur í hinum vestræna heimi því 50% af allri orku sem við neytum í matvælum er innflutt vara, mest landbúnaðarvörur af ýmsum tegundum. Allt tal um verndarhyggju Íslendinga umfram aðrar þjóðir er rangt og auðvelt að sýna fram á það. Við þekkjum það þegar við flytjum út afurðir að alltaf er von á nýjum og strangari reglum hjá okkar viðskiptalöndum. Settar eru upp sérstakar innflutningshafnir þar sem varan verður að fara í gegn og þá er næsta lítið tillit tekið til þess hvort það henti öðrum ríkjum.

Íslensk yfirvöld munu því óhrædd halda fram sérstöðu Íslands og reyna eftir megni að fá þessa sérstöðu viðurkennda og skipa sér á bekk með þjóðum sem telja að útflutningsþjóðirnar eigi ekki skilyrðislausan rétt til að ryðja burt þeim landbúnaði sem þróast hefur í hverju ríki.

En íslenskur landbúnaður hefur áður staðið frammi fyrir miklum breytingum. Á hverjum tíma hefur framleiðslan verið aðlöguð aðstæðum og það mun einnig gerast nú. Við sjáum í þessu ákveðið tækifæri við að efla nýjar búgreinar og styrkja þannig búsetugrunn um landið allt. Fjölþætt hlutverk landbúnaðarins verður að meta að verðleikum og ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum er mikil.

Á síðasta ári fór ég til Kanada, á slóðir Vestur-Íslendinga í Manitoba. Þar upplifði ég sögu landnemanna sem brutust úr sárri neyð til þess þjóðfélags sem ég heimsótti og kynntist. Það var skemmtilegt að lesa bæjarheitin og sjá hversu vel þeir halda í sína íslensku arfleifð. Í þessari ferð hittum við meðal annarra hjónin Davíð og Gladys Gíslason á Svaðastöðum. Það var upplifun að heimsækja þau hjón og heyra af þeirra landbúnaði og þeirri félagslegu uppbyggingu sem þau hafa staðið fyrir. Mér fannst það eiga erindi til Íslendinga og það er mér sérstakur heiður að Davíð og frú þáðu boð mitt og Bændasamtaka Íslands um að koma í landsins og ávarpa Búnaðarþing.

Undanfarin fjögur ár hefur rýkt bjartsýni í sveitum og sátt um landbúnaðarstefnuna hjá þjóðinni. Þessa bjartsýni má sjá víða. Ég vil nefna hér að á síðustu fjórum árum hafa verið stofnuð 60 nýbýli til landbúnaðarframleiðslu. 60 ný fyrirtæki í landbúnaði eru miklar fréttir. Stór hluti þessara nýju býla er byggður vegna nýrra og aukinna verkefna í kringum skógrækt og hross.

Með því að efla landshlutabundnu skógræktarverkefnin með hverju árinu er verið að byggja upp fjöldamörg störf í íslenskum landbúnaði. Í hverjum landshluta hefur orðið til miðstöð með faglærðu fólki sem fær tækifæri til að vinna að fagi sínu út á landsbyggðinni. Í öllu tali um að lítt gangi að byggja upp atvinnu á landsbyggðinni, hefur of lítið farið fyrir þessu mikla starfi. Hér er virkilegt átaksverkefni á ferðinni sem mun hafa veruleg áhrif þegar fram líður, bæði í að byggja upp atvinnu í sveitum landsins og ekki síður við endurheimt landgæða.

Mér sem landbúnaðarráðherra finnst nauðsynlegt að efla enn frekar þessa starfsemi og hef því lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjárframlög og uppbyggingu hennar til næstu fimm ára. Reynslan sýnir að mjög mikill áhugi er fyrir því að taka þátt í þessu starfi og ekki hefur verið hægt að sinna öllum umsóknum. Þá sýnir reynslan einnig að þessi verkefni hafa veruleg byggðaleg áhrif.

Ég var sannfærður um það þegar ég tók við starfi landbúnaðarráðherra að í íslenska hestinum ættum við auðlind sem mætti og ætti að nýta betur. Þess vegna beitti ég mér fyrir því að setja á stofn samstarfsverkefni um aukið faglegt starf í þeirri grein. Hestamiðstöð Íslands í Skagafirði og Átaksverkefni hestamanna hafa nú starfað í þrjú ár og verið mjög gefandi fyrir greinina í heild.

Ég lagði áherslu á það í upphafi að möguleikar í hrossarækt byggðu ekki á auknum fjölda heldur faglegri vinnubrögðum. Ég vildi tryggja forystu Íslands í ræktun hestsins og hef því beitt mér fyrir því að Ísland sé viðurkennt sem upprunaland hans. Til að tryggja það urðum við að fullklára það starf Bændasamtaka Íslands að byggja upp Veraldar-Feng og fá önnur ríki til samstarfs um það verkefni.

Við þurftum einnig að byggja upp alhliða þekkingu og auka færni þeirra sem vinna í greininni. Þar hefur Hólaskóli farið fyrir með góðu starfi. Það starf hefur ekki eingöngu áhrif hér á landi því stór hluti nemenda á hestabraut, allt að helmingur, kemur frá öðrum löndum.

Landsmót á síðasta sumri var ein alherjar sigurhátíð fyrir íslenska hestinn. Þar mátti sjá stórstígar framfarir, glæsilega reiðmennsku og mótahald eins og það verður best í heiminum. Áberandi var hvað unga fólkið hefur náð miklum tökum í reiðlistinni, breiddin er orðin meiri og fagmennskan er allsráðandi. Uppskeruhátíðir eins og landsmót eru nauðsynlegar í hverri grein, því sú athygli sem þær kasta á greinina fjarar ekki út heldur viðheldur nauðsynlegri umræðu og eykur áhuga.

Heiðursgestur mótsins var hennar hátign Anna Bretaprinsessa. Heimspressan fylgdist með og hesturinn fékk verðskuldaða athygli. Ég á ekki von á að mörg hross hafi fengið viðlíka umfjöllum og reiðhestur hennar, Töfri frá Selfossi, glæsilegt afsprengi íslenskrar ræktunar.

Hesturinn hefur orðið aflvaki í annarri merkingu í íslenskum sveitum. Íslenskir hrossabændur hafa margir hverjir byggt upp glæsilega aðstöðu og erlendir auðmenn, sem hrifist hafa af hestinum, hafa keypt hér jarðir og byggt þær myndarlega upp með samstarfsmönnum sínum hér á landi. Með þessu móti er verið að reisa hestinum glæsilega umgjörð sem ekki er annað hægt en hrífast af. Ég bíð þessa samverkamenn íslensks landbúnaðar velkomna til landsins.

Á undanförnum árum höfum við glímt við samdrátt í útflutningi á hrossum. Sumarexem, hestapest, tollamál og aukin ræktun í öðrum löndum hafa gert það að verkum að markaðir fyrir meðal hross og lakari hafa dregist saman. Markaður fyrir góð hross er alltaf fyrir hendi og því þurfum við að vinna enn betur hér eftir en hingað til.

Margir einstaklingar hafa verið að vinna gott starf í markaðsmálum við erfiðar aðstæður. Margar góðar hugmyndir verða aldrei að veruleika vegna fjárskorts og oft hafa menn gengið verulega nærri sér í sínu brautryðjandastarfi. Ég hef því í samstarfi við utanríkisráðherra og samgönguráðherra ákveðið að setja á stofn embætti umboðsmanns hestsins. Tilgangur með því starfi verður fjölþættur en fyrst og fremst sá að aðstoða við og samræma markaðssetningu á hestinum, hestatengdri ferðaþjónustu og landinu í heild. Bændur og hagsmunaaðilar í hrossarækt verða að vera með í þessu starfi, mótun þess og framkvæmd.

Átaksverkefnið Áform hefur undanfarin ár unnið vel að markaðssetningu íslenskra landbúnaðarafurða víða um heim. Þó Áform hafi verið lagt niður verður í samræmi við ákvæði í búnaðarlagasamningi 25 milljónum kr. varið árlega til þessarar starfsemi og mun féð koma úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins.

Ég tel þetta starf mikilvægt og ljóst að mikið hefur áunnist, ekki síst í ímyndarvinnu fyrir Ísland. Stóra átakið Iceland Naturally hefur lyft grettistaki í Bandaríkjunum og því er auðveldara en ella að koma með íslenskar vörur á markað. Við vinnum á þröngum markaði sem tekur gæði fram yfir verð. Við höfum boðið samstarfsaðilum okkar hingað til lands, farið í heimsóknir til bænda og sýnt þeim hvar framleiðslan verður til. Viðbrögð þeirra eru ótrúleg. Þeir hrífast af landinu, afurðunum og hverning þær eru framleiddar. Litlu fjölskyldubúin í sauðfjárræktinni eru framleiðslueiningar sem þeir þekkja ekki annars staðar. Þeir eru allir af vilja gerðir til að vinna áfram með okkur og að því stefnum við. Við þurfum hins vegar að bæta okkar framleiðslu til að geta útvegað þeim þá vöru sem þeir vilja og þegar þeir vilja.

Ágætu Búnaðarþingsfulltrúar.

Ég hef stundum þótt tala af fullmikilli bjartsýni um möguleika íslenskra afurða. Hafi ég verið sannfærður áður, þá er ég þó enn sannfærðari nú. Á laugardagskvöldið síðasta var ég í mikilli veislu í Perlunni en þar var haldið lokahóf í mikilli matarhátíð, Food and Fun eða Fjör og Fæða. Á þá hátíð var boðið meistarakokkum frá Bandaríkjunum og Evrópu. Þeir voru gestakokkar á veitingahúsum bæjarins en á laugardag tóku þeir þátt í keppni þar sem eldaðar voru dýrindis krásir úr íslensku hráefni. Í lok keppninnar kepptust þeir við að lofa gæði hráefnisins, sérstaklega voru þeir hrifnir af lambakjötinu og skyrinu. Til að koma þessum skilaboðum áfram til neytenda var á sama tíma um 60 fréttamönnum, sem sérhæfa sig í að fjalla um mat og veitingahús, boðið hingað. Þetta er nauðsynlegur hluti þess að markaðssetja okkar vörur.

Þessir menn eru meistarar á sínu sviði. Þeir hafa unnið víða um heim og þekkja gott hráefni. Þegar ég heyrði lýsingar þeirra á okkar vörum og þeim möguleikum sem þeir telja að þær hafi á dýrustu veitingahúsum heimsins, þá varð ég glaður. Glaður fyrir hönd íslensks landbúnaðar og þá sérstaklega fyrir hönd íslenskra bænda. Ég heiti því að sem landbúnaðarráðherra skal ég gera hvað ég get til þess að sá dagur komi að íslenskar vörur skipi það öndvegi á markaði heimsins sem þeim ber.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem stóðu fyrir þessari hátíð, en það var ekki síst íslenskur landbúnaður.

Og þessi vinna heldur áfram. Nú er hafinn undirbúningur að því að Ísland verði skilgreind sem "sjálfbærasta eyja" veraldarinnar. Á grundvelli stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar um sjálfbært Íslands til ársins 2020 viljum við í samstarfi við alþjóðastofnanir og einstaklinga vinna að þessu máli áfram. Grunnhugsunin er sjálfbærni í hvívetna og af því hlýst að íslenskar vörur og íslensk ferðaþjónusta munu eiga enn meiri möguleika á markaði framtíðarinnar.

Ágætu tilheyrendur.

Ég hef nú nýlega kynnt í ríkisstjórn heildarendurskoðun á jarða- og ábúðarlögum. Í þessum frumvörpum er einfaldað mjög mikið það kerfi sem nú gildir um þessa málaflokka og litið þar til þeirrar reynslu sem fengist hefur á síðustu árum. Í frumvörpunum er verslun með jarðir gerð einfaldari og litið til fjölþættari nýtingu lands en áður var. Þá er einnig það nýmæli að jarðanefndir eru lagðar niður, enda er hlutverk þeirra minna eftir að sveitarfélögum fækkar og þau stækka.

Endurskoðun þessara laga var orðin tímabær. Nýting lands er nú með allt öðrum hætti en áður var. Tvöföld búseta og eftirspurn þéttbýlisbúa í land er vaxandi. Því fylgja margar jákvæðar hliðar fyrir landbúnaðinn og lífið í landinu. Líf í sveit er landbúnaður. Færri hafa lifibrauð af því sem við köllum hefðbundinn landbúnað en hinn fjölþætti verður æ meira ráðandi. Þessum nýju frumvörpum er ætlað að greiða fyrir þessari þróun í víðtækum skilningi.

Fleiri ný frumvörp sem snerta landbúnaðinn hafa komið fram. Eitt þeirra er frumvarp um Matvælastofu. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir að verkefni sem nú heyra undir þrjú ráðuneyti og að hluta til undir sveitarfélög verði sameinuð í nýrri stofnun og sett undir eitt ráðuneyti.

Ég er á margan hátt hlyntur þessu frumvarpi. Ég hef sagt það áður við setningu Búnaðarþings, að við verðum að gæta vel að hreinleika okkar ágætu afurða. Ég orðaði það sem svo að ekki mætti koma móða á þá mynd.

Gallinn við það frumvarp sem fram er komið, er að það er ekki merkt neinu ráðuneyti. Ég hef kynnt það sem mína skoðun að það eigi að vistast í landbúnaðarráðuneytinu. Eftirlit með matvælum og heilbrigði búfjár hefur lengi verið einn möndullinn í starfi þess ráðuneytis. Undir minni stjórn hefur verið unnið að því að treysta þetta starf m.a. með því að styrkja embætti yfirdýralæknis. Þá hefur líka verið unnið að því að koma á gæðastýringu sem víðast, auka rekjanleika afurða og treysta í hvívetna heilbrigði afurða. Stjórn búvöruframleiðslunnar, bætt landnýting, menntun, leiðbeiningar og rannsóknir hafa allar tekið mið af þessu mikilvæga verkefni. Þess vegna vil ég að landbúnaðarráðuneytið stjórni áfram þessum málaflokki og beri ábyrgð á að það sé vel gert. Sú fyrirmynd er þekkt í Danmörku og fleiri löndum og reynslan af henni góð.

Ágætu Búnaðarþingsfulltrúar.

Eitt það ánægjulegasta sem ég hef komið að sem landbúnaðarráðherra er að vinna með samtökunum, "Lifandi landbúnaður – Gullið heima". Konurnar hafa verið að minna á sig og notað til þess skemmtilegar aðferðir sem duga. Íslenskar sveitakonur hafa staðið fyrir lífsgleðihátíðum og baráttu fyrir íslenskar sveitir. Þær eiga auðvelt með að nálgast neytendur, þær eru baráttusveit sem er að hefja stórsókn.

Ég hef lengi verið meðvitaður um nauðsyn góðrar leiðbeiningaþjónustu í landbúnaði. Ég fagna meiri samvinnu búnaðarsambanda, sem gefur aukin færi á sérþekkingu starfsmanna. Ég fagna metnaðarfyllri leiðbeiningum þar sem hluti bænda er tekinn í fóstur í sérstökum tilraunaverkefnum eins og Sunnu-verkefninu hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Ég fagna því að aukin fjöldi búfræðikandidata frá hinum ágæta Landbúnaðarháskóla á Hvanneyri fer í framhaldsnám við erlenda háskóla og kemur til baka með víðsýni heimsmannsins.

Þegar ég heimsæki Búnaðarmiðstöð Suðurlands og hitti fyrir á sama stað ráðunautana, skógræktarmennina, dýralæknana og veiðiráðgjafann, þá fæ ég það sterklega á tilfinninguna að svona eigi þetta að vera. Búgarður á Akureyri og landbúnaðarmiðstöðin á Egilsstöðum eru stofnar af sama meiði.

Ég hef líka fylgst með þeim nýjungum sem einkenna rannsóknastarf stofnana í landbúnaði. Líftæknifyrirtækið ORF er að vinna að mjög áhugaverðum hlutum. Er heilbrigði framtíðarinnar bundið í ræktun íslenskra bænda? Munu lyfjaframleiðendur sækja hráefni vaxið úr íslenskri mold? Verða flugvélar framtíðarinnar unnar úr íslenskum afurðum? Þetta eru spurningar sem brenna á vörum þeirra manna sem þar vinna. Við verðum að finna leiðir til að fá þeim svarað. Með verulegu fjármagni til atvinnu- og vísindauppbyggingar hef ég trú á því að það takist.

Aukin samvinna stofnana og félaga landbúnaðarins er nauðsynleg. Í framtíðinni verða gerðar auknar kröfur til þeirra allra, kannski ekki alltaf sanngjarnar, en þessum kröfum þarf að mæta. Ísland er lítið land og í raun eru allar okkar stofnanir litlar. En þær eru öflugar og hafa unnið gott starf. Smæðin er falleg í eðli sínu og ég er ekki viss um að samruni sé alltaf lykilorðið. Samvinna er á mörgum sviðum betri, en þá verða menn að ganga í hana af heiðarleika og sanngirni.

Ágætu Búnaðarþingsfulltrúar.

Ég hef lagt mig eftir að treysta bönd milli þjóðar og landbúnaðar. Mig langar að nefna eitt dæmi þar sem ég tel að hafi tekist mjög vel. Með samningum við garðyrkjubændur var starfsskilyrðum þeirrar greinar breytt á veigamikinn hátt. Í stað tollverndar fá bændur nú beinar greiðslur vegna framleiðslu helstu tegunda og keppa því á heimsmarkaðsverði á innlendum markaði. Sérstök úttekt hefur verið gerð á þessari breytingu og þá kemur í ljós að neytendur fá nú vöruna á mun lægra verði en áður sem jafnfram þýðir að neysla afurðanna mun vaxa.

Ég vil enda þetta ávarp á ljóðinu Bátsferð eftir Einar Benediktsson skáld og stjórnmálamann. Á svipaðan hátt og hann lýsir þessari bátsferð sé ég fyrir mér framtíð landbúnaðar en minnumst þess að hver er sinnar gæfu smiður og landbúnaðurinn rær allur á sama báti eins og ég sagði í upphafi þessa ávarps.

Að leika upp æskunnar ævintýr
Með áranna reynslu, sem var svo dýr
Er lífið í ódáinslíki
Ég gref allt hið liðna í gleðinnar skaut
Ég gjöri mér veginn að rósabraut
Og heiminn að himnaríki.

Það er gaman að lifa, lífsgleðin á að vera í fyrirrúmi. Ég árna Búnaðarþingi og búnaðarþingsfulltrúum heilla í störfum. Íslenskur landbúnaður vekur athygli um víða veröld sem landbúnaður hágæða í einstakri náttúru. Bændafólki þessa lands sendi ég bestu kveðjur í lok kjörtímabils. Áfram skulum við stefna veginn að settu marki. Bændur gegna lykilhlutverki í byggðum Íslands.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum