Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. október 2004 MatvælaráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda 14. október 2004

Ræða Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda 14. okt. 2004.

Ágætu fundarmenn!

Fyrir stuttu síðan kom út bók eftir Charles Clover blaðamann á Daily Telegraph sem ber heitið The End of the Line og hefur undirtitilinn How overfishing is changing the world and what we eat, sem mætti þýða sem "Undir það síðasta, áhrif ofveiði á heimsmyndina og hvað við borðum". Clover hefur ritstýrt umfjöllun Daily Telgraph um umhverfismál í 15 ár. Þá hefur hann þrisvar sinnum unnið til bresku umhverfis- og fjölmiðlaverðlaunanna, British Environment and Media Awards. Í bókinn kynnir höfundur fiskveiðistjórnunarkerfi víða um heim, spyr gagnrýnna spurninga varðandi þau, leggur mat á kosti þeirra og galla og gefur þeim loks einkunn. Höfundur kynnti sér íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið ítarlega og ræddi við marga sem hafa verið virkir í umræðunni og ýmsa aðila sem lagt hafa stund á rannsóknir á fiskveiðistjórnunarkerfinu út frá ólíkum forsendum. Viðmælendur voru meðal annars atvinnurekendur úr greininni, stjórnmálamenn, fræðimenn, fjölmiðlafólk og fulltrúar hagsmunasamtaka, þar á meðal Arthúr Bogason sem hann kallar "charming and apparently "green" " eða sjarmerandi og grænan, við fyrstu sýn.

Höfundur gerir góða grein fyrir uppbyggingu íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins og greinilegt er að hann hefur góðan skilning á virkni þess. Kerfið fær þó ekki nema átta í einkunn sem eigi að síður er hæsta einkunninn sem hann gefur nokkurri stjórnun úr stofnum sjávarfiska. Clover tiltekur sérstaklega að úthlutun kvótans í upphafi, stærð fiskiskipaflotans og dagabátakerfið dragi einkunn Íslands niður. Að öðru leyti er óhætt að segja að heildarniðurstaða höfundar sé sú að fiskveiðistjórnunarkerfið hér á landi sé að skila góðum árangri.

Vinir okkar, Færeyingar, fá einkunina sex. Það sem dregur þá fyrst og fremst niður hjá Clover er hversu hátt hlutfall veiðistofns þorskins er veitt samanborið við ráðleggingar vísindamanna. Bæði þeirra sem starfa hjá færeysku hafrannsóknastofnuninni og hjá ICES sem hefur sagt að þorskstofninn þoli ekki að veidd séu 33% úr honum á hverju ári. Slíkt geti hugsanlega gengið til skamms tíma við ákveðnar umhverfisaðstæður en gangi ekki til lengri tíma. Í stað þess að horfa til ráðlegginga þessara opinberu og alþjóðlegu stofnana kýs þingið að fara eftir ráðleggingum annarra fiskifræðinga sem það sjálft velur sér. Við þessu varar Clover.

Þá kemst ég ekki hjá því, fyrst ég er að vitna í þessa ágætu bók, að minnast á framtak Orra Vigfússonar. Er framtak hans til verndunar á laxastofnum í Norður-Atlantshafi lofað, en Orri hefur beitt sér fyrir því að uppræta laxveiði í sjó. Verndunaraðgerðir Orra fá 9 í einkunn þannig að hann er dúxinn í bókinni.

Nú skulum við aðeins staldra við og horfa til þeirra atriða sem Clover taldi okkur vera til vansa. Hvað fyrsta atriðið varðar sem er upphafsúthlutun kvótans þá var það ákvörðun sem tekin var á sínum tíma þar sem útgerðin tók þá ábyrgu afstöðu að draga saman veiðar sínar í íslensku lögsögunni í samræmi við ráðgjöf vísindamanna. Á þessum tímapunkti var því verið að taka frá útgerðinni en ekki að færa henni nokkurn skapaðan hlut. Enginn gat séð fyrir hvernig mál myndu þróast en það verður ekki af útgerðarmönnum tekið að þeir sýndu ábyrga afstöðu og mikla fyrirhyggju með því að draga saman veiðarnar. Ekki er ólíklegt að staðið hefði verið öðruvísi að málum ef sést hefði fyrir hvernig mál myndu þróast. Ekki var heldur hægt að horfa til annarra ríkja þar sem við vorum frumkvöðlar á þessu sviði fiskveiðistjórnunar. Ekki er forsvaranlegt að velta sér lengur upp úr þessari sögu, þetta er gerður hlutur en vissulega var veiðigjaldið sett á til þess að koma til móts við gagnrýni af þessum toga. Lengra geta stjórnvöld ekki gengið í því að leiðrétta söguna. Hvað annað atriðið snertir, stærð flotans, þá voru stjórnvöld svift heimildum til að takmarka flotastærð með Valdimarsdómnum sem kveðinn var upp í hæstarétti í desember 1998. Samkvæmt honum er óheimilt að takmarka fjölda fiskiskipa með takmörkunum á útgáfu veiðileyfa.

Þriðja atriðið sem dregur að mati Clovers úr trúverðugleika fiskveiðistjórnunarkerfisins á Íslandi snýr að sóknarkerfi smábáta. Ástæðan er augljós, því jafnvel þótt dagabátaflotinn hafi veitt löglega og í samræmi við það hvernig lögin gerðu ráð fyrir að afli þeirra myndi aðlagast réttu magni, þá veiddu dagabátar alltaf langt umfram það sem þeim var ætlað. Þetta atriði verður þó ekki lengur til þess að draga úr trúverðugleika íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins, þar sem dagakerfið er ekki lengur til staðar.

Breytingarnar á dagakerfinu áttu sér nokkuð langan aðdraganda eða um tvö ár. Viðræður milli ráðuneytisins og Landssambandsins snéru upphaflega að því að stöðva þá aflaaukningu sem sjálfkrafa var byggð inn í kerfið. Segja má að einu skorðurnar sem dagabátum voru settar hafi annars vegar snúið að stærð báta, þ.e.a.s ef þeir voru stækkaðir í brúttótonnum þá fækkaði dögunum í ákveðnu hlutfalli. Hins vegar var það fækkun daga um allt að 10% á milli fiskveiðiára. Engar hömlur voru aftur á móti á stækkun véla auk þess sem hægt var að efla getu bátanna og í raun stækka án þess að hrófla við brúttótonnastærð. Þannig var innbyggður hvati til aukinnar veiðigetu í kerfinu og því ekki við öðru að búast en að flotinn nýtti sér þetta gat í lögunum og veiddi sífellt meira og meira umfram það sem honum var ætlað. Þetta var auðvitað óeðlilegt og engan veginn í anda fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda og fulltrúar ykkar í daganefndinni voru alveg heilir í því að vilja sporna við þeim innbyggða hvata sem var til stækkunar í kerfinu. Í staðinn settu þeir fram þá kröfu að fá inn svokallað gólf í dagana. Samvinna ráðuneytisins og LS snérist því í byrjun fyrst og fremst um það að gera sér grein fyrir áhrifum vélastærðar á aflabrögð og hvernig taka mætti á þeim þætti til þess að gera dagakerfið skilvirkara. Niðurstaða þessara athugana var öll á einn veg og kemur ykkur ekki á óvart, að línulegt samband er á milli afla og vélastærðar. Að því fengnu var næsta skref að átta sig á því hvernig og hvort hægt væri að setja reglur um vélastærð. Fyrir lá að ekki var hægt að setja neinar afturvirkar reglur, því hefðu nýjar fyrst og fremst beinst að þeim bátum sem ekki höfðu þá þegar gengið í gegnum vélarstækkun. Þeir voru reyndar fjölmargir þar sem einn þriðji af dagabátaflotanum var með vélar undir 80 hestöflum. Það var svo stuttu fyrir síðustu Alþingiskosningar að ljóst var að ekki næðist saman með ráðuneytinu og Landssambandinu fyrir kosningarnar.

Eftir kosningar var málið tekið upp að nýju og það nálgast út frá sömu forsendum enda höfðu fulltrúar Landssambandsins í raun enga heimild til þess að nálgast það öðruvísi þegar horft er til ályktana LS frá síðustu aðalfundum samtakanna. En segja má að upp hafi komið efasemdir hjá stjórnvöldum um gildi þess að setja reglur á vélastærð myndu virka eins og til væri ætlast í kjölfar skýrslu sem ráðuneytið lét vinna fyrir sig um þetta efni. Þá komu forsvarsmenn Félags dagabátaeigenda þeirri skoðun á framfæri við ráðuneytið að þeir hefðu miklar efasemdir um að þessi aðferðarfræði myndi skila þeim árangri sem til væri ætlast og höfðu auk þess aðrar hugmyndir um hvernig leysa bæri málið. Þegar líða tók á veturinn fór svo að magnast þrýstingur frá ýmsum eigendum dagabáta innan LS um að þeir fengju að flytja sig yfir í krókaflamark. Ég gerði forystu LS grein fyrir þessu en þeir töldu sig ekki hafa umboð til þess að ræða um neitt annað en að vinna að breytingum á dagakerfinu.

Þegar hér var komið við sögu vildi ég fá betri sýn á það hver raunveruleg afstaða dagakarla væri án þess að þeir sem tilheyrðu öðrum kerfum smábáta kæmu þar að. Því bauð ég forystu LS og fulltrúum ykkar í daganefndinni upp á að gera skoðanakönnun hjá félagsmönnum sem gerðu út dagabáta í þeim tilgangi að athuga hvort afstaða dagakarla hefði breyst, eða væri önnur en fram kom í ályktun frá síðasta aðalfundi. Það þótti forystumönnum LS ekki koma til greina og viðurkenni ég fúslega að aðferðarfræðin er sérstök. Engu að síður hefði hún gefið okkur dýrmætar upplýsingar og því taldi ég sterk rök með því að beita slíku vinnulagi. Ég virti niðurstöður ykkar manna og því varð aldrei neitt úr könnuninni.

Eftir nokkra umhugsun og í ljósi þess hversu margir dagakarlar höfðu komið á framfæri við mig þeirri skoðun sinni að rétt væri að taka upp krókaflamark, varð niðurstaða mín sú að leggja fram frumvarp þar sem aðilum yrði gefinn kostur á að velja milli þess að vera áfram í dagakerfinu eða flytjast yfir í krókaflamark. Í mínum huga var hér um jafngilda kosti að ræða enda var jafnframt gert ráð fyrir að gólf yrði sett í dagana. Ég gerði fulltrúum ykkar síðan grein fyrir þessari niðurstöðu og voru þeir ekki sáttir við hana. Þeir ákváðu hins vegar að taka málið til skoðunar áður en þeir tækju endanlega afstöðu til þess. Í kjölfarið tilkynntu þeir mér að þeir myndu ekki leggjast gegn málinu og framhaldið þekkja síðan allir þar sem forysta ykkar vann af fullum heilindum í málinu og lagði til, að úr því sem komið var væri rétt að allir færu í krókaflamark. Frumvarpið breyttist því í þá veru í meðförum sjávarútvegsnefndar í samráði við LS og sjávarútvegsráðuneytið. Frá sjónarhorni ráðuneytisins þá virðist smám saman hafa orðið afstöðubreyting hjá eigendum dagabáta sem setti forystu LS vissulega í erfiða stöðu, en að mínu mati þá fékkst skynsamleg niðurstaða í málið í samvinnu við forystuna.

Hvað sem öllu líður þá er komin niðurstaða í málið og kerfið nú heildstætt og hagsmunirnir sameiginlegir. Hinn ágæti höfundur Charles Clover getur því þess vegna hækkað einkunn okkar upp í níu. Jafnframt geta fulltrúar heildsölufyrirtækja, verslana- og veitingahúsakeðja hætt að hafa áhyggjur af umframveiði dagabáta eins og sumir þeirra hafa verið að tíunda í samskiptum sínum við sjávarútvegsráðuneytið. Verkefni okkar nú er að snúa bökum saman, vinna með þessum aðilum og byggja þannig upp fyrir framtíðina.

Það hafa ýmsir verið undrandi og pirraðir þegar ég hef sagt að ekki sé verið að taka frá neinum þó dagabátarnir hafi verið teknir inn í krókaflamarkið og þeim úthlutað mun hærra aflamarki heldur en gildandi lög sögðu til um. Ástæðan er í raun afar einföld, tonnin sem komu til viðbótar sem krókaflamark hjá dagabátum voru þegar veidd af þessum sömu bátum á löglegan hátt og fyrirsjáanlegt að veitt yrði svipað magn í framtíðinni. Enda voru mikil tækifæri samkvæmt lögunum sem þá voru í gildi til að efla dagabátaflotann enn frekar, meðal annars með stækkun véla. Sá fiskur sem dagabátarnir veiddu gat aldrei komið annarsstaðar frá en úr auðlindinni sjálfri. Sá fiskur sem er veiddur í ár hann hættir að stækka. Hann verður ekki veiddur á næsta ári og hann hrygnir ekki aftur og hrygnir jafnvel aldrei. Umframveiði dagabáta verður nú ekki lengur til staðar og því mun sá afli skila sér í hærri úthlutun til aflamarksskipanna í framtíðinni, að því leytinu fara hagsmunir smábátaútgerðar og LÍÚ flotans saman. Þessu er hins vegar öfugt farið með línuívilnunina, í henni er klárlega verið að taka frá einum og færa öðrum. Það sem til úthlutunar kemur hverju sinni er hreinlega minnkað um það magn sem fært er til þeirra skipa sem nýta sér hana. Sama myndi gilda ef línuívilnuninni væri bætt við samanber það sem ég sagði hér að framan um dagabátana.

Góðir fundarmenn!

Eins og fram kom hér fyrr í ræðunni þá eru heildsölufyrirtæki og verslana- og veitingahúsakeðjur farnar að horfa til fiskveiðistjórnunar við stefnumörkun fyrirtækjanna við kaup á fiski. Ekki aðeins að þeir horfi til þeirra þátta við innkaupin heldur upplýsa þeir jafnframt viðskiptavini um stefnu sína meðal annars með auglýsingaherferðum og með sérstökum merkingum á þeim fiski sem í boði er.

Það sem ætti að vekja sérstaka athygli ykkar smábátasjómanna er samvinna sjávarútvegsráðuneytisins við stærstu matvörukeðju heims Carrefour í Frakklandi, um að veita sérstakar upplýsingar um efnainnihald og gæði íslensks fisks. Carrefour leggur sérstaka áherslu á línufisk ekki síst frá Íslandi og kynnir hann sem gæðafisk frá miðum þar sem sjálfbærar veiðar eru stundaðar. Auglýstu þeir þessa stefnu sína í útbreiddum fjölmiðlum víða í Evrópu.

Þó þetta sé stefna þessa fyrirtækis þá þýðir það ekki að við eigum að fara að mismuna veiðarfærum. Ólíkar reglur fyrir einstök veiðarfæri verða að byggja á niðurstöðum viðurkenndra rannsókna. Hins vegar sýnir þetta að sameiginlegir hagsmunir okkar liggja í því að greina markaðina til hins ítrasta og sækja inn á hvern og einn þeirra á viðeigandi forsendum. Sóknarfæri fyrir línufisk á ekki að veikja markaðsstöðu okkar annarsstaðar heldur þvert á móti að nýtast til þess að auka meðbyr með íslensku sjávarfangi í heild. Sú viðurkenning sem fellst í því að við stundum sjálfbærar veiðar getur nýst á mörgum sviðum markaðssóknar.

Ég hef vikið að því áður að ýmsar breytingar hafa verið gerðar á kvótakerfinu í gegnum tíðina með það að leiðarljósi að lægja öldurnar í kringum fiskveiðistjórnunarkerfið. Tvær síðustu breytingar voru grundvallarbreytingar sem ég hef m.a. fjallað um hér í dag, þ.e.a.s. upptaka veiðigjalds og breytingin á dagabátakerfinu. Nú er mál að linni, nú þarf greinin að fá frið til að efla sig enn frekar og nú eru komnar í megin atriðum sömu forsendur fyrir alla. Ég ítreka að við verðum að vinna saman og ef ráðuneytið getur haft forgöngu um slíka samvinnu þá lýsi ég því hér með yfir að við munum ekki skorast undan verkum.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum