Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. maí 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársfundur Rarik á Egilsstöðum.

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Ræða á ársfundi RARIK á Egilsstöðum,
22. maí 2003.

Góðir ársfundargestir.
Í upphafi síðasta ársfundar Rafmagnsveitna ríkisins, sem haldinn var á Akureyri, bauð ég gesti velkomna í heimabyggð mína. Enn á ný get ég verið persónuleg í ávarpi mínu til 7. ársfundar RARIK á Egilsstöðum og boðið ársfundargesti velkomna í kjördæmi mitt.

Það er vel til fundið að halda þennan ársfund RARIK á því svæði þar sem hvað mest verður umleikis í orkumálum landsmanna á næstu árum. Mestu framkvæmdir Íslandssögunnar eru hafnar við Kárahnjúka og mannlífið tekur breytingum hér fyrir austan. Það er von mín og vissa að álver Alcoa muni reynast mikil lyftistöng fyrir Austurland og þjóðina í heild.
Góðir ársfundargestir. Ég vil hér í ræðu minni fara nokkrum orðum um þær breytingar á raforkumarkaði sem samþykktar voru á Alþingi í vor og framtíðarverkefni okkar á þessu mikilvæga sviði. Flestir sem starfa að orkumálum þekkja orðið megin inntak raforkulaganna. Með þeim á að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Á þessum sviðum eiga almennar leikreglur markaðarins almennt að gilda. Flutningur og dreifing raforku verða áfram sérleyfisþættir er lúta munu ríkara aðhaldi við tekjuöflun og fjárfestingar og aukinni kröfu um gegnsæi.

Samþykkt raforkulaganna var stór áfangi enda aðdragandi þeirra orðinn langur. Segja má að málið hafi verið meira og minna í vinnslu í iðnaðarráðuneytinu síðan árið 1996. Mikilvægt er að orkufyrirtækin fara nú að sjá fyrir endann á þessu ferli og geta því vonandi brátt skipulagt sig til framtíðar.

Ólík sjónarmið hafa togast á um efni raforkulaganna og gera reyndar enn. Er ekki við öðru að búast þegar um svo viðamiklar skipulagsbreytingar er ræða sem raun ber vitni í jafn mikilvægum málaflokki. Nægilegt framboð raforku er grundvallar forsenda í þjóðfélagi sem okkar og velta greinarinnar er mjög mikil samanborið við flestar atvinnugreinar í landinu. Þjóðarhagsmunir og hagsmunir einstakra fyrirtækja sem á þessu sviði starfa eru því mjög miklir. Þessir hagsmunir fara hins vegar ekki alltaf saman.

Raforkulögin koma til framkvæmda í áföngum en fyrsti áfanginn er 1. júlí 2003. Frá þeim tíma eiga öll vinnslufyrirtæki að búa við sama lagaumhverfi og njóta jafnræðis. Til að svo megi verða eru gerðar kröfur um bókhaldslegan aðskilnað í rekstri fyrirtækja sem starfa á fleiri sviðum en vinnslu raforku. Þá eru lagðar ákveðnar skyldur á flutnings- og dreifiveitur að gæta jafnræðis og tengja þá sem þess óska. Eru þær reyndar ekki mjög frábrugðnar þeim skyldum sem fyrirtækin hafa til þessa borið. Umhverfi flutnings- og dreififyrirtækja, þar með talið RARIK, verður að öðru leyti að mestu óbreytt til 1. júlí 2004. Þannig munu gjaldskrár vegna dreifingar raforku haldast að mestu óbreyttar til 1. júlí 2004. Fyrst þá munu tekjurammar Orkustofnunar hafa áhrif á gjaldskrár vegna flutnings- og dreifingar og reglur laganna um gólf og þak á arðsemi veitnanna taka gildi.

Sá þáttur sem mikilvægastur er í raforkukerfinu er flutningskerfið. Segja má að það sé lífæð kerfisins. Hefur sá hluti raforkulaganna sem um þann þátt fjallar enda verið umdeildastur. Lúta deilurnar að skilgreiningu flutningskerfisins og gjaldskrá vegna flutnings. Kjarni þessara deilna er hvernig skipta eigi kostnaði vegna flutningskerfisins. Til þess að ná viðunandi sátt um þennan þátt raforkulaganna var ákveðið að flutningskafli laganna skyldi ekki taka gildi fyrr en 1. júlí 2004. Fram að þeim tíma mun gilda bráðabirgðafyrirkomulag sem er mjög líkt núverandi fyrirkomulagi en tekur þó mið af skuldbindingum Íslands samkvæmt EES samningnum. Fram til næstu áramóta mun starfa nefnd sem er ætlað það hlutverk að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings raforku og uppbyggingu gjaldskrár vegna flutnings. Nefndin er fjölmenn en í henni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka, orkufyrirtækja, atvinnulífsins, launþega, neytenda og fleiri. Endurspeglar nefndin vonandi sem flest sjónarmið sem uppi hafa verið um þessi mál og er það von mín að með starfi hennar náist viðunandi sátt um málið. Væntanlega verða þó ekki allir sáttir enda er það ekki raunhæft markmið. Auðvitað hefði verið heppilegra að ljúka málinu í heild en það reyndist einfaldlega ekki unnt. Þessi lending leiðir þó vonandi til þess að sú skipan sem verður ofan á byggi á styrkum og endingargóðum grunni.

Nefndinni er einnig ætlað það mikilvæga hlutverk að gera tillögur um með hvaða hætti jafna eigi kostnaði vegna óarðbærra eininga í flutnings- og dreifikerfi raforku. Þetta mál er RARIK vel kunnugt enda eru það nú notendur á svæði RARIK sem standa undir stórum hluta kostnaðar vegna óarðbærra eininga í kerfinu. Kostnaðurinn er nokkuð vel þekktur eins og skýrsla nefndar sem ég skipaði og skilaði af sér árið 2001 ber með sér. Í henni voru settar fram tillögur sem útfærðar voru í frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi vorið 2002 en ekki náðu fram að ganga.

Það er þó ekki nokkur vafi á því í mínum huga að vilji Alþingis stendur fyrir því að jafna kostnað vegna flutnings- og dreifingar raforku þar sem hann er mestur. Ástæða þess að ekki var frá þessu gengið var fyrst og fremst að ekki var sátt um það hvernig afla skyldi þeirra fjármuna sem nota á til að jafna þennan kostnað og hvernig standa skal að úthlutun fjármunanna. Þetta er því fyrst og fremst útfærsluatriði sem ég tel að nefndin muni geta leyst.

Síðustu tveir áfangar raforkulaganna eru 1. janúar 2005 og 1. janúar 2007. Á þessum tímamörkum mun sala raforku vera gefin frjáls. Fyrst til iðnfyrirtækja sem eru aflmæld og nota meira afl en 100 kw. Síðan einfaldlega allir notendur. Þetta eru nokkuð síðari tímamörk en upphaflega var gert ráð fyrir. Vegna ábendinga frá orkufyrirtækjunum, þ.á m. RARIK, var hins vegar tekin sú ákvörðun að hægja á opnunni. Er það ljóst að orkufyrirtækin eiga mikið verk framundan við að móta og þróa uppgjörskerfi sem nauðsynleg eru á opnum raforkumarkaði. Veitir þá örugglega ekki af þeim tíma sem lögin gera ráð fyrir.

Raforkulögunum tengjast einnig beint eða óbeint önnur lög sem einnig voru afgreidd á síðasta vorþingi. Lög um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði snerta RARIK beint. Með þeim lögum eru gerðar breytingar á lögum um einstök orkufyrirtæki og orkulögum. Miða breytingarnar, er snerta RARIK, að því að gera stöðu fyrirtækisins sem líkasta öðrum fyrirtækjum sem starfa á orkusviði og afnema ákvæði sem eiga heima í raforkulögunum eða fara í bága við þau.

Þá náðu fram að ganga lög um Orkustofnun og lög um Íslenskar orkurannsóknir. Með þeim á að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfsemi Orkustofnunar. Stofnunin fær mikilvægt stjórnsýsluhlutverk með raforkulögunum og nokkrar valdheimildir sem geta beinst að orkufyrirtækjunum. Var sala stofnunarinnar á ráðgjöf til hinna eftirlitsskyldu aðila talin skapa hættu á hagsmunaárekstrum sem koma yrði í veg fyrir til að stofnunin nyti trausts sem er afar mikilvægt.

Þó myndin af framtíðarfyrirkomulagi raforkumála hafi skýrst heilmikið með raforkulögunum er enn eftir mikil vinna. Nægir í raun að nefna vinnu flutningsnefndarinnar á komandi mánuðum í þessu sambandi. Þá munu reglugerðir líta dagsins ljós smám saman eftir því sem einstökum áföngum raforkulaganna er náð. Ennfremur bíða einnig mörg mikilvæg málefni frekari vinnslu á komandi mánuðum, s.s. stefnumótun vegna orkurannsókna, frumvarp til laga um hitaveitu og svo mætti lengi áfram telja.
Góðir ársfundargestir. Á undanförnum misserum hefur talsvert verið rætt um stöðu RARIK í nýju umhverfi raforkumála. Það er ekki að undra að starfsfólk RARIK skuli vera orðið langþreytt á umræðum um breytingar á rekstrarformi fyrirtækisins og sameiningu við Norðurorku og Orkubú Vestfjarða. Breytingar á vinnuumhverfi koma alltaf róti á huga starfsfólks. Ég kannast við þessa óvissu sjálf, því að í dag kemur í ljós hvort ég muni sitja áfram í hinu erilsama en skemmtilega starfi iðnaðar- og viðskiptaráðherra í nýrri ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Ég hvet starfsfólk RARIK til að líta á þessar breytingar sem tækifæri fremur en ógnun. Margt bendir til þess að í nýju skipulagi orkumála verði staða RARIK og landsbyggðarinnar sterkari en hún hefur verið fram til þessa. Hagsmunir landsbyggðarinnar og RARIK fara saman, öflugt atvinnulíf á landsbyggðinni eflir starfsemi fyrirtækisins og forsenda fyrir slíkri þróun er hagkvæmt og öruggt dreifikerfi um landið. RARIK er í dag langstærsti dreifingaraðili raforku hér á landi utan höfuðborgarsvæðisins og styrkur þess liggur í raforkuflutningi og dreifingu. Engum blöðum er um það að fletta að þegar breytingar verða gerðar á starfsemi fyrirtækisins verður að taka mið af þeim mikla mannauði, reynslu og þekkingu sem er að finna í starfsmönnum fyrirtækisins.

Góðir ársfundargestir. Óhætt er að segja að við stöndum á miklum tímamótum í orkumálum. Verulegar breytingar eru framundan og við tekur að allir þátttakendur á markaðnum verða að aðlaga sig að þessum breytingum. Það er stórt verkefni að breyta raforkumarkaðnum og þessar breytingar munu taka á. Ég get ekki á þessu stigi sagt til um hver staða RARIK verður að afloknum þessum breytingum. Það er of snemmt að segja til um það. Hitt vona ég að staða RARIK og landsbyggðarinnar muni styrkjast við breytingarnar.

Ég vil að síðustu þakka stjórn og starfsmönnum fyrir vel unnin störf.

Með þessum orðum árna ég ársfundargestum heilla í störfum sínum.
Ég þakka áheyrnina.





Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum