Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. janúar 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Hornsteinn lagður að endurbyggðri Glerárvirkjun.

Virðulega samkoma!

Öld er nú liðin frá því að reist var fyrsta vatnsaflsstöð til raforkuframleiðslu hér á landi og hefur þess verið minnst með margvíslegum og veglegum hætti á árinu. Vissulega er rík ástæða til að staldra við og minnast þessa merka atburðar. Raflýsingin og síðar hitun í híbýlum manna í upphafi síðustu aldar eyddi ekki einungis myrkri margra alda heldur var raforkuframleiðsla er byggðist á vatnsafli landsins tákn nýrra tíma og framfara þjóðarinnar.

Á þessu senn liðna ári er öld liðin fá því að bæjarstjórn Akureyrar fól landsverkfræðingi, Thorvald Krabbe, að koma fram með tillögur um uppbyggingu rafveitu á Akureyri. Hann taldi eðlilegt að stifla Glerá við Rangárvallabrúna og gerði áætlun um kostnað virkjunarinnar, sem nam um 170.000 kr. Ekki var að furða þótt bæjarfulltrúar þyrftu vandlega að hyggja að þessu máli því upphæðin var mikið fé á þeim árum eða um 1700 kýrverð. Í lok ársins 1904 var samþykkt að fresta málinu til næsta fundar. Það drógst hins vegar á langinn að taka málið upp að nýju, en á árunum 1912-1913 ákvað bæjarstjórn að kjósa sérstaka nefnd til að huga að raflýsingu í bænum. Í framhaldinu voru að nýju gerðar áætlanir um virkjun Glerár á árinu 1915, en málið lá niðri vegna stríðsátaka til ársins 1918. Þá var borgarafundur haldinn um rafveitumál bæjarins þar sem skorað var á bæjarsatjórn að hefjast handa við undirbúning virkjunar í Glerá. Niðurstaða frekari athugana leiddi til þess að valinn var virkjunarkostur með stíflu ofan Glerárfoss og stöðbvarhúsi neðan við fossinn. Framkvæmdir hófust á árinu 1921 og 30. september 1922 var rafstöðin, 240 kW að afli, formlega opnuð og straumi hleypt á þau hús er tengd voru rafveitunni. Virkjunin var í samfelldum rekstri allt til ársins 1960 en þá voru vélar teknar niður og stöðvarhús rifið.

Á fyrstu tveimur áratugum aldarinnar var lokið við byggingu vatnsaflsstöðva við nokkur þéttbýli á landsbyggðinni. Þar má nefna Hafnarfjörð, Patreksfjörð, Eskifjörð, Seyðisfjörð, Vík í Mýrdal, Siglufjörð og Húsavík. Það má undrun sæta að ekki voru nema um 30 ár liðin frá því að menn lærðu að framleiða og nýta sér rafmagn frá vatnsorkuverum þegar fátækir íbúar þessara þorpa höfðu nýtt sér þessa nýju tækni. Oftar en ekki var þó um að ræða afar litlar rafstöðvar sem gátu ekki annað allri raforkuþörf íbúa, en mjór er mikils vísir, það sannaðist svo sannarlega í þessu tilviki.

Menn geta spurt sig í dag hver ástæða þess hafi verið að stærstu bæjarfélög landsins á árunum 1900-1920, Reykjavík og Akureyri, voru eftirbátar þessara minni þéttbýlisstaða í rafvæðingu. Báðir þessir kaupstaðir bjuggu við sérlega hagstæð skilyrði til virkjunar vatnsafls innan bæjarmarkanna eða jafnvel inni í bæjunum. Skýringarnar eru margar, bæði þessi bæjarfélög höfðu ráðist í umfangsmiklar vatnsveitu- og hafnarframkvæmdir um svipað leyti sem íþyngdi möguleikum til frekari fjárfestinga. Þá hafi Reykjavíkurbær ákveðið árið 1907 að ráðast í gerð gasveitu, sem óhjákvæmilega hlaut að fresta virkjun Elliðaánna.

Raforkubúskap þjóðarinnar frá árinu 1904 og til þessa dags má skipta upp í þrjú tímaskeið. Fyrstu 30 árin var tímabil frumbýlingsára, þá risu hundruð heimavirkjana til sveita og allvíða á þéttbýlisstöðum var komið á laggirnar litlum rafveitum. Með lögum um Sogsvirkjun varð til vísir að samveitum til nærliggjandi sveitarfélaga og voru þessi lög fyrsti vísir að rafvæðingu landsbyggðarinnar, sem stóð næstu 30-40 árin og telja má að hafi lokið með gerð byggðalínu á áttunda áratugnum. Þriðja tímaskeiðið eru síðustu 40 árin, sem kalla má tímabil stórvirkjana og stóriðju og allt bendir til að það tímabil muni standa enn um hríð og að tími Norðurlands muni m.a. brátt renna upp í þeim efnum. Öll eru þessi tímaskeið merk hvert á sinn hátt en mynda samfellda þróun orkuuppbyggingar og undirstöðu nútíma samfélags.

Óumdeilt er að uppbygging orkumannvirkja ásamt tengdum atvinnurekstri hefur haft gríðarlega mikil áhrif til aukinnar velferðar þjóðarinnar á síðustu öld. Því er nauðsynlegt að minnast frumkvöðlanna og frumverkanna, sem voru stórvirki á þeirra tíma mælikvarða. Því er það mikið fagnaðarefni að Norðurorka hefur nú ákveðið að endurreisa Glerárvirkjun, sem í hálfan annan áratug var næst stærsta virkjun hér á landi. Fyrir utan það að framleiða smávegis af raforku fyrir Akureyringa mun virkjunin hafa mikið menningarsögulegt gildi fyrir byggðarlagið og hér munu nemendur skólanna geta fræðst um það hvernig raforkuframleiðsla fer fram. Við þurfum að efla mjög fræðslu um það mikla hlutverk sem raforkan hefur í nútímasamfélagi og það er nauðsynlegt fyrir uppvaxandi kynslóðir á síauknum allsnægtar- og afþreyingartímun að hafa vitneskju um, að raforkan er grundvöllur þess nútíma samfélags sem við lifum í. Velmegun þjóðarinnar hefur ekki komið af sjálfu sér, hún hefur byggst á dugnaði, menntun og harðfylgi landsmanna við að hagnýta sér, með bestu tækni hvers tíma, allar náttúruauðlindir lands og sjávar í áranna rás.

Góðir gestir.

Það er mér því vissulega mikil ánægja að mega leggja hér í daga hornstein að endurreistri Glerárvirkjun í tilefni af aldarafmæli rafvæðingar hér á landi og einnig í tilefni þess að öld er liðin frá því að fyrstu áætlanir voru gerðar um Glerárvirkjun. Megi hin nýja virkjun verða um langa hríð miðstöð þekkingar og fróðleiks um raforkuna og bautasteinn fyrir þá raforkumenningu sem þjóðin býr að. Áður en að því kemur er það mér heiður að afhenda virkjunarleyfi fyrir Glerárvirkjun í samræmi við ákvæði raforkulaga.

Ég bið Franz Árnason, forstjóra Norðurorku, að veita leyfinu viðtöku.

Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum