Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. mars 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Aðalfundur IcePro 2004

Ágætu fundargestir.

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag og hlotnast sá heiður að afhendi Icepro-verðlaunin.

Mikið hefur verið rætt um rafræn viðskipti á undanförnum misserum og árum og hefur nokkuð áunnist í þeim efnum. Á Icepro í því sambandi þakkir skyldar fyrir það mikilvæga starf sem unnið er á vegum vettvangsins.

Hins vegar má velta fyrir sér hvaða verkefni eru framundan á sviði rafrænna viðskipta fyrir ríkið og fyrir atvinnulífið.

I.

Ég tel að meginhlutverk ríkisins á þessu sviði lúti að því að tryggja að lög og reglur hamli ekki rafrænum viðskiptaháttum og þjónustu og að regluverk á þessu sviði sé skýrt. Í því sambandi vil ég nefna að á vegum viðskiptaráðuneytisins var á sínum tíma unnin skýrsla um lagaumhverfi rafrænna viðskipta, þar sem niðurstaðan var sú að íslensk lög væru að meginstefnu til fullnægjandi. Þá hef ég lagt fram á Alþingi nokkur frumvörp sem miða að þessu markmiði mínu og sem hafa verið samþykkt sem lög frá Alþingi. Þetta eru lög um rafrænar undirskriftir og lög um rafræn viðskipti.

Mér sýnist sem lögin um rafrænu viðskiptin séu að sumu leyti vanmetin og kannski ekki nægilega kunn aðilum á markaði. Lögin svara nefnilega þeirri spurningu sem oft er uppi, þ. e. hvaða lög eiga að gilda um starfsemi íslenskra aðila, sem hafa vistað síðu sína á netþjóni út í heimi og beina þjónustu sinni til annarra landa. Svarið við því er að líta ber til þess hvar raunveruleg staðfesta fyrirtækisins er. Ef hún er á Íslandi, þá ber að fara að íslenskum lögum, óháð því hvar vefsíðan er vistuð eða hvert þjónustunni er beint.

 

Einnig stuðla lögin að trausti aðila á rafrænum viðskiptum með því að mæla fyrir um hvaða upplýsingar ber að veita á vefsíðum almennt, óháð því hvort félög beina þjónustu sinni til neytenda eða annarra. Það ber nefnilega ekki að vanmeta grunneðli mannsins í tengslum við rafræn viðskipti. Hann vill vita við hvern hann er að eiga viðskipti. Það er mikill misbrestur á því að menn hafi lagað vefsíður sínar að lögunum. Samkeppnisstofnun hefur eftirlit með lögunum og mér er kunnugt um að hún er nú að gera gangskör í því að skoða vefsíður og athuga hvort þær fullnægja skilyrðum laganna.

 

II.

Niðurstaða okkar í ráðuneytinu hefur því verið sú að lagaumhverfi á Íslandi sé tiltölulega skýrt og að það setja ekki hindranir fyrir rafrænum viðskiptaháttum. Við erum hins vegar ætíð tilbúin til að taka mál til skoðunar, sé bent á hindranir í lögum á þessu sviði. Hins vegar má velta fyrir sér hvort mönnum sé nægilega kunnugt um þau lög sem um þessa viðskiptahætti gilda. Ég tel að það sé þörf á meiri kynningu á þessu sviði og beitti mér því fyrir því að slík kynning yrði þáttur í heildar stefnu ríkisstjórnarinnar á sviði upplýsingasamfélagsins, sem kynnt verður hér á eftir. Svo varð og munum við í ráðuneytinu vinna að því verkefni.

 

 

III.

Oft er talað um mikilvægi samstarfs á sviði rafrænna viðskipta. Nokkuð margir aðilar koma hér að málum á Íslandi og er Icepro eitt af þeim. Mikilvægt starf er unnið á vegum þessara samtaka, ekki síst Icepro, en hins vegar má velta fyrir sér hvort farsælla væri fyrir greinina að sameina kraftana meira en gert hefur verið til þessa. Ég er þeirrar skoðunar að þar sem við Íslendingar erum svo fá og markaður hér á landi smár, þá sé mikilvægt að dreifa kröftunum ekki um of. Ég leyfi mér því að varpa því fram hér til umhugsunar hvort huga ætti að einföldun á þessu sviði hér á landi.

 

Góðir fundarmenn. Þá er komið að afhendingu Icepro verðlaunanna, fyrir góðan árangur og markvissa stefnu á sviði rafrænna viðskipta árið 2004.

Ég mun nú lesa úrskurð dómnefndar Icepro, en hana skipa Karl F. Garðarsson, formaður ICEPRO, forstöðumaður stjórnsýslusviðs embættis tollstjórans í Reykjavík, Júlíus S. Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa og Vilhjálmur Egilsson ráðuneytisstjóri.

 

Umsögn dómnefndar er eftirfarandi:

Það er tillaga dómnefndar að Ölgerð Egils Skallagrímssonar hf. skuli hljóta IcePro verðlaunin árið 2004. Ákvörðun dómnefndar grundvallast á því að Ölgerðin hefur sýnt að mikill metnaður er lagður í stefnu og útfærslu í upplýsingatæknimálum og rafrænum viðskiptum fyrirtækisins, þar sem viðurkenndir staðlar og samræmdar viðmiðanir eru lagðar til grundvallar. Fyrirtækið hefur sýnt fádæma árangur á þessu sviði og innleiddi nýverið ebXML samskipti vegna viðskipta við Vöruhótelið. Samskiptin eru byggða á þeim XML skeytagrunni sem Vöruhótelið hefur stillt upp varðandi sína þjónustu þar sem EDIFACT skeytum er varpað yfir í XML skv. þeim tillögum sem settar voru fram í tilraunaverkefni IcePro. Notast er við Dimon Business Server í samskiptunum.

 

Er það álit dómnefndar að hér sé stigið athyglisvert framfaraspor sem setji mark sitt á þróun og framfarir á sviði rafrænna viðskipta á Íslandi.

 

Ég vil biðja fulltrúa Ölgerðar Egils Skallagrímssonar hf., Ásgeir Jónsson, að koma hér upp og veita verðlaununum viðtöku.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum