Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. mars 2004 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Alþjóðleg ferðasýning í Berlín (ITB)

Ávarp samgönguráðherra, í móttöku á sýningarsvæði Íslands á ITB í Berlín, mánudaginn 15. mars 2004.

Góðir gestir, dear guests!

Það er mér mikil ánægja að eiga þess kost að koma nú í fyrsta sinn á þessa mikilvægu ferðakaupstefnu, ITB. Ég átti von á að þetta væri umfangsmikil sýning en samt kemur stærð hennar mér á óvart. ITB sannar hve gríðarlega umfangsmikil ferðaþjónustan er í heiminum og líka hvað samkeppnin um viðskiptin er hörð. – Það er því stórkostlegt að sjá hve mörg íslensk fyrirtæki taka þátt í sýningunni á þessu sinni og hve öll umgjörð Íslands er okkur til mikils sóma.

Það er íslenskri ferðaþjónustu lífsnauðsynlegt að styrkja enn frekar stöðu sína á evrópskum ferðamarkaði. Evrópa er okkar stærsti markaður og hefur þýski markaðurinn alltaf verið sérstaklega traustur enda fáar þjóðir áhugasamari um Ísland en Þjóðverjar. – Skrifstofa Ferðamálaráðs hér í Þýskalandi hefur m.a. það hlutverk að sinna almennri landkynningu hér og í Frakklandi, á Ítalíu og víðar. Ferðamálaráð á að vera samstarfsvettvangur greinarinnar allrar og sér um að veita ferðaskrifstofum og einstaklingum upplýsingar um Ísland. Það er mér mikið kappsmál að greinin nýti sér þá þjónustu sem þar er í boði enda mikilvægt að allar opinberar fjárfestingar í ferðaþjónustu skili sér í auknum umsvifum ferðaþjónustunnar og inn í íslenskt efnahagslíf.

Þið sem hér eruð vitið að stórauknu fé hefur verið varið til markaðssóknar í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin ár og aldrei meir en á þessu ári. Þessi markaðssókn er ekki síst öflug vegna þess að fyrirtækin hafa sýnt vilja í verki til að taka fullan þátt í að gera sem mest úr þessum fjármunum. Við megum því eiga von á að sjá Ísland kynnt með enn markvissari og öflugri hætti en áður.

Mig langar að lokum til að hvetja alla þá sem hér eru til að starfa saman af einhug, fagmennsku og stefnufestu til að í sameiningu verði hægt að ná þeim árangri sem stefnt er að fyrir íslenska ferðaþjónustu og íslenskt efnahagslíf.

I want to thank you all for promoting Iceland as a tourist destination. Your work is highly appreciated. Thank you. 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum