Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. nóvember 2004 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Á Umferðarþingi 2004

Ræða samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar, á Umferðarþingi 2004.

Ræða samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar,
á Umferðarþingi 2004

Fundarstjóri, ágætu gestir Umferðarþings!

Mér er það sérstök ánægja að ávarpa Umferðarþing í fyrsta sinn, en eins og kunnugt er tók samgönguráðuneytið við umferðarmálum af dómsmálaráðuneytinu um síðastliðin áramót. Samgönguráðuneytið er á krossgötum nýrra og krefjandi verkefna á sviði öryggismála. Mér er ljós sú mikla ábyrgð sem því fylgir að takast á við þetta mikilvæga verkefni og samgönguráðuneytið markar strax þá stefnu að við verðum að skilgreina megin markmiðin skýrt og leggja aukna fjármuni til umferðaröryggismála. Það mun koma fram hér í dag og það stendur skrifað skýrum stöfum í fjárlögum fyrir næsta ár sem nú eru til meðferðar á Alþingi.

Við höfum notað þetta ár til að skoða málaflokkinn frá grunni, meta stöðuna og marka stefnu Íslands til framtíðar. Okkur er öllum ljóst að verkefnin eru næg og því hef ég látið undirbúa sérstaka áætlun um aðgerðir til aukins umferðaröryggis.  Í þeirri áætlun er lagt upp með það mikilvæga markmið að kostnaðargreina aðgerðir og forgangsraða á þeim forsendum hvar fjármunir nýtist best í þágu aukins öryggis í umferðinni.

Stefna ráðuneytisins er skýr:

  1. Umferðaröryggisáætlun verður fylgt fast eftir með auknum fjármunum strax á næsta ári en þá gerum við rá fyrir að leggja tæpar 400 milljónir í skýrt skilgreindar aðgerðir sem fjallað verður um hér síðar á fundinum.
  2. Rannsóknir umferðarslysa verða auknar.

Ég hef nú þegar aukið framlag hins opinbera til Rannsóknarnefndar umferðarslysa og lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga  um starfsemi nefndarinnar.  Það blasir við að því meiri þekkingu sem við höfum á áhættunni í umferð á Íslandi – því meira getum við gert í því  að hjálpa vegfarendum til að ná áfangastað á öruggan hátt.  Rannsóknir á umferðarslysum eigum við að nota til þess að bæta umferðarmannvirki, bæta hegðun ökumanna í umferðinni og til þess að kynna hættur í umferðinni svo ökumenn geti hagað akstri í samræmi við aðstæður.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sem starfa að umferðar-öryggismálum fyrir gott starf á síðustu árum.  Í aprílmánuði árið 2002 samþykkti Alþingi þingsályktun þess efnis að stefnt skyldi að fækkun alvarlegra umferðarslysa um 40% til ársins 2012.   Það hefur vissulega náðst árangur í þéttbýli, þar hefur tekist að bæta umferðarmenninguna.

Það hefur hinsvegar ekki farið fram hjá okkur að banaslysum á þjóðvegum Íslands hefur fjölgað frá því sem var fyrir áratug eða svo. Árekstrar eru meðal annars vegna aukinnar umferðar, en nú er svo komið að nærri þrjú af hverjum fjórum dauðsföllum í umferð eiga sér stað á þjóðvegunum.  Slysahættan er því að aukast í umferðinni á þjóðvegum landsins, það hefur dregið úr umferðaröryggi.  Þessu verðum við að breyta!

Þann 1. júní síðastliðinn skipaði ég stýrihóp um mótun nýrrar heildarstefnu í umferðaröryggismálum.  Í stýrihópnum eru Auður Þóra Árnadóttir frá Vegagerðinni, Birgir Hákonarson frá Umferðarstofu, Hreinn Haraldsson frá Vegagerðinni, Jón Bjartmarz frá Ríkislögreglustjóra, Óli H. Þórðarson frá umferðarráði og Björn Ágúst Björnsson verkfræðingur frá samgönguráðuneytinu sem er formaður. Hann hefur stýrt þessu starfi af miklu öryggi og mikilsverðri þekkingu.  Ég lagði áherslu á það að úr þeirri vinnu kæmi aðgerðaráætlun til næstu fjögurra ára á sömu nótum og gert er í samgönguáætlun.

Stýrihópurinn hefur nú lokið störfum og fyrir liggur tillaga þar sem tíundaðar eru einstakar aðgerðir og gerð grein fyrir fjármögnun þeirra.  Ég vænti þess að Alþingi samþykki þessa áætlun sem hluta samgönguáætlunar í byrjun næsta árs.

Miklir hagsmunir eru í húfi – umferðarslys og óhöpp eru talin kosta okkur 15 milljarða á ári.  En hvað veldur alvarlegustu slysunum og hvernig komum við í veg fyrir þau?  Heildarlengd þjóðvega landsins er um 13 þúsund km og víða leynast hættur.  Ég hef ákveðið að sérstök áhersla verði lögð á að leiðbeina ökumönnum með stórbættum merkingum við þjóðvegi.

Það er oft spurt hversu miklum fjármunum sé varið til umferðaröryggismála.  Svar mitt er jafnan að allir fjármunir sem fara til vegamála eru til umferðaröryggisaðgerða. 
Stórframkvæmdir samkvæmt vegaáætlun auka umferðaröryggi á þjóðvegum til mikilla muna.  Nýir og fullkomnir vegir koma í stað eldri vega.  Í gangi eru mörg mikilvæg verkefni á vegakerfinu. Sum hafin og önnur á undirbúningsstigi. Má þar helst nefna nýjan veg um Svínahraun, endurbyggingu hringvegarins í Stafholtstungum í Borgarfirði, Reykjanesbraut og Vesturlandsvegur að Mosfellsbæ verða senn tvöfaldaðir og stórbættur vegur um Tjörnes, Kolgrafarfjörður brúaður og nýr vegur um Almannaskarð með jarðgöngum svo dæmi séu tekin.
Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir mun nema milljörðum króna.

Það er unnið af kappi að endurbótum á vegakerfinu.  Einbreiðum brúm er fækkað með skipulögðum hætti og gerðar eru breytingar á þekktum hættustöðum um allt land, svokölluðum svartblettum.  Í þessum aðgerðum og endurbótum á vegakerfinu felst skýr stefnumörkun um aukið umferðaröryggi.

Í nýlegri skýrslu sem tekin var saman af Umferðarstofu um afbrot í umferðinni kemur fram að í þremur af hverjum fjórum banaslysum á Íslandi á árunum 1998 til 2002 er aðalorsök talin vera hraðakstur, ölvunarakstur eða það að bílbelti er ekki notað.  Allar þessar orsakir banaslysa tengjast brotum á umferðarreglum.  Það verður því að marka skýra stefnu um aukið eftirlit á vegakerfinu eigi árangur að nást.

Um 70% þeirra einstaklinga sem láta lífið í kjölfar útafaksturs á Íslandi eru ekki í öryggisbelti!  Þessi einfaldi búnaður er í öllum bifreiðum og ég spyr í ljósi þessarar reynslu: ,,Hvernig er hægt að fá ökumenn og farþega til að nota bílbelti?".

Á þessu ári hefur Umferðarstofa og samgönguráðuneytið unnið að því að bæta viðhorf almennings til umferðar og nú verður tekið næsta skref með því að auka aðhald að ökumönnum á þjóðvegum með jákvæðum hætti.   Stýrihópur um stefnumótun hefur metið áhættuþætti og arðsemi aðgerða. Leggur fram tillögur um samræmdar forgangsaðgerðir og  fjárþörf vegna þeirra.  Miðað er við að samræmdar aðgerðir t.d. áróður, eftirlit og leiðbeiningar séu markvisst stilltar saman til þess að fækka slysum á þjóðvegum landsins.

Þessar tillögur stýrihópsins eru nú til meðferðar í ráðuneytinu og í Samgönguráði.  Ég mun leggja ríka áherslu á að nýta fjármuni úr útgjaldaramma ráðuneytisins til aðgerða í samræmi við þær tillögur sem stýrihópurinn hefur lagt til.

Aðgerðaráætlun felur í sér veruleg óhjákvæmileg útgjöld til aukins umferðaröryggis.

Aðgerðir umferðaröryggisáætlunarinnar verða valdar eftir mati á arðsemi þeirra eða þeim árangri sem þær eru taldar skila.  Ávinningur af þessum aðgerðum skilar sér í lækkun kostnaðar hins opinbera og almennings vegna fækkunar umferðarslysa og umferðaróhappa og er áætluð heildararðsemi aðgerða, þegar litið er til næstu 10 ára,  rúmir 3 milljarðar króna, þ.e. ávinningur eftir að tekið hefur verið tillit til kostnaðar.  Þess er vænst að dauðsföllum í umferð fækki verulega vegna þessara aðgerða.  Af þessu má sjá að við eigum að kosta miklu til svo árangur náist.

Samgönguáætlun er nú til endurskoðunar.  Ég hef ákveðið að umferðaröryggisáætlun verði hluti af samgönguáætlun og verða tillögur stýrihópsins unnar inn í samgönguáætlunina.  Þetta fyrirkomulag er til samræmis við það sem er í flugöryggismálum og siglingaöryggismálum.

Ágætu þingfulltrúar. Þessi nálgun að auknu umferðaröryggi er nýmæli - í fyrsta sinn verður lögð fyrir Alþingi sérstök áætlun um bæði  tímasettar aðgerðir og fjármögnun þeirra.  Markmið stjórnvalda eru skýr:

  • Fjöldi  alvarlegra slysa í umferð hér á hverja 100.000 íbúa verði sambærilegur við það sem lægst gerist  í heiminum. 

Að lokum vil ég þakka forstjóra Umferðarstofu Vegamálastjóra, Ríkis-lögreglustjóra og starfsfólki þeirra ágætt samstarf.  Við starfsmönnum þeirra blasa við þau stóru og krefjandi verkefni að auka öryggi veg-farenda.  Fulltrúum í stýrihópi um stefnumótun í umferðaröryggi vil ég þakka ágætt framlag.  Gestum þakka ég fyrir áheyrnina og óska ykkur góðra stunda hér á Umferðarþingi 2004.

En öll verðum við að muna að hver er sinnar gæfu smiður í umferðinni.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum