Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. desember 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Afhending Viðskiptaverðlaunanna 2004.

I.

Góðir gestir. Það er mér mikil ánægja, eins og endranær, að afhenda hér hin árlegu Viðskiptaverðlaun sem Viðskiptablaðið stendur að með miklum myndarbrag. Þessi verðlaun hafa unnið sér verðugan sess í viðskiptalífinu. Viðskiptablaðið hefur veitt Viðskiptaverðlaunin árlega frá árinu 1996 en verðlaunin eru veitt þeim einstaklingum sem skarað hafa framúr í íslensku atvinnulífi.

Það má með sanni segja að það sé um auðugan garð að gresja þegar velja skal Viðskiptaverðlaun í hinni fjölbreytilegu flóru íslenskra viðskiptamanna og frumkvöðla um þessar mundir. Valið er því ekki auðvelt. Jafnan hefur valið takist með miklum ágætum og óhætt er að fullyrða að svo er einnig hér í dag.

Verðlaunin eru tvenn, Viðskiptaverðlaunin 2004 og Frumkvöðull ársins. Við skulum hefja leikinn á Viðskiptaverðlaununum.

II.

Viðskiptaverðlaun 2004 hlýtur Guðfinna S. Bjarnadóttar, rektor Háskólans í Reykjavík.

Viðskiptaháskólinn í Reykjavík var fyrst settur þann 4. september 1998 og frá upphafi hefur Guðfinna S. Bjarnadóttir verið rektor skólans. Við Viðskiptaháskólann í Reykjavík störfuðu tvær deildir, tölvunarfræðideild, sem byggði á starfi Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands, og viðskiptadeild. Auk þess var stofnuð við hinn nýja skóla Símennt Viðskiptaháskólans í Reykjavík, sem var framlag skólans til símenntunar starfsmanna og stjórnenda í atvinnulífinu.

Í janúar 2000 var nafni skólans breytt í Háskólinn í Reykjavík þar sem gamla nafnið þótti ekki nógu lýsandi fyrir hina fjölbreyttu starfsemi skólans. Árið 2001 hófst kennsla til MBA prófs við viðskiptadeild og stuttu seinna nýtt nám við deildina fyrir einstaklinga úr atvinnulífinu - Háskólanám með vinnu. Árið 2002 var þriðja deildin stofnuð við skólann, lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Af framansögðu má vera ljóst að tilkoma Háskólans í Reykjavík, hefur leikið veigamikið hlutverk í þeim miklu jákvæðu breytingum sem orðið hafa á undanförnum árum í íslensku menntakerfi á háskólastigi. Möguleikar ungs fólks til mennta hafa verið stórauknir. Framundan er sameining við Tækniháskólann sem er enn einn áfanginn í sögu Háskólans í Reykjavík og mun umbylta skólanum.

 

Á tímum þar sem menntun skiptir gríðarlegu máli fyrir þjóð sem ætlar að standa sig í samkeppni þjóðanna og vill sækja fram í lífskjörum er við hæfi að vekja athygli á góðum árangri Háskólans í Reykjavík og þætti hans í að styðja við og efla íslenskt atvinnulíf. Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, er því vel að því kominn að hljóta Viðskiptaverðlaunin 2004.

 

III.

Vík ég þá sögunni að frumkvöðli ársins. Frumkvöðull ársins er Aðalheiður Héðinsdóttir, stofnandi Kaffitárs.

Kaffitár á sér ekki ýkja langa sögu eða flókna, en eins og hjá svo mörgum öðrum frumkvöðlafyrirtækjum er hún samofin sögu eiganda fyrirtækisins, Aðalheiði Héðinsdóttur og fjölskyldu hennar.

 

Eftir nokkurra ára námsdvöl í Bandaríkjunum kom Aðalheiður og fjölskylda hennar heim með þá hugmynd í farteskinu að selja Íslendingum öðruvísi kaffi, byggða á þeim kynnum sem hún hafði af kaffimenningu Vesturheimsbúa. Þegar fjölskyldan flutti heim var ákveðið að selja fjölskyldubílinn og kaupa kaffibrennsluofn. Fyrsta framleiðsla fyrirtækisins birtist í september 1990 og salan jókst smátt og smátt jafnframt því sem Aðalheiður hélt námskeið og sölusýningar þar sem hún kynnti nýja kaffimenningu fyrir Íslendingum. Það var svo fimm árum eftir stofnun Kaffitárs sem Aðalheiður sá sér fært um að opna kaffihús, en þá opnaði hún agnarsmáa kaffiverslun í Kringlunni. Fleiri staðir fylgdu í kjölfarið og fyrir ári síðan opnaði fyrirtækið nýja kaffibrennslu í Ytri-Njarðvík í nýju og glæsilegu húsnæði. Í dag rekur félagið kaffibrennslu og fjögur kaffihús og er með umtalsverða markaðshlutdeild fyrir kaffi á Íslandi og veitir 75 starfsmönnum atvinnu.

 

Með einbeittum vilja og mikilli hugmyndaauðgi hefur Aðalheiður þannig brotist inn á þröngan markað sem margir héldu að væri frátekinn og lokaður nýjum aðilum. Hún hefur sýnt mikla útsjónarsemi og þrautseigju við uppbyggingu fyrirtækis sem margir telja fremst á sínu sviði. Aðalheiður er því sannkallaður frumkvöðull.

 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum