Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. febrúar 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Framtíð og forsendur sprotafyrirtækja.

Ágætu þinggestir.

Það telst sennilega augljós staðreynd í þessum hópi að hagvöxtur byggir einkum á nýsköpun og framþróun í atvinnulífinu. Um þetta er fjallað í nýlegri skýrslu Evrópusambandsins um nýsköpunarstefnu á Íslandi 2003-2004 sem birt er í ritröðinni: "European Trend Chart on Innovation" en þar er staðfest að sterkt samband sé á milli efnahagslegra framfara – annars vegar og nýsköpunarstarfsemi hér á landi – hins vegar. Þá segir orðrétt í þessari skýrslu ESB: ..."and more precisely Icelandic industry is performing well in directing its innovation efforts towards economic returns".

Það er í sjálfu sér gott að fá slíkt utanaðkomandi mat um að við séum að ná árangri í nýsköpunarstarfi okkar og að það skili efnahagslegum ávinningi. Almennt verður þó að telja að við getum átt von á mun meiri ávinningi í framtíðinni miðað við þær breytingar sem nú eru að verða í umhverfi nýsköpunar á Íslandi.

Umhverfi þetta hefur verið í hraðri mótun á síðustu árum. Veigamestu skrefin eru sennilega tilkoma Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins 1998; upphaf á rekstri IMPRU nýsköpunarmiðstöðvar 1999; tilkoma Vísinda- og tækniráðs 2003, sem sameinaði stefnumótun stjórnvalda á þessu sviði og loks Tækniþróunarsjóður sem tók til starfa á árinu 2004.

Á þessu ári eru rúmlega 300 milljónir króna til ráðstöfunar úr Tækniþróunarsjóði, sem er meira en 100 milljóna króna aukning frá árinu 2003. Við úthlutunina í fyrra runnu 73 % fjármagnsins til verkefna sem voru undir forustu fyrirtækja, en fjórðungurinn sem eftir var dreifðist á verkefni sem voru undir forustu rannsóknastofnana og háskóla. Langflest verkefnin voru samstarfsverkefni þar sem fyrirtæki voru annar eða einn af þátttakendum, en aðeins 4% fjármagnsins rann til verkefna sem ekki voru með þátttöku fyrirtækja. Stærsti hópurinn var samstarf fyrirtækja og rannsóknastofnana og næst stærsti hópurinn samstarf fyrirtækja og háskóla. Fyrirtækin sem hér um ræðir voru öll sprotafyrirtæki.

 

Ljóst er að tilkoma Tækniþróunarsjóðs hefur treyst mjög árangurslíkur sprotafyrirtækja enda hefur þörf þeirra fyrir aukið þróunarfé verið áberandi lengi. Þá er einnig mjög ánægjulegt að sjá hversu vel þeim hefur tekist að tengjast rannsóknum háskóla og opinberra rannsóknastofnana. Þetta samstaf er mikilvægt að treysta enn frekar enda hlýtur það að vera eitt af verkefnum stofnananna að taka þátt í og styðja við rannsóknir og tækniþróun fyrirtækja.

Það er von mín að yfirstandandi endurskipulagning á starfsemi rannsóknastofnananna leiði til þess að unnt verði að styrkja þetta samstarf enn frekar og að það leiði til efldrar starfsemi sprotafyrirtækja.

 

Með þessum fáu orðum lýsi ég Sprotaþing 2005 sett.

Ég óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar í dag.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum