Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. nóvember 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Kynningarfundur á Ísafirði um byggðaþróun og samkeppnishæfni.

Ágætu fundarmenn.

Velkomin til þessa fundar sem ber yfirskriftina: Byggðaþróun og samkeppnishæfni.

Yfirskriftina má skýra á þann einfalda hátt að framkvæmd byggðaáætlunar 2002 –2005 miðar fyrst og fremst að því að byggja upp sterkt atvinnulíf og gott mannlíf á landinu öllu, sem er ein af meginforsendum þess að efla samkeppnishæfni landsins.

Til fundarins er boðað af iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti í samvinnu við verkefnisstjórn um byggðaþróun fyrir Vestfirði, en hún starfar á vegum ráðuneytisins. Með því að halda þennan fund viljum við marka upphaf vinnu við að meta og hrinda í framkvæmd hugmyndum ykkar Vestfirðinga sem settar eru fram í skýrslunni: Byggðaáætlun fyrir Vestfirði, sem kom út í fyrra.

Reyndar er ein þeirra hugmynda nú þegar komin á nokkurn rekspöl en hún er um fyrirtækjaklasa og verður fjallað um hana sérstaklega hér á eftir.

Í þessu yfirlitserindi mun ég skýra stuttlega frá framkvæmd byggðaáætlunarinnar og draga fram nokkur verkefni sem snerta Vestfirði sérstaklega.

Lítum fyrst á markmið byggðaáætlunarinnar (í styttri samantekt), en þau eru fimm:

1. Draga úr mismun á afkomumöguleikum fólks og skapa sem hagstæðust búsetuskilyrði.

2. Efla sveitarfélögin, styðja við atvinnuþróun, menntun og uppbyggingu grunngerðar þeirra.

3. Efla þau sveitarfélög sem hafa bestu möguleika til vaxtar og treysta varanlega búsetu.

4. Varðveita menningararflegð og efla menningartengt atvinnulíf.

5. Stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og ástunda sjálfbæra nýtingu auðlindanna.

Þessi fimm markmið liggja til grundvallar þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í. Í upphafi voru skilgreindar 22 aðgerðir, eða leiðir að þessum markmiðum, og hefur þeim verið fylgt að mestu leyti. Þar á meðal er að finna allmörg verkefni hér á Vestfjörðum.

Árið 2003 er fyrsta heila framkvæmdaár gildandi byggðaáætlunar og tvö ár eru eftir. Ný verkefni verða skilgreind á hverju ári og fer sú vinna í hönd í desember.

***

Ein veigamesta aðgerð byggðaáætlunarinnar er að styrkja nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfið á landsbyggðinni með því að gefa því sterkari stoðir til að standa á. Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri var stofnsett í árslok síðasta árs og mun nýtast Vestfjörðum ekki síður en öðrum landshlutum. Nýsköpunarmiðstöðin mun m.a. aðstoða við þróun viðskiptahugmynda, en veigamest er sennileg rekstur vel mótaðra stuðningsverkefna.

Sem dæmi um stuðningsverkefni sem unnin hafa verið í samvinnu við Vestfirðinga má nefna þátttöku ykkar í eftirfarandi sex verkefni:

1. Fiskur undir steini, en nýtt verkefni sem er í vinnslu en markmiðið þess er að útbúa leiðbeiningarefni og rekstrarlíkan um stofnun og rekstur smábáta og minni fiskvinnsla.

2. Nýsköpunarnám fyrir grunnskóla á Vestfjörðum, er einnig nýtt verkefni sem er í mótun með Kennaraháskóla Íslands og unnið í samstarfi við Atvinnuþróunarfélagið. Stefnt er að því að þetta námsefni geti síðar gagnast allri landsbyggðinni.

3. Brautargengi er 15 vikna námskeið fyrir konur sem hyggjast stofna fyrirtæki, eða eru með rekstur sem þær vilja bæta. Farið er í gegnum alla helstu þætti reksturs og viðskiptaáætlanir unnar fyrir álitlegar hugmyndir. Námskeiðið er haldið með hjálp fjarfundarbúnaðar samtímis á Akureyri, Ísafirði og á Egilsstöðum. Níu konur frá Vestfjörðum munu ljúka námskeiðinu í desember, en þátttakendur eru alls 64 á öllu landinu.

4. Tvö vestfirsk fyrirtæki taka þátt í vöruþróunarverkefni Nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Þau eru 3X-Stál sem eru vel á veg komnir í þróun nýrrar tegundar af sjóðar fyrir rækju og Beituverksmiðjan sem stefnir að því að hefja starfsemi fyrir árslok.

5. Nýsköpun í starfandi fyrirtækjum er verkefni sem rekið hefur verið í nokkra mánuði með þátttöku tveggja fyrirtækja héðan. Þau eru Hótel Ísafjörður og Vesturferðir.

6. Þá taka tvö vestfirsk fyrirtæki þátt í verkefninu skrefi framar, sem snýst um það að bæta rekstur og samkeppnishæfni fyrirtækja. Þau eru 3X-Stál og Rennex.

Stuðningsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvarinnar eru fjölmörg og stöðugt í endurskoðun. Boðið verður upp á ný verkefni eins og þörf verður á og er sjálfsagt að þið komið ábendingum um hvar skóinn þrengir svo unnt verði að bregðast við á sem bestan hátt.

***

Meginþunginn í framkvæmd byggðaáætlunarinnar eru samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytis og annarra ráðuneyta. Ákveðið var að fara þessa leið af því að byggðamál snerta verksvið flestra ráðuneytanna. Iðnaðarráðuneytið hefur því lagt áherslu á að ná fram nýjum áherslum í samvinnu við önnur ráðuneyti um verkefni sem falla að byggðaáætluninni. Hér á eftir eru þrjú dæmi um slíka samstarfssamninga:

1. Veigamesta samkomulagið er við menntamálaráðuneytið, en inntak þess er: Efling náms með fjarskipta- og upplýsingatækni. Lögð er sérstök áhersla á tengsl menntunar og menningar við þróun atvinnulífsins. Áhersla er lögð á að efla símenntun og starfsmenntun og stuðla að auknu námsframboði á öllum skólastigum. Meðal verkefna sem unnið er að á þessu ári má nefna:

· Þróunarverkefni í grunnskólum í dreifðum byggðum á Vestfjörðum (Vesturbyggð og Tálknafjörður)

· Efling þjónustu vegna háskólanáms og símenntunar á Vestfjörðum.

Ég tel að bæði þessi verkefni séu mjög framsækin og gætu haft verulega þýðingu fyrir byggðaþróunina í fjórðungnum.

2. Efling umhverfisstarfsemi fámennra sveitarfélaga er heiti á samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis um innleiðingu Staðardagskrár 21. Verkefnið fjallar um að aðstoða fámenn sveitarfélög til að ráðast í umhverfisbætur og efla sjálfbæra þróun. Vestfirðir munu væntanlega njóta verulega góðs af þessu samstarfsverkefni enda er mikilvægt að viðhalda og bæta ferska og heilnæma ímynd matvælaiðnaðarins.

3. Þá vil ég minnast á fjögur áhugaverð verkefni á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu sem unnin eru hér á Vestfjörðum. Þau eru hluti af samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytis og samgönguráðuneytis. Verkefnin eru þessi:

· Hlunnindabúskapur og sjósókn á sunnanverðum Vestfjörðum.

· Gullkistan: Veiðar og vinnsla sjávarfangs við Djúp.

· Gísla saga Súrssonar í ferðaþjónustu.

· Vefur til markaðssetningar og eflingar þróunarverkefna á Vestfjörðum

Eins og sjá má af þeim dæmum sem hér hafa verið dregin fram kemur framkvæmd byggðaáætlunarinnar víða við sögu og bind ég miklar vonir við að árangur þeirra verði umtalsverður í að styrkja búsetu á Vestfjörðum. Ábyrgð á framkvæmd verkefnanna er hjá viðkomandi samstarfsráðuneyti, enda um framkvæmd á fagsviðum þeirra að ræða. Iðnaðarráðuneytið hefur aftur á móti áhrif á verkefnaval og tryggir að áherslum byggðaáætlunarinnar sé fylgt.

***

Í þeim tilgangi að treysta fræðilegar undirstöður vinnu okkar á sviði byggðamála lét iðnaðarráðuneytið gera ítarlega úttekt á búsetu- og starfsskilyrðum á landsbyggðinni. Niðurstöðurnar eru birtar í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Byggðarannsóknarstofnunar þar sem lagt er til að efla þrjá stóra byggðakjarna utan höfuðborgarsvæðisins: Norðurland með Akureyri sem miðpunkt, Vestfirði með Ísafjörð sem miðpunkt og Miðausturland.

Þá liggur einnig fyrir "Byggðaáætlun fyrir Vestfirði" sem unnin var af sveitarfélögunum á Vestfjörðum og kom út í mars 2002. Þessar tvær skýrslur auk þeirrar þekkingar sem fengist hefur af vinnu við gerð Byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð hefur lagt góðan grunn að framkvæmd byggðaaðgerða fyrir Vestfirði.

Nú hefur Verkefnisstjórn um framkvæmd byggðaaðgerða fyrir Vestfirði tekið til starfa. Verkefnisstjórnin mun gera tillögur til ráðuneytisins um aðgerðir í byggðamálum fyrir Vestfirði næstu þrjú árin. Einkum á að horfa til aðgerða sem eru til þess fallin að styrkja Ísafjarðarbæ sem byggðakjarna á Vestfjörðum.

Ágætu fundarmenn.

Þessi síðasttöldu málefni eru umfjöllunarefni þessa fundar og er tilgangurinn að gefa ykkur innsýn í þá vinnu sem framundan er varðandi byggðaaðgerðir fyrir Vestfirði.

Takk fyrir

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum