Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. júní 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Fundur með Samtökum iðnaðarins.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


Fundur með ráðgjafanefnd, formönnum og
stjórnum aðildarfélaga Samtaka iðnaðarins,
fimmtudag 19. júní 2003, að Hallveigarstíg 1, Reykjavík.


Ágætu fundarmenn.

Það er áhugavert að hlýða á áherslur í starfi Samtakanna og fyrirhuguð verkefni nýrrar stjórnar. Ég sé að áherslur ykkar og ráðuneytisins fara nokkuð vel saman enda hefur það komið fram á reglulegum samráðsfundum okkar að í flestum eða öllum málum eigum við samleið.

Ég sé mikinn samhljóm í áherslum í nýsköpun og atvinnuþróun og um eflingu menntunar. Hugmyndir varðandi endurskipulagningu ráðuneytanna eru athyglisverðar og ég gleðst að sjálfsögðu yfir því að samtökin ætla sér að vera virkur þátttakandi í verkefni Evrópusambandsins um "European Test Panel" - þar sem atvinnulífinu gefst tækifæri til þess að koma athugasemdum á framfæri um gerðir sem eru í mótun hjá ESB og áhrif gætu haft á starfsumhverfi fyrirtækja.
Hvað varðar Evrópumálin þá tel ég að þau mál verði meira til umfjöllunar á næstu misserum vegna breyttrar afstöðu Norðmanna. Þá verður athyglisvert að fylgjast með atkvæðagreiðslu í Svíþjóð um upptöku Evru.
Ég mun nú gera stuttlega grein fyrir áherslum okkar í iðnaðarráðuneyti í upphafi nýs kjörtímabils og fyrirhugðuðum þingmálum sem snerta iðnaðinn. Fyrst og fremst er um að ræða þau fjölmörgu verkefni sem lagður var grunnur að á fyrra kjörtímabili og okkur gefst nú tækifæri til að ljúka.

Almennt má þó segja að í sumar og í haust verði mótuð ný stefna fyrir næsta fjögurra ára tímabil. Sú stefna mun væntanlega byggja jafnt á fenginni reynslu og nýjum pólitískum áherslum. Það sem ég kem til með að drepa á nú er því líklegt til að taka einhverjum breytingum og þróast áfram.
Ef ég byrja á áherslum í nýsköpun og atvinnuþróun þá hefur grunnþáttur í stefnu ráðuneytisins verið að veita nýrri þekkingu og nýjum fyrirtækjum brautargengi með margvíslegum stuðningi. Í þessu felst m.a. að ráðuneytið vill stuðla að því að ný vísindaleg þekking nýtist í verðmætasköpun í atvinnulífinu. Áhersla hefur einkum verið á sprotafyrirtæki og lítil og meðalstór fyrirtæki. IMPRA er nýsköpunarmiðstöð sem rekin hefur verið hjá Iðntæknistofnun frá 1999 og hefur hún gegnt lykilhlutverki í framkvæmd þessarar stefnu ráðuneytisins.

Síðastliðinn vetur var Vísinda- og tækniráð stofnað. Með tilkomu þess verður til samræmd stefna ríkisstjórnarinnar um vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun. Fram til þessa hefur stefnumótunin verið á hendi einstakra ráðuneyta og ekki samræmd nema að litlu leyti. Gera má ráð fyrir að ný stefna ríkisstjórnarinnar í þessum mikilvæga málaflokki geti legið fyrir á fyrri hluta næsta árs.

Vísinda- og tækniáðið starfar í tveim nefndum, þ.e. vísindanefnd, sem heyrir undir menntamálaráðherra og tækninefnd, sem heyrir undir iðnaðarráðherra. Starfsemi nefndanna er rétt að byrja en gert er ráð fyrir að í október n.k. liggi fyrir fyrstu tillögur stefnumótunarinnar.

Í kjölfar nýsettra laga verður starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar IMPRU styrkt. IMPRA mun héðan í frá þjóna öllum atvinnugreinum. Verkefni Nýsköpunarmiðstöðvarinnar er að hlúa að nýsköpun atvinnulífsins á sem bestan hátt, vera tengiliður frumkvöðla og lítilla og meðalstórra fyrirtækja við vísindasamfélagið annarsvegar og framtaksfjárfesta hins vegar. Þar verða rekin sértæk stuðningsverkefni sem stuðla að bættum rekstri fyrirtækja og framgangi nýrra viðskiptahugmynda sem spretta af hugkvæmni einstaklinga eða rannsóknum og þróunarstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja.

Ég vonast til þess að á næsta ári taki til starfa nýr sjóður, Tækniþróunarsjóður, sem heyrir undir iðnaðarráðherra. Honum er ætlað að stuðla að endurnýjun atvinnulífsins með því að styðja tækniþróun og nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Áherslur Vísinda- og tækniráðsins á hverjum tíma verða ráðandi í starfseminni og í því sambandi mun hann m.a. vinna að því að áherslur ráðsins á sviði vísinda geti fengið eðlilega framrás og leiði í raun og veru til eflingar atvinnulífsins og efnahagslegra framfara. Sjóðnum er ætlað að brúa bilið á milli Rannsóknarsjóðs annarsvegar og framtaksfjárfesta hins vegar, þ.e. þeirra sem vilja leggja fé í álitleg nýsköpunarverkefni.
Nýsköpun atvinnulífsins er einn veigamesti þáttur í byggðamálum. Framkvæmd byggðaáætlunar 2002-2005 er komin á gott skrið og hefur samtals 1.700 m.kr. til ráðstöfunar á þriggja ára tímabili, til ársloka 2005. Byggðastefnan byggir á þeirri grundvallarskoðun að menntun, vísindaleg þekking og nýsköpun í atvinnulífinu séu grunnstoðir styrkrar búsetu á landsbyggðinni og forsenda efnahagslegra framfara og félagslegrar velferðar íbúanna. Með þessu má segja að stuðningur við hnignandi atvinnulíf hafi vikið en áherslan sett á uppbyggingu nýs atvinnulífs sem standi á grunni nýrrar þekkingar og reynslu.

Lögð hefur verið áhersla á að virkja krafta annarra ráðuneyta og njóta sérþekkingar þeirra til þess að það fjármagn sem til ráðstöfunar er í iðnaðarráðuneytinu til byggðamálefna aukist með viðbótarframlagi annarra ráðuneyta til sameiginlegra verkefna. Það er trú mín að þessi byggðaáætlun geti orðið atvinnulífinu á landsbyggðinni til framdráttar.
Ný raforkulög koma til framkvæmda 1. júlí - eftir rúma viku. Samkvæmt lögunum mun vinnsla og sala raforku lúta almennum lögmálum markaðarins en flutningur og dreifing raforku verður áfram háð sérleyfum og opinberu eftirliti sem verður í höndum Orkustofnunar.

Raforkulögin gera ráð fyrir að viðskipti með raforku verði frjáls í áföngum. Þann 1. júlí 2003 er það eingöngu raforkusala til stóriðju sem er frjáls en 1. janúar 2005 bætast flest iðnfyrirtæki í þann hóp. Þann 1. janúar 2007 geta heimilisnotendur fyrst valið raforkusala en frá þeim tíma verður fullt frelsi í viðskiptum með raforku.

Eitt meginatriði er þó ófrágengið, en það lýtur að því hvernig flutningi á raforku og gjaldtöku fyrir hann skuli háttað. Bráðabirgðafyrirkomulag mun gilda um flutning raforku í eitt ár eða til 1. júlí 2004. Samkvæmt því skal nefnd stjórnmálaflokka og helstu hagsmunaaðila, fjalla um fyrirkomulag flutnings raforku og jöfnun kostnaðar vegna flutnings og dreifingar og koma með tillögur um framtíðarfyrirkomulag þessara þátta. Þetta mál skal til lykta leitt fyrir árslok í formi lagafrumvarps.

Þegar flutningsnefndin hefur lokið störfum þarf að huga að gjaldskrármálum dreifiveitnanna, s.s. skiptingu landsins í gjaldskrársvæði en reglur laganna um ákvörðun tekjuramma fyrir dreifiveitur taka ekki gildi fyrr en 1. júlí 2004.

Í kjölfar raforkulaga er mikilvægt að unnið verði að stefnumörkun um rannsóknir á orkulindum, þ.á.m. hlutverki ríkisins á þessu sviði og endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna ríkisins. Þá hefur afgreiðsla leyfa vegna rannsókna á jarðhita sýnt að móta verður skýrari stefnu um leyfisveitingar vegna rannsókna og nýtingar auðlinda í jörðu og fallvatna, þ.á.m. um hvernig skuli gera upp á milli umsækjenda þegar tveir eða fleiri aðilar sækja um rannsóknar- eða nýtingarleyfi á sama svæði.
Nú er bygging Kárahnjúkavirkjunar hafin en gert er ráð fyrir að fyrsta afhending orku til álvers Alcoa í Reyðarfirði verði eftir tæp fjögur ár - eða 1. apríl 2007. Þá er unnið að undirbúningi fyrir nauðsynlega orkuöflun vegna stækkunar Norðuráls í Hvalfirði.

Landsvirkjun er ábyrg fyrir raforkuöflun fyrir stækkun Norðuráls. Landsvirkjun þarf að gera kaupsamninga við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja til endursölu á raforku til Norðuráls. Orkufyrirtækin hafa á undanförnum vikum staðið í samningum um orku- og flutningsverð raforku vegna fyrirhugaðrar stækkunar.

Forsvarsmenn Norðuráls vinna að fjármögnun verkefnisins og er niðurstöðu að vænta síðari hluta sumars. Fyrst þá geta eigendur fyrirtækisins tekið endanlega ákvörðun um það hvort ráðist verði í stækkunina. Stefnt er að því að stækkunin komi í rekstur á árinu 2006.

Í tengslum við aukna álframleiðslu hér á landi má geta þess að líkur eru á að ráðist verði í frumathugun á möguleikum þess að reisa rafskautaverksmiðju á Katanesi í Hvalfirði. Vegna tímaramma um verkefnið þarf niðurstaða þar að lútandi að liggja fyrir mjög fljótlega.

Þá eru frumathuganir á því hvort hagkvæmt kunni að vera að reisa PÓLYOL-verksmiðju á Húsavík komnar á fullt skrið. Ráðuneytið og Samtökin hafa sameiginlega komið að þessu verkefni frá 1997.

Í þessari upptalningu vil ég að lokum nefna að nú hillir undir að formlega verði tilkynnt hvort stálpípugerð IPT verði reist í Helguvík, en framkvæmdir eru reyndar þegar hafnar við undirbúning verksins.
Að lokum vil ég geta um nokkur lagafrumvörp sem unnið er að um þessar mundir og væntanlega verða lögð fram á næsta þingi.

Frumvörpin eru:

Frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum

Frumvarp til laga um hitaveitur

Frumvarp til vatnalaga

Frumvarp til breytinga á lögum um einkaleyfi

Frumvarp til laga um aðild að Evrópsku einkaleyfastofnuninni

Frumvarp til laga um uppfinningar starfsmanna

Frumvarp til laga um Evrópufélög

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu

Frumvarp til laga um vátryggingarsamninga

Frumvarp til laga um miðlun vátrygginga.

Um það bil 17 reglugerðir eru í vinnslu eða undirbúningi en margar þeirra lúta að framkvæmd raforkulaga. Ég held að óþarfi sé að gera grein fyrir þeim sérstaklega og læt máli mínu því hér með lokið.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum