Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. ágúst 2003 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Setning 6. Unglingalandsmóts UMFÍ

Ávarp Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra starfandi menntamálaráðherra við setningu 6. Unglingalandsmóts UMFÍ 1. ágúst síðastliðinn.



Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Moussaieff. Formaður UMFÍ.
Ágætu Unglingalandsmótsgestir.
Ég vil bera ykkur góðar kveðjur frá menntamálaráðherra, Tómasi Inga Olrich, en hann hafði ekki tök á að vera hér í dag.

Það er mér bæði ánægja og heiður að fá að vera með ykkur á Unglingalandsmóti á Ísafirði.

Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert er nokkurri þjóð mikilvægara en heilbrigð og glöð ungmenni sem sinna íþróttum og félagsstarfi.

Eitt af meginhlutverkum Ungmennafélags Íslands er að efla félagsþroska einstaklinga og gera þá betur hæfa til að takast á við lífið og tilveruna. Þróttmikil og fjölbreytt starfsemi ungmennafélaga um land allt á liðnum áratugum byggir á þrotlausri og óeigingjarnri vinnu fjölda einstaklinga, sem hefur tvímælalaust skilað sér til æsku landsins. Þjóðin þekkir og metur mikils það starf.

Samkeppni um tíma og áhuga barna og ungmenna hefur aukist verulega á síðustu árum og bera endalaus afþreyingartilboð því best merki. Áreitið er mikið og vandi að velja milli hinna ýmsu gylliboða. Það kemur hins vegar ekki á óvart að rannsóknir hafa leitt í ljós að þau börn og ungmenni, sem taka þátt í félags- og íþróttastarfi eru síður líkleg til að lenda í erfiðleikum á unglingsárum. Þátttaka í skipulögðu félags- og tómstundastarfi, undir leiðsögn reyndra og menntaðra leiðbeinenda og þjálfara, verður sífellt mikilvægari í uppeldi og þroskaferli ungs fólks.

Miklu skiptir fyrir börn og ungmenni að vera virkir þátttakendur í skipulögðu starfi en ekki óvirkir neytendur. Því er nauðsynlegt að efla krefjandi starf á vettvangi félaga eins og Ungmennafélags Íslands, sem býður ungu fólki upp á þroskandi en um leið skemmtilega afþreyingu.

Að gefa unglingum og foreldrum tækifæri til að koma saman bæði í leik og keppni við kjöraðstæður um Verslunarmannahelgi er góður kostur, bæði fyrir unglingana og ekki síður fyrir foreldra og forráðamenn þeirra. Sá tími sem við verjum með börnum okkar er okkur öllum mjög dýrmætur. Ákvörðun UMFÍ að halda Unglingalandsmótið hér á Ísafirði þessa helgi hefur tvímælalaust verið rétt. Sá fjöldi foreldra sem hér er sannar það. Af dagskrá mótsins má sjá að hér er af mörgu að taka, allir geta tekið þátt og verið virkir, því hér er mikið um að vera og margt í boði um þessa helgi.

Stjórnvöld hafa átt mjög góða samvinnu við Ungmennafélagshreyfinguna um langt árabil. Ráðuneyti hafa leitast við að fylgjast með starfinu og styðja við bakið á starfsemi UMFÍ eins og mögulegt er og leggur menntamálaráðuneytið áherslu á áframhaldandi mikið og gott samstarf við ykkur.

Ánægjulegt er að sjá hversu vel bæjaryfirvöld hér í Ísafjarðarbæ hafa búið að mótinu og hvernig Ísafjarðarbær hefur byggt upp aðstöðu sem er til fyrirmyndar.

Um þessar mundir auglýsa Ferðamálaráð og ferðaþjónustufyrirtækin í landinu ,,Íslands sækjum það heim". Með því að halda Unglingalandsmótin víðs vegar um land gefst kjörið tækifæri til að kynnast mannlífinu á viðkomandi stöðum, bindast vináttuböndum og skoða landið okkar. Við sækjum Ísland heim og komumst að raun um að það gott er að vera ferðamaður í okkar fagra landi.

Það er von mín að þetta Unglingalandsmót UMFÍ megi takast sem best og að starfsemi ungmennafélaganna megi dafna og vaxa í náinni framtíð, ungu fólki þessa lands til gæfu.

Þegar ég lít yfir þann glæsilega hóp sem kominn er til landsmóts á Ísafirði á fögru sumarkvöldi, milli hárra fjalla við lygnan fjörðinn, er ekki annað hægt en að gleðjast yfir því góða verki sem hér hefur verið unnið með kjörorðið "Íslandi allt" að leiðarljósi.

Ég flyt ykkur öllum kveðju ríkisstjórnar Íslands. Megi gæfan vera með ykkur í leik og í starfi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum