Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. maí 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Vaxtarsamningur Vestfjarða

Bæjarstjóri, fundarstjóri, góðu gestir,

Að undanförnu hefur Ísland komið vel út í ýmsum alþjóðlegum samanburðarkönnunum. Til að mynda voru fyrir fáum dögum síðan birtar niðurstöður úr GEM frumkvöðlarannsókn Háskólans í Reykjavík og erlendra háskóla. Þar kemur fram að frumkvöðlastarfsemi á Íslandi er einhver sú mesta í heiminum og sambærileg við það sem best gerist í öðrum löndum, s.s. í Bandaríkjunum og Kanada. Önnur alþjóðleg könnun var nýlega birt þar sem borin var saman samkeppnisstaða landa. Var sú könnun unnin á vegum IMD viðskiptaháskólans í Sviss. Þar er Ísland í 4. sæti á lista yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims í samanburði 60 landa, og hækkar um eitt sæti frá því í fyrra og hefur hækkað um 21 sæti síðan 1995, eða rúmlega 2 sæti að meðaltali á ári. Ísland er jafnframt í efsta sæti af löndum Evrópu. Þetta gefur til kynna öflugt atvinnulíf og traustan vöxt á liðnum árum.

Á sviði byggðamála hefur verið unnið að margvíslegum áherslum – með það að markmiði að treysta sjálfbæran hagvöxt einstakra svæða. Traust byggðastefna miðar að því að treysta hagvöxt á einstaka svæðum en um leið á landinu öllu. Í þessu sambandi má minna á þær miklu framkvæmdir sem nú eru í gangi á Austurlandi – sem um leið er verulegt framlag Austurlands til aukins hagvaxtar á Íslandi. Árangursrík byggðastefna er því hagsmunamál þéttbýlis jafnt sem dreifbýlis, en það virðist oft gleymast. Því er mikilvægt að byggðaaðgerðir séu markvissar – en um leið nútímalegar, markaðstengdar og alþjóðlegar. Á þetta hef ég lagt áherslu í gegnum tíðina.

Ein af þeim alþjóðlegu nýjungum sem unnið er að á sviði byggðamála hér á landi er áhersla á svokallaða Vaxtarsamninga. Markmið þeirra er að auka sjálfbæran hagvöxt svæða, fjölga atvinnutækifærum og treysta viðkomandi byggðakjarna svo hann geti enn frekar sinnt því lykilhlutverki að vera miðstöð atvinnu, menningar og þjónustu. Vaxtarsamningar eru að erlendri fyrirmynd en þar er lögð áhersla á sérstöðu og styrkleika svæða og samkeppnishæfni atvinnulífs. Byggt er á markaðstengdum aðgerðum, stefnumörkun fyrir vaxtargreinar á svæðinu og auknu samstarfi aðila á viðkomandi sviði með netsamstarfi, klösum og stuðningsverkefnum og með skilvirku samstarfi einkaaðila og opinberra aðila. Forsendur þær sem vaxtarsamningar byggja á eru m.a. að starfsumhverfi atvinnulífs sé samkeppnishæft og að innviðir svæða séu í góðu lagi.

Fyrir nokkru var kynnt skýrsla nefndar um byggðaþróun Vestfjarða, en þá nefnd skipaði ég með það að markmiði að efla samkeppnishæfni og vöxt byggðarlaga á Vestfjörðum. Í niðurstöðum skýrslunnar er lagt til að gerður verði svokallaður vaxtarsamningur er taki yfir tímabilið frá 2005 til 2008. Er einnig lagt til að sá samningur hafi það að markmiði að ná fram auknum hagvexti með uppbyggingu klasa, s.s. á sviðum sjávarútvegs og matvæla, mennta, rannsókna, menningar og ferðaþjónustu. Í framhaldi af tillögum skýrslunnar hefur verið unnið að undirbúningi Vaxtarsamnings Vestfjarða fyrir árin 2005 - 2008, í nánu samráði við aðila á Vestfjörðum. Má í þessu sambandi geta þess að sambærilegt verkefni er þegar komið til framkvæmda á Eyjafjarðarsvæðinu og önnur eru í farvatninu.

Það er afar ánægjuleg nýjung að fjármálastofnanir skuli koma að þessu starfi hér á Vestfjörðum, en brýnt er að helstu aðilar á viðkomandi stöðum geti tekið þátt í starfi sem þessu, til að auka samkeppnishæfni og vöxt svæðisins. Slíkur árangur er allra hagur og samstarfið ekki hvað síst mikilvægt á tímum alþjóðavæðingar og vaxandi samkeppni.

Heildarfjármagn til reksturs Vaxtarsamningsins er áætlað 135 milljónir króna sem skiptist á tæplega fjögurra ára tímabil. Um helmingur fjármagnsins kemur frá sveitarfélögum, einkaaðilum og stofnunum, sem að stórum hluta eru hér fyrir Vestan- og um helmingur frá stjórnvöldum, þ.e. byggðaáætlun í umsjón iðnaðarráðuneytis. Þannig leggur iðnaðarráðuneytið fyrir hönd stjórnvalda til 75 milljónir króna. Byggir sú upphæð á fjárheimildum sem þegar hafa verið veittar innan ramma byggðaáætlunar, fyrir árin 2004-2005, og fjárheimildum sem verða veittar til væntanlegrar byggðaáætlunar fyrir árin 2006-2007, með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Mótframlag að upphæð 60 milljónir króna verður sem fyrr segir fjármagnað af öðrum aðilum samningsins, þ.e. Ísafjarðarbæ, Fjórðungssambandi Vestfirðinga fyrir hönd sveitarfélaga á Vestfjörðum, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf, Odda hf, Vinnuveitendafélagi Vestfjarða, Hólmadrangi hf og Kaupfélagi Steingrímsfjarðar, Sparisjóði Vestfirðinga, Sparisjóði Bolungarvíkur, Landsbanka Íslands, Íslandsbanka, Byggðastofnun, Háskólasetri Vestfjarða, Iðntæknistofnun Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Útflutningsráði Íslands.

Framlag stofnana verður að mestu í formi sérfræðivinnu. Auk þessara aðila eru stéttarfélög á Vestfjörðum einnig aðilar að samningnum.

Góðir gestir,

Í dag stígum við mikilvægt skref. Í heimi aukinnar samkeppni er það svo að tækifærin koma ekki alltaf og banka á dyrnar hjá okkur. Tækifærin verðum að leita uppi. Við erum þó ekki allslaus í þeirri vegferð heldur erum við með tromp á hendi sem eru m.a. mannauður, samstarf og tækni. Vaxtarsamningar eru einnig tæki sem geta gefið okkur aukin sóknarfæri og ávinning – ef rétt er að málum staðið. Slíkt er að miklu leiti undir okkur sjálfum komið. Megi þessu verkefni farnast vel.

Þakka ykkur fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum