Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. júlí 2004 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Aðgerðaráætlunin ,,Breytum þessu“

Þann 8. júlí boðaði samgönguráðherra til blaðamannafundar í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð til að kynna aðgerðaráætlunina ,,Breytum þessu“.

Góðir gestir,

Um síðustu áramót voru umferðaröryggismál flutt frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Tilgangurinn var að efla þessa starfsemi með því að koma Umferðarstofu og Vegagerðinni í sama ráðuneytið.

Um leið fór í gang vinna innan ráðuneytisins og lögð drög að aðgerðum. Það var strax ljóst að forgangsatriði væri að fækka alvarlegum slysum á þjóðvegum landsins. Á undanförnum árum hefur náðst verulegur árangur

við að fækka alvarlegum umferðarslysum í þéttbýli. Það er í dreifbýlinu sem áríðandi er taka á málum.

Á alþjóðlegum umferðardegi þann 7. apríl kynnti ég þær hugmyndir sem þá voru á borðinu. Síðan þá hefur undirbúningsvinnan haldið áfram og er henni nú lokið. Fyrir liggur aðgerðaáætlun sem verður kynnt hér í dag.

Umferðarslys eru ekki sjálfsagður hlutur. Okkar markmið er alveg skýrt. Öryggi í umferð á Íslandi skal vera eins og best gerist í heiminum, sbr. Bretland og Svíþjóð. En til þess að ná því markmiði þarf breytingar. Það þarf aðgerðir og það þarf skýr skilaboð.

Við ákváðum því að við vildum nafn á þessa aðgerðaráætlun sem væri betra en „umferðaröryggisáætlun samgönguráðuneytisins". Við vildum nafn sem kæmi því til skila að nú yrðu breytingar á þessum málum.

Þess vegna heitir þessi aðgerðaráætlun einfaldlega: „Breytum þessu!" - með stóru og miklu upphrópunarmerki - vegna þess að við ætlum að ná árangri og við ætlum að fækka alvarlegum slysum. „Breytum þessu!" er ætlað að vera hvatning til allra þeirra sem vinna að umferðaröryggismálum - hjá Umferðarstofu - hjá Vegagerðinni - í ráðuneytinu og út í þjóðfélaginu. „Breytum þessu!" er áminning um það að við berum ábyrgð á þessum málum. „Breytum þessu!" er líka hvatning til fólksins í landinu vegna þess að langflest alvarleg slys verða þegar verið er að brjóta umferðarlögin.

Almenningur í landinu ber líka ábyrgð. Í hvert einasta sinn sem við setjumst undir stýri erum við að axla ábyrgð á lífi fólksins í kringum okkur. En við erum að aka of hratt. Við erum að bregðast ábyrgð okkar sem ökumenn.

Að lokum er „Breytum þessu!" loforð. Við setjum í dag fram aðgerðaráætlun í 10 liðum og ég lít á þennan lista sem loforð þeirra sem starfa að umferðaröryggismálum til þjóðarinnar. Þetta er það sem samgönguráðuneytið ætlar að gera til að breyta þessu.

 

Í fyrsta lagi

Einbreiðum brúm á þjóðvegum landsins verður fækkað. Þessar slysagildrur eru alltof alltof margar. Á næstu 12 mánuðum er gert ráð fyrir að 20 einbreiðar brýr verði teknar úr notkun.

 

Í öðru lagi

Mikið verður lagt í að ná samkomulagi við sveitastjórnir hringinn í kringum landið og banna lausagöngu búfjár og hrossa - sérstaklega við þjóðveg eitt. Lausagangan skapar mikla hættu og hefur ítrekað kostað mannslíf. Ég vil breyta þessu.

 

Í þriðja lagi

Hafin er vinna við að skoða útfærslu á reglugerð vegna svokallaðrar "ökugerðishugmyndar" Með þeirri reglugerð verður öllum sem taka bílpróf skylt að taka tíma á sérstökum æfingasvæðum sem nefnast ökugerði. Þar öðlast nemendur til dæmis skilning á hversu bjargarlausir þeir eru í hálku ef ekið er hraðar en aðstæður leyfa. Þessum hálkubrautum er ekki ætlað að kenna fólki að bregðast við þegar bíll rennur í hálku, heldur, að aka skynsamlega við erfiðar aðstæður og koma þannig í veg fyrir að slíkar aðstæður komi upp yfir höfuð.

 

Í fjórða lagi

Slysarannsóknir verða efldar. Fjárfesting í rannsóknum skilar sér í aukinni þekkingu á slysagildrum og fækkun slysa.

 

Í fimmta lagi

Vegamerkingar verða bættar. Hér er ég sérstaklega að tala um leiðbeinandi hraðamerkingar á erfiðum vegaköflum, t.d. kröppum beygjum. Vegagerðin metur þá ákveðna vegakafla, finnur út æskilegan hámarkshraða á því vegbili og setur upp sérstakar merkingar.

 

Í sjötta lagi

Erlendir ferðamenn lenda í allt of mörgum af slysum á þjóðvegunum. Við þessu þarf að bregðast. Umferðarstofa mun gefa út sérstakt myndband fyrir erlenda ferðamenn um þær aðstæður sem hér eru og undirbúa þannig erlenda gesti betur en nú er gert.

 

Í sjöunda lagi

Ég mun leggja fram endurskoðaða umferðaröryggisáætlun sem verður á ábyrgð Umferðarstofu að fylgja eftir. Vinna við hana er þegar hafin. Ný áætlun verður lögð fram með tímasettum aðgerðum til fjögurra ára,skýrum markmiðun, kostnaður áætlaður og ábyrgð verkefna verður skýr.

 

Í áttunda lagi

Hraðaeftirlit verði eflt með aukinni notkun eftirlitsmyndavéla í samstarfi við lögregluna. Reynslan frá Bretlandi og Danmörku hefur sýnt, svo ekki verður um villst, að hraðamyndavélar geta fækkað alvarlegum slysum verulega. Sérstaklega eru áhugaverðar myndavélar sem mæla hraða á ákveðnum vegaköflum. Þá vinna tvær myndavélar saman - önnur tekur mynd í upphafi vegakaflans og hin í lokin. Síðan er reiknaður út meðalhraði bílsins. Slíkar myndavélar gætu haft mikil áhrif í dreifbýli þar sem eftirlit er lítið en hraðinn oft þeim mun meiri.

Tölvukubbur í hvern bíl er lausn sem er orðin tæknilega framkvæmanleg. Vegagerðin hefur unnið að þróunarverkefni með ND á Íslandi, sem hefur þróað þráðlausan ökurita. Þetta er lausn sem vert er að skoða með tilliti til umferðaröryggismála um leið og þar getur legið framtíðarlausn í gjaldtöku á vegakerfinu. Hins vegar er alveg ljóst að kerfi eins og þetta yrði að taka mikið tillit til persónuverndarsjónarmiða. Slíkt kerfi mætti aldrei vera hægt að nota til að fylgjast með ferðum fólks.

 

Í níunda lagi

Nokkrar stórframkvæmdir Vegagerðarinnar munu hafa mikil áhrif. Ég vil nefna fernt sérstaklega. Fyrsta áfanga við tvöföldun Reykjanesbrautar verður lokið innan skamms, lagður verður nýr vegur um Stafholtstungur í Borgarfirði, vegurinn um Norðurárdal í Skagafirði verður endurbættur og framkvæmdir við jarðgöng í Almannaskarði eru hafnar. Allt eru þetta tímamótaframkvæmdir.

 

Í tíunda lagi  viljum við breyta viðhorfi almennings til hraðaksturs. Það er staðreynd að of mörgum finnst það sjálfsagt að aka á ólöglegum hraða. Á sama tíma er hraðakstur algengasta orsök alvarlegra slysa. Við munum því efla forvarnir og hér á eftir mun Sigurður Helgason frá Umferðarstofu kynna fyrir ykkur nýja auglýsingaherferð sem ber nafnið „Hægðu á þér."

 

Góðri gestir

Á hverju ári deyja milli tuttugu og þrjátíu Íslendingar í

umferðarslysum. Auk þess slasast tugir svo alvarlega að þeir verða aldrei samir á eftir. Það er óeðlilegt og óásættanlegt. Við viljum að fólk spyrji spurninga þegar slíkt gerist – alvarlegustu slysin verða oft við bestu aðstæður. Menn eiga að spyrja: Hvað fór úrskeiðis? Og hvernig getum við komið í veg fyrir að þetta gerist aftur? Þannig getum við - breytt þessu ósættanlega ástandi í umferðinni.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum