Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. apríl 2005 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Framsöguræða með frumvarpi um skipan ferðamála

Sturla Böðvarsson flutti framsöguræðu með frumvarpi um skipan ferðamála þann 18. apríl síðastliðinn.

Hæstvirtur forseti!

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um skipan ferðamála en frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 117/1994 um skipulag ferðamála.

Þróun ferðaþjónustunnar hér á landi hefur verið ör undanfarinn áratug. Tölur um fjölda ferðamanna og þróun í gjadeyristekjum vitna um þennan mikla vöxt. Fjöldi ferðaskrifstofa hefur til að mynda margfaldast á þessum tíma og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Einnig hefur öll aðstaða og þjónusta við ferðamenn stórbatnað og sala á ferðaþjónustu og landkynning hefur breyst verulega. Kemur þar til notkun internetsins, tilkoma lággjaldafélaga og ekki síst stóraukin framlög stjórnvalda til markaðsmála.

Frumvarp var samið í samgönguráðuneytinu og var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila og samtök þeirra. Frumvarpið var gert aðgengilegt almenningi á vef ráðuneytisins rétt fyrir jól eða á sama tíma og það var sent til hefðbundinnar umsagnar. Var ánægjulegt að fá athugasemdir frá ýmsum aðilum sem eiga hagsmuna að gæta eða eru áhugamenn um framgang ferðaþjónustunnar, en standa utan þeirra hagsmunasamtaka og stofnana sem leitað var umsagnar hjá. Þessi ráðstöfun gafst svo vel að ákveðið hefur verið að nota þetta verklag í samgönguráðueytinu framvegis. Umsagnartíminn var einnig óvenju rúmur og er það mat ráðuneytisins að það hafi haft áhrif á hversu vandaðar og vel ígrundaðar umsagnir bárust.

Megintilefni þess að ráðist var í heildarendurskoðun laganna var að gera skrifstofu Ferðamálaráðs kleift að gegna hlutverki stjórnsýslustofnunar og rjúfa valdboð á milli stofnunarinnar og Ferðamálaráðs sem er skipað hagsmunaaðilum. Er gert ráð fyrir að skrifstofa Ferðamálaráðs fái nafnið Ferðamálastofa til að undirstrika þennan aðskilnað.

Samkvæmt gildandi lögum sér samgönguráðuneytið um útgáfu leyfa ferðaskrifstofa og aðra umsýslu er því tengist. Aðilar hafa því, eins og staðan er í dag, ekki möguleika á að skjóta ákvörðunum til æðra stjórnvalds og er það andstætt góðum stjórnsýsluháttum nútímans.

Annað tilefni endurskoðunarinnar var að skilgreiningar laganna hafa ekki þótt nægilega skýrar og til þess fallnar að valda misskilningi á því hvaða starfsemi er leyfis- og tryggingarskyld. Er í frumvarpi þessu leitast við að gera skýringar og skilyrði fyrir leyfum einfaldari og skýrari.

Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins eru að nýrri stofnun, Ferðamálastofu, er falin framkvæmd ferðamála og eru verkefnin tilgreind, þó ekki með tæmandi hætti heldur er gert ráð fyrir að ráðherra geti falið stofnuninni frekari verkefni.

Verkefni Ferðamálastofu verða einkum:

-Útgáfa leyfa, skráning á starfsemi og eftirlit með að skilyrðum fyrir þeim sé fullnægt.

-Þróunar-, gæða- og skipulagsmál ferðaþjónustu, þ.e. framkvæmd markaðrar ferðamálstefnu, samræming umhverfis- og fræðslumála, miðlun upplýsinga, svæðisbundin þróun, alþjóðlegt samstarf.

-Markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustu, í samræmi við ákvörðun ráðherra hverju sinni.

Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hlutverk og starfshætti Ferðamálastofu og einstök verkefni hennar.

Ferðamálastofu er heimilt með samþykki ráðherra að fela öðrum að annast ákveðin verkefni og vera aðili að samstarfsverkefnum. Er hér m.a. haft í huga samstarf núverandi skrifstofu Ferðamálaráðs við ferðamálaráð hinna Norðurlandanna um rekstur landkynningarskrifstofu í Bandaríkjunum og vest-norrænt ferðamálasamstarf á Bryggjunni í Kaupmannahöfn. Einnig er Ferðamálastofu með þessu gert kleift að stofna til samstarfs við hagsmunaaðila um einstök kynningarverkefni innan lands og utan. Iceland Naturally verkefnið sem samgönguráðuneytið stýrir fyrir hönd íslenskra stjórnvalda er einnig dæmi um það hvernig opinberir aðilar geta tekið þátt í samstarfi um landkynningu með öðrum útflutningsgreinum um ferðaþjónustu.

Hlutverk ferðamálaráðs er gert skýrara með frumvarpinu og tengsl þess við Ferðamálastofu rofin og er það til samræmis við önnur ráð á vettvangi samgönguráðuneytisins, t.d. flugráð og siglingaráð. Er kveðið á um að ferðamálaráð verði ráðherra til ráðgjafar á sviði ferðamála, veiti umsagnir um breytingar á lögum og reglugerðum og geri árlega eða oftar tillögu til ráðherra í markaðs- og kynningarmálum. Bein áhrif ferðamálaráðs á stefnumörkun eru því tryggð enn betur en í núgildandi lögum þar sem segja má að ferðamálaráð gegni fyrst og fremst hlutverki stjórnar yfir skrifstofu ráðsins.

Skipan ferðamálaráðs breytist nokkuð og verða í því átta fulltrúar í stað sjö eins og nú er. Samgönguráðherra skipar formann og varaformann án tilnefningar, Samtök ferðaþjónustunnar tilnefna þrjá fulltrúa í stað tveggja í núverandi ferðamálaráð. Ferðamálasamtök Íslands tilnefna tvo fulltrúa í stað eins og Útflutningsráð einn fulltrúa en það hefur ekki tilnefnt fulltrúa í ferðamálaráð fram að þessu. Samtök sveitarfélaga hafa fram að þessu tilefnt tvo fulltrúa í ferðamálaráð en frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að samtökin tilnefni fulltrúa í ráðið. Ferðamálasamtök Íslands eru sá vettvangur sem sinnir ferðamálum á sveitarstjórnarvísu og eru starfandi ferðamálasamtök á höfðuborgarsvæðinu. Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og eystra, Austurlandi, Suðurlandi og á Reykjanesi. Ferðamálasamtökunum hefur verið úthlutað fjármunum frá Alþingi til reksturs samtakanna og upplýsingamiðstöðva. Einnig hefur samgönguráðuneytið haft samstarf við Ferðamálasamtökin vegna kynningar á Íslandi fyrri íslenska ferðamenn, uppbyggingar upplýsingamiðstöðva og árlegrar ferðasýningar samtakanna. Þannig hafa ferðamálasamtökin verið virkur aðili í samstarfi við stjórnvöld þó að sveitarfélög hafi vissulega komið að uppbyggingu ferðaþjónustu á hverju svæði og rekstri t.d upplýsingamiðstöðva.

Eins og áður segir er fulltrúum Samtaka ferðaþjónustunnar fjölgað um einn. Það er mjög mikilvægt að tryggja aðkomu hagsmunasamtaka í ferðaþjónustu að ferðamálaráði, ekki síst þegar því hefur verið falið það hlutverk að gera árlega eða oftar tillögu til ráðherra um markaðs- og kynningarmál . Sú sérþekking sem rekstraraðilar búa yfir nýtist þannig enn frekar við mótun þess umhverfis sem ferðaþjónustunni er búið, ekki síst á sviði landkynningar og hvernig háttað skuli meðferð opinbers fjár á þessum vettvangi. Við þetta fyrirkomulag eru bundnar miklar vonir og að með því náist að sameina krafta stærstu hagsmunasamtakanna, ferðamálasamtaka og annarra útflutningsgreina með aðkomu Útflutningsráðs. Þeir fulltrúar sem skipaðir eru án tilnefningar sem og fulltrúar Ferðamálasamtaka Íslands eru fulltrúar þeirra fjölmörgu einstaklinga, sveitarfélaga og fyrirtækja sem standa utan Samtaka ferðaþjónustunnar en eru virkir þátttakendur í mótun íslenskrar ferðaþjónustu.

Virðulegi forseti.

Samkvæmt 8. grein frumvarpsins kemur fram að hver sá sem hyggst starfa sem ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa skal hafa til þess leyfi Ferðamálastofu. Þetta er eins og í núgildandi lögum en hugtökin hafa verið skilgreinst á ný. Einungis ferðaskrifstofur selja alferðir, sem eru skýrðar sérstaklega í frumvarpinu, allir aðrir sem stunda starfsemi sem undir lögin falla, eru því ferðaskipuleggjendur. Er hér stigið gríðarlega mikilvægt skref í því skyni að gera fyrirtæki sem selja afþreyingarferðir af ýmsu tagi, leyfisskyld því frumvarpið gerir ráð fyrir að þeir sem selja, í atvinnuskyni, hestaferðir, vélsleðaferðir, fljótasiglingar og ævintýraferðir með sérútbúnum ökutækjum þurfi til þess leyfi Ferðamálastofu. Með þessu er komið til móts við kröfur hagsmunaaðila í ferðaþjónustu um aukna fagmennsku í greininni og að þeir sem hefji starfsemi á þessum vettvangi geri sér grein fyrir ábyrgð sinni. Ferðafélögum eru ekki gerð sérstök skil í frumvarpinu en í núgildandi lögum njóta þau undanþágu frá leyfisskyldu. Ferðafélög selja ferðir í samkeppni við einkaaðila og einnig hafa nokkur brögð verið að því að aðilar sem bjóða ferðir til sölu hafa skilgreint starfsemi sína sem ferðafélag til að komast hjá því að afla leyfa og leggja fram tryggingu. Það skal þó tekið fram að tryggingar ferðaskrifstofa eru einungis til endurgreiðslu fjár sem viðskiptavinur hefur greitt vegna alferðar sem enn er ófarin og til heimflutnings viðskiptavinar úr alferð komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu.

Frumvarpið gerir áfram ráð fyrir samskonar tryggingu vegna sölu alferða og er í gildandi lögum en þó ert gert ráð fyrir nokkurri lækkun á því hlutfalli af veltu sem tryggingin er reiknuð út frá.

Litlar sem engar breytingar eru því gerðar á fyrirkomulagi vegna þessara trygginga nema að fellt er út að leiguflug erlendis frá sé tryggt sérstaklega. Þykir ekki lengur ástæða til að hafa þann háttinn á þar sem minni skil eru nú á milli þeirra sem selja áætlunarflug og leiguflug auk þess sem með þessu er tryggingarskyldu að hluta létt af ferðaskrifstofum og samkeppnisstaða þeirra gerð betri.

Í frumvarpinu er lagt til að leyfin verði ótímabundin. Í núgildandi lögum eru þau veitt fyrst til tveggja ára og síðan til fimm ára í senn. Hefur þetta haft í för með sér óþarfa umstang fyrir leyfishafa auk þess sem aðeins hluti þeirra er með tryggingarskylda starfsemi.

Leyfishafa er almennt skylt að hafa fasta starfsstöð sem skuli vera opin á auglýstum tíma. Þó er heimilt að víkja frá því ef þjónusta er einungis boðin rafrænt en þá skal uppfylla skilyrði laga um rafræn viðskipti. Nýmæli er að leyfishafa geti rekið útibú, án þess að sækja sérstaklega um það.

Og er lagt til að Ferðamálastofa hafi yfir að ráða sérstöku myndrænu auðkenni sem leyfishafar og skráðir aðilar noti t.d. í auglýsingum. Er þetta gert til að rekstraraðilar og almenningur skynji mikilvægi leyfanna og geri greinarmun á starfsemi með öll lögbundin leyfi í lagi og ólöglegri starfsemi.

Í frumvarpinu er hugtakið upplýsingamiðstöð skilgreint í fyrsta sinn í íslenskum lögum en upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn skipta nokkrum tugum og eru reknar víða um land af einkaaðilum og/eða sveitarfélögum. Margar stöðvar njóta einnig ríkisstyrkja. Í frumvarpinu er gerður greinarmunur á bókunarþjónustu og upplýsingamiðstöð og kveðið á um bókhald og fjárhagslegan aðskilnað þegar hvort tveggja er rekið af sömu aðilum og nýtur opinberra styrkja. Er með þessu komið til móts við nýlegan úrskurð Samkeppnisráðs vegna reksturs bókunarþjónustu í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík en í því tilfelli kom fram kæra frá einkaaðila sem taldi á sér brotið þegar fyrirtæki í opinberri eigu starfaði á sama sviði.

Bókunarþjónusta og upplýsingamiðstöð eru skilgreindar sem skáningarskyld starfsemi og er það nýjung. Þessum aðilum er þannig gert að senda skriflega tilkynningu um starfsemi sína til Ferðamálastofu sem gefur út skírteini til staðfestingar því að ákvæði um tilkynningarskyldu hafi verið uppfyllt.

Nýmæli er í frumvarpinu um brottfall leyfa. Bæði er gert ráð fyrir að leyfi falli niður sjálfkrafa og heimild til handa Ferðamálastofu að fella leyfi úr gildi, eftir að gætt er andmælaréttar leyfishafa. Komi til þess að starfsemi sé rekin án tilskilins leyfis eða skráningar er unnt að leita dómsúrskurðar um stöðvun starfseminnar þar á meðal með lokunn starfsstövðar og lokun heimasíðu. Í núgildandi lögum vantar slík úrræði og hefur því oft verið óhægt um vik þegar starfsemi sem sannanlega er leyfisskyld hefur ekki sinnt óskum samgönguráðuneytis um að sækja um leyfi og leggja fram lögboðna tryggingu.

Hæstvirtur forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til háttvirtrar samgöngunefndar og til annarrar umræðu.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum