Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. ágúst 2003 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp ráðherra á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands ágúst 2003

 


Ágætu skógræktendur og góðir gestir.

Það er mér ánægja að hitta ykkur - að sjálfsögðu kát og hress - hér í miðjum Skagafirði þeirri fögru sveit. Ég hef oft vitnað til þjóðskáldanna og leyfi mér hér að minnast á þann andans auðjöfur og jarðræktanda Stephan G. Stephansson, Klettafjallaskáldið góða sem fæddist nánast hér í túnfætinum en flutti síðan vestur um haf og settist þar að; fyrst í Dakóta en þegar honum fannst að sér þrengja flutti hann sig um set yfir til Alberta í Kanada þar sem bústaður hans stendur til minningar um skáldið. Hér uppi á Arnarstapa er líka minnismerki okkar Íslendinga um þennan mæta landsins son.

Stepan var mikil jarðræktandi og færum við öld aftur í tímann eða hann væri ungur bóndi í Skagafirði nú hefði hann eflaust setið á þessum aðalfundi því skógrækt er landbúnaðar.
Ekki er því úr vegi að vitna í skáldið:

Þó þú langförull legðir
sérhvert land undir fót,
Bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót.
Frænka eldfjalls og íshafs
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós
sonur landvers og skers.

"Vötn" í klaka kropin
kveða á aðra hlið,
gil og gljúfur opin
gapa himni við.
Bergmál brýst og líður
bröttum eftir fellum,
dunar dátt í svellum;
Dæmdur maður ríður.
Hér er sagan alls staðar á næsta leiti; Hólastaður með öllum sínum biskupum, biblíum og menningararfi; Tignarlegt fjallið Glóðafeykir, hvar Helga Sigurðardóttir, fylgikona Jóns biskups Arasonar, faldi gersemar Hólakirkju meðan óvinir leituðu staðinn og rændu eignum; Flugumýri, þar sem Gissur jarl Þorvaldsson bjargaði sér í bruna 1253 með því að fela sig í sýrukeri; Örlygsstaðir hvar Sturla Sighvatsson var felldur í líklega mestu orrustu Íslandssögunnar 1238 og þá er Bóla skammt undan hvar Hjálmar Jónsson bjó sín síðustu ár. Úti fyrir landi hvílir svo Málmey með sinni huldukonu og fyrir miðju fjarðarins gefur að líta Drangey, hinsta dvalarstað útlagans Grettis Ásmundarsonar. Héraðsvötni renna um miðjan fjörð og í stað þess að skipta byggðinni sem var háttur margra stórfljóta hafa þau líklega átt meiri þátt í því en menn grunar að skapa það líf, þá lífsgleði og félagslyndi sem einkennandi er í samskiptum manna í Skagafirði. Við staðnæmumst við Héraðsvötn fyrir neðan Miklabæ og rifjum upp kyngimagnaða sögu um Solveigu og síra Odd. Sú saga varð einu þjóðskáldanna okkar að yrkisefni. Einar Benediktsson sér einmana prestinn sundríða vötnin. Uppi í hlíðinni stendur Miklibær. Örlagastundin nálgast.

Hleypir skeiði hörðu
halur yfir ísa.
Glymja járn við jörðu
jakar í spori rísa.
Hátt slær nösum hvæstum
hestur í veðri geistu.
Gjósta af hjalla hæstum
hvín í faxi reistu.

Já það er fallegt í Skagafirði og af mörgu að taka og þar sem annars staðar er skógrækt að festa rætur og verið að takast á við græða landið skógi með meiri þunga en verið hefur frá því land byggðist.


Góðir aðalfundargestir.

Nú eru liðin 4 ár síðan ég ávarpaði ykkur fyrst sem landbúnaðarráðherra á Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands á Laugarvatni. Þannig hafa mál þróast, - mér til mikillar ángægu að - mér var falinn þessi málaflokkur enn til forsjár við skipun núverandi ríkisstjórnar. Ég sagði til ánægju, því sannarlega get ég sagt að fáum störfum hef ég haft jafn gaman af að sinna og skógræktarmálum. Hvers vegna kunna ýmsir að spyrja? Við því er ef til vill ekki neitt einhlítt svar en þó hlýt ég að staðnæmast við að skógrækt stendur uppruna mínum nærri sem uppalinn var í sveit og þekki starf jarðræktandans. Skógæktendur eru kappsfullir, vilja sjá árangur, sækja mál sín af þunga og hafa meðbyr í þjóðfélaginu um þessar mundir. Vonandi verður svo um ókomna tíð. Við skulum enn rifja upp þá staðreynd að Ísland er nær skóglaust land og þrátt fyrir öflugan stuðning og fjölda þátttakenda í skógræktarstarfi munu enn líða ár þar til skóginn verður sú mikla auðlind þjóðarinnar sem við stefnum að. Allt bendir hins vegar til að svo verði og má vitna til þess að hér vex skógurinn hraðar og skilar fleiri rúmmeturm á hektara en í sjálfri Skandinavíu og er þá ekki stutt seilst til jöfnunar.

Á þeim árum sem liðin eru síðan aðalfundur ykkar var haldinn 1999 hefur margt vatnið til sjávar runnið á sviði skógræktarmála. Þar hef ég reynt að leggja hönd á plóg og von mín er sú að nokkuð hafi áunnist - alla vega var það markmiðið. Þá voru lágu fyrir nýsamþykkt lög um landshlutabundin skógræktarverkefni en aðeins tvö starfandi; Héraðsskógar og Suðurlandsskógar.
Frá þessum tíma hef ég heimilað stofnun fjögurra annarra verkefna. Norðurlandskógar, Vesturlandsskógar og Skjólskógar á Vestfjörðum voru settir á laggirnar árið 2000 og Austfjarðarskógar ári síðar. Nú eiga allir landshlutar kost á sömu fyrirgreiðslu hvað þetta varðar.

Á þeim aðalfundi sagði ég í ræðu minni:

"Eitt þeirra atriða sem þarf að taka til athugunar er breytt hlutverk hins opinbera og þá ekki síst Skógræktar ríkisins. Sú stofnun hefur unnið gífurlegt brautryðjendastarf á öllum sviðum skógræktar og án hennar tilstuðlan værum við ekki í þeim sporum sem við stöndum nú. Ljóst er hins vegar að nútíma viðskiptaumhverfi, ef svo má að orði komast, kallar á breytingar og aðrar áherslur. Því er nauðsynlegt að sest sé niður og markmið og hlutverk séu skilgreind."

Þetta hefur verið gert. Skógrækti hefur dregið sig út af markaði hvað plöntusölu varðar og plantar nú ekki trjám nema í sín eigin lönd. Áhersla hefur verið lögð á kynningu, leiðbeiningar, tilraunir, áætlanir og umsjón með þjóðskógum landsins. Markmiðið er að sú ágæta stofnun sé ávallt í stakk búin til að veita þjónustu og mæta faglegum þörfum skógræktenda á sem flestum sviðum

Ég leyfi mér að vitan enn til orða minna á aðalfundinum 1999 sem ég sat fyrst sem landbúnaðarráðherra.

"Ég geri mér ljóst að skógrækt kostar mikið fjármagn. Óhæfa væri að ætla að bændur, félagasamtök eða hugsjónamenn klæddu Ísland í skóg að nýju án opinberrar aðstoðar og sem betur fer dettur engum slíkt í hug. Á þessu sviði sem svo mörgum öðrum er það fjármagnið sem skiptir máli. Það mikla starf sem unnið er á sviði skógræktar og þau viðamiklu verkefni sem verið er að skipuleggja í öllum landshlutum kallar á stóraukin útgjöld hins opinbera til skógræktar ef sá árangur á að nást sem að er stefnt.
Sem betur fer stendur hugur landsmanna til þessara mála og sú staðreynd vegur þungt þegar fjármagninu er skipt. Ég mun leggja mitt að mörkum í þeirri baráttu en geri mér ljóst að langt er í að fullnægt sé fjárþörf til skógræktar á Íslandi."

Fyrir þessu hef ég barist með hjálp góðra manna og náð árangri.

Ég gekk frá nýjum samningi við Skógræktafélag Íslands og fjármálaráðuneytið þann 17. ágúst 2000 þar sem kveðið er á um að á árunum 2004 - 2008 skuli Skógræktarfélag Íslands fá 20. mkr. árlega til landgræðsluskógaverkefnisins. Það verkefni hefur sýnt sig og sannað og með þessum samningi er framhald þess tryggt næstu árin. Fjölmörg félög njóta góðs af þessari fjárveitingu og veit ég að Landgræðsluskógarnir er mikill þáttur í starfi Skógræktarfélags Íslands auk þess sem óeigingjarnt starf skógræktarfólks við plöntun trjáa breytir fjármununum í gróið og skógivaxið land. Fyrir þetta starf ykkar er ég afar þakklátur og óska ykkur velfarnaðar á þeirri braut í framtíðinni. Það var ánægjulegt að þarna skyldu samningar takast.

Ekki var það mér minni ánægja að takast skyldi að fá samþykkta á Alþingi nú í vor, langtíma stefnumörkun og fjárveitingar til landshlutabundnu skógræktarverkefnanna og Skógræktar ríkisins. Í þingsályktuninni er kveðið á um ákveðin fjárframlög hins opinbera til ársins 2009. Það kom marg oft fram að forsenda árangurs hjá skógræktarverkefnunum væri að þau gætu vitað fram í tímann yfir hvaða fjármagni þau hefðu úr að spila. Panta þarf plöntur með margra mánaða fyrirvara og til að undirbúingsvinna nýtist verður að vera tryggt að fjármagn sé til staðar þegar út á mörkina er farið til að "sveifla haka og rækta nýjan skóg".


Við viljum öll landi okkar vel og vitna ég aftur til Klettafjallaskáldsins:

Það er óskaland íslenskt
sem að yfir þú býr.
aðeins blómgróin björgin
sérhver baldjökull hlýr.
Frænka eldfjalls og íshafs
sifji árfoss og hvers
dóttir langholts og lyngmós
sonur landvers og skers.


Ágætu aðalfundargestir.

Ég ítreka ánægju mína með að vera meðal ykkar hér í dag og sömuleiðis hve ég hef haft gaman af að fylgjast með þeim mikla skógræktaráhuga sem nú ríkir. Það er sannarlega von mín og trú að skógrækt eflist og dafni og að hér muni vaxa skógur og verða ein af aulindum þessa lands í framtíðinni.
Ég óska skógræktarfélögum landsins og Skógræktarfélagi Íslands góðra tíma og allrar blessunar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum