Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. desember 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Aldarafmæli Vatnsveitu Seyðisfjarðar

Ágætu hátíðargestir

Það er skammt stórra hátíða á milli hér á Seyðisfirði þessi síðustu misserin. Stutt er síðan haldið var hér í bæ upp á 90 ára afmæli Fjarðarselsvirkjunar, elstu starfandi virkjunar á Íslandi, með veglegum hætti. Og nú er komið að því að halda upp á aldarafmæli vatnsveitunnar á Seyðisfirði, en hún var fyrsta vatnsveitan sem lögð var í kaupstað hér á landi.

Af þessu má sjá að fyrir einni öld voru engir aukvisar eða úrtölumenn sem hér bjuggu, heldur öllu heldur brautryðjendur á sviði vatnsvirkjunar, hvort heldur var til raforkuframleiðslu eða heimilisnota. Lagning vatnsveitu í heilt bæjarfélag fyrir öld, sýnir augljóslega þann mikla stórhug og áræði er hér ríkti á þeim tíma. Þá voru hér á staðnum raunar mikil umsvif og fjölgun íbúa hröð. Einkum voru síldveiðar og aðrar fiskveiðar stundaðar í ríkum mæli og þörf atvinnulífsins og íbúanna var orðin mikil fyrir gott neysluvatn.

Það er svo með vatnið, þetta einstaka efni, að oft finnst okkur nú reyndar við hafa of mikið af því, eins og t.d. síðustu dagana fyrir sunnan. Í vatni átti lífið hér á jörðu upptök sín og allt líf okkar hér á jörðu er háð því og er undirstaða velferðar og heilbrigði manna og dýra. Þetta er öllum jarðarbúum ljóst er þurfa að búa við naumar vatnslindir eða sveiflukennda úrkomu hafa ómælda fyrirhöfn við að afla daglegrar neyslu. Öldum saman var nýting drykkjarvatns hér á landi takmörkuð við öflun drykkjarvatns handa fólki og fénaði og til þvotta og mikið var lagt upp úr þægilegu aðgengi að vatnsbólum. Þetta má sjá í þeim jarðabókum er unnar voru hér á landi á 18. og 19. öld en þar var og tekið tillit til gæða vatnsbóla við verðmat jarða. Nú í dag, 100 árum eftir að fyrsta vatnsveitan var lögð, finnst flestum ekkert eðlilegra en að vatnið streymi úr leiðslum og krönum í húsum okkar til daglegrar notkunar.

Við íslendingar höfum verið og erum því í hópi hinna vel settu hér í heimi varðandi skiptingu vatnsauðlindarinnar og ekki síður gæða hennar. Úrkoma er hlutfallslega jöfn í byggð hér á landi og þó svo að okkur finnist á stundum það vera okkur til erfiðis og baga í formi snjóalaga að vetri til, skulum við vera minnug þess þegar svo stendur á að snjóalögin eru oft forsendur að gjöfulu grunnvatni. Þetta þekkið þið Seyðfirðingar einna best, Fjarðarheiðin hefur oft reynst erfiður farartálmi að vetri til en snjóalögin þar hafa skilað bæjarbúum aftur ómældum lífsgæðum í heila öld.

Innilegar hamingjuóskir með þetta merka afmæli og megi bæjarbúar búa lengi að hinu merka átaki hinna framsýnu og stórhuga frumkvöðla er ruddu hér braut að velferð þjóðarinnar.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum