Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. maí 2004 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Evrópsk samgönguráðstefna

Við upphaf evrópskrar samgönguráðstefnu sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 17. -18. maí, hélt samgönguráðherra meðfylgjandi ræðu:

Virðulegu ráðstefnugestir.

Það er mér bæði ánægja og heiður að ávarpa ykkur hér við upphaf ráðstefnunnar og bjóða erlenda gesti velkomna til Íslands um leið og ég fagna þátttöku fulltrúa Reykjavíkurborgar í starfi samtakanna.

Sem ráðherra ferðamála fagna ég góðum gestum og vona að þið megið eiga ánægjulega dvöl hér í höfuðborg okkar Reykjavík. Borgin er einstök fyrir þær sakir að hér nýtum við jarðvarmann til mikilla hagsbóta fyrir umhverfið. Hinsvegar eigum við mikið verkefni óunnið við að draga úr orkunotkun í samgöngukerfinu.

Á Íslandi er bílinn þarfasti þjóninn, eins og sagt var um hestinn fyrr á öldum. Hér er mikil bílaeign og kröfur um gott vegakerfi eru mjög vaxandi bæði í höfuðborginni og öðrum hlutum landsins. Almenningssamgöngur eru frekar takmarkaðar og eiga undir högg að sækja. Þessi sérstaða okkar er nokkuð sem erfitt er að breyta og ég er ekki viss um að almenningur sé tilbúinn til þess að færa sig frá notkun einkabílsins innan borgarmarkanna nema í almenningssamgöngum finnist mjög hagkvæm og aðgengileg lausn, sem hentar við okkar aðstæður. Ekkert bendir til þess að slíkar lausnir séu í augsýn.

Af dagskrá fundarins má sjá að hér verða flutt forvitnileg erindi og ég vænti þess að fyrirlesarar geti miðlað fróðleik og reynslu, sem nýtist jafnt í litlum sem stórum borgum.

Umræður um samgöngur eru miklar hér á Íslandi og framlög til samgöngumála hafa farið vaxandi. Um þessar mundir eru til umfjöllunar á vegum samgönguráðuneytis mörg verkefni, sem munu hafa mikil áhrif á samgöngur í landinu til framtíðar.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að á síðasta ári samþykkti Alþingi samræmda samgönguáætlun, sem nær til allra þátta samgöngukerfisins. Um er að ræða vegakerfið, þar með þjóðvegakerfi innan borgarmarka, hafnir, en hér í höfuðborginni er stærsta flutningahöfnin landsins og flugvallaþjónusta. Hér innan borgarmarkanna er miðstöð innanlandsflugsins, sem gerir það mjög hagkvæmt því mestu flutningarnir innanlands eru til og frá höfuðborginni. Þessa samgönguáætlun er verið að endurmeta og munu samgöngur innan borgarinnar mjög koma við sögu við þá endurskoðun. Legg ég ríka áherslu á samstarf við borgaryfirvöld um uppbyggingu samgöngukerfisins.

Í öðru lagi er unnið að endurskipulagningu almenningssamgöngu-kerfisins milli landshluta og er gert ráð fyrir að bjóða út rekstur áætlunarbíla á tilteknum leiðum út frá höfuðborginni. Verður það í fyrsta skipti sem sú leið verður farin. Er nú unnið við að skilgreina verkefnið, en útboðið fer fram á næsta ári.

Í þriðja lagi er unnið að undirbúningi þess að reisa hér í höfuðborginni samgöngumiðstöð, sem sinni öllum þáttum samgangna og verði eins og "höfuðbrautarstöð" sem tengir saman flugið, áætlunarbíla sem ganga til og frá borginni, flugrútuna, strætó og leigubílaþjónustuna. Miklar vonir eru bundnar við að okkur megi takast að styrkja almenningasamgöngurnar innan höfuðborgarsvæðisins með þessari samgöngumiðstöð og bæta þannig þjónustuna og gera hana hagkvæmari um landið allt. Samgöngurnar gegna mjög mikilvægu hlutverki í samfélaginu og því er mikilvægt að leita hagkvæmustu leiða, sem jafnframt sinna góðri þjónustu.

Í fjórða lagi er unnið að undirbúningi þess að marka stefnu um gjaldtöku af umferðarmannvirkjum á sama hátt og gert er víða í Evrópu. Gjaldtaka vegna umferðarmannvirkja gæti orðið lykill að stórstígum framförum og uppbyggingu umferðarmannvirkja hér í höfuðborginni og um leið skapað möguleika á því að byggja umferðarmannvirkin hraðar upp en nú er mögulegt. Liður í þeirri vinnu er að taka upp rafrænt staðsetningarkerfi í öllum bílum, sem gæti lagt grundvöll að allri gjaldtöku af umferðinni. Það myndi leiða til aukinnar hagkvæmni og notkunar ódýrari orkugjafa, svo sem dísilolíu og rafknúinna bíla.

Í fimmta lagi er síðan verið að endurskipuleggja umferðaröryggismálin. Markmið þeirra skipulagningar er aukið öryggi á vegum, bætt ökunám og einfaldari stjórnsýsla umferðaröryggismála. Þessir málaflokkar heyra nú undir samgönguráðuneytið. Alvarleg slys í umferðinni eru óásættanleg og ég tel að við eigum að geta breytt því alvarlega ástandi sem er á vegakerfi landsins.

Af þessari upptalningu má sjá að við vinnum að margháttuðum aðgerðum sem munu leiða til betri og hagkvæmara samgöngukerfis hér í höfuðborginni.

Það er von mín að á þessari ráðstefnu verði umræður, sem geti leitt okkur inn á svið hagkvæmustu kosta í þágu þeirra kynslóða sem byggja borgir Evrópu í framtíðinni. Kynslóða, sem munu njóta þeirrar uppbyggingar í samgöngum, sem við stöndum fyrir, en þurfa ekki að takast á við þau vandamál sem við skiljum eftir okkur í formi mengunar og óhagkvæmra samgangna. Við skulum leggja áherslu á að byggja samgöngukerfið upp á vistvænan hátt í þágu barna okkar og barnabarna.

Megi ykkur vel farnast í störfum ykkar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum