Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. nóvember 2003 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ræða ráðherra á fundi SVFR


Ísland býr við mikla sérstöðu hvað náttúruna varðar, hreinleika hennar og fegurð. Ísland býr einnig við mikla sérstöðu í heilbrigði dýra, hvort heldur eru húsdýr eða fiskar í ám, vötnum og sjó. Þennan líffræðilega fjölbreytileika þarf að sjálfsögðu að virða og varðveita eftir því sem kostur er, ekkert síður en heilbrigðisástandið.

Landfræðileg einangrun og hversu við erum langt frá heimsins vígaslóð gerir það að verkum að varðhringurinn verður að vera sem traustastur og hef ég í mínum störfum viljað stuðla að því. En áhrifavaldarnir eru fjölþættir og hendur landbúnaðarráðherra ekki alltaf frjálsar.

Fyrir liggur að Ísland hefur þurft, samkvæmt þjóðréttarlegri skuldbindingu sem gengist var undir í EES-samningunum, að innleiða Evróputilskipun 91/67 í íslenska löggjöf. Tilskipunin tekur til skilyrða á sviði heilbrigðis tiltekinna eldisdýra sem hafa áhrif á markaðssetningu fiskeldisteguna og afurða þeirra á EES-svæðinu. Innleiðing þessi hefur óhjákvæmilega kallað eftir lagabreytingum og aðlögun að samræmdum reglum á EES-svæðinu og hefur það verkefni ekki bara fallið í mitt skaut, heldur Ríkisstjórnarinnar og Alþingis Íslendinga.

Ég hef aldrei frekar en starfsmenn mínir í landbúnaðarráðuneytinu sagt að hugsanlegur innflutningur á lifandi laxfiski sé hættulaus. Slíkur innflutningur getur vitaskuld verið hættulegur ef ekki er farið að ströngustu skilyrðum. Það segir sig sjálft að íslenskar laxveiðiár væru í minni hættu ef ekkert fiskeldi hefði þróast hér, engin fiskeldisdýr væru til staðar í landinu, og bann ríkti á að erlendir veiðimenn kæmu til landsins með tæki sín og tól, sem að vísu eru sótthreinsuð hér við komuna til landsins. Í veruleikanum verður áhættuþáttum aldrei eytt, en leitast verður við að stjórna þeim svo hugsanlegar áhættur í sambýli manns og náttúru geti talist ásættanlegar.

Ég hef staðið í talsverðri orrahríð vegna þessa máls og ýmsir reynt að setja á mig sök eða gera mig að óvini laxveiðiánna. Það hefur hver sjálfsvald að velja sér vini og einnig óvini. Ég tel hins vegar enga sanngirni fólgna í því að ásaka mig um að ég hafi sem landbúnaðarráðherra horft framhjá hagsmunum laxveiðiánna og bændanna sem bújarðirnar eiga. Ég hef aldrei efast um að villtir laxastofnar eru mikil auðlind sem standa beri vörð um, sem og þeir fjölþættu hagsmunir sem þeim tengjast.

Þegar ég tók við starfi sem landbúnaðarráðherra árið 1999 var búið að flytja til landsins norskan eldislax. Það var gert 1984 af fyrirtækinu Ísnó hf en fyrirtækið hóf laxeldi í sjókvíum í Lóni í Kelduhverfi árið 1987. Sú ákvörðun markaði tímamót, nýr framandi stofn af erlendum uppruna var fluttur inn í íslenska náttúru sem grunnur að nýjum atvinnuvegi, einkum fyrir landsbyggðina. Fiskeldi með Kollafjarðarstofni eða blönduðum íslenskum stofni var þá á útleið. Þessi innflutti stofn var í framleiðslu í seiðaeldisstöðvum, á stöðum í tilvikum sem enn orka tvímælis að mínu mati, svo sem á bökkum Laxár í Þingeyjasýslu.

Árið 1991 ákvað þáverandi landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, að styrkja kynbætur norska stofnsins um 15 mkr. á ári í fimm ár og ákvörðun um nytjastofn var tekin. Ég ætla ekki að fullyrða að hann hafi ætlað fiskinn í sjókvíaeldi, en þá voru vonir bundnar við að strandeldi gæti gengið upp. Síðar taldi fiskeldið sig ekki samkeppnisfært við þær aðstæður. Ríkið seldi síðan Stofnfisk eða norska eldislaxinn, sem nú er orðinn mikilvæg útflutningsvara. Ekki er ástæða til að gera lítið úr því enda miklir möguleikar til staðar í fiskeldi á landsbyggðinni sem framtíðaratvinnugrein.

Ég stóð frammi fyrir þessu öllu þegar ég varð ráðherra og við blasti nýr sóknartími í fiskeldi, vilji athafnamanna til að fara í laxeldi í sjó og ekki síður góður árangur og væntingar í eldi bleikju sem og sjávarfiska. Það var uppi áhugi á Hvalfirði, Faxaflóa og fleiri stöðum. Þegar óskir komu fram um heimildir til að ala lax af norskum uppruna í sjókvíum við strendur landsins ákvað ég að skipa nefnd til að fara yfir sambýli villtrar náttúru og fiskeldis. Farið var yfir lagalega stöðu fiskeldis, sögu þess og hugsanlega framtíðar staðsetningu þess. Í ljós kom m.a. að laxeldi í sjókvíum hafði ekki einungis verið stundað í Lóni í Kelduhverfi, heldur víða um landið, svo sem í Eyjafirði og á Austfjörðum. Þá kom einnig í ljós að löggjöfin hafði verið fátækleg og ekki gefið yfirvöldum svigrúm til að hafa afgerandi áhrif á mótun atvinnugreinarinnar. Í þessa vinnu var ráðist og lögunum breytt og starfsskilyrði fiskeldis hert til muna.

Ekki er leyfilegt að hefja fiskeldi án starfsleyfis frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfis frá Veiðimálastjóra. Því fer fjarri að allt hugsanlegt eldi geti hlotið starfsleyfi, en í því ferli er m.a. hægt að horfa til erfða- og vistræðilegra þátta. Öll fiskeldisstarfsemi krefst einnig rekstrarleyfis, en í því ferli er m.a. lagt mat á hættuna á sjúkdómum, erfðablöndun og neikvæðum vistfræðilegum áhrifum. Starfsleyfi er forsenda rekstararleyfis og hægt er að svipta menn rekstrarleyfi, t.d. vegna ítrekaðra slysasleppinga. Óheimilt er með öllu að flytja laxfiska úr eldisstöð í náttúrulegt veiðivatn, það er bannað að nota kynbættan eldislax til annars en fiskeldis. Ennfremur hefur sá sem hér stendur víðtækar heimildir til að takmarka eða banna fiskeldi, hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða landsvæðum sem teljast sérlega viðkvæm fyrir slíkri starfsemi. Slíkar ákvarðanir taka mið af því að því markmiði að vernda og hlífa villtum laxfiskastofnum við erfðablöndun, fisksjúkdómum og neikvæðum vistfræðiáhrifum. Þessa heimild laganna hef ég nýtt mér í Auglýsingu nr. 226/2001 og takmarkað eldi frjórra laxa í sjókvíum við fáa langa og djúpa firði fyrir austan og vestan, fjarri bestu laxveiðiánum. Ég vildi ekki að eldiskví væri til staðar í árósum bestu veiðiánna.

Ég kann sögur um mokveiði í Elliðaám, Laxá í Kjós o.fl. þegar lélegar kvíar rifnuðu í Faxaflóa. Þetta er nú liðin tíð. Ég tók ákvarðanir byggðar á lax- og silungsveiðilögum um að takmarka, um að loka og læsa fjörðum og heilu landsvæðunum fyrir sjókvíaeldi. Hef ég í hyggju á næstu dögum að útvíkka fyrrgreinda auglýsingu til að ná einnig yfir sjókvíaeldi ófrjórra laxa. Nú spyr ég ykkur: “Á ég einnig af öryggisástæðum að banna allt seiða- og laxfiskaeldi á bökkum laxveiðiáa, svo sem Laxár í Þingeyjasýslu?”


Góðir fundarmenn.

• Að loka heilu landsvæðunum fyrir fiskeldi hefur vakið heimsathygli.
• Að gera kröfur um að eitt af hverjum 10 seiðum skuli merkt í fiskeldi þykir afar athyglisvert.
• Að slátra eldisfiski áður en hann verður kynþroska er mikilvægt, en nú mun aðeins 1% fisks í Mjóafirði vera kynþroska við slátrun og eru það nánast eingöngu hængar.
• Um allt sjókvíaeldi gilda gríðarlega strangar reglur um allt svið starfseminnar, í búnaði, frágangi, og umgengni allri.

Mitt hlutskipti hefur verið, í stórum stíl að hafna beiðnum um innflutning á dýrum, þar með talið fiskum. Það hef ég gert samkvæmt lögum frá Alþingi til að vernda íslenska náttúru og heilbrigði dýrastofna á láði og legi.

Ég hef ekki alltaf fengið þakkir eða lof fyrir þessa stefnu og neitun fremur en mínir fyrirrennarar. Þessi vísa var ort í einu slíku tilefni, vegna þess að ég hafnaði eldi krókódíla við Húsavík:

Húsvíkingar sitja nú í sárum,
sviftir eru góðri tekjuvon.
Grætur köldum krókódílatárum,
kvikindið hann Guðni Ágústsson.

Mín störf hafa öll gengið út frá því að fiskeldi, og ekki síst sjókvíaeldi, getur verið ógn við villtan lax og því beri að fara af varúð og byggja atvinnugreinina upp eftir ströngum reglum. Því hef ég sem landbúnaðarráðherra verið að takmarka umsvif og frelsi fiskeldis á Íslandi, ekki síst hvað varðar notkun norsk-íslenska stofnsins, og hert á lögum og reglugerðum.
Ég vil trúa að þessar aðgerðir þýði að skaði verði lágmarkaður og áhætta færð innan ásættanlegra marka, að laxveiðiauðlindir í hinum góðu veiðiám skaðist ekki og að þessar tvær auðlindir, laxeldi í kvíum og frjáls lax í veiðiánum, þrífist við þessar aðstæður.


Góðir fundarmenn.

Mín lokaorð eru þessi: Ég er ekki síst varðmaður hins villta lax og laxveiðiánna, það mun sagan vitna um.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum