Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. apríl 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

150 ára afmæli verslunarfrelsis á Íslandi.

Kæru hátíðargestir,

Í dag minnumst við mikilvægra tímamóta í sögu okkar Íslendinga því nú eru 150 ár liðin frá því að við fengum verslunarfrelsi, með lögum sem danska ríkisþingið samþykkti og tóku gildi þann 1. apríl 1855.

Aðdragandinn að þessari lagasetningu var allnokkur. Sem kunnugt er bjuggu Íslendingar við fyrirkomulag einokunarverslunar um tæplega tveggja alda skeið eða allt til ársins 1787 þegar einokunarverslun Dana á Íslandi lauk með setningu svokallaðra fríhöndlunarlaga. Þótt nokkur samkeppni milli danskra kaupmanna væri nú leyfð ríkti hin mesta fákeppni allt fram til 1855 og verslunarhættirnir minntu helst á einokunartímabilið.

Baráttan fyrir frekari tilslökunum í átt til verslunarfrelsis fékk byr undir báða vængi þegar Alþingi var endurreist og kom fyrst saman 1845. Skapaðist þá innlendur vettvangur sem auðvelduðu Íslendingum að koma á framfæri við konung vilja sínum í verslunarmálinu. Á þessum árum var foringjaefni að kveða sér hljóðs meðal Íslendinga, Jón Sigurðsson forseti, en frjáls verslun var eitt af markmiðum hans og annarra sem börðust hvað mest fyrir þjóðfrelsinu. Í bréfi Jóns til Jens bróður hans 29. júní 1852 kemur þetta vel í ljós. Þar segir Jón: „Ef verzlunarfrelsi kæmist á, þá vildi eg helzt komast heim að verða þar, því þá veit eg pólitiskt frelsi kemur á eptir".

Með fríhöndlun má segja að saga íslensku kaupmanna- og borgarastéttarinnar hefjist. Íslenskum kaupmönnum fjölgaði smátt og smátt en verulegur meirihluti verslunarinnar var þó allt tímabilið í höndum erlendra manna.

Á þessu tímabili skiptust kaupmenn í fastakaupmenn og lausakaupmenn. Fastakaupmenn voru nær undantekningalaust danskir og sömuleiðis búsettir í Kaupmannahöfn þótt þeir hefðu verslunarútibú á Íslandi. Þeir sáu sjálfir um inn- og útflutning en réðu verslunarstjóra – faktora - til að sjá um vöruskiptin á Íslandi. Stór hluti verslunargróðans var þess vegna fluttur út en ekki notaður til uppbyggingar í landinu. Erfitt var fyrir íslenskan kaupmann að opna fastaverslun því lítið pláss var á markaðnum fyrir fleiri verslanir en þær dönsku sem fyrir voru. Því voru það einkum lausakaupmenn sem veittu dönsku kaupmönnunum samkeppni. Ýmsar takmarkanir voru hins vegar á verslun þeirra sem leiddi til þess að hlutdeild þeirra í heildarversluninni var alltaf óveruleg. Heimildir segja þó frá því að fastakaupmenn lækkuðu oft innflutta vöru og hækkuðu innlenda vöru í verði ef lausakaupmann lögðust á viðkomandi höfn til verslunar. Verðlagið breyttist svo þegar lausakaupmenn hurfu á braut.

Krafan um fullt verslunarfrelsi fékkst viðurkennd með lögunum sem gengu í gildi þann 1. apríl 1855. Aðalbreytingin sem nýju lögin höfðu í för með sér var sú að kaupmönnum annarra ríkja var eftirleiðis heimilt að versla við Íslendinga. Jafnframt voru ýmsar tilslakanir leyfðar. Til dæmis var öllum innanríkiskaupmönnum heimilt að taka utanríkisskip á leigu til afnota fyrir verslanir sínar á Íslandi. Sérhverjum kaupmanni skyldi framvegis heimilt að sigla til allra löggiltra verslunarstaða í landinu og reka þar verslun. Hins vegar bar utanríkisskipum að koma fyrst til eftirlits á einhverja af eftirtöldum höfnum: Reykjavík, Vestmannaeyjar, Stykkishólm, Ísafjörð, Akureyri og Eskifjörð. Þetta voru skorður sem innanríkiskaupmenn þurftu ekki að sæta og voru seinna afnumdar.

 

Enda þótt nýju lögin hafi markað mikil tímamót – sem við minnumst í dag –breyttu þau ekki miklu fyrst í stað. Verslun var áfram að mestu leyti í höndum sömu kaupmanna. Veldi þeirra fór ekki að láta á sjá fyrr en um 15 árum síðar með tilkomu innlendra verslunarfélaga sem ráku verslun á eigin spýtur, s.s. Gránufélagsins og Félagsverslunarinnar við Húnaflóa. Slík verslunarfélög voru að segja má undanfarar pöntunarfélaga og kaupfélaga sem áttu eftir það langa sögu í íslensku viðskiptalífi.

Með tilurð fyrstu íslensku verslunarfélaganna, pöntunarfélaga, kaupfélaga og einkaframtaks fóru Íslendingar brátt að verða varir við uppbyggingu í landinu sem skapaðist vegna tekna af versluninni. Eftir 1855 áttu erlendir athafnamenn greiðan aðgang að atvinnulífi hér á landi og urðu Norðmenn víða frumkvöðlar í atvinnurekstri á Íslandi.

 

Fram yfir 1900 var smásöluverslunin og heildverslunin samtvinnuð í sömu verslunarfyrirtækjum. Upp úr aldamótunum 1900 fór þetta að greinast að. Það sem greiddi götu þess var einkum stofnun Íslandsbanka árið 1904 og tilkoma símasambands við útlönd árið 1906. Urðu stórkaupmenn brátt áhrifamikil stétt í atvinnulífinu.

Á þessu tímabili, þ.e. frá 1855 til 1914, voru opinber afskipti af verslun miklu minni en síðar varð. Má segja að á næstu áratugum þar á eftir hafi opinber afskipti af verslun og viðskiptum hins vegar verið í algleymingi og má þar nefna ýmis dæmi, svo sem:

 

- Velferðarnefnd sem starfaði á árunum 1914–16. Hún fjallaði ásamt ráðherra um pantanir á vörum og ráðstöfun þeirra, leigu á skipum og vöruverðlag.

- „Landsverslunina" á árunum 1917–27 sem átti að tryggja að nægar birgðir af nauðsynjum væru til í landinu og að slíkar vörur væru seldar með hóflegri álagningu.

- Ríkiseinkasölu á vörum eins og áfengi, olíu, tóbaki, bifreiðum, útvarpsviðtækjum og mörgu öðru frá og með þriðja áratugnum

- Takmarkanir á óþörfum innflutningi, sem náðu á tímabili yfir allflestar vörutegundir aðrar en korn, kaffi, sykur, kol, olíu og veiðarfæri.

Er hætt við að íslenskum kaupmönnum dagsins í dag brygði í brún ef þeir byggju við sama starfsumhverfi og kollegar þeirra á fyrri hluta og um miðbik síðustu aldar.

 

Allt frá sjöunda áratug síðustu aldar og til dagsins í dag hefur þróunin verið í átt til vaxandi frjálsræðis í íslensku verslunar- og viðskiptalífi. Samhliða þeirri þróun hafa orðið miklar breytingar á viðskiptaháttum. Lágvöruverðsverslanir og verslunarkeðjur hafa rutt sér til rúms, afgreiðslutími verslana hefur lengst, Íslendingar urðu aðilar að EES-samningnum sem tryggir frelsi á flutningi vara, þjónustu, fjármagni og vinnuafls milli aðildarlanda samningsins, og svo má lengi telja. Núverandi stjórnarflokkar hafa ekki síst gengist fyrir miklum skipulagsbreytingum í efnahagslífinu og má þar nefna umbyltingu á skattkerfinu, auknu frelsi á fjármagnsmarkaði og eflingu atvinnulífs. Áhrif þessara breytinga eru augljós allt í kringum okkur. Nauðsynlegt er að skapa atvinnulífinu áfram góð skilyrði til framsækni og eflingar. Þróunin verður jafnframt að vera á þann veg að atvinnulífið verði skilvirkt og njóti trausts. Í því skyni verður að leita leiða til að halda úti eðlilegum, almennum og sanngjörnum leikreglum án þess að opinbert eftirlit hefti eðlilegan framgang fyrirtækja.

 

Góðir gestir,

Íslenskt viðskiptaumhverfi hefur tekið stakkaskiptum á umliðnum öldum og áratugum. Á tímum vaxandi útrásar íslenskra fyrirtækja er hollt að minnast þess að aðeins eru 150 ár liðin frá því að við Íslendingar fengum fullt verslunarfrelsi. Ég hygg að engan sem upplifði þá tíma hafi órað fyrir því sem á eftir hefur komið og allra síst að ein helsta skrautfjöðrin í dönsku verslunarlífi, stórverslunin Magasin du Nord við Kóngsins nýja torg í Kaupmannahöfn, yrði einhvern tímann í eigu íslenskra manna. Fleiri erlendar keðjur eru nú komnar í eigu Íslendinga og sífellt fleiri fyrirtæki sækja af vaxandi krafti á erlenda markaði. Á aðeins fáeinum árum hefur bein fjármunaeign Íslendinga erlendis fimmfaldast og íslensk fyrirtæki veita tugþúsundum manna atvinnu á erlendri grundu. Hér heima er verslunin einnig blómleg og starfa yfir 20 þúsund manns í íslenskri verslun. Þessari þróun ber að fagna en jafnframt um leið að minnast þeirra fjölmörgu sem börðust einarðlega fyrir verslunarfrelsinu. Þeir ruddu brautina, þeir sem á eftir komu nýttu tækifærið og við sem nú erum uppi getum náð enn lengra.

Ég þakka gott hljóð.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum