Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. október 2004 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Jarðgöng í almannaskarði

Síðasta föstudag var slegið í gegnum síðasta haftið í jarðgöngunum í Almannaskarði. Um er að ræða merkan áfanga í endurbyggingu hringvegarins.

Göngin auka umferðaröryggið og lækka flutningskostnað. Verktakinn Leonard Nilsen & Sönner og Héraðsverk hafa unnið af miklu kappi við göngin og hefur verkið gengið mjög vel og eru verktakar á undan áætlun. Stefnt er að því að ljúka við verkið ekki seinna en í júnímánuði á næsta ári. Jarðgöngin í Almannaskarði eru hluti af þeim verkum sem fjármögnuð eru í Samgönguáætlun. Fyrir stuttu var slegið í gegnum síðasta haftið í jarðgöngunum milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Tvenn jarðgöng verða þannig tekin í notkun á Austurlandi á næsta ári, til viðbótar mikilli vegagerð á Austulandi sem m.a. tengist stóriðjuframkvæmdunum á svæðinu. Næstu stórverk í Norðausturkjördæmi verður að ljúka tengingu milli Norður- og Austurlands, byggja nýjan veg að Dettifossi, leggja veg af hringvegi til Vopnafjarðar og leggja nýjan veg í stað vegar um Öxafjarðarheiði. Jafnframt bíða í öðrum landshlutum mörg mikilvæg verkefni sem mjög er þrýst á. Austfirðingar verða því að sýna tillitssemi á meðan hugað er að framkvæmdum í öðrum landshlutum.

 Vinna við gerð jarðganga er vandasamt og erfitt verkefni. Mánuðum saman vinna starfsmenn verktaka inni í fjallinu og leggja hart að sér að ná þeim áfanga að ljúka við að bora og sprengja uns fjallið opnast og tenging milli fjarða og dala er staðreynd. Það þykir mikill viðburður í herbúðum jarðgangagerðarmanna þegar "slegið er í gegn" eins og þeir kalla það. Við þann atburð hafa þróast hefðir og venjur. Ein er sú að efna til fagnaðar og heiðra bergbúa og ekki síður að þakka verkamönnum fyrir mikið og vandasamt starf. Það hefur þótt við hæfi að þakka verkamönnum með því að ráðherra og forystumenn Vegagerðarinnar ásamt þingmönnum og ýmsum forsvarsmönnum úr héraði séu kallaðir til af ánægjulegu tilefni.

Það er nokkur skuggi yfir stórum og merkum áfanga við jarðgangagerðina í Almannaskarði. Eins og greint hefur verið frá í fréttum hef ég óskað eftir að framkvæmd verði rannsókn á framkvæmdinni og upplýst verði hverju það sætti að starfsmenn verktaka töldu sig hafa verið í hættu þegar sprengt var. Það er mjög alvarlegt ef rétt er að verktaki og þeir sem ábyrgð bera hafi ekki tryggt öryggi við framkvæmd sprengingar þegar slegið var í gegnum síðasta haftið. Upplýsa verður hvað fór úrskeiðis svo tryggja megi að slík hætta geti ekki stafað af framkvæmdum í jarðgangagerð. Gildir það um allan feril jarðgangagerðar frá fyrstu til síðustu sprengingu. Það gildir jafnt um ráðherra sem aðra gesti sem koma að slíkum viðburði til að þakka og fagna að við verðum að geta treyst því að öryggis sé gætt og engum stefnt í hættu.

 

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum