Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. desember 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Þróun framkvæmdavalds gagnvart löggjafarvaldi.

Forsætisráðherra, góðir fundarmenn!

Undanfarnar vikur hafa nýafstaðnar forsetakosningar í Úkraínu verið eitt helsta umfjöllunarefni í fréttatímum fjölmiðla víða um heim. Sannað þykir að víðtækt kosningasvindl hafi átt sér stað og að mikilvægar grundvallarreglur um framkvæmd lýðræðislegra kosninga hafi verið þverbrotnar. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs sá ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu um að forsenda fyrir samstarfi milli Norðurlandaráðs og þjóðþings Úkraínu væri frjálsar kosningar og að skoðanamyndun í landinu væri frjáls. Íslendingar jafnt og aðrir Norðurlandabúar hafa fylgst grannt með þessari atburðarrás þar sem segja má að lýðræði og réttlæti hafi tekist á við einræðið.

Á Norðurlöndum höfum við um langt árabil notið þeirra sjálfsögðu réttinda sem almenningur í Úkraínu berst nú fyrir. Virðing er borin fyrir lýðræðinu og sem kjósendur getum við verið viss um að niðurstöður kosninga séu ekki svindl heldur í samræmi við vilja fólksins. En lýðræðið er ekki sjálfgefið, það þarf að fylgjast með þróun þess og standa vörð um það. Lýðræði á Norðurlöndum hefur verið ofarlega á baugi í norrænu samstarfi undanfarin ár. Á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs sem haldin var í Reykjavík vorið 2002 var fjallað um stöðu lýðræðis á Norðurlöndum og hugsanlega þróun þess fram til ársins 2020. Á ráðstefnunni var meðal annars fjallað um dvínandi stjórnmálaáhuga almennings og minnkandi kosningaþátttöku, en það er óheillavænleg þróun sem norrænu ríkin hafa ekki farið varhluta af frekar en önnur vestræn lýðræðisríki. Í framhaldi af þemaráðstefnunni hvatti Norðurlandaráð eindregið til þess að umræðunni yrði haldið áfram. Þegar Ísland tók við stjórnartaumunum í Norrænu ráðherranefndinni í upphafi árs 2004 var þess vegna ákveðið að þetta málefni skyldi njóta forgangs í norrænu samstarfi á árinu. Að frumkvæði Íslendinga settu norrænu samstarfsráðherrarnir á laggirnar Lýðræðisnefnd sem tók til starfa í byrjun ársins. Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur og fyrrverandi þingkona, er formaður nefndarinnar, önnur Norðurlönd og sjálfstjórnarsvæðin eiga þar síðan hvert sinn fulltrúann. Í stuttu máli var það verkefni nefndarinnar að greina ástand og horfur í lýðræðismálum á Norðurlöndum til næstu 25 ára. Með hliðsjón af niðurstöðum úr nýgerðum valdaúttektum bæði í Noregi og Danmörku átti nefndin einnig að koma með tillögur um hvernig mætti treysta betur stoðir lýðræðis á Norðurlöndum og koma í veg fyrir hnignun þess. Nefndin fékk sem sagt nokkuð frjálsar hendur um efnistök og nálgun á viðfangsefnið – gert var ráð fyrir að hún skilaði af sér í lok formennskuárs Íslands. Í nútímasamfélagi er lýðræði flókið fyrirbæri, birtingarmyndir þess er að finna víða og mælikvarðar á lýðræði eru margbreytilegir. Fyrsta verkefni nefndarinnar var því að skilgreina og afmarka verkefni sitt. Ákvörðun var tekin um að beina einkum sjónum að lýðræðinu eins og það birtist í hinu staðbundna lýðræði og afstöðu borgaranna til ríkisvalds og sveitarstjórna, þátttöku í pólitísku og öðru félagsstarfi, og aðgengi almennings að nýjustu upplýsingatækni og möguleikum þess að nýta hana á markvissan hátt í lýðræðisferlum.

Um þessar mundir er Lýðræðisnefndin að leggja lokahönd á skýrslu þar sem hún gerir grein fyrir niðurstöðum sínum og tillögum. Frumniðurstöður nefndarinnar hafa í tvígang verið kynntar opinberlega: fyrst á ráðstefnu um Lýðræði á öld upplýsingatækni sem haldin var hér í Reykjavík í lok ágúst sl. og síðan í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í byrjun nóvember. Það er mat nefndarinnar að ýmsar blikur séu á lofti þegar lýðræði á Norðurlöndum sé annars vegar sem rétt sé að bregðast við. Nefndin vekur m.a. athygli á að bregðast þurfi við þeirri staðreynd að Norðurlandabúar bera nú minna traust til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka en áður. Þetta birtist m.a. í því að skráðum félögum í stjórnmálaflokkum hefur fækkað mjög í nokkrum landanna.

Staðbundna lýðræðið á einnig í vök að verjast – sveitarstjórnarmönnum finnst að svigrúm þeirra til lýðræðislegra ákvarðana hafi minnkað og að þeir séu í of miklum mæli að framkvæma ákvarðanir ríkisvaldsins. Þá bendir nefndin á að nú sé orðið erfiðara en áður að fá Norðurlandabúa til að taka að sér pólitískar ábyrgðarstöður. Það er skoðun lýðræðisnefndarinnar að þróun þessara mála sé í þá átt að fulltrúalýðræðið geti átt undir högg að sækja. Það er þó ekkert sem bendir til þess að pólitískur áhugi almennings á Norðurlöndum hafi minnkað, Norðurlandabúar eru virkir í félagsstarfi og stjórnmálum. Þessi virkni er bara ekki í eins miklu mæli á vettvangi hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka og áður var. Þannig eiga Norðurlönd það sameiginlegt að bilið milli hins almenna borgara og stjórnmálamannanna hefur aukist nokkuð, án þess þó að dregið hafi úr trúnni á lýðræðið sjálft. Um leið og þetta gerist finna menn pólitískum áhugamálum sínum annan farveg með því að taka þátt í undirskriftasöfnunum, mótmælum eða starfsemi margvíslegra þrýstihópa. Í þessu sambandi má nefna þá niðurstöðu Lýðræðisnefndarinnar að nota megi upplýsingatæknina til að minnka bilið milli kjörinna fulltrúa og borgaranna, en nefndin bendir á að norrænir stjórnmálamenn nýti sér almennt ekki þann kost nægilega vel til að eiga samráð við umbjóðendur sína.

Sem fyrr segir mun Lýðræðisnefndin skila skýrslu til samstarfsráðherranna í byrjun nýs árs. Þar mun nefndin einnig benda á leiðir til að styrkja lýðræðisferlana í norrænu samfélögunum. Atburðir síðustu vikna í Úkraínu minna okkur á að staða lýðræðis á Norðurlöndum er sterk. Þar með er ekki sagt að við þurfum ekki að halda vöku okkar. Stefnumótun um sterkara lýðræði er verkefni sem ég tel að Norðurlönd geti unnið að sameiginlega á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Eins tel ég að hér á landi sem og annars staðar á Norðurlöndum sé rétt að skoða af gaumgæfni hvaða lærdóm megi draga af þessu mikilvæga starfi. Og það er vel við hæfi einmitt á 100 ára afmæli heimastjórnar á Íslandi að beina sjónum að því að tryggja grundvöll raunverulegs lýðræðis í landinu til frambúðar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum