Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. mars 2004 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar var haldinn 25. mars á Radisson SAS Hótel Sögu. Samgönguráðherra flutti meðfylgjandi erindi í tilefni dagsins.

Fundarstjóri, félagsmenn í SAF og aðrir fundargestir!

Mér er það sérstök ánægja að ávarpa þennan glæsilega aðalfund SAF en þetta mun vera í fimmta sinn sem ég mæti á aðalfund ykkar sem ráðherra ferðamála og fer ekki á milli mála að fundurinn ber þess merki að samtök ykkar hafa náð öflugri fótfestu.

Í dag er margt mjög athyglisvert á dagskrá en ég mun fyrst beina sjónum að markaðsmálum ferðaþjónustunnar og mikilvægustu áformum ráðuneytisins í þágu atvinnugreinarinnar.

Mig langar þó til að byrja á hefðbundnum nótum og bregða upp tölum um þróun í fjölda ferðamanna og gjaldeyristekjum af ferðaþjónustunni. – Ferðaþjónustunni eykst jafnt og þétt fiskur um hrygg; árið 2003 komu 320 þúsund ferðamenn til landsins og er reiknað með yfir 350 þúsund ferðamönnum í ár.- Ég tel okkur vel getað unað við þessa aukningu en það dregur þó ekki úr áhyggjum mínum af afkomu greinarinnar í heild en hún hefur nokkuð verið til umræðu og ég reikna með að aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar muni fjalla um sérstaklega að venju.

Fámenn þjóð sem Íslendingar þarf mikið afl til þess að ná árangri í landkynningu í þágu atvinnuveganna. Á þessu ári hefur samgönguráðuneytið 300 milljónir til markaðssóknar í ferðaþjónustu til viðbótar því sem lagt er til Ferðamálaráðs og Iceland Naturally. Og eins og þið sem hér eruð þekkið mætavel þá hefur sú leið verið farin að stórauka þetta fé með því að bjóða fyrirtækjum til samstarfs í markaðsmálum. Núna, eins og undanfarin ár, hef ég falið ferðamálastjóra framkvæmd þessa viðkvæma verkefnis og get ég ekki annað en verið sáttur með hvernig til hefur tekist. Hnökrar sem hafa komið upp hafa greinilega verið sniðnir af og því ekki borið á neinni óánægju að ráði með þau verkefni sem ráðist verður í. – Það er von mín að okkur takist að halda áfram á þessari braut en það er eðlilega háð vilja Alþingis og því hvernig ferðaþjónustunni tekst að spila úr þeim tækifærum sem þessi auknu umsvif veita.

Í lok þessa árs rennur út fimm ára samningur samgönguráðuneytis við íslensk fyrirtæki sem hagsmuna eiga að gæta á Bandaríkjamarkaði undir merkjum– Iceland Naturally. Samkomulagið var um að bæta og styrkja ímynd Íslands og auka áhuga á íslenskum vörum og ferðaþjónustu. Fyrirtækin sem aðild eiga að samkomulaginu eru Icelandair, ICELANDIC USA, Iceland Seafood Corp., Bændasamtökin, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Ölgerðin.

Við upphaf átaksins var gerð ítarleg rannsókn á stöðu og möguleikum Íslands á bandarískum markaði og kom í ljós að 89% þekktu engar vörur frá Íslandi og ímyndin var að miklu leyti tengd ís og snjó. Í kjölfarið voru ákveðnir markhópar skilgreindir en þeir eru útivistarfólk og fólk með háskólapróf með áhuga á ferðalögum og með mikinn kaupmátt.

Til átaksins hefur verið varið einni milljón dollara á ári. Samgönguráðuneytið hefur stýrt átakinu og lagt fram 70% fjárins, eða um það bil 70 milljónir króna á ári, og fyrirtækin hafa lagt fram 30%. Stjórn átaksins hefur staðið fyrir auglýsingum, skipulagðri fjölmiðlaherferð, viðburðum og kynningum í einstökum borgum sem og kynningu á einstökum fyrirtækjum í verslunum og á veitingahúsum.

Reglubundnar markaðsrannsóknir hafa síðan verið gerðar til að meta áhrif átaksins. Niðurstaða rannsóknar frá því í maí á síðasta ári sýnir að bandarískir neytendur hafa almennt jákvæðara viðhorf til Íslands, eru meðvitaðri um vörur frá Íslandi og mun fleiri en áður hafa áhuga á að ferðast til landsins. Aðstandendur átaksins telja þessar niðurstöður gefa vísbendingar um mikil sóknarfæri á bandarískum markaði.

Nú er það til skoðunar að samgönguráðuneytið geri nýjan samning um Iceland Naturally frá og með 1. janúar n.k. og byggi hann á þeirri reynslu og þeim árangri sem náðst hefur með núgildandi samkomulagi. Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur með Iceland Naturally vestanhafs hef ég verið áhugasamur um að samskonar átaki verði hleypt af stokkunum í Evrópu enda er hún sem heild mikilvægasta markaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu auk þess Ferðamálaráð hefur fært út kvíarnar með opnun skrifstofu í Kaupmannahöfn. Í ljósi mjög góðs árangur undanfarin ár af samstarfi ríkis, fyrirtækja og annarra hagsmunaaðila í IN í N-Ameríku hef ég ákveðið að láta kanna á meginlandi hvaða þættir það séu líklegastir til að vera sameiginlegir til að koma íslenskri ferðaþjónustu enn frekar en tekist hefur á framfæri á þessu svæði. Í framhaldi af slíkri rannsókn verði hannað slagorð og "logo" í samræmi við niðurstöður með sama hætti og gert er undir merki Iceland Naturally. Ég legg mikla áherslu á að í þessu mikilvæga máli verði beitt faglegri aðferðarfræði alveg frá upphafi eins og gert var í Bandaríkjunum við upphaf verkefnisins Iceland Naturally.

Til að vinna að gerð þessa verkefnis , þ.e. rannsókn og undirbúningi samstarfs mun ég leita samstarfa við utanríkisráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins, Þýsk-íslenska verslunarráðinu og Fransk-íslenska verslunarráðinu. Starfsmaður undirbúningshópsins verði Haukur Birgisson forstöðumaður Ferðamálaráðs í Frankfurt enda geri ég ráð fyrir að verkefnið verði, á sama hátt og vestanhafs, vistað hjá Ferðamálaráði. Samgönguráðuneytið mun ráðstafa 10 milljónum kr. á þessu ári til rannsókna og undirbúnings samstarfsins.

Það er greinilegt, eftir áralangar tilraunir, að Japansmarkaður er að rumska.

Þar hafa Flugleiðir sótt inn með markvissum hætti og árangurinn í takt við það. Ég tel ferðamálayfirvöld mikið geta lært af því sem þarna er að eiga sér stað og hef farið fram á það við Ferðamálaráð að það skoði af alvöru að ganga til samstarfs við hin Norðurlöndin um landkynningu í Japan líkt og gert er í Bandaríkunum með ágætum árangri. Stefni ég að því að ákvörðun liggi fyrir á þessu ári og geti nýst þegar kemur að heimssýningunni. (Hluta þeirra fjármuna sem fara í markaðsmál á þessu ári hef ég þegar eyrnamerkt markaðsmálum í þessum heimshluta)

Norðurlöndin ætla að standa fyrir sameiginlegri kynningu á heimssýningunni í Aichi í Japan en sýningin verður opnuð 25. mars á næsta ári. Á heimssýningunni ætla Norðurlönd að kynna sig sem landamæralaust svæði og fá þau tæplega 1300 fermetra sýningarsvæði. Yfirskrift heimssýningarinnar er að þessu sinni „Viska náttúrunnar". Hún þykir falla einkar vel að markmiðum Norðurlanda um það hvernig stórfengleg náttúra á norðurslóð endurspeglast í norrænni menningu. Íslenska ríkisstjórnin leggur áherslu á að Ísland verði vel sýnilegt á þessari sýningu og eftir því sem séð verður núna er metnaður Japana gríðarlegur varðandi umgjörð sýningarinnar og ekki síður kynningu á heimsvísu.

Við skulum einnig huga að því sem nær okkur er. Ný könnun Ferðamálaráðs um ferðavenjur Íslendinga var um margt athyglisverð en 1300 manns voru m.a. spurðir um ferðalög innanlands, tilgang ferðar og útgjöld. Einnig hvaða svæði voru heimsótt, fjölda gistinátta og hvaða afþreying var nýtt. Ég vil hvetja félagsmenn SAF til að kynna sér niðurstöður þessarar könnunar en í henni tel ég mörg vannýtt tækifæri birtast. Það er greinilegt að fólk vill ferðast miklu meira um eigið land og að margir staðir eru eftirsóknarverðir í huga fólks.

Fjölgun ferðamanna kallar á að móttaka þeirra sé í lagi. Eitt af því sem könnunin náði til var upplýsingagjöf. Nýting upplýsingamiðstöðva hefur aukist lítillega frá árinu 2000, úr 15% í 17%, en Internetið, ferðabækur og ferðabæklingar virðast skipta mestu. Upplýsingamiðstöðvarnar tel ég þó áfram gegna þýðingarmiklu upplýsinga- og öryggishlutverki og því fer hluti af fjármunum byggðaáætlunar til uppbyggingar upplýsingamiðstöðva til viðbótar þeim fjármunum sem Ferðamálaráð ráðstafar til þeirra. Hér er aðeins um tímabundna aðgerð að ræða og alveg ljóst að komi upplýsingamiðstöðvarnar ekki undir sig fótunum með aðstoð sveitarfélaga og ferðaþjónustufyrirtækja þá munu þær líða undir lok ein af annarri.

Annað sem er gríðarlega mikilvægt í móttöku ferðafólks er að náttúruperlur landsins verði varðveittar. Miklir fjármunir eru settir árlega uppbyggingu svæða og úrbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum. Alls hefur verið veitt á fjórða hundrað milljónum af opinberu fé til þessara verkefna á undanförnum árum sem dreifist um landið, eins og sjá má á kortinu. Það er kannski gömul tugga en ég tel mjög mikilvægt að með síauknum fjölda ferðamanna finni ferðaþjónustan hve ábyrgð hennar er mikil. Það er nauðsynlegt að sem flest svæði komi til greina þegar ferðamaðurinn skipuleggur ferðalög um landið. Því er nauðsynlegt að þjónustan sé sem víðast og að um allt land sé nóg við að vera fyrir ferðafólk sem hungrar í að upplifa náttúru og menningu landsins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að greininni verði sköpuð sambærileg rekstrarskilyrði og í samkeppnislöndunum. Skoðum þetta aðeins nánar. Ég reikna með að við öll vitum nokkurn veginn við hvaða lönd við erum að keppa við um ferðamenn en rekstrarskilyrðin eru auðvitað misjöfn. Það sem SAF hefur helst barist fyrir er samræming skatta af atvinnutækjum í greininni auk einföldunar leyfisveitinga og lækkunar flugvallargjalda svo eitthvað sé nefnt. Útflutningsatvinnuvegur eins og ferðaþjónustan er eðlilega mjög háð þróun gengis og verður að gæta þess að hafa ekki öll eggin í sömu körfu, heldur draga úr áhættu og leitast við að stunda viðskipti bæði í evru og dollar.

Íslensku efnahagslífi vegnaði vel á síðasta ári. Mælingar Hagstofunnar benda til þess að hagvöxtur síðastliðins árs hafi verið um 4% og því nokkuð umfram væntingar. Ef rétt reynist, þá er það góður viðsnúningur miðað við árið 2002, en þá gekk íslenska hagkerfið enn í gegnum nokkra aðlögun. Hversu vel tókst þá til sýnir mikla aðlögunarhæfni efnahagaslífsins og gegnir íslenska krónan þar stóru hlutverki. Talið er að hagvöxtur á evrusvæðinu hafi verið rúmlega 0,5% á árinu 2003 og á næstu árum verði hann 1,8 til 2,5%. Þetta er mun minni hagvöxtur en gera má ráð fyrir hér á landi .Vonandi nægir sá hagvöxtur til þess að Evrópubúar ferðist til Íslands í vaxandi mæli.

Almennt skattaumhverfi fyrirtækja hér á landi hefur verið stórbætt og á að standast samjöfnuð við það besta sem gerist í okkar helstu samkeppnislöndum. Stóra málið er hins vegar fyrirhuguð lækkun á virðisaukaskatti á matvöru, gistingu og fleiri þáttum – en verið er að leggja á ráðin um verulega lækkun á 14% þrepinu. Áhrif þessa munu væntanlega verða töluverð á íslenska ferðaþjónustu, einnig vegna þess að ráðstöfunartekjur fólks hér á landi munu aukast og aukin ferðalög innanlands og utan koma enn frekar til álita.

Eitt af því sem áhrif hefur á starfsumhverfi íslenskrar ferðaþjónustu er fjarskiptanetið á landinu. Öflug uppbygging þess skiptir miklu máli þegar landið er kynnt sem nútímalegur og öruggur viðkomustaður. Fjarskiptafyrirtækin verða að átta sig á því að ferðamenn eru stór viðskiptamannahópur auk þess sem fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa á ódýrum og öruggum gagnaflutningi að halda. Ég tel eðlilegt hin góða afkoma símafélaganna verði nýtt í uppbyggingu fjarskiptanetsins í landinu. – Uppbygginga á háhraðaneti og farsímadreifingu er liður í því að efla upplýsingasamfélagið undir kjörorðinu „Auðlindir í allra þágu" en ríkisstjórnin hefur markað skýra framtíðar stefnu á sviði upplýsingatækninnar.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er einnig gert ráð fyrir að Ferðamálaráð vinni náið með aðilum í greininni að markaðsstarfi og framþróun með það að markmiði að þjónusta við ferðamenn verði heilsársatvinnugrein og skapi þannig fleiri örugg og vel launuð störf. Eins og ég kom inn á hér á undan þá tel ég að samvinna Ferðamálaráðs við greinina sé í ágætum farvegi hvað markaðsstarfið snertir. – Ég hef einnig beitt mér fyrir ákveðnum breytingum á innra skipulagi á skrifstofu Ferðamálaráðs sem ég tel vera að skila sér í auknu samstarfi við greinina.

Eins og félagsmönnum í SAF er kunnugt stendur nú yfir vinna við gerð ferðamálaáætlunar en það er sú stefna í ferðamálum sem ég hyggst leggja fram á næsta þingi. Ég bind miklar vonir við þessa áætlun og að með henni myndist grundvöllur að nýju lagaumhverfi ferðaþjónustunnar. Í áætluninni munu mörg þau mál sem á ferðaþjónustunni brenna verða tekin fyrir og skilgreind á aðgengilegan hátt svo að hefjast megi handa við að vinna þeim - einu af öðru - brautargengi. Eitt af mörgum málum sem nauðsynlegt er að skoða við gerð nýrra laga um skipan ferðamála eru öryggismálin en nefnd um öryggisreglur fyrirtækja í afþreyingu skilaði mér nýverið tillögum sínum.

Við gerð ferðamálaáætlunar njótum við þess auðvitað, að samhliða vinnur SAF að stefnumótun fyrir sín samtök.

Góðir fundarmenn – að lokum vil ég fagna þeim mikla uppgangi sem átt hefur sér stað á vettvangi íslenskra flugmála. Íslensk flugfélög hafa haslað sér völl víða um heim svo eftir hefur verið tekið og innanlandsflug stendur í miklum blóma eftir nokkur mögur ár. Hér er ég að vísa til Icelandair, Atlanta, Flugfélags Íslands, Íslandsflugs og Bláfugls auk samstarfs Iceland Express og breska flugfélagsins Astraeus. -

Fundarmenn – mig langar að lokum til að óska ykkur enn á ný til hamingju með glæsilegan aðalfund og þakka Samtökum ferðaþjónustunnar fyrir gott samstarf frá stofnun samtakanna.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum