Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. nóvember 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Íslenskur áliðnaður - ný meginstoð efnahagslífsins.

Ágætu ráðstefnugestir

Í upphafi máls míns vil ég þakka skipuleggjendum þessarar ráðstefnu fyrir framtakið. Ég vona að þið fyrirgefið mér hvað ég mæti seint til leiks en ég þurfti að sinna erindum úti á landi í morgun.

Umræðuefni þessarar ráðstefnu, um áliðnaðinn og áhrif hans á þjóðarbúið, er tímabært. Áratugum saman hafa íslensk stjórnvöld leitast við að nýta orkulindir landsins, m.a. til atvinnusköpunar á sviði stóriðju. Það hefur ekki setið ríkisstjórn í landinu á síðustu áratugum sem ekki hefur unnið að þessu markmiði. Því má segja að þrátt fyrir umræður og jafnvel deilur um einstaka verkefni hefur ríkt pólitísk samstaða um þessa stefnu. Við þekkjum það enda alls staðar í kringum okkur að þjóðir leitast við að nýta sínar náttúruauðlindir. Okkur Íslendingum hefur auðnast að gera það með skynsamlegum hætti.

Það hefur lengi verið ljóst að hinar hefðbundnu atvinnugreinar sem lögðu grunninn að okkar velferðarkerfi myndu ekki til frambúðar geta tryggt aukinn hagvöxt með fullri atvinnu og velsæld. Því hefur verið lögð áhersla á að auka fjölbreytni atvinnulífsins og hefur það tekist misjafnlega. Ferðaþjónusta hefur vaxið mjög og gefið nýja búsetumöguleika. Uppbygging áliðnaðar hefur einnig tekist afar vel.

Þótt hagfræðinga greini á um hvernig eigi að meta eða reikna ávinning þjóðarbúsins af stóriðju og hver ávinningurinn sé nákvæmlega, virðast allir, eða flestir a.m.k., sammála því að um raunverulegan ávinning hafi verið að ræða. Ég geri mér fulla grein fyrir annmörkum þeirra útreikningsaðferða sem menn hafa verið að beita til þess að komast að niðurstöðu en einn er sá þáttur sem seint verður metinn og skiptir ekki litlu máli að mínu mati. Það eru væntingar og áhrif þeirra. Ég hef sjálf orðið vitni að hugarfarsbreytingu á Austurlandi eftir undirritun samninganna um álver ALCOA. Þar ríkir mikil bjartsýni, fyrirtækin horfa nú til þess að auka umsvif síýn þar. Bankar opna útibú, sóst er eftir byggingarlóðum og þjónusta eykst, m.a. í samgöngum.

Páll Harðarson, hagfræðingur, ritaði grein í Fjármálatíðindi árið 1998 um áhrif stóriðju á þjóðarbúskapinn. Hann komst að þeirri niðurstöðu að núvirði ávinnings þjóðarbúsins alls af stóriðju til og með ársins 1997 hafi verið á bilinu 88 til 92 milljarðar króna eftir því hvort miðað var við 3,5 eða 4 % reiknivexti.

Til marks um aukið vægi áliðnaðar við gjaldeyrisöflun má nefna að á árunum 1961-1965 þegar engin álframleiðsla var hér á landi nam iðnaðarvöruútflutningur landsmanna 2,1 % af heildarvöruútflutningi, útflutningur landbúnaðarvara nam heilum 5,7 % og sjávarafurða 91,5 %. Meðaltal áranna 1980 – 2002 sýnir aðra mynd. Þá nam útflutningur landbúnaðarafurða aðeins 1,7 % af heildarvöruútflutningi, útflutningur iðnaðarvara án áls 10,8 %, útflutningur sjávarafurða 72,5 % og álútflutningur reyndist nema 12,2 % af heildarvöruútflutningi. Sé árið 2002 skoðað sérstaklega þá var hlutur álútflutnings kominn upp í 19% og sjávarafurða niður í 62,8%. Miðað við þær takmarkanir sem stærð fiskistofna setja þróun útflutningstekna af sjávarafurðum, er ljóst að vöxtur útflutningstekna verður að koma annars staðar frá.

Nokkur reynsla er nú komin á sambýli landsmanna við áliðnaðinn. Hafnfirðingar og nærsveitamenn hafa haft álver ÍSALs við túnfótinn hjá sér í góð 30 ár. Þrátt fyrir hrakspár í upphafi um þykkan reykjarmökk hefur ekki borið á öðru en fólksfjölgun hafi orðið ör í Hafnarfirði. Meira að segja hafa verið hafnar íbúðabyggingar í hrauninu rétt norðan og austan álversins. Þá hefur álver ÍSALs verið vinsæll vinnustaður frá upphafi. Og það segir sína sögu. Þá spillir það ekki fyrir að forstjóri ÍSALs er kona, en óhugsandi er að kona hefði verið ráðin forstjóri í stóriðju fyrir nokkrum áratugum síðan. Með framgöngu sinni í starfi hefur Rannveig Rist verið öðrum konum fyrirmynd og hún hefur svo sannarlega lagt sitt að mörkum til þess að brjóta niður kynjamúra í íslensku atvinnulífi. Ég nefni ÍSAL fyrst í þessari upptalningu því ég geri mér fulla grein fyrir því að ÍSAL hefur á sinn hátt rutt brautina fyrir önnur álfyrirtæki. Án ÍSALs hefði verið erfiðara að laða hingað til lands nýja aðila á þessu sviði.

Þótt styttra sé síðan Norðurál reisti sitt álver á Grundartanga er mér óhætt að fullyrða að jákvæð áhrif álversins á umhverfi sitt hafi orðið veruleg. Rekstur Norðuráls hefur haft áhrif allt upp í Borgarfjörð, svo ég minnist nú ekki á Akranes og næsta umhverfi. Ég átti þess kost að vera viðstödd afmælishátíð hjá Norðuráli fyrir nokkrum vikum síðan. Þar voru mættir starfsmenn með fjölskyldur sínar og leyndi sér ekki ánægja þeirra og stolt með vinnustaðinn. Vil ég fagna því að nú hyllir undir það að Norðurál muni ná samningum við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja um orku til þess að geta ráðist í stækkun verksmiðjunnar.

Reynsla heimamanna á Reyðarfirði af nábýli við álver er engin. Þeir geta hins vegar ornað sér við það að reynsla Vestlendinga og Hafnfirðinga er góð og síðast en ekki síst hafa forráðamenn ALCOA gert sér far um að umgangast heimamenn með fullri virðingu og sanngirni. Það er því ekki að efa að ALCOA mun verða það sem heitir á ensku "responsible corporate citizen" í Fjarðabyggð.

Eins og flestum ykkar er kunnugt hefur kúfurinn af undirbúningi stjórnvalda vegna stóriðjufjárfestinga hvílt á herðum Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, eða MÍL eins og skrifstofan hefur verið kölluð í daglegu máli. Þar hefur staðið í brúnni frá upphafi Garðar Ingvarsson, hagfræðingur. Vegna breytinga á lagaumhverfi orkufyrirtækja hefur sú ákvörðun verið tekin að slíta samstarfi ráðuneytisins og Landsvirkjunar. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka Garðari og hans hæfu samstarfsmönnum í MÍL fyrir langt og farsælt samstarf.

Ennfremur vil ég nota þetta tækifæri og skýra frá því að ég hyggst setja á laggirnar framtíðarnefnd um möguleika og frekari þróun áliðnaðar og ál-tengdra greina hér á landi. Hef ég þegar óskað eftir því að Garðar Ingvarsson leiði það starf.

Góðir ráðstefnugestir.

Við Íslendingar höfum orðið mikla og góða reynslu af starfsemi álfyrirtækja. Það er óhætt að segja að hin erlendu fyrirtæki sem hér hafa haslað sér völl, hafi hlotið góðar mótttökur. Ég kom hér að framan að hinni pólitísku samstöðu sem ríkt hefur í þessum efnum. Ég fullyrði að stuðningur stjórnvalda hefur haft áhrif á vilja fyrirtækjanna til að hefja starfsemi hér á Íslandi. En stjórnmálamenn geta ekki haldið úti pólitískri stefnu áratugum saman nema að baki búi stuðningur almennings. Hann hefur ekki skort. Iðnaðarráðuneytið fékk Gallup til að kanna viðhorf almennings til erlendrar fjárfestingar í síðasta mánuði. Samkvæmt þessari könnun eru 66% landsmanna hlynntir erlendri fjárfestingu en einungis 17% andvígir. Þá var spurt um afstöðu almennings til byggingu álvers í Reyðarfirði og reyndust 67% landsmanna hlynntir, 22% andvígir og 11% hvorki né. Miðað við fyrri kannanir um hið sama, kemur í ljós aukinn stuðningur við það verkefni. Í sömu könnun var spurt um afstöðu til byggingar nýrrar stóriðju á Norðurlandi. Í ljós kom að 60% þjóðarinnar er hlynnt þeirri uppbyggingu en 27,4% andvíg. Þessi niðurstaða kemur kannski einhverjum á óvart, en sýnir ótvírætt hug landsmanna til erlendrar fjárfestingar og uppbyggingu stóriðju.

Að lokum vil ég endurtaka þakkir mínar til skipuleggjenda ráðstefnunnar og frummælendum fyrir þeirra framlag hér í dag.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum