Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. október 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Vígsla háskólanámsseturs á Egilsstöðum

Góðir gestir.

Í dag höfum við ríkt tilefni til að fagna. 5 ár eru síðan Fræðslunet Austurlands var formlega stofnað – og ég vil nota tækifærið til að óska aðstandendum þess til hamingju með áfangann og það góða starf sem þar hefur verið unnið. Meginmarkmið fræðslunetsins hefur verið að bæta aðgengi íbúa Austurlands að háskólanámi og símenntun og styrkja með því jákvæða byggðaþróun. Það er því einkar viðeigandi að fagna afmæli fræðslunetsins með opnun háskólanámssetursins hér í dag, en með stofnun þess er unnið að þróun tengsla rannsóknastofnana og atvinnulífs í landsfjórðungnum við háskólanám. Íbúum hér er þannig ætlað að verða virkir þátttakendur í þróun fjarnáms á háskólastigi.

Ég þarf varla að taka það fram að ég hef mikla trú á framtíð byggðarlaganna hér á Austurlandi. Ég finn það líka á samtölum mínum við íbúa hér að mikil bjartsýni er ríkjandi – jafnvel mætti taka svo sterkt til orða að segja að fólk hafi öðlast nýja tiltrú á framtíð byggðarinnar. Áhrif virkjana- og stóriðjuframkvæmdanna eru augljós – en því má ekki gleyma að til að tryggja jákvæða þróun byggðarinnar til langframa þarf að styrkja fleiri þætti samfélagsins. Þetta er okkur í iðnaðarráðuneytinu vel ljóst.

Við höfum lagt ríka áherslu á að byggð í landinu þróist á grunni þekkingar og nýsköpunar. Þessi áhersla birtist skýrt í áætlun ríkisstjórnarinnar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005. Þar er gengið út frá því að aukin þekking og hæfni fólks á ýmsum sviðum sé ein af meginforsendum þess að atvinnulíf á landsbyggðinni geti eflst og dafnað – og búsetuskilyrði þar með batnað. Ég tel að atvinnuþróun á landsbyggðinni muni að verulegu leyti ráðast af því hvernig til tekst að nýta þekkingu til að byggja upp nýjar atvinnugreinar og til nýsköpunar í hefðbundnum atvinnugreinum. Efling mennta-, rannsókna- og þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni og aukin tengsl slíkrar starfsemi við atvinnulíf á hverjum stað er þannig mikilvægur liður í að treysta undirstöður samfélagsins.

 

Með byggðaáætlun fylgdu tillögur um aðgerðir til að ná fram markmiðum áætlunarinnar. Ein þeirra lýtur að eflingu símenntunarmiðstöðva á Ísafirði og Egilsstöðum, sem menntamálaráðherra var falið að hafa umsjón með. Meginhugmyndin var að stofnað yrði til skipulegs samstarfs við háskólastofnanir undir forsjá miðstöðvanna og á grundvelli óska þeirra – með það að markmiði að bæta möguleika fólks til að afla sér háskólamenntunar og skapa um leið forsendur fyrir fjölbreytilegra atvinnulífi og sérhæfðari störfum. Markmiðið var líka að efla fræðslu- og rannsóknasamstarf háskólastofnana og heimamanna og vera nemendum og kennurum hvatning til að efna til og efla samstarf við fyrirtæki og stofnanir í viðkomandi landshluta.

 

Mikilvægur áfangi í átt að þessum markmiðum hefur náðst með opnun háskólanámssetursins hér í dag. Námssetrið er eitt þeirra verkefna sem iðnaðar- og menntamálaráðuneyti hafa ákveðið að styrkja á grundvelli sérstaks samkomulags ráðuneytanna um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni, sem menntamálaráðherra átti frumkvæðið að - og hefur staðið að af miklum myndarskap.

Samkomulagið, sem gert var í febrúar síðastliðnum, felur í sér að ráðuneytin munu vinna saman að verkefnum um eflingu menntunar og menningar á landsbyggðinni - í samræmi við byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Lögð verður sérstök áhersla á tengsl menntunar og menningar við eflingu atvinnulífs og notkun upplýsingatækni til að auka námsframboð á landsbyggðinni. Ráðuneytin hafa skuldbundið sig til að leggja hvort um sig fram að lágmarki 50 milljónir á ári í 3 ár til sameiginlegra verkefna á þessum sviðum. Með samkomulaginu er enn hnykkt á mikilvægi samspils menntunar, nýrrar og aukinnar þekkingar og atvinnulífs við uppbyggingu á landsbyggðinni.

 

Góðir gestir.

Ég vil að lokum ítreka hamingjuóskir mínar til aðstandenda Fræðslunets Austurlands með afmælið - og óska íbúum landsfjórðungsins innilega til hamingju með opnun háskólasetursins, sem ég bind miklar vonir við að stuðli að því að tryggja jákvæða þróun byggðar á Austurlandi til frambúðar.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum