Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. mars 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Útgáfa jarðhitabókarinnar.

Góðir gestir

Það er mér ánægja að vera hér viðstödd í dag í tilefni af útgáfu merkrar bókar um jarðhitann eðli og nýtingu hans og veita henni viðtöku fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Útgáfa þessarar bókar er mikið afrek og hefur gerð hennar verið sniðin að möguleikum og þörfum almennings til að geta nýtt sér þann fróðleik sem í bókinni er að finna.

Nýting jarðhitans hér á landi á síðustu öld telst vafalaust með merkustu tækniframförum aldarinnar í hugum flestra landsmanna. Áður fyrr á öldum voru í raun ekki miklir möguleikar á verulegri nýtingu jarðhitans hérlendis nema mjög staðbundin notkun.

Í allri byggðarsögu Íslands fer lítið fyrir frásögnum af nýtingu jarðhitans fyrr en undir lok 19 aldar og í upphafi hinnar síðustu. Landsmenn hafa vafalaust lengi velt fyrir sér ástæðum þess að heitt vatn spratt úr jörðu, en ekki haft mikil tök á að leita réttra skýringa á því. Þeir notuðu heita vatnið að því marki sem mögulegt var á hverjum stað og helst var það notað til þvotta og baða. Jafnvel finnast dæmi um að við jarðasölur fyrr á öldum hafi jarðhiti jarðarinnar fremur verið talinn til lasta hennar en kosta.

Það var svo í byrjun síðustu aldar að gerðar voru tilraunir til að hita híbýli með heitu vatni er hafði um aldir sprottið úr jörð. Að sjálfsögðu var hér til mikils unnið þegar tókst að nýta heitt vatn úr iðrum jarðar til upphitunar í landi þar sem kynda þurfti híbýlin manna árlangt og engan eldivið eða eldsneyti hafði til upphitunar. Fyrstu tilraunir bentu til þess að húshitun með jarðhita væri bæði gerleg og hagkvæm. Síðan rak hver áfangi annan í þessari sókn okkar til lífsgæða uns svo var komið á síðasta áratug liðinnar aldar að níu af hverjum tíu landsmönnum nutu jarðhitaveitu í híbýlum sínum. Árlegur sparnaður af þessar þróun nemur milljörðum króna og mun gera það um ófyrirsjáanlegan tíma.

 

Ritstjóri og aðalhöfundur þessarar bókar var Guðmundur Pálmason fyrrum forstöðumaður Jarðhitadeildar Orkustofnunar, en hann lést fyrir einu ári síðan, 11. mars 2004. Útgáfa þessarar bókar er því verðugur minnisvarði um Guðmund og hans mikilvirku forystustörf við rannsóknir og nýtingu jarðhitans hér á landi.

 

 

 

Starf Guðmundar var samofið uppbyggingu og starfsemi Jarðhitadeildar Orkustofnunar um áratuga skeið. Hann var í forsvari fyrir jarðhitarannsóknum á Íslandi á miklum uppbyggingartímum jarðhitans og undir hans stjórn varð Jarðhitadeild Orkustofnunar að einni fremstu rannsóknarstofnun heims á sviði jarðhitarannsókna.

Ég leyfi mér að óska þeim fjölmörgu aðilum til hamingju er lagt hafa hönd á plóginn við gerð þessarar bókar, bæði þeim er lagt hafa til efni, styrktaraðilum að útgáfu bókarinnar og síðast en ekki síst þeim er tóku að sér ritstjórn bókarinnar að Guðmundi Pálmasyni látnum, þeim Sveinbirni Björnssyni og Ólafi Pálmasyni. Það vil ég síðast en ekki síst þakka ekkju Guðmundar og sonum þeirra fyrir þeirra hlut að útgáfu þessarar merku bókar.

Ég þakka áheyrnina.

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum