Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. mars 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytiðVEL Vinnumál-Frettir

Iðnþing 2004

Iðnþing 2004
Iðnþing 2004

Ágætu iðnþingsfulltrúar og aðrir gestir.

Ég mun freista þess í þessu erindi að varpa ljósi á breytingar sem áttu sér stað við gildistöku EES-samningsins fyrir 10 árum síðan og framvinduna frá þeim tíma að því er varðar félags- og vinnumál. Ennfremur mun ég skyggnast ofurlítið inn í framtíðina á sviði Evrópu­samvinnu og alþjóðaviðskipta.

Við undirbúning EES-samningsins á sínum tíma var farið yfir Evrópulöggjöf á öllum sviðum - félags- og vinnumál meðtalin. Einnig var farið yfir þær tillögur að tilskipunum sem þá lágu fyrir. Ljóst var að stærsta breytingin gagnvart vinnumarkaði fælist í gildistöku tveggja Evrópureglugerða, reglugerðar 1612/68, um frjálsa för launafólks, og 1408/72 um almannatryggingar launafólks. Markmið þeirrar síðarnefndu er að viðhalda áunnum rétti sem fólk á í almannatryggingakerfinu þrátt fyrir að það flytjist á milli aðildarríkja EES-samningsins.

Samkvæmt reglugerð 1612/68 varð borgurum annarra aðildarríkja Evrópusambandsins heimilt að koma hingað til lands og leita sér að vinnu án afskipta hins opinbera. Vinnumarkaðurinn varð skyndilega opinn fyrir vinnuafli frá 11 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Því er ekki að neita að ugg setti að ýmsum. Niðurstaðan varð sú að Ísland gerði sérstaka bókun við samninginn sem raunar átti sér fyrirmynd í bókun við samning um sameiginlegan vinnumarkað Norðurlanda. Þannig áskildu íslensk stjórnvöld sér heimild til að grípa til aðgerða ef upp kæmi ójafnvægi á vinnumarkaðnum vegna meiriháttar aðstreymis erlends vinnuafls til afmarkaðra landsvæða, starfa, starfsgreina eða atvinnugreina. Reynslan leiddi í ljós að þessi ótti reyndist ástæðulaus.

Í ljósi þessarar reynslu er eðlilegt að einhverjir setji spurningamerki við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú að leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp sem miðar að því að nýta þær heimildir sem eru í stækkunarsamningum Evrópusambandsins og nýrra aðildarríkja. Þær gera ráð fyrir að einstök ríki geti frestað því í samtals allt að sjö ár að láta ákvæði reglugerðar um frjálsa för launafólks ná til borgara nýju aðildarríkjanna.

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra ávarpar gesti.Hér verður að vekja á því athygli að þessi fjölgun aðildarríkja Evrópusambandsins og þar með Evrópska efnahagssvæðisins, fer fram við töluvert aðrar aðstæður en áður. Í fyrsta lagi er nú meiri munur á lífskjörum annars vegar í aðildarríkjum ESB og hins vegar í umsóknarríkjunum heldur en við fyrri stækkanir. Hvatinn til að sækja sér betri lífskjör og flytja milli landa er því mun meiri nú en áður var.

Einnig verður að hafa hugfast að þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gekk í gildi 1. janúar 1994 voru Spánverjar og Portúgalir búnir að vera í tæpan áratug í Evrópusambandinu og Grikkir í 13 ár. Ætla má að eftir þann tíma hafi flestir sem hugðust sækja sér betri lífskjör í velsældinni í Norður-Evrópu verið búnir að láta á það reyna. Því hafi mesta flutningsaldan í raun verið um garð gengin við gildistöku EES-samningsins 1994.

Nefna má annað atriði sem hér getur skipt verulegu máli. Á sl. 10 árum hefur fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi tvöfaldast, þ.e. úr um fimm þúsund manns í rúmlega 10 þúsund. Þar af eru ríkisborgarar frá nýju aðildarríkjunum hlutfallslega fjölmennir einkum Pólverjar. Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru nú 1850 Pólverjar búsettir hérlendis. Árið 1993 voru þeir 234. Samtals voru árið 1993 búsettir hérlendis 324 ríkisborgarar frá hinum nýju aðildarríkjum ESB eða 6,7% af heildarfjölda útlendinga á Íslandi. Nú eru þeir samtals 2.555 eða 25% af heildarfjölda útlendinga.  Þetta er mikil fjölgun á sama tíma og takmarkanir hafa verið á flutningi fólks frá nýju aðildarríkjunum. 

Full ástæða er til að ætla að aðstreymi fólks hingað til lands muni áfram aukast þó ekki sé nema fyrir þá staðreynd að vinir og ættingjar sem hér eru búsettir geta liðsinnt þeim sem hyggjast flytja sig um set. Af þessum ástæðum meðal annars þykir rétt að nýta heimildir til að opna íslenskan vinnumarkað í áföngum fyrir borgurum nýju aðildarríkjanna, a.m.k. með því að nýta tveggja ára aðlögunarfrest sem stendur til boða samkvæmt samningunum um stækkun Evrópusambandsins.

Góðir tilheyrendur.

Þetta um frjálsan atvinnu- og búseturétt.  En hvað um aðra þætti, t.d. áhrif evrópulöggjafar á íslenskan vinnurétt og lög og reglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum?

Það fer ekki á milli mála að á þessum tveimur sviðum hefur Evrópusamstarfið haft mikil áhrif.  Við gildistöku EES-samningsins og á næstu árum þar á eftir þurftu íslensk stjórnvöld að leiða í íslensk lög og reglugerðir efni rúmlega 40 Evróputilskipana á þessu sviði.  Tvær hafa vakið mesta athygli og umtal.  Tilskipun um skipulag vinnutíma og um vinnuvernd barna og ungmenna.  Þótt það hafi ekki verið sérstaklega rannsakað hafa báðar þessar tilskipanir haft mikil áhrif á íslenskum vinnumarkaði. Þetta gildir sennilega ekki hvað síst um vinnutíma­tilskipunina.  Vinnutími á Íslandi var alltof langur en hefur styst undanfarin ár.  Í vinnumarkaðskönnunum Hagstofunnar kemur fram að fækkun hefur orðið í þeim hópi fólks sem vinnur lengstan vinnutíma, þ.e. meira en 61 klst. á viku. Hún er hægfara en við erum á réttri leið.

Tilskipunin um vinnuvernd barna og ungmenna var önnur tilskipun sem skapaði umtal og gekk raunar þvert á viðtekin viðhorf á Íslandi, nefnilega að hæfileg þátttaka unglinga í atvinnulífinu væri af hinu góða.  Með gildistöku þessarar tilskipunar var vinna ungmenna verulega takmörkuð.  Sumir segja að of langt hafi verið gengið.  Einnig að þessu leyti er meðalhófið best.  Í sumum tilvikum var vinna barna og ungmenna komin út fyrir eðlileg mörk og dæmi eru um að hún hafi komið niður á skólagöngu, leitt til þess að nemendur flosnuðu frá námi og staða þeirra á vinnumarkaði hafi fyrir bragðið orðið ótryggari en ella hefði þurft að verða.  Ég er þeirrar skoðunar að allgóð sátt hafi tekist um framkvæmd þessarar tilskipunar sem heimilar hóflega vinnu ungmenna.

Þessar tvær tilskipanir eru gott dæmi um framleiðslu stofnana ESB um og eftir 1990.  Þær eru á dæmigerðu stofnanamáli, torlesnar með endalausum undantekningum frá aðalreglu og undanteknum frá undantekningu.  Enda var það svo að tilskipanir Evrópusambandsins á sviði félags- og vinnumála voru harðlega gagnrýndar af heildarsamtökum aðila vinnumarkaðarins fyrst og fremst fyrir það hversu illskiljanlegar þær væru fyrir venjulegt fólk og tækju oft ekki nægilegt tillit til sérstakra aðstæðna í aðildarríkjunum. 

121-2129_imgaaAnnað hvort náði þessi gagnrýni eyrum ráðamanna í Evrópusambandinu eða áhrif Norðurlandabúa fóru að segja til sín, nema hvort tveggja hafi átt sér stað.  Með samkomulaginu sem kennt er við hollensku borgina Maastricht og gekk í gildi í nóvember 1993 var opnað á þann kost að samningar Evrópusamtaka aðila vinnumarkaðarins yrðu skuldbindandi fyrir öll aðildarríki ESB. Með Amsterdam samkomulaginu, en það gekk í gildi í júni 1999, er gengið lengra á þessari braut. Í samkomulaginu var lögfest sú skylda að framkvæmdastjórn ESB skuli gefa Evrópusamtökum aðila vinnumarkaðarins tækifæri til að semja um atriði á sviði félags- og vinnumála, áður en framkvæmdastjórnin leggur fram tillögu að reglugerð eða tilskipun um það tiltekna málefni. Það er fyrst eftir að þeim hefur mistekist að ná samkomulagi að framkvæmdastjórninni er heimilt að leggja fyrir ráðherraráðið tillögur að Evrópusambandslögum.  Nái heildasamtökin samkomulagi geta þau snúið sér til framkvæmdastjórnarinnar og óskað eftir því að samningur þeirra verði að skuldbindandi gerð í Evrópusambandinu og raunar á Evrópska efnahagssvæðinu.  Þetta hefur gerst nokkrum sinnum, t.d. er samningur sem samtökin gerðu um foreldraorlof.

Um þetta er ekkert nema gott að segja og er ef til vill sönnun fyrir auknum áhrifum Norðurlandanna í Evrópusambandinu. Þetta verklag er a.m.k. í góðu samræmi við þær hefðir sem tíðkast á íslenskum vinnumarkaði.  Segja má að óformlegt samkomulag ríki á milli stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um að láta þeim síðarnefndu eftir eins og kostur er að útkljá sín á milli málefni sem snerta réttindi og skyldur á vinnumarkaði.  Það útlokar hins vegar ekki afskipti hins opinbera ef samtökin ná ekki saman um niðurstöðu.

Sú róttæka breyting á tilurð Evrópulöggjafar á sviði félags- og vinnumála, sem átt hefur sér stað á allra síðustu árum, undirstrikar mikilvægi þess að íslensk heildarsamtök á vinnumarkaði taki virkan þátt í Evrópusamstarfinu. Með fullum rétti má segja að þau séu virkari og áhrifameiri gerendur á þessu sviði en stjórnvöld, sem við núverandi uppbyggingu EES-samningsins eru fremur í hlutverki hins áhrifalausa áhorfanda.

Ég get hins vegar ekki stillt mig um að geta þess einu sinni enn hvað það hafi komið mér á óvart hversu torvelt það hefur reynst að hrinda í framkvæmd tilskipunum ESB hér á landi sem hafa orðið til með kjarasamningum Evrópusamtaka aðila vinnumarkaðarins sem fulltrúar íslenskra heildarsamtaka hafa átt aðild að.  Svo einkennilega sem það hljómar þá virðist oft og tíðum vera ógjörningur fyrir aðila að koma sér saman um það hvað þeir sömdu um í Brussel.  Ég nefni sem dæmi um þetta tvær tilskipanir.  Önnur um tímabundna ráðningarsamninga og hin um hlutastörf.  Heildarsamtökin á íslenska vinnumarkaðnum reyndu að hrinda í framkvæmd ákvæðum beggja þessara tilskipana með kjarasamningi.  Í fyrra tilvikinu tókust samningar alls ekki þrátt fyrir marga, langa og stranga samningafundi. 

Í seinna tilvikinu náðu ASÍ og SA saman um samning.  Hins vegar tókst samningsaðilum um kjör starfsmanna í þjónustu hins opinbera ekki að ná saman um kjarasamning.  Niðurstaðan er því sú að það kemur í hlut félagsmálaráðuneytisins að stofna til fjölmargra samráðs- og samningafunda til að freista þess að finna út hvað um var samið og hvernig því verði til skila haldið í löggjöf.  Ágreiningur aðila er á stundum svo djúpstæður að ráðuneytið hefur neyðst til að höggva á hnútinn og leggja til lausnir sem hvorugur hefur verið fyllilega sáttur við en getur vonandi búið við.  Þetta er eins og ég hef áður sagt ekki verklag sem er til eftirbreytni og verður að færa til betri vegar.

Þá er rétt að líta til framtíðar.

Á næstunni mun á það reyna hvort heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins nái saman um að innleiða tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2002 um upplýsingar og samráð við starfsmenn í fyrirtækjum.  Hér er um að ræða tilskipun sem leggur þær skyldur á herðar atvinnurekanda að upplýsa starfsmenn um fjárhagslega afkomu fyrirtækisins og sennilega framvindu á því sviði.  Ennfremur um stöðu, skipan og þróun að því er varðar störf innan fyrirtækisins, einkum ber að upplýsa um hugsanlegan samdrátt sem gæti leitt til uppsagna starfsmanna. Loks ber að upplýsa og hafa samráð um ákvarðanir sem líklegar eru til að leiða til varanlegra skipulagsbreytinga innan fyrirtækisins. 

Aðildarríki EES samningsins geta valið um að láta efni tilskipunarinnar taka til fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn eða fyrirtækja með fleiri en 20 starfsmenn í þjónustu sinni.  Aðildarríkjunum ber að innleiða efni tilskipunarinnar fyrir 23. mars 2005.  Aðildarríki, þar sem ekki er hefð fyrir samráði af því tagi sem gert er ráð fyrir í tilskipuninni, hafa tækifæri til að innleiða efni hennar í áföngum.  Ég hef gefið heildarsamtökum aðila vinnumarkaðarins frest til loka júní að ná samkomulagi um framkvæmd tilskipunarinnar. Takist samtökunum ekki að ná samkomulagi innan þess frests mun lagafrumvarp verða samið á vegum félagsmálaráðuneytisins og lagt fyrir Alþingi næsta haust.

Fyrir nokkrum dögum barst mér í hendur skýrsla frá Evrópusambandinu sem ber heitið: Störf, störf, störf.  Um er að ræða skýrslu vinnuhóps sem skipaður var í framhaldi af ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins í mars 2003.  Hópurinn fékk það hlutverk að vekja athygli á umbótum sem gætu haft jákvæð áhrif á getu aðildarríkjanna til að ná markmiðum sem sett eru í stefnu Evrópusambandsins í vinnumálum.  Wim Kok, fyrrverandi forsætisráðherra Hollands, var skipaður formaður vinnuhópsins.  Mér finnast tillögur vinnuhópsins áhugaverðar og gefa tilefni til nánari athugunar.

Tilefni skipunar vinnuhópsins var yfirlýsing ráðherraráðs Evrópusambandsins sem hélt fund sinn í Lisabon árið 2000.  Á þeim fundi var sú stefna mörkuð að efnahags- og atvinnulíf Evrópusambands yrði árið 2010 það samkeppnishæfasta í heiminum, það væri byggt á þekkingu og fært um að skapa stöðugan hagvöxt með fleiri og betri störfum og stuðla að félagslegri samstöðu. 

Í skýrslu vinnuhópsins kemur fram að hann er svartsýnn á að hægt verði að ná markmiðum Lissabon-yfirlýsingarinnar nema aðildarríkin taki sig verulega á.  Bent er á að þrátt fyrir tímabundinn efnahagslegan samdrátt megi ekki missa sjónar á markmiðum yfirlýsingarinnar.  Alþjóðavæðing og efnahagslegur samruni hafi sífellt meiri áhrif á daglegt líf Evrópubúa.  Breytt aldurssamsetning veki upp spurningar um getu aðildarríkja Evrópusambandsins til að vera samkeppnishæf og ná hærra atvinnustigi og meiri hagvexti í framtíðinni.  Allt kalli þetta á snögg viðbrögð við breytingum en geri ekki síður kröfur til okkar allra um að hafa stjórn á þeim.

Vinnuhópurinn er þeirrar skoðunar að forsenda þess að aðildarríki Evrópusambandsins geti fjölgað störfum, dregið úr atvinnuleysi og aukið framleiðni velti á eftirfarandi:

-  aukinni aðlögunarhæfni starfsmanna og fyrirtækja,

-  hærra atvinnustigi, þ.e. að fleiri verði virkir í atvinnulífinu,

-  meiri og markvissari fjárfestingu í þekkingu og mannauði og

-  virkri framkvæmd umbóta með bættri stjórnun.

Þetta eru ekki flóknar leiðbeiningar og ég er þeirrar skoðunar að öll atriðin séu þess eðlis að rétt sé fyrir íslensk stjórnvöld að taka mið af þeim ekki síður en fyrir aðildarríki Evrópusambandsins.  Raunar má segja að fyrsta, annað og þriðja atriðið séu greinar á sama meiði.  Aðlögunarhæfnin veltur á meiri endur- og starfsmenntun - fjárfesting í þekkingu tekur til fjárveitinga til menntunarmála.  Sama má segja um bætta stjórnun.  Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við nýgerða kjarasamninga um aukin framlög til starfsmenntasjóða atvinnulífsins eru í góðu samræmi við þessar leiðbeiningar.  Hins vegar verður að gæta þess að þeim fjármunum sé varið á skynsamlegan hátt og þannig að þeir stuðli að framförum í atvinnulífinu.

Annað atriðið um hærra atvinnustig og það að gera fleiri virkari í atvinnulífinu höfðar til þess að stjórnvöld verði að sjá til þess að það borgi sig að vinna.  Að stjórnvöld haldi þannig á málum að félagsleg stoðkerfi virki ekki vinnuletjandi á fólk.  Hér er nauðsynlegt að sýna aðgæslu. Við Íslendingar höfum með fáum tímabundnum undantekningum verið svo lánsamir að búa við mikla og almenna atvinnuþátttöku og lítið atvinnuleysi.  Nú eru hins vegar blikur á lofti.  Þrátt fyrir góðæri og mikinn hagvöxt undanfarin ár hefur atvinnuleysi verið óásættanlega mikið.  Ríkisstjórnin hefur eftir megni lagt sig fram um að skapa fleiri störf, t.d. með stórframkvæmdum á Austurlandi og sérstökum fjárveitingum í þessu skyni.  Því miður hafa þessar aðgerðir ekki enn skilað nægilegum árangri að mínu mati.  Líkur eru á að okkar bíði betri tímar að þessu leyti þegar líður á árið.  Ég hef hins vegar ákveðið að hefja endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar og laga um vinnumarkaðsaðgerðir.  Ég tel mikilvægt að við þá endurskoðun verði framangreint haft í huga.  Það er að segja að það borgi sig fyrir starfshæfa einstaklinga að vinna.

Góðir áheyrendur.

Það fer ekki á milli mála að um þessar mundir eiga sér stað róttækar breytingar á efnahagslífi heimsins.  Í gær fékk ég inn á borð til mín skýrslu frá Alþjóðavinnumálastofnuninni í Genf.  Um var að ræða skýrslu nefndar sem naut formennsku Tarju Halonen forseta Finnlands.  Heiti hennar er: Sanngjörn alþjóðavæðing:  Að skapa tækifæri fyrir alla.” 

Í skýrslunni kemur fram að efasemdir fari vaxandi um það í hvaða átt alþjóðavæðingin stefni.  Kostir hennar séu of fjarlægir fyrir of marga.  Samtímis feli hún í sér raunverulegar hættur. Spilling sé útbreidd.  Hryðjuverkahópar ógni opnum þjóðfélögum og sett séu spurningamerki við framtíð frjálsra og hindrunarlausra viðskipta.  Hnattræn stjórnun er í uppnámi.  Brýna nauðsyn ber til að endurskoða bæði stefnu og skipulag. 

Þetta eru vissulega stór orð sem ástæða er til að velta fyrir sér. Það er hins vegar ljóst í mínum huga að það verður aldrei sátt um aukið frelsi fjármagns nema því fylgi félagslegt réttlæti. Þar bera fyrirtækin ákveðna ábyrgð og verða að axla hana.

Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af alþjóðavæðingunni og frjálsu flæði fjármagns á undanförnum árum. Því fylgja vissulega bæði kostir og gallar. Öflug fyrirtæki hafa kraft til umfangsmikillar útrásar og afkomutölur sumra þeirra eru sannarlega þess eðlis að ástæða er til að samgleðjast með eigendum þeirra.

Við þessar aðstæður hafa rótgróin fyrirtæki skipt um eigendur, bankar eru orðnir virkir þátttakendur í íslensku atvinnulífi með eignarhaldi sínu og beinum afskiptum. Það er reyndar verulegt umhugsunarefni að mínu mati, með hvaða hætti starfshættir viðskiptabankanna hafa breyst á undanförnum árum. Það sem áður voru þjónustustofnanir á sviði fjármála við heimilin og atvinnulífið eru nú orðnir virkir gerendur á fyrirtækjamarkaði. Er það raunverulega svo að eðlilegt sé að einstakir viðskiptabankar verji mestum kröftum sínum og fjármunum, jafnvel með stórkostlegum erlendum lántökum, í að brytja niður fyrirtæki í íslensku viðskiptalífi, til hagnaðar fyrir sjálfa sig? Er það tilgangur þeirra?

Verslunar- og þjónustufyrirtæki hafa á sama tíma stækkað gífurlega, völd þeirra gagnvart smærri fyrirtækjum, ekki síst smærri framleiðslufyrirtækjum, eru mikil. Þræðirnir liggja svo víða að helst minnir á vef risavaxinnar köngulóar. Þessi stórfyrirtæki geta í mörgum tilvikum ráðið því hverjir fái lifað og hverjir skuli deyja.

Ábyrgð þeirra sem þessum stóru, virku – ég segi afskiptasömu fyrirtækjum ráða er mikil. Gildir þar einu hvort ræðir um verslanir, fjölmiðla eða fjármálastofnanir. Það er hreint ekki sama hvernig á er haldið. Það eru ákveðin merki þess í íslensku efnahags- og atvinnulífi að ekki valdi allir því hlutverki sem þeim hefur verið falið eða þeir hafa tekið sér. Það eru merki um hringamyndun í viðskiptalífinu og umsvif einstakra aðila í atvinnulífinu eru að mínu mati að minnsta kosti á mörkum þess að standast siðferðilega mælikvarða.

Það er að mínu viti eitthvert mikilvægasta hlutverk okkar stjórnmálamanna um þessar mundir að standa vaktina. Ábyrgð okkar er mikil en ábyrgð þeirra sem ég hér fjalla um er ekki minni, taki þeir til sín sem eiga. Við stjórnmálamenn þurfum að vera á varðbergi og það munum við verða. Íslenska þjóðin þarf sömuleiðis að veita þessum nýju valdhöfum aðhald, þeir eiga ekki að fá tækifæri til að ofbjóða þjóðinni, sitjandi á einhvers konar heimatilbúnum friðarstóli.  

Góðir iðnþingsgestir.

Mig langar að lokum að víkja með nokkrum orðum að stöðu Evrópusamvinnunnar núna eins og hún kemur mér fyrir sjónir:

Frá því EES-samningurinn tók gildi fyrir 10 árum hafa orðið miklar breytingar á Evrópusambandinu.  Nýjar stofnanir hafa komið til sögunar sem EES-samningurinn veitir okkur ekki aðgang að.

Völd Evrópuþingsins hafa stóraukist á þessu tímabili og sömuleiðis ráðherraráðsins, hvort tveggja á kostnað framkvæmdastjórnarinnar. 

Þetta setur mark sitt á rekstur EES-samningsins sem er fyrst og fremst miðaður við að samskipti EFTA/EES ríkjanna séu við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Bilið á milli Evrópulöggjafar og ákvæða í EES-samningnum hefur verið að breikka.

Fjölgun aðildarríkja ESB úr 15 í 25 er líkleg til að draga úr mikilvægi EFTA/EES ríkjanna frá sjónarhorni ESB.

Í bígerð eru ýmsar skipulagsbreytingar á rekstri EFTA og Eftirlitsstofnunar EFTA sem að mínu mati eru ekki til þess fallnar að styrkja stöðu EFTA gagnvart ESB.

EES-samningurinn hefur gagnast okkur vel en róðurinn við að viðhalda honum er þyngri en áður og hætt við að hann þyngist enn með stærra Evrópusambandi.

Niðurstaða mín að því er varðar áhrifin af EES samningunum á sviði félags- og vinnumála er þessi:

  • Evrópulöggjöf á þessu sviði hefur sannarlega sett mark sitt á íslenska félags- og vinnumálalöggjöf.
  • Áhrif samtaka aðila vinnumarkaðarins hafa stórvaxið á gildistíma EES-samningsins.
  • Sjálfur lagatextinn hefur batnað og orðið aðgengilegri.
  • Evrópusamstarfið hefur fært launafólki réttarbætur og betra vinnuumhverfi.
  • Samstarfið hefur aukið samkeppni, gert íslensk fyrirtæki samkeppnishæfari, aukið framleiðni, aukið arðsemi og stuðlað að útrás íslenskra fyrirtækja.

 

Fleiri myndir:

 ith-stor2  

ith-stor

 

 

 
 
     

 

 

  

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum