Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. október 2004 MatvælaráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna

Ræða Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna, 28. október 2004

Ágætu fundarmenn!

Sjávarútvegsfyrirtæki hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum og er rekstur þeirra að verða sífellt víðtækari og flóknari. Mörg fyrirtækjanna skilgreina starfsemi sína sem eina heild eða keðju þar sem þau hafa hlutverki að gegna allt frá því að fiskurinn er veiddur, þar til hann kemur inn á borð neytandans. Í mörgum tilfellum er því úrelt að tengja þau við einn mikilvægan hlekk og tala um sjávarútvegsfyrirtæki, eðlilegra væri að tala um sjávarfangsfyrirtæki, svo víðtæk er starfsemi þeirra.

Hér er ekki um séríslenska þróun að ræða heldur alþljóðlega. Í síðasta mánuði var ég staddur í Alaska þar sem ég fór fyrir viðskiptasendinefnd fyrirtækja tengdum sjávarútvegi í ferð sem skipulögð var af Útflutningsráði Íslands. Fékk ég meðal annars tækifæri til að kynna mér rekstur eins öflugasta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækis í Alaska. Óhætt er að segja að uppbygging fyrirtækisins sé með allt öðrum hætti en við eigum að venjast hér á landi. Öfugt við það sem gengur og gerist hjá okkur Íslendingum þá eru áhafnir skipa útgerðarinnar mjög fámennar, en vinnslan fjölmenn. Á tæplega 500 tonna togara sem ég skoðaði og gerir út á alaskaufsa eru aðeins 5 í áhöfn, en það skal tekið fram að fiskurinn er hvorki slægður né blóðgaður um borð. Í vinnslu sama fyrirtækis var hægt að vinna allt upp í 1.500 tonn af Alaskaufsa á sólarhring og var nánast hvert einasta gramm af fiskinum nýtt þar sem mjöl- og surimi vinnsla var hluti af heildar framleiðsluferli hússins. Mikil áhersla var á hagræðingu í fyrirtækinu og að ná góðri nýtingu á framleiðslutækjunum. Eitt af því sem menn voru sammála um þar á bæ var að breytingar úr ólympískum veiðum yfir í aflamarkskerfi hefðu breytt öllu til hins betra hvað varðar rekstur sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækja á svæðinu. Mátti að mörgu leyti finna fyrir sama anda þar og var hér á landi á fyrstu árum fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Þrátt fyrir að þróun kvótakerfisins nái lengra aftur, hefur hagræðing í íslenskum sjávarútvegi fyrst og fremst átt sér stað á því tímabili sem núverandi lög hafa verið í gildi, eða frá árinu 1991. Þetta undirstrikar að afkoma greinarinnar veltur að mörgu leyti á því hvert stjórnkerfi fiskveiða er og sá tími sem nú er liðinn frá því að aflamarkskerfið var tekið upp talar sínu máli. Ragnar Árnason prófessor við Háskóla Íslands hefur sýnt fram á þetta í ræðum sínum og ritum en hann verður einmitt með erindi hjá ykkur á morgun um þýðingu sjávarútvegsins í þjóðarbúskapnum.

Ein allra nýjasta rannsóknin þessu tengd er unnin af Háskólanum á Akureyri í samstarfi við háskóla í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Englandi. Í henni er leitast við að skýra hvernig mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfi leiða til ólíkrar hegðunar sjávarútvegsfyrirtækja. Í þeim hluta rannsóknarinnar sem Háskólinn á Akureyri vann var þróun sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi skoðuð frá árinu 1980 til ársins 2000. Rannsóknin nær því til tveggja tímabila, fyrir og eftir að núverandi kvótakerfi er fest í sessi. Annars vegar er um að ræða stjórnun sem byggir bæði á sóknar- og aflamarksstýringu á árunum 1980-1991 og hins vegar á kvótakerfinu eins og það er byggt upp í dag, þ.e.a.s.á aflamarksstýringu. Í áfangaskýrslu sem fulltrúar Háskólans á Akureyri hafa þegar birt á netinu og kynnt fyrir sjávarútvegsráðuneytinu kemur fram sú megin niðurstaða rannsóknarinnar að hegðun útgerðaraðila sem starfa í aflamarkskerfi er önnur en hjá útgerðum sem byggja á sóknartengdum stjórnunaraðferðum. Þetta á við hvort heldur sem horft er til samanburðar við kerfið eins og það var áður, eða til hinna landanna sem þátt tóku í rannsókninni þar sem stjórnun fiskveiða byggir á sóknarstýringu.

Samkvæmt rannsókninni eru íslensku sjávarútvegsfyrirtækin frábrugðin sjávarútvegsfyrirtækjum hinna landanna að því leyti að þau hafa sjálf frumkvæði að því að minnka fiskiskipaflotann. Því er hann mun hagkvæmari en togarafloti Norðmanna eða annarra landa sem borið er saman við. Þá benda niðurstöður til að íslenski flotinn geti minnkað enn frekar, eða um 30-50%, allt eftir ástandi skipanna, notkun þeirra og stærða stofna. Möguleiki hinna landanna hljóðar upp á 70-80% minnkun á flotastærð. Íslenska kvótakerfið hefur því náð lengst í að minnka flotann í þá stærð sem hæfir afrakstursgetu fiskimiðanna. Í mínum huga er niðurstaðan jafnframt ábending um að breytingar á fiskveiðistjórnun erlendis geti skapað tækifæri til útrásar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sem búa yfir kunnáttu til að hagræða í rekstri sínum.

Það verður reyndar að teljast nokkuð einkennilegt hversu margir telja kvótakerfinu það til lasts að það hefur ýtt undir hagræðingu og arðsemi í greininni, þegar það er í raun einn helsti styrkur kerfisins. Þetta er ekki síst skrýtin umræða þegar horft er til þess að engin önnur grein þarf að lúta samskonar takmörkunum og sjávarútvegsfyrirtæki hvað varðar stærð fyrirtækjanna.

Í athyglisverðu erindi sem Kjartan Ólafsson hélt á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva fyrr í þessum mánuði fjallaði hann um ástæður þess að fyrirtæki í sjávarútvegi hafa verið að draga sig út úr Kauphöllinni. Þeim hefur fækkað úr 17 fyrirtækjum í 7 á aðeins fjórum árum og er nú svo komið að hlutfallslegt verðmæti sjávarútvegsins er einungis um 4% af markaðsverðmæti skráðra félaga í Kauphöll Íslands, en var um 16% árið 2001. Þá gerði hann einnig samanburð á þróun vísitölu sjávarútvegsins í samanburði við aðallista Kauphallarinnar. Sjávarútvegurinn hefur einungis hækkað um 2% á ári frá árinu 2000 á meðan vísitala fyrirtækja á aðallista hafði hækkað um 350%, hversu gott sem það nú er enda erum við að sjá hressilegar leiðréttingar á markaðnum þessa dagana. Taldi Kjartan að aðilum á markaði þættu sjávarútvegsfyrirtæki óspennandi þar sem þau ættu litla möguleika á að vaxa hratt. Við stöndum því frammi fyrir þeirri spurningu hvort verðbréfamarkaðurinn sé fyrst og fremst fyrir vaxtafyrirtæki og að það sé hreinlega ekki vilji til þess að fjárfesta í fyrirtækjum sem byggja á einni traustustu auðlind þjóðarinnar alla síðustu öld. Er íslenski markaðurinn kannski þess eðlis að "hetjufjárfestar" eins og einhver kallaði þá ráða því hvað er spennandi á hverjum tíma en ekki raunveruleg staða og grundvöllur fyrirtækjanna sjálfra.

Vissulega er það rétt að þak á kvótaeign takmarkar samþjöppunar- og þar með vaxtamöguleika útgerðarfyrirtækja. Kvótaeignin sem slík kemur þó ekki í veg fyrir ýmiskonar hagræðingu sem ekki er háð kvótaeigninni. Þegar litið er til þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem horfið hafa úr Kauphöllinni þá hafa þau í flestum tilfellum ráðið bæði yfir vinnslu og útgerð.

Einkenni íslenskra fiskvinnslufyrirtækja er að þau eru tiltölulega smá ekki síst ef við horfum til fyrrgreindrar fiskvinnslu í Alaska. Í mínum huga hafa sjávarútvegsfyrirtæki sem ráða bæði yfir útgerð og vinnslu haft góð tækifæri til þess að ná fram meiri hagræðingu í vinnslunni og ég tel að mikil hagræðing eigi eftir að verða á þessu sviði. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að tvær eða fleiri útgerðir vinni saman í fiskvinnslu. Við þekkjum það öll að verið er að reka frystihús svo til hlið við hlið á einstökum stöðum á landinu þegar önnur vinnslan gæti afkastað því sem báðar eru að vinna. Þá eru örugglega ýmsir aðrir þættir sem snúa að rekstri fyrirtækjanna sem bjóða upp á heilmikla möguleika á frekari samvinnu í þeim tilgangi að auka arðsemi enn frekar. Við erum þegar farin að sjá þessa þróun í fyrirkomulagi sölumála hjá útgerðarfyrirtækjum.

Ágætu fundarmenn!

Undir lok Alþingis síðastliðið vor var dagabátakerfi smábáta lagt niður. Þetta var að mínu mati nauðsynlegt til þess að koma á heildstæðu fiskveiðistjórnunarkerfi. Hitt er mér líka ljóst að þið útgerðarmenn voruð ekki sáttir við hversu mikið þessir aðilar fengu í sinn hlut og tölduð að verið væri að taka frá ykkur til að færa það öðrum. Ég hef hins vegar ekki verið sammála þessari túlkun eins og ykkur er kunnugt um. Því jafnvel þótt dagabátar hafi verið að fiska mun meira heldur en þeim var ætlað þegar lögin um dagakerfið tóku gildi, þá voru þeir að starfa samkvæmt lögum. Því hef ég sagt og segi það enn að það var ekki verið að taka frá neinum þó dagabátarnir hafi verið teknir inn í krókaflamarkið og þeim úthlutað því magni sem raun varð á. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá var þessi afli veiddur af þessum sömu bátum og fyrirsjáanlegt að það myndi ekki breytast þrátt fyrir allt að 10% fækkun daga á milli ára. Lögin heimiluðu stækkun véla bátanna auk þess sem hægt var að efla getu þeirra með nýrri hönnun án þess að stærð þeirra breyttist í brúttótonnum talið. Að þessu leyti var mikill hvati til aukinnar veiðigetu í kerfinu og því ekki við öðru að búast en að flotinn veiddi sífellt meira og langt umfram það sem honum var ætlað. Þetta var engu að síður óæskilegt og ekki í anda fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það breytir því samt ekki að afli dagabátanna gat aldrei komið annarsstaðar frá en úr auðlindinni sjálfri. Sá fiskur sem er veiddur stækkar ekki. Hann verður ekki veiddur að ári og hefur jafnvel aldrei náð að hrygna þegar hann er veiddur. Umframveiði dagabáta heyrir nú sögunni til og því mun sá afli skila sér í hærri úthlutun til aflamarksskipanna í framtíðinni.

Þessu er hins vegar öfugt farið með línuívilnunina, í henni er klárlega verið að taka frá einum og færa öðrum. Það sem til úthlutunar kemur hverju sinni er hreinlega minnkað um það magn sem fært er til þeirra skipa sem nýta sér hana. Sama myndi gilda ef línuívilnuninni væri bætt við heildarúthlutunina samanber það sem ég sagði hér að framan um dagabátana.

Nú þegar búið er að leggja af sóknarkerfi sem hluta af íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu er fróðlegt að velta fyrir sér hvernig umræðu um bæði þessi kerfi hefur verið. Ég minnist þess ekki að umræða um dagakerfi hafi nokkurn tíma verið af svipuðum toga og umræða um aflamarkskerfi. Áður en við tókum upp aflamarkskerfið var úthlutað dögum til veiða, en umræðan snérist aldrei um að ríkið væri að gefa nokkurn skapaðan hlut. Fljótlega eftir að dögum var breytt í tonn af fiski fór þessi umræða af stað. Í báðum tilfellum er þó um sömu grundvallaratriði að ræða þar sem verið er að veita þeim aðilum sem nýtt hafa auðlindina rétt til þess að gera það áfram með takmörkunum. Það var alveg greinilegt að dagar fengu verðmiða rétt eins og hlutdeild og því enginn munur á þessu tvennu og í dagakerfinu sáluga fengu menn milljónir fyrir það eitt að hafa dagaleyfi á bát sem nánast var einskis virði. Hvers vegna hefur umræða um sóknarkerfið og aflamarkskerfið þróast með ólíkum hætti? Af hverju telur þjóðin að hún eigi rétt gagnvart útgerð sem stundar veiðar í aflamarkskerfi en ekki í sóknarmarkskerfi? Það skyldi þó ekki vera fyrir þær sakir að aflamarkskerfið hefur sýnt að það bætir afkomu útgerðarinnar en sóknarmarkskerfið ekki. Því hefur velgengni kerfisins að mörgu leyti unnið gegn því. Bætt afkoma útgerðarinnar hefur skapað jarðveginn fyrir þá umræðu sem verið hefur undanfarin ár um að þjóðin eigi að fá beinan hlut í arðinum af auðlindinni. Það hefur hún nú fengið með upptöku veiðigjaldsins. Ég bind því miklar vonir við að heildstætt kerfi og upptaka veiðigjaldsins geti skapað frið um sjávarútvegsmálin, greinin og þjóðin á það inni hjá sjálfri sér og reyndar sérstaklega okkur stjórnmálamönnum.

Upptaka veiðigjalds er ekki það eina sem hefur verið að breytast í rekstrarumhverfi útgerðarinnar. Ýmis utanaðkomandi áhrif hafa verið útgerðinni erfið, olíuverð hefur hækkað mikið að undanförnu og staða krónunnar hefur verið mjög sterk. Íslenskt efnahagslíf lagar sig ekki lengur að sjávarútveginum með sama hætti og áður þar sem umsvif sjávarútvegs í íslensku þjóðfélagi hafa verið að minnka hlutfallslega vegna aukinna umsvifa annarra atvinnugreina. Sjávarútvegur ræður því ekki lengur gengisskráningunni og ef að líkum lætur mun hann ekki gera það í framtíðinni vegna aukins umfangs annarra greina.

Hlutverk stjórnvalda gagnvart atvinnulífinu er að skapa því samkeppnishæft umhverfi og umgjörð sem hvetur til sóknar. Núverandi ríkisstjórn hefur lagt metnað sinn í skapa slíkt umhverfi. En jafnvel þótt núverandi ríkisstjórn hafi lagt mikið upp úr slíku meðal annars með miklum skattalækkunum á fyrirtæki þá má aldrei sofna á verðinum og sífellt er hægt að gera betur. Útvegsmenn hafa talsvert rætt við mig að undanförnu um kostnað útgerðarinnar meðal annars það sem snýr að eftirliti íslenska ríkisins á fiskiskipaflotanum og greininni í heild. Vilja margir meina að það sé allt of flókið og jafnvel að útgerðarflokkum sé mismunað. Hafa þeir haldið þeirri skoðun á lofti að hægt sé að ná betri árangri með því að einfalda eftirlitið, gera það markvissara og draga um leið úr kostnaði útgerðarinnar. Ég hef því ákveðið að skipa nefnd sem hefur það hlutverk að gera úttekt á starfsumhverfi sjávarútvegsins og skoða hvort hægt sé að minnka álögur, einfalda og samhæfa ýmsa þjónustu og eftirlit sem ríkið innir af hendi í þeim tilgangi sérstaklega að lækka rekstrakostnað og gera kerfið skilvirkara. Formaður nefndarinnar verður Vilhjálmur Egilsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu.

Ágætu fundarmenn!

Í ræðu sem ég hélt fyrr í þessum mánuði fjallaði ég um bók eftir Charles Clover blaðamann á Daily Telegraph sem ber heitið The End of the Line og hefur undirtitilinn How overfishing is changing the world and what we eat, sem mætti þýða sem "Undir það síðasta, áhrif ofveiði á heimsmyndina og hvað við borðum". Clover hefur ritstýrt umfjöllun Daily Telegraph um umhverfismál í 15 ár. Þá hefur hann þrisvar sinnum unnið til bresku umhverfis- og fjölmiðlaverðlaunanna, British Environment and Media Awards. Í bókinn kynnir höfundur fiskveiðistjórnunarkerfi víða um heim, spyr gagnrýnna spurninga varðandi þau, leggur mat á kosti þeirra og galla og gefur þeim loks einkunn. Höfundur kynnti sér íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið og gaf því hæstu einkunn sína eða átta. Eitthvað hefur bókarval mitt farið öfugt ofaní einstaka aðila þar sem fundið er að því að ég skuli leyfa mér að lesa, hvað þá vitna í þessa bók. Rökin eru þau að rithöfundurinn óttast um afkomu fiskistofnanna ekki síst í Atlantshafi og hvetur fólk til að neyta ekki fisks úr þeim stofnum sem eru ofveiddir. Þá er hann á móti notkun botndrægra veiðarfæra. Í ljósi þess að sú umræða er að verða sífellt háværari er þá ekki beinlínis nauðsynlegt að við kynnum okkur þessi sjónarmið?

Clover hefur það þó fram yfir ýmsa aðra sem skrifa um fiskveiðistjórnun að hann gerir greinarmun á þorskstofnum í Norður-Atlantshafi og nýtingu þeirra og hann kynnir sér Ísland alveg sérstaklega vel. Hvernig væri heimurinn eiginlega ef stjórnmálamenn neituðu sér um að lesa umfjallanir annarra en þeirra sem þeir vissu fyrirfram að væru sömu skoðunar og þeir sjálfir. Þetta minnir vissulega á orðatiltækið "heimskt er heimaalið barn" og ég vona svo sannarlega að það sé ekki slíkur sjávarútvegsráðherra sem fólk vill hafa í embætti. Það er svo aftur spurning hvort ekki skorti á víðsýni sumstaðar annarsstaðar í þjóðfélaginu og jafnvel á hinu háa Alþingi? Því "vits er þörf þeim er víða ratar."

Góðir fundarmenn!

Eins og ég nefndi fyrr í ræðunni þá hafa orðið mikla breytingar á umhverfi sjávarútvegsins. Svo vill til að í mars á næsta ári eru 100 ár liðin frá því fyrsti togarinn kom til Íslands og af því tilefni hef ég ákveðið að efna til ráðstefnu um framtíð og horfur í íslenskum sjávarútvegi. Hverjir eru möguleikarnir, hverjar eru líklegustu breytingarnar og hvernig ætlum við að nýta þær til frekari uppbyggingar og sóknar. Ég tel vel við hæfi að segja frá þessu opinberlega í fyrsta skipti hér á þessum aðalfundi því ég vil svo sannarlega sjá sem flest ykkar þar og vonast til að þið takið föstudaginn 4. mars frá nú þegar í dagbókum ykkar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum