Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. mars 2005 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Stofnfundur Þristavinafélagsins 3. mars 2005

Kæri Sveinn Runólfsson, flugmenn og aðrir hátíðargestir.

Þessi senn 62 ára dýrgripur sem við ætlum að stofna hér félag um, á sér einstaka sögu. Við gæslu auðlinda hafsins í landhelgisgæslu, við flutninga fólks og framleiðslu bænda fyrir tíma vegasambands við afskekktar sveitir og við landbætur á síðustu 32 árum. Ég staðnæmist eðlilega við síðast talda þáttinn

Vonir eldhuganna sem stuðluðu að upphafi landgræðsluflugs hér á landi fyrir hartnær hálfri öld, um byltingu í afköstum í uppgræðslustarfinu, rættust svo sannarlega. Það voru stórhuga menn sem sáu að hægt miðaði með þáverandi tækjum við að endurheimta glötuð landgæði. Þessi tækni markaði gríðarstór framfaraspor í landgræðslustarfinu og eiga allir þeir sem gerðu það mögulegt miklar þakkir skyldar. Með tilkomu Douglasins 1973 og þjóðargjafarinnar jukust möguleikarnir á að ná til fjarlægari svæða þar sem öðrum tækjum varð ekki við komið. Það magn sem unnt var að dreifa margfaldaðist og landgræðsluflugið varð stór þáttur í starfsemi Landgræðslunnar á áttunda áratugnum. Þvert á ýmsar hrakspár þá skilaði landgræðsluflugið miklum árangri. Nú eru þúsundir hektara af örfoka landi að breytast í víðikjarrlendi þar sem landgræðsluflugvélarnar dreifðu áburði og grasfræi.

Þegar leið á níunda áratuginn fóru áherslur að breytast í landgræðslustarfinu. Vaxandi áhersla var lögð á að fá bændur og aðra umsjónarmenn lands til liðs við landgræðslustarfið. Þeir áttu nú orðið öflugar dráttarvélar sem komust yfir miklu torsóttara land en áður og tóku að sér æ fleiri verkefni í uppgræðslu. Ennfremur var lögð meiri áhersla á notkun melgresis til þess að hefta sandfokið en melfræið verður að herfa niður til þess að það komi að notum. Þar með dró úr landgræðslufluginu og verkefnin færðust til íbúa landbyggðarinnar og stuðluðu að öflugri búsetu víða um land.

Nærri 80 atvinnuflugmenn hafa á sl 30 árum flogið endurgjaldslaust á Þristinum við að græða landið. Auðvitað hafa þeir annars vegar haft ánægju af því að fljúga þessum dýrgrip en hafi einhver þeirra ekki verið sannfærður um landgræðslustarfið þá urðu þeir það við þessi verkefni – sáu undraskjótt árangurinn af sínum verkum. Allir unnu þeir landinu okkar og hafa lagt að mörkum ómetanlegan skerf við uppgræðslu landsins okkar.  Þristurinn gerði ykkur flugmennina að betri flugmönnum og í ykkar augum er hann eins og Sleipnir, fjölhæfur gæðingur sem klauf loftin blá, hnarrreistur á góðu tölti.  Þið hafið skilað Íslandi grænu belti, þið elskið Ísland heitar vegna þess að í gegnum þetta flug kynntust þið landinu ykkar betur og sjálfboðastarf í þágu þjóðar er fjársjóður sem þroskar og bætir.

Á þessum tímamótum færi ég einlægar þakkir öllum þeim sem að hafa lagt gjörfa hönd að verki við landgræðsluflugið. Það er stór hópur manna, fyrirtækja, bæjar- og sveitarfélaga sem þar eiga hlut að máli. Mér er einna efst í huga þakklæti til þeirra sem höfðu kjark og þor til að hefja flugið, til atvinnuflugmanna sem flogið hafa NPK-Páli Sveinssyni ENDURGJALDSLAUST frá upphafi og einnig til þeirra flugvirkja sem séð hafa um viðhald vélarinnar. Landhelgisgæsluna, Flugfélag Íslands, Loftleiðir og síðar Flugleiðir hafa alla tíð lagt þessu verkefni lið á margvíslegan hátt er varðar viðhald flugvélanna.

Ég leyfi mér að þakka undirbúningsnefndinni fyrir hennar störf og tel að hér sé verið að taka mjög farsæl skref til varðveislu Þristsins okkar.

Ég óska Þristavinafélaginu sem hér verður stofnað, allra heilla í sínum störfum.  Megi þessi einstaki Þristur fljúga í önnur 60 ár og gleðja komandi kynslóðir.

  

______________

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum