Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. maí 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Rannsóknarþing Vísinda- og tækniráðs.

Ágætu gestir Rannsóknaþings Vísinda- og tækniráðs.

I.

Við lifum á spennandi tímum. Gerjun í vísindum, tækniþróun og nýsköpun er meiri en þessi þjóð hefur nokkru sinni upplifað. Ný og áður óþekkt tækifæri hafa skapast en til að nýta þau þarf að beita mikilli fyrirhyggju, útsjónarsemi og þolinmæði. Við lifum á tímum breytinga, þar sem þróunin er ör og kallar á viðvarandi árvekni og frumkvæði til að sækja nýja þekkingu og reynslu hvert þangað sem hana er að finna. Á mörgum sviðum hefur okkur tekist þetta vel, enda er útrás íslensks atvinnulífs sem aldrei fyrr.

Ef við ætlum að viðhalda þeim hagvexti sem hér er blasir við mikilvægi þess að efla vísindarannsóknir og tækniþróun og tengsl þeirra við nýsköpun atvinnulífsins. Þetta er leiðarljós Vísinda- og tækniráðs.

Það er deginum ljósara að Ísland er hluti af hinum alþjóðlega viðskiptaheimi. Þess vegna er mikilvægt að þekkja hver samkeppnisstaða okkar er í hópi erlendra þjóða – og bregðast við ef á þarf að halda. Mig langar til að rekja í stuttu máli niðurstöðu þriggja nýlegra kannana sem gefa okkur vísbendingu um stöðuna.

 

II.

Í síðustu viku voru birtar niðurstöður GEM (Global Entrepreneurship Monitor), frumkvöðlarannsóknar sem Háskólinn í Reykjavík tekur þátt í með fjárhagslegum stuðningi forsætisráðuneytisins, Nýsköpunarsjóðs og Samtaka atvinnulífsins. Þessi rannsókn þykir viðamesta og virtasta rannsókn sem gerð er á frumkvöðlastarfsemi í heiminum. Umfang, eðli og umhverfi slíkrar starfsemi í allt að 40 löndum er rannsakað á samræmdan hátt með það að langtímamarkmiði að kanna tengsl milli frumkvöðlastarfsemi og hagvaxtar.

 

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að á árinu 2004 voru um 25 þúsund Íslendingar þátttakendur í frumkvöðlastarfsemi. Þetta eru um 14% Íslendinga á aldrinum 18-64 ára, sem er tvöfalt hærra hlutfall en meðaltal annarra hátekjulanda – og sambærilegt við það sem gerist í Bandaríkjunum og Kanada. Þá er athyglisvert að tæplega 60% þeirra sem undirbúa nýja viðskiptastarfsemi hér á landi gera ráð fyrir að fá fjárframlag sitt a.m.k. fimmfalt til baka

Sé litið til þess sem betur mætti fara í umhverfi frumkvöðla á Íslandi þá staðfestir rannsóknin að skortur á áhættufjármagni virðist vera stærsti veikleikinn í umhverfinu. Í umfjöllun Háskólans í Reykjavík segir orðrétt um þetta:

"Þessi skortur reynir mest á metnaðarfull og nýskapandi fyrirtæki, en þau fyrirtæki eru líklegust til þess að gefa mest af sér þegar til lengri tíma er litið. Ekki er nóg að auka áhættufjármagn í umferð heldur þarf einnig að byggja upp þekkingu og reynslu af áhættufjárfestingum." Jafnframt er hið opinbera hvatt til að hvetja einkaaðila til áhættufjárfestinga á Íslandi.

 

Það er vissulega mikilvægt að beita sér á þessu sviði. Það er ótækt að ekki hafi enn tekist að vekja áhuga hérlendra fjármagnseigenda á mikilvægi nýsköpunar í íslensku atvinnulífi – sérstaklega í ljósi þess að fjármagn þeirra á væntanlega að stórum hluta uppruna einmitt hér. Það er athyglisvert að svo virðist sem áhættufjárfestingar í útlöndum hafi mun meira aðdráttarafl fyrir íslenska fjármagnseigendur en sambærilegar fjárfestingar hér heima. Þess vegna er ánægjulegt frá því að segja að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur skipað starfshóp um fjármögnun nýsköpunar með aðkomu fyrirtækja, fjármálamarkaðarins, lífeyrissjóða og annarra hagsmunaaðila. Hópurinn hefur nýlega hafið störf sín.

 

Annað sem niðurstöður GEM rannsóknarinnar benda til að þurfi að bæta í umhverfi frumkvöðla á Íslandi er frumkvöðlamenntun og jafnframt þarf að auka þátttöku kvenna í frumkvöðlastarfi. Iðnaðarráðuneytið er vakandi yfir þessu, það hefur þegar beitt sér fyrir aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu og frumkvöðlafræðsla er á verkefnalista IMPRU Nýsköpunarmiðstöðvar.

III.

Önnur alþjóðleg könnun sem var nýlega birt fyrir árið 2005 er könnun IMD viðskiptaháskólans í Sviss, þar sem samkeppnisstaða 60 landa er borin saman. Þar er Ísland í 4. sæti á lista yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims og hækkar um eitt sæti frá því í fyrra. Ísland er í efsta sæti af löndum Evrópu á listanum. Það er athyglisvert að sjá að Ísland hefur hækkað um 21 sæti í könnunum IMD síðan árið 1995, eða rúmlega 2 sæti að meðaltali á ári. Þetta er stórkostlegur árangur og fá ríki - ef nokkurt - hafa bætt árangur sinn með sambærilegum hætti.

 

Ef við skoðum nánar árangur Íslands í þeim fjórum meginþáttum sem könnunin mælir kemur í ljós að skilvirkni hins opinbera er góð. Ísland er þar í 6. sæti og hækkar um eitt milli ára. Skilvirkni viðskiptalífsins er einnig afar sterk, þar náum við 2. sæti – þremur sætum hærra en í fyrra. Þegar kemur að könnun á innviðum hagkerfisins höfum við hins vegar fallið úr 8. í 12. sæti og gangur hagkerfisins skilar okkur í 17. sæti samanborið við 15. sæti í síðustu könnun.

IV.

Þriðja og síðasta könnunin sem mig langar að nefna er yfirgripsmikil könnun World Economic Forum fyrir árið 2004, sem mælir samkeppnisstöðu 104 landa. Þar er Ísland í 10. sæti og hefur bætt stöðu sína verulega á síðastliðnum 10 árum, eða um heil 15 sæti. Þessi niðurstaða er á sama veg og niðurstaða IMD könnunarinnar sem bendir sterklega til þess að Íslendingar hafi náð raunverulegum árangri og bætt samkeppnisstöðu sína svo um munar á síðastliðnum áratug.

 

V.

Að þessari yfirferð lokinni er rétt að huga að nokkrum atriðum sem brýnt er að vinna áfram - á vettvangi Vísinda- og tækniráðs – til að treysta stöðu okkar í alþjóðlegri samkeppni.

Ljóst er að þróun í skipulagningu alþjóðlegra rannsóknaverkefna, t.d. innan rammaáætlunar ESB, er okkur í óhag. Kröfur um aukið umfang verkefna verða sífellt meiri og nú er kallað á víðtækt samstarf stórra og öflugra rannsóknaheilda. Þetta veldur okkur nokkrum vanda þar sem rannsóknaeiningar okkar eru bæði dreifðar og smáar – ekki síst á alþjóðlegan mælikvarða.

 

Vísinda- og tækniráð hefur beitt sér fyrir eflingu rannsóknareininga og í ályktunum ráðsins hefur m.a. verið bent á mikilvægi þess að sameina matvælarannsóknir í eina stofnun, en þær eru nú dreifðar á fjórar eða fleiri opinberar stofnanir. Jafnframt hefur Vísinda- og tækniráð beint því til okkar í iðnaðarráðuneyti að vinna að sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Sú vinna stendur yfir og má ljóst vera að með sameiningu þessara stofnana skapast nýjar forsendur fyrir auknum sóknarkrafti og bættum árangri. Í framhaldi þessa verður að telja eðlilegt að frekari efling þessa umhverfis verði til umræðu með aukinni sameiningu á rannsóknarstarfsemi hins opinbera.

 

Vísinda- og tækniráð hefur einnig beitt sér fyrir auknu samstarfi rannsóknaraðila í gegnum samkeppnissjóðina. Að tilstuðlan ráðsins hafa bæði Rannsóknarsjóður og Tækniþróunarsjóður lagt kapp á að verkefni sem þeir styðja feli í sér virka samvinnu á milli rannsókna háskólastofnana og opinberra rannsóknastofnana og ekki síður að þessir rannsóknarhópar sinni með afgerandi hætti þörfum atvinnulífsins fyrir rannsóknir og nýsköpun.

Þetta hefur í veigamiklum atriðum tekist og við úthlutun úr Tækniþróunarsjóði, sem nú er nýlokið mun meira en helmingur af framlögum sjóðsins renna til margs konar samstarfs fyrirtækja, háskóla og opinberra rannsóknastofnana. Þetta er ákaflega góðs viti og til marks um það að háskólarannsóknir eru orðnar mun virkari í nýsköpun atvinnulífsins en margir vilja vera láta.

 

Ég vil enn ítreka mikilvægi samstarfs háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Því þrátt fyrir að komið sé á gott samstarf um verkefni sem samkeppnissjóðirnir styrkja – þá er enn margt óunnið við að styrkja landfræðilegt sambýli þessara hópa, t.d. með uppbyggingu í Vatnsmýrinni. Ég sé fyrir mér að þangað gætu rannsóknarstofnanir mögulega stefnt með starfsemi sína í framtíðinni þegar grundvöllur fyrir flutningi þeirra hefur skapast.

 

VI.

Ágætu gestir Rannsóknaþings.

Sterkar vísbendingar um góða – og batnandi - samkeppnisstöðu Íslands gefa tilefni til bjartsýni. Við þurfum þó að gæta þess að halda vöku okkar. Í fyrsta lagi er mikilvægt fyrir opinbera aðila, einkaaðila og stofnanir að nýta þær upplýsingar sem þessar viðamiklu kannanir sem hef vitnað til veita - og leggja sig eftir að bæta það sem bæta má, því það munu aðrar þjóðir gera í þeirri alþjóðlegu samkeppni og alþjóðavæðingu sem hvarvetna ríkir. Í öðru lagi er varasamt að ofmetnast, því ekkert er gefið um áframhaldandi velgengi ef ekki er staðið vel að verki í einu og öllu. Með þessum skilaboðum kýs ég að ljúka máli mínu og óska gestum gagnlegs og uppbyggilegs Rannsóknaþings.

 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum