Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. maí 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársfundur Iðntæknistofnunar

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ræða iðnaðarráðherra á ársfundi Iðntæknistofnunar
á Grand Hoteli Reykjavík
22. maí 2003.



Fundarstjóri, ágætu ársfundargestir.
Það er mjög við hæfi að þessi ársfundur Iðntæknistofnunar Íslands skuli vera tileinkaður nýju fyrirkomulagi á opinberum stuðningi við vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun íslensks atvinnulífs. Ég er sannfærð um að með tilkomu Vísinda- og tækniráðsins gefst okkur langþráð og kærkomið tækifæri, til að blása til nýrrar sóknar fyrir nýsköpun atvinnulífsins. Í þeirri sókn mun Iðntæknistofnun gegna veigamiklu hlutverki.
Ég hef orðið vör við að miklar vonir eru bundnar við það starf Vísinda- og tækniráðsins sem nú er nýhafið. Jafnframt finn ég að þess er vænst að hið nýja fyrirkomulag muni leiða til þess að unnt verði að veita nýjum fræðasviðum aukið brautargengi, m.a. til þess að áhrifa þeirra gæti fyrr í íslensku atvinnu- og efnahagslífi.

Nauðsyn þessa er augljós. Hinir hefðbundnu atvinnuvegir hafa vissulega reynst okkur gjöfulir um langt árabil og verið undirstaða efnahagslegra framfara. Geta þeirra til að standa undir væntingum fólks um aukna velmegun og ný, fjölbreytt, vel launuð störf fer þó hlutfallslega minnkandi. Ljóst er að efnahagsþróunin verður því í auknum mæli að byggjast á nýrri vísindalegri þekkingu sem nýtt verður til að byggja upp fjölbreytt og samkeppnishæft atvinnulíf. Það gerist þó engan veginn af sjálfu sér og hafa alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sýnt að okkur hefur hingað til ekki tekist það nægjanlega vel.
Í mörgum löndum, sem við kjósum að bera okkur saman við, hafa stjórnvöld áhyggjur af því að of fáir stundi frumkvöðlastarfsemi. Á Íslandi virðist þetta vandamál ekki vera til staðar. Þvert á móti bendir ýmislegt til þess að hinn mikli frumkvöðlakraftur sem býr í þjóðinni nýtist okkur illa og beri ekki verðskuldaðan ávöxt.
Tvær meginástæður eru taldar vera fyrir þessu. Í fyrsta lagi er talinn vera viðvarandi skortur á fjármögnun til tækniþróunar og að fjármagn vanti til að fleyta sprotafyrirtækjum yfir á það stig að verða aðlaðandi fjárfestingakostur fyrir framtaksfjárfesta. Í öðru lagi sýna kannanir að frumkvöðlafræðslu sé ábótavant. Þetta kemur sennilega engum á óvart, enda nokkuð sjálfgefið að frumkvöðlar hafa fyrst og fremst þekkingu á afmörkuðu sviði en minni þekkingu á rekstri og markaðsmálefnum.

Ég tel að þessar niðurstöður kannana séu mikilvæg ábending sem við þurfum að taka alvarlega. Við þurfum að setja okkur það markmið að ná sem mestu út úr þeim frumkvöðlakrafti sem þjóðin býr yfir. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að skapa forsendur fyrir -aukinni sprotafjármögnun, -almennri frumkvöðlamenntun og -endurbótum á stuðningskerfi nýsköpunarinnar. Það er von mín að með nýjum stuðningsaðgerðum ríkisins við nýsköpun atvinnulífsins breytist þetta til batnaðar.
Í hinu nýja umhverfi mun iðnaðarráðuneytið axla það veigamikla hlutverk að fóstra nýsköpun atvinnulífsins. Það verður umfangsmikið og vandasamt verkefni -þar sem til grundvallar liggja afurðir vísindasamfélagsins og fyrir stafni eru fyrirheit um efnahagslegar framfarir og almenna velferð. Til þessa vandasama verks hefur iðnaðarráðuneytið fengið tvö tæki. Annars vegar er það Nýsköpunarmiðstöð sem rekin verður hjá Iðntæknistofnun og hins vegar nýr sjóður, - Tækniþróunarsjóður.

Yfirfærsla þekkingar til atvinnulífsins gerist ekki af sjálfu sér. Í hnotskurn verður það verkefni Nýsköpunarmiðstöðvarinnar að hlúa að nýsköpun atvinnulífsins og þörfum frumkvöðla á sem bestan hátt, -vera tengiliður frumkvöðla og lítilla og meðalstórra fyrirtækja við vísindasamfélagið annarsvegar og framtaksfjárfesta hins vegar. Þar verður rekið frumkvöðlasetur og sértæk stuðningsverkefni sem stuðla að bættum rekstri fyrirtækja og framgangi nýrra viðskiptahugmynda sem spretta af hugkvæmni einstaklinga eða rannsóknum og þróunarstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja.
Hitt tækið sem við höfum til að stuðla að framgangi nýsköpunarinnar er Tækniþróunarsjóður. Hlutverk hans á að vera að styðja tækniþróun og nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Áherslur Vísinda- og tækniráðsins á hverjum tíma verða ráðandi í starfseminni og í því sambandi mun hann m.a. stuðla að því að áherslur ráðsins á sviði vísinda geti fengið eðlilega framrás og leiði í raun og veru til eflingar atvinnulífsins og efnahagslegra framfara. Sjóðnum er ætlað að brúa bilið á milli Rannsóknarsjóðs annarsvegar og framtaksfjárfesta hins vegar, þ.e. þeirra sem vilja leggja fé í álitleg nýsköpunarverkefni. Þannig er sjóðnum ætlað starfa á svokölluðu nýsköpunarstigi, þ.e. - þegar í ljós er að koma að niðurstöður vísindarannsókna geti leitt til efnahagslegs ávinnings fyrir frumkvöðulinn. Þá hefjast rannsóknir sem m.a. lúta að gerð frumgerðar og hönnun framleiðsluferla en hvortveggja getur verið ráðandi um arðsemi hugmyndarinnar.
Ágætu fundarmenn.
Stefna ríkisstjórnarinnar í vísindum, tækniþróun og nýsköpun mun hafa víðtæk áhrif. Stefnan mun snerta stóran og margbreytilegan hóp fólks auk þess að hafa þjóðhagslega mikla þýðingu. Hún mun m.a. hafa áhrif á stefnu í byggðamálum og hafa mótandi áhrif á þær aðgerðir sem ráðist verður í til þess að styrkja atvinnulíf, velferð og almenn búsetuskilyrði á landsbyggðinni. Það fer ekki á milli mála að framundan er því mikið og vandasamt verk að vinna. Ég tek því fagnandi og er bjartsýn á að það muni verða vísindarannsóknum og nýsköpun atvinnulífsins til mikils framdráttar.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum