Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. júní 2004 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Skipun nefndar um samgöngur til Vestmannaeyja

Grein samgönguráðherra sem birtist einnig á heimasíðu hans.

Allsérstök umræða átti sér stað á vettvangi DV milli tveggja bæjarstjórnarfulltrúa í Vestmannaeyjum og beindist sú umræða að undirrituðum. Í framhaldi af þessum umræðum var síðan bókun tveggja af þremur bæjarfulltrúum í bæjarráði Vestmannaeyja. Engin formleg erindi hafa hins vegar borist ráðuneytinu.

Forsögu málsins þekkja margir. Málið varðar umræðu um framtíðarlausn í samgöngum milli lands og Eyja og skipun nefndar sem fer yfir þau mál.

Ægisdyr, áhugamannafélag um jarðgöng á milli lands og Eyja hafa á liðnum misserum unnið mjög gott starf og hafa haldið á lofti möguleikanum á jarðgöngum á milli lands og Eyja. Þeim til hróss er rétt að benda á að án þeirra framlags væru jarðgöng ekki einn af þeim valkostum sem verið er að skoða þegar kemur að samgöngum á milli lands og Eyja. Það geta engir aðrir skreytt sig með fjöðrum þeirra Ægisdyramanna, þó ýmsir vildu Lilju kveðið hafa.

Nú nýverið skipaði ég nefnd, sem hefur það hlutverk að fara á faglegan hátt yfir þá möguleika sem eru í stöðunni varðandi samgöngur á milli lands og Eyja. Tilefnið var skýrsla Hagfræðistofnunar, um hagkvæmni jarðganga, sem unnin var fyrir Ægisdyr og skýrsla erlendra ráðgjafa og Línuhönnunar, sem unnin var fyrir Vegagerðina um kostnað við jarðgöng til Eyja. Nefndinni er ætlað að fara yfir þá kosti, sem uppi eru, til þess að bæta samgöngur við Eyjar til frambúðar. Þar eru nokkrir kostir á borðinu, meðal annars þeir þrír sem mest eru í umræðunni, en það eru jarðgöng milli lands og Eyja, nýtt ferjulægi í Bakkafjöru með tilheyrandi ferjurekstri og áframhaldandi ferjusiglingar frá Þorlákshöfn með endurnýjaðri ferju.

Að mati vegamálastjóra eru tiltækar nægjanlegar rannsóknir er varða jarðgangnagerð til að hægt sé að taka ákvörðun um framhaldið samanber álit sérfræðinga Vegagerðarinnar. Upplýsingar um áframhaldandi ferjusiglingar á milli Þorlákshafnar og Eyja eru aðgengilegar og áætlað er að rannsóknum vegna mögulegs ferjulægis í Bakkafjöru ljúki í lok ársins 2005. Lok rannsókna í Bakkafjöru eru því sá áfangi sem beðið er eftir til að hægt sé að leggja málefnalegt mat á hvaða leið er skynsamlegust þegar kemur að framtíðarlausn í samgöngum milli lands og Eyja.

Í tveimur viðtölum í DV hafa fulltrúar meirihlutans í Eyjum farið mikinn og veist að mér sem ráðherra. Fyrst var það Lúðvík Bergvinsson 11. júní, þar sem hann talar meðal annars um að ,,í ljósi fyrri samskipta núverandi meirihluta í Eyjum við þann samgönguráðherra sem nú situr kemur þetta ekki á óvart". Allt eru það kunnugir orðaleppar og fátt kemur á óvart í málflutningi Lúðvíks Bergvinssonar. Hann er sá þingmaður, sem er laus við það að láta sannleikann eða sanngirni í málflutningi flækjast fyrir sér þegar hann hefur hug á að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Sem betur fer hef ég ekki þurft að hafa mikil samskipti við hann sem bæjarfulltrúa.

Til þess að vekja athygli á ómálefnalegri framgöngu Lúðvíks Bergvinssonar vil ég draga fram nokkrar staðreyndir um framgöngu mína í þágu bættra samgangna við Vestmanneyjar. Það sem gert hefur verið í samgöngumálum milli lands og Eyja í ráðherratíð minni er fjölmargt. Auknum fjármunum hefur verið varið af hendi hins opinbera til að styrkja samgöngur milli lands og Eyja. Tekin var ákvörðun um fjölgun ferða Herjólfs. Þjónusta ferjunnar er meiri en áður hefur verið. Með útboði á rekstri Herjólfs sparaðist verulega og var sá sparnaður nýttur til fjölgunar ferða. Í gangi er uppbygging á Bakkaflugvelli, sem skilar Vestmannaeyjum stórbættum flugsamgöngum og er samkvæmt þeirri samgönguáætlun sem unnið er eftir. Þá skiptir endurbygging Reykjavíkurflugvallar miklu máli fyrir Eyjar. Unnið er að rannsóknum í Bakkafjöru vegna mögulegs ferjulægis, sem getur skilað Vestmannaeyjum stórbættum samgöngum. Í góðu samstarfi við fyrrverandi meirihluta bæjarstjórnar var á vegum ráðuneytisins unnið mikið starf til þess að greina þörfina á bættum samgöngum og liggja fyrir tillögur sem unnið er eftir. Vegna vinnu forsvarsmanna Ægisdyra við skoðun á hagkvæmni jarðganga varð að ráði að skipa starfshóp er færi yfir stöðuna og skilaði álit til ráðherra. Viðbrögð Lúðvíks, við skipun þess hóps, benda til þess að aðrir hagsmunir en hagsmunir Eyjamanna vaki fyrir honum þegar hann ræðst með stóryrðum gegn ráðherra, sem hefur kallað til núverandi og tvo fyrrverandi bæjarstjóra Vestmanneyja til starfa í nefndinni. Mér virðist að skipun þeirra Páls Zóphóníassonar og Inga Sigurðssonar hafi mælst vel fyrir í Eyjum hjá öllum öðrum en bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar. Viðbrögð Lúðvíks benda til þess að hann sé algerlega vanhæfur um að gæta hagsmuna Vestmannaeyinga í þessu máli sem öðrum.

Þann 19. júní er það Andrés Sigmundsson, sem er kominn upp á dekk í DV, og þar talar bæjarfulltrúinn um að vilja ,,bjarga ráðherra frá stjórnsýslulegu klúðri" eins og hann kallar það. Ekki er vitað hver sú stjórnsýsla er. Í framhaldinu talar bæjarfulltrúinn síðan um útrétta sáttahönd og að vera ,,þrátt fyrir allt tilbúinn til samstarfs". Það vill svo undarlega til að þrátt fyrir þennan ,,mikla" samstarfsvilja þessara ágætu manna þá voru þeirra fyrstu samskipti við samgönguráðuneytið í gegnum DV. Á engu stigi málsins virtust bæjaryfirvöld hafa sérstakan áhuga á aðkomu að málinu eða framgangi þess. Frá þeim hefur ekkert komið nema í fjölmiðlum. Ég er nú einu sinni þeirrar náttúru gerður að ég vil vinna með mönnum sem vilja vinna, en ekki bara tala.

Fulltrúar Ægisdyra hafa dregið vagninn fyrir hönd Vestmannaeyinga og fyrir það eiga þeir hrós skilið. Án þeirra væri að líkindum ekki verið að skoða jarðgangnagerð sem valkost.

Eftir fund þingmanna Suðurkjördæmis með fulltrúum Ægisdyra og vegamálastjóra ákvað ég, eftir tillögu þingmanna, að skipa nefnd sem færi yfir alla þætti samgangna við Vestmannaeyjar. Í nefndina skipaði ég staðgengil Siglingamálastjóra formann, en hann þekkir mjög vel til um samgöngur til Eyja eftir að hafa stýrt nefndinni, sem lagði til bætta þjónustu Herjólfs. Aðrir í nefndinni eru, aðstoðarvegamálastjóri, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu og tveir fyrrverandi bæjarstjórar í Vestmannaeyjum. Þá hef ég ákveðið að núverandi bæjarstjóri bætist í hópinn og hefur hann tekið það verkefni að sér að minni ósk. Með þessu liði tel ég ekki í kot vísað. Ég vona að vinna nefndarinnar skili tilætluðum árangri og leggi grunninn að farsælli lausn á framtíðarsamgöngum á milli lands og Eyja.

Sturla Böðvarsson



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum