Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. apríl 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Íbúaþing Seyðisfjarðar.

    Valgerður Sverrisdóttir,
    iðnaðar- og viðskiptaráðherra

    Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra,
    á íbúaþingi Seyðisfjarðar, 5. apríl 2003.

    Nú líður senn að lokum þessa kjörtímabils, en daginn sem ég tók við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra bættist nýr málaflokkur við verkefnaskrá ráðuneytisins, - þ.e. byggðamál. Byggðamál höfðu fram að þeim tíma verið á forræði forsætisráðherra, en það var mat ríkisstjórnarinnar að betra færi á því að málaflokkurinn færðist til fagráðuneytis sem hefði getu til að sinna málefninu.

    Mér var strax ljóst að byggðamálin féllu vel að öðrum málefnaflokkum ráðuneytisins. Það hentaði einnig vel að byggðamálin bættust við á þessum tímapunkti því að með því móti var hægt að fella þau inn í stefnumótunarvinnuna sem óhjákvæmilega fylgir því að taka við flóknum fagráðuneytum eins og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum.

    Ég setti mér í upphafi fjögur meginmarkmið til þess að vinna eftir. Í fyrsta lagi að auka fjölbreytni og bæta samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Í öðru lagi að treysta búsetu á landsbyggðinni. Í þriðja lagi að auka nýtingu innlendra orkugjafa. Og í fjórða lagi að efla samkeppni og neytendavernd.
    Til þess að auka fjölbreytni og samkeppnishæfni þarf margt að koma til. Bæði þurfa stjórnvöld að auðvelda breytingar og nýjungar í atvinnulífinu og atvinnulífið sjálft að finna hjá sér hvata til framþróunar. Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verulega lagt sig fram um þetta. Í fyrsta lagi hefur verið gætt að undirstöðum atvinnulífsins. Skattar á atvinnurekstur hafa verið lækkaðir og álögur ýmsar minnkaðar. Hafa þessar breytingar laðað til landsins fyrirtæki sem ella hefðu sett upp starfsstöðvar í öðrum löndum. Má þar nefna fyrirtæki í þróaðri iðnframleiðslu, eins og lækningavörum (stoðtækjaiðnaður) og lyfjagerð. Jafnframt hefur ríkið dregið sig út úr rekstri sem reynslan hefur sýnt að er jafnvel eða betur kominn hjá einkaaðilum. Er ég hér að vísa til þess að ríkið hefur dregið sig út úr rekstri vátryggingafélaga með sölu á Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, sem seld var bátaábyrgðarfélögunum, og með sölu á eignarhlut ríkisins í viðskiptabönkunum. Auk þess hefur ríkið selt Steinullarverksmiðjuna, Kísiliðjuna, Járnblendiverksmiðjuna og sala á Sementsverksmiðjunni stendur yfir. Hafa tekjur þær sem ríkið hafði af sölunni runnið til þess að styrkja grunn efnahagslífsins og tryggja efnahagslegan stöðugleika, auk þess sem verulegum fjármunum hefur verið varið til atvinnuuppbyggingar.
    Annað meginmarkmiðið var að treysta búsetu á landsbyggðinni. Eðli málsins samkvæmt fór nokkur tími í byrjun í stefnumótunarvinnu en fyrir um ári síðan leit byggðaáætlun fyrir árin 2002-2005 dagsins ljós. Framkvæmd hennar er nú komin á gott skrið. Þótt ekki gefist tími til að fjalla um framkvæmd byggðaáætlunar hér langar mig engu að síður að geta þess að fyrsta stóra verkefnið sem hrint var í framkvæmd í tengslum við byggðaáætlunina var opnun Nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri í lok síðastliðins árs. Nýsköpunarmiðstöðin á að vera framvörður í nýrri atvinnusókn á landsbyggðinni þar sem megináhersla verður lögð á aukna þekkingu og hæfni í atvinnulífinu. Í þessu felst m.a. víðtæk fræðsla um frumkvöðlastarfsemi, stofnun og rekstur fyrirtækja, endurbætur á innri gerð fyrirtækja, innleiðing nýrrar tækni í ný og starfandi fyrirtæki og nýsköpun á sem flestum sviðum.

    Tilkoma Nýsköpunarmiðstöðvarinnar byggir á þeirri grundvallarskoðun að til þess að landsbyggðin nái að þróast í takt við þarfir nútímans þurfi framfarir atvinnulífsins að grundvallast á nýrri þekkingu. Traust búseta byggist á því að til verði fjölbreytt atvinnulíf sem staðið getur undir vel launuðum störfum m.a. fyrir fólk, sem öðlast hefur háskólamenntun.

    Á sömu forsendum, - að menntun sé undirstaða atvinnuþróunar framtíðarinnar, höfum við menntamálaráðherra gengið frá samstarfssamningi um átak til uppbyggingar menntunar og menningar á landsbyggðinni, í samræmi við byggðaáætlunina. Þar er lögð áhersla á tengsl menntunar og menningar til eflingar atvinnulífs og nýtingu upplýsingatækni til að auka námsframboð. Veitt verður sérstöku fjármagni í 3 ár samkvæmt samkomulaginu til uppbyggingar háskólanáms á Egilsstöðum.

    Samgöngumál eru mikilvægur þáttur í byggðaþróuninni. Uppbygging byggðakjarna hér á Mið-Austurlandi grundvallast á því að unnt verði að tengja byggðirnar saman. Áherslur okkar framsóknarmanna hafa lotið að því að jarðgöng á milli byggðalaga gegni lykilhlutverki í styrkingu landsbyggðarinnar. Til þess að okkur takist að ná styrkri byggð hér á Austurlandi þarf að verða til þéttbýli sem býður upp á fjölbreytta atvinnu fyrir vel menntaða Íslendinga og veiti alla þá nauðsynlegu þjónustu og afþreyingu sem nútímasamfélag krefst.

    Í mínum huga er Seyðisfjörður órjúfanlegur hluti þessa þéttbýliskjarna Mið-Austurlands. Seyðisfjörður verður þannig þátttakandi í að styrkja byggð í þessu landi sem gerir Ísland að sterkri heild í alþjóðlegu tilliti.

    Uppbyggingin á Seyðisfirði verður því að haldast í hendur við þá framtíðarþróun sem mun verða hér á Austurlandi á næstu árum í tengslum við stóriðjuuppbyggingar í fjórðungnum. Ég tel ekki rétt að líta á Seyðisfjörð sem jaðarbyggð í því tilliti vegna þess að Seyðisfjörður gegnir nú þegar ákveðnu hlutverki sem þróa þarf áfram. Þannig er Seyðisfjörður hlið farþegaflutninga á sjó til Evrópu. Þetta gefur fjöldamörg tækifæri. Fjarskiptatengsl Íslands við önnur lönd hafa farið um Seyðisfjörð sem gefur ákveðið forskot á því sviði sem huga þarf að og nýta til frekari uppbyggingar.

    Auk þessa eru það samgöngubæturnar sem skipta munu sköpum. Þungamiðja atvinnuþróunarinnar á næstu árum verður á Reyðarfirði. Það er mikilvægt að Seyðfirðingar geti sótt vel launaða vinnu í álverið ef þeir svo óska, en ekki er síður mikilvægt að á Seyðisfirði geti orðið til afleidd störf og afleiddur iðnaður sem þjóni álverinu, eða þjónusta sem nýtir sér þau sóknarfæri sem ótvírætt verða til í tengslum við uppbygginguna.

    Þetta kallar á betri tengingu á milli byggðalaga. Á grundvelli þessa sé ég fyrir mér að þegar til lengri tíma er litið muni jarðgöng tengja Seyðisfjörð, Mjóafjörð, Norðfjörð, Eskifjörð og Reyðarfjörð og geri þessi byggðarlög að einu atvinnusvæði. Jarðgöng til Fáskrúðsfjarðar hafa verið ákveðin og það tíðkast ekki í samgöngumálum að hafa mörg orð um það sem er búið. Þá vil ég leggja áherslu á greiðar samgöngur við Hérað, ekki síst vegna flugsamgangna.

    Ég tel rétt að gerð verði kostnaðaráætlun þar sem ekki eingöngu verði dreginn fram kostnaður við gerð þessara samgöngubóta heldur einnig að ávinningur byggðarinnar hér og íslensks samfélags í heild verði metinn.

    Uppbygging Austurlands þarf að fylgja heildstæð stefnumörkun þar sem horft er til langs tíma. Við höfum nú nýjar forsendur til að ganga út frá sem er tilkoma álvers Alcoa í Reyðarfirði. Ávinningur þess mun hafa víðtæk áhrif og ef rétt er á málum haldið mun Seyðisfjörður ekki fara varhluta af þeim ávinningi.

    Ágætu ráðstefnugestir,
    Ég hef farið vítt og breitt um Austurland á síðustu vikum. Það hefur verið frábært að finna þann mikla kraft og þá miklu orku sem leyst hefur úr læðingi eftir að ákvörðun lá fyrir um uppbyggingu stóriðjunnar.
    Nú vitum við með vissu að Austurland á sér framtíð og ég leyfi mér að segja BJARTA framtíð. Við vitum líka að fólk vill búa á Austurlandi. Nú þegar hefur fólk tekið ákvörðun um að flytja austur og ungir Austfirðingar keypt sér fasteignir í fjórðungnum.
    Nú er gaman að vera í pólitík!




Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum