Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. júlí 2003 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Vígsla ferjuhafnar á Seyðisfirði

Ávarp samgönguráðherra við vígslu ferjuhafnar á Seyðisfirði 31. júlí 2003.



Bæjarfulltrúar, bæjarstjóri, alþingismenn og góðir gestir.

Í dag fögnum við merkum tímamótum þegar tekið er í notkun svo veglegt mannvirki sem ferjuhöfn fyrir farþegaferju á borð við Norrænu sem siglir um úthafið milli Íslands, Færeyja og meginlandsins.

Það er mikill viðburður að tekið er í notkun slíkt hafnar og móttökumannvirki, sem leggur okkur til aðstöðu til þess að taka á móti fólki og farartækjum sem eykur flutninga til landsins og skapar mikil viðskipti í ferðaþjónustu um landið allt.

Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein og sú atvinnugrein sem hvað mest gróska hefur verið í hér á Íslandi síðustu misserin, enda er ferðaþjónustan stærsta atvinnugrein veraldar. Við höfum sótt hart fram með mikilli landkynningu jafnt í Evrópu sem í Norður Ameríku og okkur hefur tekist vel að markaðssetja landið sem áfangastað velmegandi ferðamanna, sem hrífast af landinu, náttúru þess, sögu okkar og menningu.

Við í samgönguráðuneytinu lögðum ríka áherslu á að allur undirbúningur mannvirkjagerðar fyrir nýja ferju væri vandaður og að samningar væru gerðir við skipafélag ferjunnar og bæjaryfirvöld, svo öllum mætti verða ljóst að ekki væri tjaldað til einnar nætur með svo mikilli fjárfestingu af hálfu ríkisins.

Skip getur siglt sinn sjó á vegum nýrra eigenda, en sérhæfð hafnarmannvirkin og móttöku búnaðurinn fyrir ferjuna verða ekki flutt um set ef aðstæður breytast. Í því ljósi þótti eðlilegt að ráðuneyti og bæjaryfirvöld næðu samningum þar sem hlutur ríkis, bæjarsjóðs og skipafélags væri skýr og skyldur ljósar.

Það þótti mikið í lagt þegar farið var af stað með gerð þessa mannvirkis og það var að mörgu að hyggja við rannsóknir og skipulag áður en hafist var handa við gerð hafnarbakka, brúar og vega að hafnarsvæðinu, sem hefur tekið miklum breytingum svo bæjarmyndin er önnur en áður var.

Það var nýlunda af hálfu ríkisins hvernig staðið var að því að koma á einni verkefnisstjórn undir forystu Gísla Viggóssonar verkfræðings hjá Siglingastofnun, sem hefur af miklu öryggi stýrt framvindu verksins í góðu samstarfi við Vegagerðina, heimamenn, hönnuði og verktaka.

Samstarf við heimamenn hefur verið ánægjulegt og þeir, sem af hálfu Seyðfirðinga komu að undirbúningi og framkvæmd, sýndu mikið áræði en jafnframt mikla ábyrgð. Vil ég sérstaklega þakka Adólfi Guðmundssyni fyrir hans þátt.

Öllum þeim sem hafa komið að gerð þessa mannvirkis vil ég, sem samgönguráðherra, þakka fyrir vel unnið verk og vænti þess að hér megi ríkja gróska í anda þeirra bjartsýnismanna frá Færeyjum, sem riðu á vaðið með smíði nýrrar Norrænu til þess að brúa Atlandshafið með siglingu ferjunnar glæsilegu.

Megi gæfan fylgja þeim sem um þessi hafnarmannvirki fara.
Með þeim orðum afhjúpa ég nafnspjöld fyrir bryggjurnar tvær þá gömlu sem hér eftir ber nafnið Bjólfsbakki og þá nýju sem ber nafnið Strandarbakki.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum