Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. mars 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Kynningardagur IMPRU á Akureyri.

Ágætu gestir.

Ég minnist með ánægju þeirrar athafnar sem var hér í desember 2002 þegar starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar var ýtt úr vör. Sú athöfn mótaði einnig upphaf framkvæmdar byggðaáætlunar fyrir árin 2002-2005 - en rekstur Nýsköpunarmiðstöðvarinnar er einnig stærst einstaki þáttur þeirrar framkvæmdar.

Byggðaáætlunin byggir á fimm markmiðum, sem efnislega miða að því að draga úr mismun á lífskjörum fólks milli byggðalaga í landinu. Þessum markmiðum á að ná m.a. með því að aðstoða þau við að aðlaga sig að hröðum breytingum í atvinnuháttum og veita markvissan stuðning við atvinnuþróun, er leitt geti til þess að auka fjölbreytni atvinnulífsins.

Í byggðaáætluninni er tekið fram að starfsemi Nýsköpunrmiðstöðvarinnar eigi að vera: Að efla nýsköpun í atvinnulífi á landsbyggðinni og hafa frumkvæði að þróun viðskiptahugmynda. Meginmarkmiðið sé að auka fjölbreytni atvinnulífsins. Jafnframt verði hlutverkið að veita atvinnuþróunarfélögunum faglegan stuðning.

Það verður ekki annað sagt en að Nýsköpunarmiðstöðin hafi rækt þetta hlutverk sitt með sóma. Lögð hefur verið áhersla á að efla þekkingu í nýsköpun, vöruþróun og markaðsmálum - og bæta fagleg vinnubrögð við þessi mál almennt.

Stuðningur við atvinnuþróunarfélögin hefur skipt miklu máli og ekki síður samstarfið við þau. Félögin gegna mikilvægu hlutverki á starfssvæðum sínum. Þar skiptir mestu víðtæk þekking heimamanna á eigin styrkleika og þörfum. Starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar á að leiða til þess að starf þeirra geti eflst og dafnað enn frekar, og að þau verði betur í stakk búin að takast á við atvinnuþróun. Iðntæknistofnun með Nýsköpunarmiðstöðina nanborðs á að vera þeim bakland sem veitir faglega ráðgjöf og leiðsögn.

Einn veigamesti þáttur í starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar hefur verið rekstur sérstakra stuðningsverkefna. Þau eru margvísleg og misjöfn að umfangi, en taka til flestra þátta í starfsumhverfi fyrirtækja. Meðal annars má nefna: -Stefnumótun; -fjármálastjórnun; -greiningu á tækni; -markaðsmál; -umhverfismál; -vörustjórnun; og –kostnaðargreiningu. Tilgangurinn er augljós: -að stuðla að bættri samkeppnisstöðu atvinnulífsins.

Lögð hefur verið mikil áhersla á samstarf við atvinnuþróunarfélögin og aðrar stofnanir í stuðningsumhverfinu um rekstur stuðningsverkefnanna. Atvinnuþróunarfélögin tóku m.a. þátt í 6 samstarfsverkefnum. Meðal þeirra er verkefnið: "Fiskur undir steini" sem er reiknilíkan fyrir smærri útgerðir og fiskvinnslur. Annað verkefni nefnist: "Nýsköpunarnámsleiðir" sem lýtur að fræðslu í nýsköpun á Vestfjörðum. Þá er vert að minnast á verkefni um upplýsingakerfi og verkskráningarkerfi sem verið hefur samstarfsverkefni með atvinnuþróunarfélögunum.

Eitt veigamesta stuðningsverkefnið er þó sennilega: "Vöruþróun í starfandi fyrirtækjum" sem fór af stað í byrjun siðastliðins árs. Mikilvægi þessa verkefnis skýrist einkum af þeirri einföldu staðreynd að líftími afurða og framleiðsluaðferða er stöðugt að styttast og því sé fyrirtækjum nauðsynlegt að huga að stöðugri endurnýjun og umbótum. Bent hefur verið á að nýsköpun í íslenskum fyrirtækjum sé alltof hæg sem stefni afkomu þeirra í hættu til lengri tíma litið. Einnig hefur verið bent á að þekking á því hvernig eigi að standa að nýsköpun í starfandi fyrirtækjum sé víða ekki nægileg. Af þeim 11 fyrirtækjum sem tóku þátt í verkefninu hafa fimm nú þegar lokið við vöruþróuina – og hin stefna hraðbyri í mark.

Ágætu gestir.

Eins og fram hefur komið er starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar á Akureyri hluti af framkvæmd byggðatefnunnar 2002-2005. Í þessu felst að starfsemin hefur aðeins verið tryggð til ársloka 2005 – og óvissa er um hvað þá tekur við.

Ef fram heldur sem horfir, eftir eins árs rekstur, ætti að vera unnt að skapa samstöðu um áframhaldandi rekstur hennar. Nú er unnið að byggingu Nýsköpunar- og rannsóknahúss við Háskólann á Akureyri og í mínum huga er alveg ljóst að þau markmið, sem þar eru lögð til grundvallar, um samstæða heild háskólarannsókna, opinberra rannsóknastofnana, sprotafyrirtækja og stuðningsþjónustu við frumkvöðla og fyrirtæki – mun ekki verða nema svipur hjá sjón án Nýsköpunarmiðstöðvarinnar.

Í tilefni þessara tímamóta óska ég Nýsköpunarmiðstöðinni, starfsmönnum hennar og aðstandendum, en ekki síst viðskiptavinum, innilega til hamingu með árangurinn.

 

 

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum