Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. maí 2005 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Alþjóðafjarskiptadagurinn

Samgönguráðherra var að sjálfsögðu staddur á ráðstefnu um ný tækifæri á sviði fjarskiptatækni. Við setningu ráðstefnunnar flutti Sturla Böðvarsson eftirfarandi ávarp:

Ágætu ráðstefnugestir

Það er mikið að gerast á vettvangi fjarskiptanna. Alþingi hefur samþykkt Fjarskiptaáætlun, breytt Fjarskiptalög fela í sér nýtt fyrirkomulag samráðs á vettvangi Fjarskiptaráðs og í dag verða send inn tilboð í hlut ríkisins í Símanum.

Verulegar breytingar hafa átt sér stað í fjarskiptamálum á undanförnum árum hér á landi sem annars staðar. Í Evrópu er nú samræmd fjarskiptalöggjöf, sem m.a hefur leitt til afnáms einkaréttar og samkeppni á fjarskiptamarkaði, sem takmarkar um leið möguleika stjórnvalda til að beita ríkisreknu símafyrirtæki til að framkvæma stefnu sína í fjarskiptamálum. Þetta kallar á breytta aðkomu stjórnvalda að þessum málaflokki og nauðsynlegt er fyrir þau að móta stefnu sína á þessu sviði og setja fram með skýrum hætti. Það munum við nú gera innan Fjarskiptaráðs með samstarfi við fulltrúa fjarskiptafyrirtækjanna.

Hröð þróun á sér nú stað á fjarskiptasviðinu, bæði á markaði með tilkomu nýrra þjónustufyrirtækja og með samruna eldri fyrirtækja auk þess sem tækniþróunin er á slíkum ofurhraða að ekki verður fyrir séð. Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun eru að renna saman í eina gátt og hefðbundin rásaskipt talsímaviðskipti að víkja fyrir IP tækninni, sem verður m.a umfjöllunarefni fyrirlesara hér á eftir.

Fjarskiptaáætlun

Í ljósi þessara aðstæðna og vegna breyttra aðkomu ríkis að fjarskiptamarkaði með sölu á hlut í Símanum ákvað ég í ársbyrjun 2004 að ráðist yrði í gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010. Með henni yrðu lögð drög að heildstæðri stefnu í fjarskiptamálum á Íslandi, þeirri fyrstu á þessu sviði hér á landi. Sérstakur stýrihópur undir forystu Hrafnkels V. Gíslasonar forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar hafði umsjón með verkinu. Í stýrihópnum vöru auk Hrafnkels, Guðbjörg Sigurðardóttir, Bergþór Ólason og Karl Alvarsson.

Í fjarskiptaáætluninni, sem Alþingi hefur nú samþykkt, er skilgreint nánar markmið stjórnvalda í fjarskiptamálum til næstu ára. Með þessari samræmdu stefnumótun er stefnt að því að auka samkeppnishæfni Íslands og stuðla að framþróun atvinnulífs, ná fram hagkvæmri nýtingu fjármagns og samræmdri forgangsröðun verkefna. Einnig er lögð áhersla á að aðgengi að fjarskiptum sé mikilvægt fyrir alla landsmenn og fjallað um með hvaða hætti aðstaða landsmanna, hvað varðar aðgengi að fjarskiptum, verði jöfnuð.

Jafnframt er skýrð verkaskipting ríkisins annars vegar og markaðarins hins vegar varðandi þróun fjarskipta hérlendis. Í stórum dráttum er þar gert ráð fyrir að markaðsaðilar leiði uppbyggingu á fjarskiptamarkaði þar sem þeir treysta sér til.

Hlutverk stjórnvalda verður að fjármagna verkefni til almannaheilla, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum sem stuðla að samkeppnishæfni þjóðfélagsins, enda verði trauðla í þau ráðist af markaðsaðilum. Slíkum verkefnum verði hrint í framkvæmd á grundvelli útboða eða tilboða. Þennan þátt fjarskipta köllum við Samþjónustu í Fjarskiptaáætlun.

Meginmarkmið

Vegna mikilvægis fjarskipta í tæknisamrunanum er áríðandi er að útvíkka lágmarksþjónustu, sem allir landsmenn hafa aðgang að, þannig að fjarskipti örvi þróun upplýsingasamfélagsins alls staðar á landinu, á heimilum, í skólum og í fyrirtækjum. Einnig er mikilvægt að aðgengi að fjölmiðlum verði tryggt öllum landsmönnum til lands og sjávar.

Því er í fjarskiptaáætlun lagt til að skilgreind verði ný og metnaðarfull markmið stjórnvalda til að tryggja öllum landsmönnum aðgang að upplýsingasamfélaginu. Þessi markmið eru:

- Almenningi standi til boða háhraðatenging á heimili sínu til flutnings á tali, mynd og gögnum.

- GSM farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1 og öðrum helstu stofnvegum og á helstu ferðamannastöðum.

- Dreifing sjónvarpsdagskrár RÚV, auk hljóðvarps Rásar 1 og Rásar 2 til sjómanna á miðum við landið og til strjálbýlli svæða, verði stafræn í gegnum gervihnött.

Þessi markmið auka öryggi landsmanna með því að þétta GSM netið, tryggja að allir landmenn geti tekið virkan þátt í upplýsingasamfélaginu og allir landsmenn til sjávar og sveita hafi aðgang að stafrænu íslensku sjónvarpi.

Í fjarskiptaáætlun eru auk þess sett fram metnaðarfull markmið á öllum sviðum fjarskipta. Þessi markmið eiga að tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð þjóða þegar kemur að fjarskiptum, beitingu upplýsingatækni og aðgengi að efni fjölmiðla, upplýsingaveita og efnisveita hvers konar.

Staða okkar Íslendinga er góð í alþjóðlegum samanburði varðandi fjarskipti. Við búum við afar gott aðgengi að fjarskiptum, lág verð og rekstraröryggi kerfa er gott. Skyldur ríkisins, sem skilgreindar eru með alþjónustu til að veita lágmarks fjarskiptaþjónustu, eru nær 100% uppfylltar hérlendis og gerum við betur en flestallar nágrannaþjóðir okkar í því í efni. Þetta þýðir þó ekki að við eigum að setjast með hendur í skaut - við verðum á tryggja með þeim drifkrafti, sem í okkur býr, að vera áfram í fremstu röð.

Fyrsta skrefið á þeirri braut er fjarskiptaáætlun sem Alþingi samþykkti á síðasta degi þingsins með öllum greiddum atkvæðum. Næsta skref er gerð framkvæmdaáætlunar, sem er á lokastigi, en ríkistjórnin hefur þegar samþykkt að veita til þessara verka verulegum fjármunum, m.a. með stofnun sérstaks fjarskiptasjóðs.

Góðir ráðstefnugestir.

Markmiðið er að Íslendingar eigi að vera í fremstu röð þjóða í að nýta upplýsingatækni og tryggja framþróun með tækifæri einstaklingsins og velferð hans að leiðarljósi. Öflug fjarskipti eru leið að þessu markmiði. Ég treysti ykkur, sem hér eruð, til þess að gera þennan vilja stjórnvalda að veruleika. Það er í þágu okkar allra.

Hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar er mikilvægt. Ég hef því lagt áherslu á að bæta starfsumhverfi stofnunarinnar með bættu húsnæði og skýrum ramma árangursstjórnunar.

Það er mér mikið ánægjuefni að undirrita nýjan árangursstjórnunarsamning samgönguráðuneytisins við Póst- og fjarskiptastofnun. Með honum er komið á mælanlegum markmiðum sem verður fylgt eftir á hverju ári og upplýsingum um árangur aðgerða komið til landsmanna.

Er vel við hæfi að nota Alþjóðafjarskiptadaginn til þess.

Ég býð ykkur velkomin til þessarar ráðstefnu og segi hana setta.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum