Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. maí 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársfundur RARIK.

Ágætu ársfundargestir.

Fyrir nokkrum misserum var haldið hátíðlegt 90 ára afmæli Fjarðarselsvirkjunar, fyrstu nútímarafstöðvarinnar á landinu, og senn er öld liðin frá því að fyrsta rafstöðin hér á landi tók til starfa í Hamarskotslæk í Hafnarfirði. Þó svo að okkur finnist lítil spor hafa verið stigin með þessum áföngum var hér um að ræða atburði sem mörkuðu stórt framfararspor í sögu þjóðarinnar. Uppbygging virkjana og raforkukerfis landsins á síðari hluta síðustu aldar hefur átt gífurlegan þátt í aukinni hagsæld og mun áfram gegna veigamiklu hlutverki við að bæta kjör almennings á nýrri öld.

Segja má með sanni að hægt hafi miðað í rafvæðingu þjóðarinnar frá því að fyrsta virkjunin tók til starfa og fram undir miðja síðustu öld. Með raforkulögum frá 1947 og stofnun raforkumála-skrifstofunnar verður mikil breyting þar á. Markmið laganna var að vinna að uppbyggingu á flutnings- og dreifikerfi raforku ásamt því að reisa og reka raforkuver fyrir almenna raforkunotkun og til atvinnuuppbyggingar í landinu. Rafvæðing þjóðarinnar var raunar eitt helsta markmið allra ríkisstjórna fram á 7. áratug síðustu aldar og þetta verkefni sannarlega mikið afrek á sínum tíma er gerði landið í raun byggilegt á nútímavísu.

 

Miklar breytingar hafa orðið í orkuumhverfi okkar á síðasta áratug. Raforkuframleiðsla hér á landi hefur aukist um tæp 80% á því tímabili og er raforkunotkun á mann orðin sú mesta í heiminum. Þá hefur raforkuframleiðsla jarðvarmavirkjana meira en fimmfaldast á liðnum áratug. Á því tímabili hefur tekist að skjóta sterkum rótum undir uppbyggingu stóriðju eftir áralanga stöðnun. Nýlega hafa verið gerðir raforkusölusamningar um stækkun Norðuráls og frekari uppbygging á næstu árum er afar líkleg.

 

Þessar aðstæður og alþjóðlegar samningslegar skyldur okkar hafa gert það að verkum að við höfum þurft að huga að breytingum á lagaumhverfi orkumála, sem nánast hafði verið óbreytt um tveggja áratuga skeið og í sumum tilfellum lengur. Hið sama hefur reyndar gerst í öllum ríkjum hins vestræna heims.

Ný raforkulög voru samþykkt á Alþingi í mars 2003 og fjallaði ég efnislega um þau lög á síðasta ársfundi fyrirtækisins. Gildistöku III. kafla laganna um flutning raforku var þar frestað til 1. júlí 2004, en sérstakri nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði var falið að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings raforku, m.a. um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri þess og kerfisstjórnun skuli háttað.

 

Á grundvelli tillagna nefndarinnar hefur verið til umfjöllunar á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á raforkulögum þar sem m.a. er að finna tillögur um breytingar á ákvæðum laganna um raforkuflutning. Þar er lagt til að flutningskerfi raforku nái til þeirra háspennulína og tengivirkja sem nú eru á 66 kV spennu eða hærri. Lagt er til að flutningskerfið miðist við tiltekna afhendingarstaði þannig að allar dreifiveitur sem nú starfa í landinu tengist flutningskerfinu. Samkvæmt þessari tillögu verður raforka frá flutningskerfinu afhent til dreifiveitna og stórnotenda á 55 stöðum.

Gert er ráð fyrir því að sama gjald verði greitt til flutningsfyrirtækisins fyrir raforku á öllum afhendingarpunktum. Þá verður sérstök gjaldskrá fyrir alla stórnotendur. Allar virkjanir sem selja raforku á markaði munu greiða til flutningskerfisins í samræmi við selda orku – án tillits til stærðar. Framleiðsla virkjana til eigin þarfa, búrekstrar og heimilisnota verður þó undanskilin.

 

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hver dreifiveita hafi eina gjaldskrá í stað þess að ráðherra ákvarði gjaldskrársvæði dreifiveitna. Þó verði heimilt að sækja sérstaklega um gjaldskrá fyrir strjálbýli enda geti viðkomandi dreifiveita sýnt fram á hærri kostnað við dreifingu raforku þar.

Hér er um að ræða nokkra breytingu á gjaldskrársvæði Rafmagnsveitnanna, en eins og kunnugt er hefur sama gjaldskrá gilt á öllu dreifiveitusvæði RARIK alla tíð. Í raun hafa þéttbýlissvæði landsbyggðarinnar verið að greiða niður dreifingu á strjálbýlli svæðum. Dreifingarkostnaður raforku í þéttbýli hjá RARIK hefur verið 25-30% lægri en í strjálbýli. Með þessum tillögum er lagt til að sama gjaldskrá verði fyrir allt þéttbýli á veitusvæði RARIK og önnur fyrir allt strjálbýli. Hið sama á við um gjaldskrá Orkubús Vestfjarða. Sú hugsun er hér að baki að óréttlátt er að þéttbýlissvæði á landsbyggðinni skuli skattlögð sérstaklega umfram aðra landsmenn í hærra raforkuverði til að niðurgreiða raforkudreifingu.

 

Ljóst er að það fyrirkomulag sem í frumvarpinu er lagt til varðandi umfang flutningskerfisins niður í 66 kV mun leiða til meiri jöfnunar raforkuverðs en er fyrir hendi í gildandi lögum. Það mun þýða að íbúar allra þéttbýlisstaða á veitusvæði RARIK munu greiða sama verð fyrir flutning og dreifingu raforku og gildir þá einu þótt flutningskerfið nái til viðkomandi þéttbýlis eða ekki. Hið sama á við í dreifbýlinu, íbúar þar munu greiða sama verð fyrir flutning og dreifingu raforkunnar.

 

Árlegur rekstrarhalli óarðbærra eininga í veitukerfi RARIK hefur verið áætlaður af sérfræðingum að geti numið á bilinu 400-500 millj. kr. Þessi rekstrarvandi fyrirtækisins hefur verið fyrir hendi um margra ára skeið eins og flestir hér þekkja til. Aukinn jöfnuður í flutningskerfinu léttir hér vissulega undir með fyrirtækinu og notendum þess en meira þarf til. Ef miðað er við að íbúar á dreifbýlissvæðum RARIK ættu ekki að greiða hærra raforkuverð en íbúar í þéttbýli greiða hæst þá þyrftu þeir um 230-270 millj. kr. árlega til að jafna þann kostnaðarmun. Frumvarp um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku liggur nú fyrir Alþingi. Þar er kveðið á um að veita fjármagni til að lækka kostnað vegna dreifingar raforku og skal einungis greiða niður þann kostnað á svæðum þar sem í gildi er sérstök dreifbýlisgjaldskrá í samræmi við ákvæði raforkulaga.

 

Með þessum aðgerðum, auknum jöfnuði kostnaðar í flutningskerfi landsins og beinum framlögum til jöfnunar í dreifikerfinu er þess að vænta að fjárhagsleg staða og rekstur RARIK breytist mjög til hins betra og geri fyrirtækinu kleift að sinna enn betur því veigamikla hlutverki er það hefur sinnt fyrir alla landsbyggðina.

Ágætu ársfundargestir

Ég hef í máli mínu farið yfir stöðu raforkumála og nokkur þau lagafrumvörp sem til umfjöllunar eru á Alþingi og varða málefni landsbyggðarinnar og þar með RARIK. Þar fara hagsmunir saman.

 

Kristján Jónsson, forstjóri RARIK, lét af störfum á síðasta ári eftir 37 ára starf sem forstjóri hjá fyrirtækinu. Honum eru hér með færðar alúðarþakkir fyrir störf í þágu fyrirtækisins og raforkumála í landinu. Hann var ungur ráðinn forstjóri og hann hefur þurft að klífa margan klettinn fyrir hagsmunum RARIK þegar að fyrirtækinu var sótt úr ólíklegustu áttum. Honum tókst að sannfæra eigendur RARIK um að kljúfa ekki upp dreifiveitusvæði RARIK á sínum tíma og hefur verið skeleggur málsvari fyrirtækisins alla tíð.

 

Eins og önnur orkufyrirtæki hefur RARIK þurft að gera verulegar skipulagsbreytingar á rekstrarformi sínu í samræmi við gildandi raforkulög. Þessi vinna hefur tekist afar vel að mati þeirra er best til þekkja, og vil ég þakka settum forstjóra Tryggva Þór Haraldssyni og samstarfsmönnum hans fyrir vel unnin störf. Skipulag orkufyrirtækis eins og Rafmagnsveitna ríkisins verður ávallt að vera til endurskoðunar meðal annars vegna hagræðingar, en markmiðið hlýtur að vera að RARIK verði enn öflugra og hæfara fyrirtæki til að þjóna landsbyggðinni en verið hefur hingað til.

Ég vil að lokum þakka stjórn og öllum starfsmönnum RARIK ánægjulegt samstarf og óska þeim og fyrirtækinu farsældar í framtíðinni.

Ég þakka áheyrnina.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum