Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. júlí 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ljósmyndasýningin Þögul leiftur.

Ágætu gestir,

Það er mér mikil ánægja að fá að vera hér í dag við opnun sýningarinnar Þögul leiftur. Ég hef fylgst með uppbyggingunni hér á Hofsósi, allt frá því að hún hófst, og auðvitað verið, eins og aðrir, yfir mig hrifin af því hve vel hefur tekist til. Dugnaðurinn hér er til mikillar fyrirmyndar. Ríkisstjórn Íslands hefur stutt við þessa uppbyggingu og nýlega var samþykkt í ríkisstjórn að fela forsætisráðherra að undirrita framhaldssamning við Vesturfarasetrið. Samningurinn tekur við af samningi frá árinu 1999. Hinn nýji samningur mun gilda til ársins 2008 og á þeim tíma mun ríkissjóður verja 54 milljónum króna til uppbyggingar hér við Vesturfarasetrið.

Meginástæðan fyrir því að ríkisstjórnin vill stuðla að frekari framlögum úr ríkissjóði til þessa verkefnis er sú hve vel hefur tekist hér til. Staðið hefur verið við fyrri samning og áhugi almennings á þessu málefni er mikill. Ekki er aðeins um að ræða mikinn áhuga Íslendinga á því sem setrið hefur upp á að bjóða heldur einnig áhuga Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku.

Það er afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að varðveita sögu landnemanna frá Íslandi. Lengi vel voru þeir að mestu gleymdir og lítið sinnt, en frá árinu 1995 hefur ríkisstjórn Íslands lagt mikla áherslu á að rækta sambandið við byggðir Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku. Ég er nýkomin úr heimsókn til Kanada, þar sem ég meðal annars tók þátt í hátíðarhöldum Vestur-Íslendinga þar. Það var mikil upplifun. Það er með ólíkindum hve sterkan svip Íslendingar hafa sett á það samfélag sem þeir tóku þátt í að byggja í vesturheimi. Við getum verið stolt af því hvernig nafni Íslands hefur alla tíð verið haldið á lofti af íslensku landnemunum í Kanada og afkomendum þeirra.

 

Við fengum hlýjar móttökur á ferðum okkar um Íslendingaslóðir. Í heimabæ Stephans G. Stephanssonar, Markerville, söfnuðust um 300 Vestur-Íslendingar saman til að fagna lýðveldisafmæli okkar, og krýndu fjallkonu sína. Ísland skipar stóran sess í huga þess fólks. Í Winnipeg og Gimli mættu um 400 manns til að sjá sýningu leikara frá Þjóðleikhúsinu, sem byggði á sögum Böðvars Guðmundssonar. Uppsetningin var gjöf íslenska ríkisins til Vestur-Íslendinga í tilefni 60 ára lýðveldisafmælis og 100 ára afmælis heimastjórnar.

 

Persónulega hafði þessi heimsókn meiri þýðingu en flestar aðrar. Þegar ég stóð við minnisvarðann White Rock við Winnipeg vatn í Manitoba-fylki, skammt frá Gimli þar sem talið er að fyrstu Íslendingarnir hafi numið land, var mér hugsað til mömmu minnar, sem þangað kom á fyrsta aldursári ásamt ömmu minni og fóstru. Ári áður hafði afi minn, Guðni Eyjólfsson, farið vestur. Þau bjuggu í Gimli, en örlögin gripu inni í. Afi lést aðeins ári eftir að amma kom út og þá fluttu þær aftur heim, amma, mamma mín og fóstra. Tengslin eru mikil, og sögur má finna nánast í öllum fjölskyldum. Þessi tengsl þurfum við að rækta.

 

Það frumkvöðlastarf sem hér má sjá á Hofsósi er til fyrirmyndar og verður þeim hjónum Valgeiri Þorvaldssyni og Guðrúnu Þorvaldsdóttur ævinlega til hróss. Sú sýning sem hér opnar í dag er liður í því að rækta tengslin, minna okkur á fortíð okkar og kenna nýjum kynslóðum sögurnar, sögur sem mega aldrei gleymast því að kunna þær er hluti af því að vera Íslendingur.

Á næstu árum verður áfram unnið að uppbyggingu hér á Hofsósi. Meðal annars verður byggt hús, sem mun hýsa upplýsingamiðstöð og skrifstofur, svokallað Nafarhús. Þá verða einnig settar upp sýningar frá Manitoba, Washington og British Columbia. Ég óska aðstandendum alls hins besta við framkvæmd þessara verkefna.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum