Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. nóvember 2004 MatvælaráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Málþing um matvælarannsóknir á Norðurlandi

Ávarp Árna M. Mathiesen á málþingi um

matvælarannsóknir á Norðurlandi

Ágætu fundarmenn!

Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að ávarpa ykkur hér í Borgum, nýju og glæsilegu rannsóknahúsi Háskólans á Akureyri. Mér finnst ótrúlega stutt síðan að ég kom í heimsókn hingað í háskólann stuttu eftir að ég varð ráðherra og Þorsteinn háskólarektor sýndi mér líkan af háskólasvæðinu, þar sem hann lagði sérstaka áherslu á væntanlegt rannsóknahús og mikilvægi þess í uppbyggingu skólans í framtíðinni. Þegar ég lít til baka tel ég að það hafi ekki síst verið fyrir framsetningu rektorsins að við Björn Bjarnason, sem þá var menntamálaráðherra, lögðum fram minnisblað um byggingu þessa húss í ríkisstjórninni. Jafnvel þótt hús það sem nú er risið sé að mörgu leyti frábrugðið því sem ég man eftir á líkaninu þá breytir það ekki því að hér er um glæsilega byggingu að ræða sem ég tel að eigi eftir að verða lyftistöng fyrir hvers kyns rannsóknir í þessum landshluta og háskólasamfélagið allt.

Eins og ég hef skýrt frá áður á vettvangi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins þá standa yfir talsverðar áherslubreytingar hjá stofnuninni. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er öflugasta matvælarannsóknastofnun landsins með 70 ára sögu að baki. Áherslur Rf hafa tekið breytingum í gegnum tíðina og hef ég trú á að þær breytingar sem standa nú fyrir dyrum séu af hinu góða. Þær snúa fyrst og fremst að stofnuninni sjálfri þar sem hún hefur verið að draga sig að stórum hluta út úr þjónusturannsóknum sem eru í samkeppni við einkaaðila. Einnig hefur verið umræða um matvælarannsóknir og framtíð þeirra í mun víðara samhengi þar sem verið er að skoða hvort grundvöllur sé fyrir að sameina allar stofnanir sem leggja stund á matvælarannsóknir á vegum ríkisins.

Hvað þjónusturannsóknirnar Rf. varðar þá er rétt að taka fram að það hefur aldrei verið markmið Rf að stunda samkeppni á því sviði rannsókna sem einkaaðilar geta sinnt. Á sínum tíma var ekki hjá því komist að Rf stundaði þjónusturannsóknir þar sem það var eina leið fyrirtækjanna til að fá nauðsynlega þjónustu. Nýir möguleikar hafa nú verið opnast fyrir einkaaðila til að bjóða upp á þjónusturannsóknir þar sem fjármögnun tækja og tóla verður sífellt viðráðanlegri. Það er því ekkert nema í samræmi við það sem áður er sagt að RF dragi sig út úr þeim.

Minnkandi þjónusturannsóknir opinberra aðila þurfa alls ekki að veikja rannsóknastarfsemi úti á landi, heldur þvert á móti fela breytingarnar í sér ákveðin tækifæri. Í ljósi þess að í flestum tilfellum er hagkvæmast að framkvæma þjónusturannsóknir við sjávarútveginn í nálægð við þá staði sem mest útgerð er stunduð, bendir flest til að breytingarnar kalli á litla færslu þjónusturannsókna á milli staða. Þá er nálægð rannsóknastofnana við þær atvinnugreinar sem þær þjóna mikilvæg til þess að upplýsingaflæðið geti verið sem best og samvinnan mest. Í kjölfar breytinga á þjónustumælingunum Rf hefur þegar verið hafin vinna við að efla rannsóknaþátt útibúana úti á landi, ekki síst hér á Akureyri.

En ábyrgðin um auknar rannsóknir hvílir ekki eingöngu á ríkinu heldur líka á heimamönnum og fyrirtækjunum. Stjórnendur fyrirtækja verða að nýta sér þá möguleika og sóknarfæri sem felast í samstarfi við rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Flest íslensk fyrirtæki eru af þeirri stærðargráðu að þau megna ekki að leggja nema að hluta til í þann mikla kostnað sem fylgir öflugu rannsóknar og þróunarstarfi. Þau þurfa því vera opin fyrir samvinnu og að nýta þá miklu sérfræðiþekkingu sem í boði er.

Styrkur Norðurlands þegar kemur að matvælarannsóknum liggur í því að hér er matvælaiðnaður mjög sterkur og hefur svo verið um langt skeið. Hér eru tvö af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins sem reka afkastamiklar fiskvinnslur á svæðinu bæði í bolfiski og rækju. Þessi sömu fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl í fiskeldi og eru á margan hátt drifkraftur í þeim efnum.

Þá er hér í nágrenni Akureyrar stundaður öflugur landbúnaður og í kringum hann hafa orðið til nokkur af stærstu matvælafyrirtækjum landsins sem dreifa vörum sínum um land allt og hafa jafnvel verið að þróa framleiðslu í neytendapakningar til útflutnings.

Hitt atriðið sem ég minntist á varðandi breytingar á Rf er spurningin um það hvort grundvöllur sé fyrir að sameina allar stofnanir sem leggja stund á matvælarannsóknir á vegum ríkisins.

Í síðustu viku skilaði starfshópur sem starfaði í umboði forsætisráðherra af sér skýrslu sem fjallaði um forsendur slíkrar sameiningar ásamt þarfagreininu fyrir matvælarannsóknir og þróun á því sviði. Markmiðið sem haft var að leiðarljósi var að stuðla að hagræðingu, samræmdum vinnubrögðum og betri þjónustu við sjávarútveg, landbúnað og annan matvælaiðnað. Starfshópnum var jafnframt falið að gera tillögur um formlegt samstarf nýrrar stofnunar og háskólanna í landinu í því augnamiði að tryggja samvinnu um menntun, rannsóknir og þróunarstarf og stuðla jafnframt að gagnkvæmu flæði starfsmanna og verkefna milli stofnana, háskóla og atvinnulífs.

Eins og skipulagið er nú fara matvælarannsóknir sem kostaðar eru af ríkinu að mestu fram hjá fjórum stofnunum: Iðntæknistofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og síðast en ekki síst hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Eðli málsins samkvæmt er sú síðastnefnda stærst, þar sem framleiðslan í atvinnugreininni sem hún þjónar er lang umfangsmest. Ef tekið er mið af starfsmannafjölda þá vinna 56 hjá Rf á meðan níu starfa hjá MÖTRU, þ.e. samstarfsvettvangi Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og 11 manns hjá Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Þá varpar sú staðreynd að um 40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar verða til fyrir tilstuðlan sjávarútvegsins ljósi á mikilvægi greinarinnar fyrir afkomu þjóðarinnar.

Ég held að enginn þurfi eftir þessa yfirferð að velkjast í vafa um að sjávarútvegsráðuneytið horfir mjög til starfa Rf. Tillaga starfshóps forsætisráðherra lýtur að því að komið verði á fót Matvælarannsóknastofnun Íslands og að verksvið hennar nái yfir rannsóknir, þróun, framleiðslu og meðferð matvæla frá hráefni til neytendavöru óháð uppruna. Stofnunin yrði því rannsókna og þjónustustofnun fyrir sjávarútveg, landbúnað og annan matvælaiðnað. Starfshópurinn leggur til að; " málefni stofnunarinnar heyr[i] undir sjávarútvegsráðuneytið enda tengist það stærstu grein matvælaiðnaðar á Íslandi og þar eru hagsmunir mestir" svo vitnað sé beint í skýrslu starfshópsins. Ég er ánægður með að starfshópurinn skuli hafa komist að þessari niðurstöðu. Samræming og sameining rannsókna í eina stofnun mun skila hagræðingu í rekstri, betri rannsóknum og betri þjónustu við matvælaiðnað í landinu. Ég hef ekki sóst eftir því að sölsa undir sjávarútvegsráðuneytið matvælarannsóknir annarra en tel niðurstöðu starfshópsins um hvar stofnunin verði vistuð rökrétta og skynsamlega.

Ég er því tilbúinn til þess að stuðla að breytingum á umhverfi matvælarannsókna á þeim forsendum sem koma fram í skýrslunni.

Í sjávarútvegsráðuneytinu er það skýr stefna að vinna beri að því að auka enn frekar verðmæti þess sjávarfangs sem að landi berst. Hér er ég meðal annars að vísa til AVS-sjóðsins sem hefur þann tilgang að flýta þróun verðmætuaukningar í sjávarútvegi. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn á síðasta ári samtals 74 milljónum króna. Í ár hefur sjóðurinn úr 120 m.kr. að spila og svo 200 m.kr. á næsta ári skv. fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Verkefnin sjóðsins eru af ýmsum toga en þau eru flokkuð upp í fiskeldi, gæði, líftækni, markaðssetningu og vinnslu. Mesta fjármagnið hefur farið í fiskeldið sem undirstrikar þá miklu gerjun sem er í þeim málaflokki.

Fram til þessa hefur megin þunginn í fiskeldi snúið að eldi ferskvatnsfiska en AVS sjóðurinn einbeitir sér fyrst og fremst að eldi sjávarfiska. Engu að síður er nauðsynlegt að nýta þá reynslu og þekkingu sem við höfum aflað okkur í fiskeldi í gegnum tíðina því margt sem við höfum framkvæmt safnast fyrir í reynslubrunninum. En þó við getum mikið lært af laxeldinu bæði hvað varðar þekkingu og þróun í markaðssetningu þá er nauðsynlegt að byggja upp sérhæfða þekkingu sem snýr að einstökum tegundum í eldi sjávarfiska. Hér á Akureyri verður í framtíðinni lögð enn frekari áhersla á þennan þátt. Nú þegar er í gildi samstarfssamningur milli Rf, Háskólans á Akureyri og Hóla um samstarf í fiskeldisrannsóknum sem hefur alla burði til þess að vera grunnur að öflugu og árangursríku starfi á þessu sviði í framtíðinni.

Annað verkefni sem AVS sjóðurinn kemur að og er vistað hjá Háskólanum á Akureyri er átaksverkefni í líftækni eða Líftækninetið. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta, sjávarútvegs-, iðnaðar og menntamálaráðuneytis. Líftækninetið sem hefur einn starfsmann á sínum vegum er gott dæmi um það hvernig nokkur ráðuneyti geta tekið höndum saman í þeim tilgangi að efla einstök verkefni. Aðkoma sjávarútvegsins felst í samvinnu við AVS verkefnið. Eins og ég nefndi hér að framan þá er sérstakur faghópur innan AVS verkefnisins sem fjallar um líftækni og mun hópurinn taka að sér að sjá um matsferli umsókna í tengslum við Líftækninetið.

Ég hef að undanförnu undirstrikað það hversu mikilvægt er að hugsa sjávarútvegsmálin ekki of þröngt. Eins og umræðan hefur gjarnan verið mætti ætla að það væri upphaf og endir alls í sjávarútvegi að rífast um kvótamál. En ég fullyrði að sú umræða er úrelt og gerir ekkert annað en að rugla okkur í ríminu og leiða athyglina frá því sem máli skiptir. Við verðum að hugsa um sjávarútveginn í mun víðara samhengi, allt frá því að fiskurinn er veiddur þar til neysla hans fer fram og er kvótakerfið einungis hluti af þeirri hugsun. Kaupendur fisks gera sífellt strangari kröfur á öllum sviðum, ekki bara varðandi meðferð hans og gæði heldur varðandi alla umgjörð fiskveiða. Smásölum hér áður fyrr var nokkuð sama um umgjörð fiskveiðanna ef gæðin voru í lagi. Þeir voru ekki að spá í það hvernig hann var veiddur, hvort veiðarfæri væru vistvæn, hvort stundaðar væru sjálfbærar veiðar af viðkomandi ríki eða hvert efnainnihald sjávarfangsins var. Nú er þetta allt farið að spila saman og stórfyrirtæki eins og Carrefour, McDonalds, Unilever og Waitros hafa verið í sambandi við sjávarútvegsráðuneytið til þess að fara yfir þessa þætti. Á ferð minni til Englands í síðustu viku fór ég og skoðaði eina af verslunum Waitros sem staðsett er í Canary Wharf hverfinu í Lundúnum. Þar kom berlega í ljós þessi heildarhugsun frá miðum til maga. Fyrir ofan fiskborðið þar sem íslenskur fiskur var sérstaklega merktur hékk mynd af línubátnum Kristrúnu RE-177 ásamt texta um að þetta væri báturinn sem veiddi þann íslenska fisk sem var til sölu í fiskborðinu og að veiðarnar væru sjálfbærar.

Eitt af því sem við þurfum alltaf að hafa á reiðum höndum eru upplýsingar um efnainnihald fisks sem veiddur er af íslenska fiskiskipaflotanum. Ef við höfum þær ekki geta útflutningstekjur okkar skerst verulega. Ekki er hægt að vita hvenær fyrirtæki, opinberar stofnanir eða öfgasamtökum dettur í hug að setja fram nýjar reglur um efnainnihald eða hræða almenning með röngum upplýsingum um skaðsemi á efnainnihaldi sjávarfangs. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur unnið markvisst að því að rannsaka efnainnihaldi fisks og geta allir nálgast niðurstöðurnar á heimsíðum Rf og sjávaútvegsráðuneytisins. Þá er mikilvægt að í fjárlagafrumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir 30 milljónum sem sérstaklega eru ætlaðar í þetta verkefni og því tryggt að áframhaldandi uppbyggingu verður á þessu sviði. Munu viðbótar mælingar á heilnæmi sjávarfangs fyrst og fremst fara fram í nýrri aðstöðu Rf hér á Akureyri.

Góðir fundarmenn, hér á þessu svæði er mikil almenn þekking í sjávarútvegi sem býður upp á enn frekara og öflugra samstarf við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Fundurinn sem haldinn er hér í dag sýnir að mikill hugur er í mönnum hvað varðar rannsóknir á ýmsum sviðum. Það er mín stefna að leggja áherslu á að starfsemi Rf á Akureyri vaxi ár frá ári og að innan nokkurra ára verði starfsstöð stofnunarinnar hér orðin að verulega öflugri einingu sem leggur mikið að mörkum til rannsókna á íslensku sjávarfangi. Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem standa að ráðstefnunni fyrir framtakið.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum