Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. mars 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Kynning á niðurstöðum GEM rannsókna.

Ágætu fundargestir. Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að vera hér í dag enda eru kynningar á niðurstöðum GEM rannsóknarinnar all nokkur tíðindi. Niðurstöður hennar í fyrra komu mér á óvart. Þær voru fyrst og fremst uppörfandi vegna þess að þær sýndu að ekki skorti okkur Íslendinga frumkvöðlakraftinn en jafnframt voru þær ótvíræð ábending um það á hvaða sviðum við þurftum að taka okkur á. Ég bíð því spennt eftir því að fá að heyra niðurstöður nýjustu rannsóknar - fyrir árið 2003. I. Auk kynningar á niðurstöðum GEM-rannsóknarinnar verður einnig kynnt úttekt á fjármálavanda nýrra fyrirtækja á Íslandi. Vandi þeirra hefur verið til umfjöllunar í iðnaðarráðuneytinu og hefur verið unnið að því að bæta úr hvað varðar fjármögnun nýrra fyrirtækja og nýsköpunar almennt. Vegna þessa vil ég nota þetta tækifæri til að greina í stuttu máli frá aðkomu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis að fjármögnun nýsköpunarverkefna. Ég mun gera tvennt að umfjöllunarefni. Annarsvegar eru það málefni Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og hinsvegar tilkoma Tækniþróunarsjóðs sem er nýr sjóður sem veita mun styrki til þróunarstarfa sem er forsenda nýsköpunar og endurnýjunar atvinnulífsins. II. Fjármögnun nýsköpunarverkefna hefur verið erfið síðustu fjögur árin eða u.þ.b. frá lokum fyrsta ársfjórðungs 2000. Þá hafði verið nægilegt fjármagn í umferða í rúmlega tvö ár og fjárfestingar í nýjum hugmyndum verið miklar og vafalítið oft án nægilegrar fyrirhyggju. Ég held reyndar að í mörgum tilfellum hafi vantað faglegar forsendur til að meta þessar fjárfestingar áður en í þær var ráðist og að of mikið hafi verið gert út á óraunhæfar væntingar um glæsilega framtíðarþróun. Áfallið var líka mikið á árinu 2000 þegar netbólan sprakk og hvert tæknifyrirtækið af öðru gafst upp. Oft var um að ræða fyrirtæki sem í venjulegu árferði hefði átt góðar líkur á því að ná árangri og geta orðið að arðbæru fyrirtæki, - en "dóminó- áhrifin" voru slík - að skipbrot eins leiddi oft til falls annars. Þetta var að sjálfsögðu ekkert séríslenskt fyrirbæri. Fjárfestar um víða veröld hafa enn ekki náð sér eftir kollsteypuna sem þá varð. Sennilega má þó segja að dýfan hér á landi hafi orðið minni en víða annarsstaðar. Áhrifin á fjárfestingar í nýsköpun á Íslandi komu einna gleggst í ljós í starfsemi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Nýsköpunarsjóðurinn reyndi að sinna sínu lögboðna hlutverki - að vera virkur þátttakandi í fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja. Í tvö ár hélt Nýsköpunarsjóðurinn striki sínu og var nánast eini framtaksfjárfestirinn sem sinnti nýjum fjárfestingum fram til ársins 2002. Þátttaka sjóðsins hafði verið öðrum hvatning og var því sérstakalega erfitt að sjá eftir þeim fjöldamörgu einkafjárfestum sem alfarið hættu nýfjárfestingum og áttu ekki annan kost í stöðunni en að beina kröftum sínum alfarið að því að verja eldri fjárfestingar sínar. Frá mínum bæjardyrum séð hefur Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins verið einn af burðarstólpum nýsköpunarinnar frá því að hann tók til starfa í ársbyrjun 1998. Frá upphafi hefur Nýsköpunarsjóður fjárfest í rúmlega 100 fyrirtækjum og á nú eignarhlut í 70 fyrirtækjum. Staða Nýsköpunarsjóðs er aftur á móti mjög erfið um þessar mundir og geta hans til að sinna hlutverki sínu lítil. Iðnaðarráðuneytið hefur reynt að finna lausn á þessu í samvinnu við aðra aðstandendur sjóðsins. Á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku kynnti ég tillögur um breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð og vænti ég þess að frumvarp verði lagt fram á Alþingi á næstu dögum. Tilgangur þess yrði að efla starfsemi Nýsköpunarsjóðs þannig að sjóðurinn geti tekið þátt í nýjum fjárfestingum í samræmi við hlutverk sitt. III. Það hefur lengi staðið atvinnulífinu fyrir þrifum að fjármagn til að styðja við þróun tækniþekkingar og nýsköpun hefur verið af mjög skornum skammti. Við höfum haft rannsóknasjóði til að styðja við grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir en eftir að þeim lýkur og við tekur þróun viðskiptahugmyndar hefur lítill stuðningur verið fáanlegur. Úr þessu hefur nú verið bætt og fyrir um mánuði síðan var auglýst eftir umsóknum um styrki úr Tækniþróunarsjóði. Þar með er miklum áfanga náð. Þessi nýi sjóður verður rekinn af Rannís samkvæmt samningi við iðnaðarráðuneytið. Hann mun gegna veigamiklu hlutverki við fjármögnun nýsköpunarverkefna. Frumstig nýsköpunar hefur verið í algeru fjársvelti og lítið sem ekkert fé verið fáanlegt til að veita álitlegum hugmyndum brautargengi og þróa þær á það stig að þær verði áhugaverðar fyrir framtaksfjárfesta. Tækniþróunarsjóðurinn brúar nú bilið sem var á milli gömlu Rannís sjóðanna og aðkomu framtaksfjárfestanna. Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er að styðja þróunarstarf og rannsóknir sem miða að því að efla nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Líta má á að hlutverk sjóðsins hefjist þegar hugmynd hefur orðið til sem leitt getur til - efnahagslegs ávinnings fyrir þróandann og - bættrar samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Tækniþróunarsjóður hefur 200 milljónir kr. til ráðstöfunar á þessu fyrsta starfsári sínu. Framlag til hans fer stigvaxandi og verður orðið 500 milljónir kr. árið 2007 ef áætlanir ganga eftir. Það er því ljóst að hér er um að ræða mjög mikilvæga og löngu tímabæra lyftistöng fyrir íslenska frumkvöðla og atvinnulíf. IV. Ágætu fundarmenn. Það er von mín að sú fjögurra ár stöðnun í fjármögnun nýrra fyrirtækja á Íslandi sé nú heldur á undanhaldi. Efling Nýsköpunarsjóðs og tilkoma Tækniþróunarsjóðs eru að sjálfsögðu mikilvægir þættir í því sambandi. Við það verður þó ekki látið staðar numið því þjónusta við nýsköpunarstarf er viðvarandi verkefni. Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum