Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. júní 2004 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á norrænu mjólkuriðnaðarþingi

Ágætu mjólkurunnendur, frændur og vinir.

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til Íslands í hina nóttlausu voraldar veröld.  Það er  hin hreina og fagra náttúra landsins sem er  grundvölur að framleiðslu þeirra hollu og hreinu landbúnaðarvara sem við Íslendingar framleiðum og erum svo stolt af.  Hin bjarta sumarnótt ræður því að þótt vaxtartími gróðursins sé stuttur í mánuðum er hann samt sem áður langur vegna hinna björtu sumarnótta. Grasið er ferskt og kjarnmikið, eins og besta kjarnfóður fram undir haust.  Gleggsta dæmið um þennan kyngimátt náttúrunnar er íslenska fjallalambið, sem fylgir eftir gróðurlínunni til fjalla, drekkur hreint og ómengað vatnið og móðurmjólkina og nær fullum þroska á aðeins 3 – 4 mánuðum.

Dýrin

Þá eru það húsdýrin okkar, kýrin, kindin og hesturinn sem urðu manninum samskipa til landsins fyrir meira en ellefu öldum og   teljast til þjóðardýrgripanna.  Þau hafa þolað súrt og sætt með þjóðinni – haldið lífi í henni á erfiðum tímum.  Það er engin tilviljun að þegar til umræðu kom fyrir nokkrum árum að flytja inn nýjan og afkastameiri kúastofn þá hafnaði meirihluti kúabænda því í almennri atkvæðagreiðslu. Það hefur líka komið í ljós að íslenska mjólkin býr yfir eiginleikum sem önnur kúakyn hafa ekki eða í mun minna mæli. 

Matarhefð Íslendinga

Í íslenskri matarhefð er margt merkilegt að finna, sem þróast hefur við þær aðstæður sem landið og náttúran skapar.  Þar á meðal er tvennt sem tengist mjólkinni.  Í fyrsta lagi er það skyrið sem er ævaforn aðferð við úrvinnslu, sem ég hefi fyrir satt að ekki tíðkist annars staðar í okkar heimshluta.  Nú hefur þessi ævaforna matarhefð fengið flugið á ný.  Ótal bragðtegundir af skyri fást í matvöruverslunum, neyslan vex stöðugt og segja má að skyrið flokkist nú undir það sem kalla má heilsufæði.  Hitt sem ég vildi nefna varðandi skyrgerðina er mysan sem um aldir var notuð til þess að geyma í mat, þegar hvorki var til salt eða nútíma tækni til að frysta og kæla matvæli.

Menntun Íslendinga

Þið eruð hér saman komin á þingi norrænna mjólkurfræðinga.  Í því sambandi er skylt að minnast þess að við Íslendingar eigum frændum okkar á Norðurlöndunum mikið að þakka vegna þess stuðnings sem við höfum fengið frá þeim við uppbyggingu nútíma mjólkuriðnaðar.  Flestir íslenskir mjólkuriðnaðarmenn hafa sótt menntun sína til Noregs, Svíþjóðar og ekki síst til Danmerkur og sú frábæra tækni sem notuð er við mjólkurframleiðslu, hvort sem er í fjósi bóndans eða í mjólkurbúunum, kemur einnig frá þeim löndum.  Þessi þróun hefur staðið í meira en heila öld,  hófst með rjómabúunum upp úr aldamótunum 1900 og síðan með tilkomu mjólkurbúanna á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar.  Fyrir þetta vil ég þakka fyrir hönd íslensks landbúnaðar.

Tilgangur mjólkuriðnaðarþingsins

Ég er þess fullviss að sú þekking og skoðanaskipti sem fagfólk í mjólkuriðnaði öðlast hér á þinginu skili sér fyrr en varir í enn betri og fjölbreyttari mjólkurafurðum, mjólk er ein af okkar þýðingarmestu matvælum og í raun ein af undirstöðu fæðutegundum mannfólksins. Sumir segja “grunnurinn að hraustum líkama.”

Mikilvægi mjólkurafurða

Ég er sannfærður um að mikilvægi mjólkur í fæðu okkar mun haldast og tel ég að heilsusamlegar mjólkurafurðir eigi að vera ein af áherslum stjórnvalda og almennings í fyrirbyggjandi heilsuvernd, svo draga megi úr mörgum sjúkdómum samtímans svo sem ofþyngd, sykursýki, vannæringu og hjarta- og æðasjúkdómum. Aukin þekking og mikið þróunarstarf hefur á liðnum áratugum gert mönnum kleift að framleiða sífellt betri mjólk og afurðir úr mjólk.  Árangurinn sjáum við á hverjum degi í nýjum og betri afurðum í hillum kaupmannanna.  Við erum stoltir af okkar íslensku afurðum og gerum okkur grein fyrir að sú mikla vöruþróun sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi er hvað helst að þakka þeirri menntun og þekkingu sem við höfum öðlast hjá frændum okkar á Norðurlöndunum.

 

Ágætu vinir.

Sjálfur starfaði ég við mjólkuriðnaðinn hjá Mjólkurbúi Flóamanna áður en ég var kjörinn á Alþingi.  Ég var mjólkureftirlitsmaður og ráðunautur úti í sveitum meðal bænda.  Ég finn oft angan af grænni töðu og góða kaffilykt þegar ég sit undir löngum ræðum í þinginu.  Sveitafólkið hér eins og í ykkar löndum er gott og gestrisið.  

Ég vil fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands bjóða ykkur öll velkomin til Íslands. Ferðist um og fræðist um yngsta land álfunnar, sem á margan hátt er ósnortið land.  Hér ríkir fegurðin ein, blómlegir dalir, bleikir akrar og græn tún, eyðisandar og auðnir, öræfi og jöklar, þar sem fugl og refur eiga frelsi.  Eldfjöll, ár, fossar og vötn setja svip á þetta land.  Æðsti draumur hvers ferðamanns er að ríða íslenskum hesti um öræfi og upplifa bjartar sumarnætur í sól og regni á hesti sem býður upp á fimm gangtegundir.  Ein þeirra er hið mjúka tölt sem á ekki sinn líka meðal gangtegunda hestakynjanna.  Töltið þýða er eins og að sitja í hægindastól heima í stofu.

Að lokum þetta.  Ég segi eins og skáldið sem vitnaði til gestrisni Íslendinga.

“Gott er að koma að garði þeim
sem góðir vinir byggja,
þá er meir en hálfnað heim
hvert sem vegir liggja.”

Megi ykkar góða starf tryggja og efla enn vináttu og samstarf Norðurlandanna.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum