Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. desember 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Aldarafmæli raforkuvinnslu á Íslandi.

Forseti Íslands!

Virðulega samkoma!

Á þessu ári höfum við með margvíslegum hætti minnst þess að ein öld er nú liðin frá því að fyrsta rafstöðin hér á landi var tekin í notkun. Sá atburður gerðist hér í Hafnarfirði við Hamarskotslæk og eigandi og hönnuður rafstöðvarinnar, Jóhannes Reykdal, hafði raunar stuttu áður reist fyrsta trésmíðaverkstæði hérlendis og voru vélar þess knúðar af orku lækjarins.

Þó svo að hér væri um að ræða afar lítið skref í raforkusögu þjóðarinnar markaði það tímamót. Aðeins rúmum 20 árum fyrr hafði ljósaperan verið fundin upp og því má tvímælalaust merkilegt telja hversu fljótt Íslendingar tileinkuðu sér þessa nýju tækni. Skýringin er vafalaust sú að þeir höfðu fylgst vel með framförum á sviði raftækni. Íslenskur hugsjónarmaður, Frímann B. Arngrímsson, hafði kynnt sér nýjungar á því sviði erlendis við lok 19. aldar og hélt hann nokkur erindi um rafvæðingu bæja á Íslandi, en því miður fyrir daufum eyrum ráðamanna.

Með auknu sjálfstæði, erlendu fjármagni og áhuga erlendra fjárfesta á rannsóknum, fóru hjólin að snúast svo um munaði á fyrstu áratugum síðustu aldar.

Nú hefst rafmagnsöld hjer á landi." Með þeim orðum hóf Steingrímur Jónsson, fyrsti íslenski rafmagnsverkfræðingurinn, merkilegt erindi sem hann flutti á fundi í Verkfræðingafélaginu árið 1918 og boðaði þar nýja öld. Síðan sagði Steingrímur: „Lítil byrjun er þegar orðin, en fljótt mun umskiptast því svo óðfluga hefur sú öld farið meðal annarra þjóða, að erfitt er að hugsa sér að ekki séu nema rúm 30 ár síðan menn lærðu verulega rafmagnsnotkun."

 

Þetta reyndust orð að sönnu.Þau öru umskipti er höfðu orðið á fáum áratugum í þróun rafmagnsnotkunar færði mönnum heim sanninn um að tuttugusta öldin yrði öld rafmagnsins.

Ekkert varð þó af stórhuga áformum erlendra fjárfesta við byggingu virkjana hér á landi á fyrstu áratugum aldarinnar, en við nutum góðs af og búum raunar enn í dag að margvíslegum rannsóknum og reynslu af störfum þessara frumherja orkurannsókna.

 

Þróun raforkunotkunar varð þó hæg í upphafi en litlar rafstöðvar risu víða í þéttbýli en mestu munaði þó um byggingu Elliðaárstöðvar árið 1921. Uppbygging heimilsrafstöðva til sveita varð góðu heilli mikil og þjóðin eignaðist hóp virkjanasnillinga sem virkjuðu margan bæjarlækinn á árunum 1910-1940.

Með raforkulögum frá 1947 og stofnun raforkumálaskrifstofunnar komst á fast skipulag raforkumála hér á landi er stóð óbreytt í tæpa tvo áratugi. Rafvæðing landsbyggðarinnar hófst ekki að marki fyrr en þau lög tóku gildi. Með hinu mikla rafvæðingarátaki á árunum 1950-1965 var lyft grettistaki til atvinnuuppbyggingar um allt land bæði til sjávar og sveita. Raunar fannst mörgum þó hægt ganga þrátt fyrir að rafvæðing væri forgangsverkefni allra ríkisstjórna sem sátu að völdum á þessum árum.

 

Óhikað má fullyrða að sú mikla og farsæla uppbygging raforkukerfis landsins á síðari hluta 20. aldar hafi gjörbreytt lífskjörum þjóðarinnar. Þeirri þróun er ekki síst að þakka áratuga löngum og miklum rannsóknum á orkuauðlindum landsins allt frá miðjum áratug aldarinnar sem stjórnvöld orkumála beittu sér fyrir af mikilli framsýni.

 

Uppbygging raforkukerfis okkar hefur vaxið mjög hratt á síðustu áratugum. Raforkuframleiðsla hér á landi á hvert mannsbarn er nú sú hæsta í heiminum og öll raforka kemur frá endurnýjanlegum orkulindum, vatnsafli og jarðhita. Allar hinar miklu breytingar á raforkuumhverfi heimsins síðustu 20 árin hafa eðlilega orðið til þess að flestar þjóðir hafa endurskoðað uppbyggingu og skipulag raforkugeirans miðað við nútíma samfélagshætti. Við Íslendingar höfum á undanförnum árum unnið að breytingum á raforkuumhverfi okkar í samræmi við breytta tíma og alþjóðlega þróun. Sjálfstætt flutningsfyrirtæki, Landsnet hf., í eigu orkuframleiðenda landsins mun taka formlega til starfa um næstu áramót og mun annast allan raforkuflutning frá virkjunum til dreifiveitna. Fyrsti aðalfundur Landsnets hf. var haldinn í dag, 12. desember í tilefni af 100 ára afmælisdegi raforkuvinnslunnar. Þar sem eigendur tóku formlega við fyrirtækinu af undirbúningsstjórn. Þeim áfanga ber að fagna.

 

 

Góðir gestir!

Í grein í tímaritinu Fjallkonunni árið 1903 fjallar Jóhannes Reykdal um hugsanlega beislun Hamrakotslækjar til raforkuframleiðslu. Í greininni segir hann að til þess að svo geti orðið þurfi „töfrasprota þekkingarinnar í hendi dugnaðarmannsins til að leysa allt það reginafl sem landið á í lækjum og fossum."

Jóhannes var sjálfur dugnaðarmaðurinn er hratt af stað nýtingu vatnsorkunnar á Íslandi ásamt raffræðingnum Halldóri Guðmundssyni sem var sannarlega töfrasproti þekkingarinnar fyrir þjóðina á réttum tíma. Í dag minnumst við þessara brautryðjenda er lýstu okkur veginn til betra samfélags.

 

Virðulegu gestir!

Á nýbyrjaðri 21. raforkuöld Íslendinga er ég sannfærð um að okkur muni auðnist um ókomna framtíð að sækja enn frekar fram á þessum vettvangi og þar á ég ekki síst við þá miklu möguleika er felast í frekari nýtingu jarðhitans til raforkuframleiðslu. Mikil þekking og rannsóknir á jarðhita og vatnsafli hafa gert stöðu okkar sérstaka, sem byggist að verulegu leyti á þeim einstöku aðstæðum sem höfuðskepnur náttúrunnar hafa skapað hér á landi og okkur tekist að nýta.

 

Á aðeins einni öld hefur Ísland breyst úr einu af fátækustu löndum álfunnar í að vera land þar sem ein tekjuhæsta þjóð í heimi býr. Það sem sköpum hefur skipt er að okkur hefur tekist að nýta náttúruauðlindir landsins, fiskimiðin og orkulindirnar á farsælan hátt til að bæta lífskjör. Þeirri stefnu þurfum við að halda áfram, þá mun okkur vel farnast í framtíðinni.

Ég þakka áheyrnina.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum